Dragðu djúpt inn andann

Andartakið endurspeglar hugarástand okkar og innri líðan. Lífið býr í andardrættinum – við öndum að okkur súrefni og um leið lífsorku og nærum hugann með djúpum andartökum. Þegar andardráttur okkar verður grunnur þá verður hugurinn og tilfinningar okkar að sama skapi grunnar og yfirborðskenndar og við missum einbeitinguna. Við hættum að njóta lífsins og verðum fangar hugans.

Öndunin er lykill að því að ná valdi yfir huganum, stýra viðbrögðum okkar og að glíma við streitu og álag. Meðvituð öndun  opnar vitund okkar fyrir því sem bærist innra með okkur – og við förum að njóta andartaksins til fulls.

Streita er stærsta vandamálið í heiminum í dag. Einkenni streitu eru til dæmis kvíði, einbeitingarskortur, neikvæðar hugsanir, hækkaður blóðþrýstingur, lélegt ónæmiskerfi og hraðari öldrun.

Þeir sem stunda jóga reglulega tala um miklar breytingar á andlegri og líkamlegri líðan. Til dæmis tala þeir um að þeir finni síður fyrir skammdegisþunglyndi.  Annað sem reglulegir jógaiðkendur tala um er aukin orka, meiri lífsgleði. aukinn hæfileiki til að slaka á.

Streita er ekki sjúkdómur heldur ástand sem er í grunninn mjög huglægt. Ef við ætlum að hafa áhrif á þetta ástand er nauðsynlegt að dýpka andardráttinn. Um leið og við dýpkum andardráttinn þá fylgir hugurinn eftir og dýpkar upplifun sína – við förum að finna í stað þess að vera fangar hugans.  Förum að taka eftir því sem er í kringum okkur og að beina athyglinni inn á við.  Öndunaræfingar eru mjög öflug leið til þess að fá hugann til að slaka á. Það sést í augunum á þeim sem stunda reglulega öndunaræfingar – þau fá glampa og lífsorku.

Hér er öndunaræfing sem er um leið hugleiðsla og er mjög gagnleg gegn streitu:

Hugleiðsla fyrir friðsælt hjarta

Sittu með krosslagða fætur og hálsloku á – þ.e.a.s. hökuna að bringu án þess að horfa niður. Lokaðu augunum eða horfðu beint fram með augun 1/10 opin.

Settu vinstri höndina á hjartað, lófann flatan upp við brjóstið og fingurna lárétt við gólf – í átt til hægri.  Hægri hendin er í Gyan mudra (fingurgómar vísifingurs og þumalfingurs snertast og hinir vísa beint upp).  Lyftu hægri hönd upp til hægri við þig eins og þú værir að sverja eið.  Lófinn snýr fram.  Olnboginn slakur við síðuna.

Einbeittu þér að önduninni. Andaðu meðvitað alla leið inn og alla leið út. Andaðu hægt og djúpt inn um nefið, lyftu brjóstinu og haltu loftinu inni eins lengi og þú getur.  Andaðu þá frá, mjúkt, hægt og alveg út.  Þegar þú hefur andað alveg frá, haltu þá loftinu úti eins lengi og þú getur.

Haltu þessari löngu djúpu öndun áfram í 3-31 mínútu. Ljúktu hugleiðslunni með því að anda djúpt og kröftugt inn 3svar sinnum.  Slakaðu á.

Umsögn: Hið rétta heimili fíngerðu orkunnar, prönunnar (lífsorkunnar) er í lungum og hjarta. Vinstri lófinn er staðsettur við eðlislægt heimili prönunnar, og skapar þannig djúpa kyrrð í hjartanu. Hægri höndin sem við tengjum við framkvæmd og skilgreiningu er í móttækilegri, afslappaðri stöðu. Þessi staða handarinnar stendur fyrir frið.Öll líkamsstaðan kallar fram friðartilfinningu.Tæknilega skapar hún kyrrstöðupunkt fyrir prönuna við hjartastöðina.

Í tengslum við tilfinningar skapar þessi hugleiðsla skýra sýn á samskipti og samband þitt við sjálfa-n þig og aðra.  Ef þú ert í uppnámi í vinnunni eða í samskiptum við þína nánustu, þá skaltu sitja í hugleiðslunni í 2-15 mínútur áður en þú ákveður hvernig þú ætlar að bregðast við.  Gerðu svo það sem hjartað býður. Lungu og hjarta styrkjast einnig.

Þessi hugleiðsla er fullkomin fyrir byrjendur. Hún eflir meðvitund okkar fyrir önduninni og hún styrkir og nærir lungun.  Þegar þú heldur andanum eins lengi og þú getur inni eða úti er ekki átt við að gera það svo duglega að þú sért alveg að kafna eða í spennu á nokkurn hátt þegar þú andar aftur.

Þú getur reynt að gera hugleiðsluna 3svar sinnum í 3 mínútur og tekið 1 mínútu hvíld á milli í samtals 11 mínútur á meðan þú ert að byggja upp þol og venjast því að hugleiða.  Fyrir lengra komna og þá sem vilja þjálfa einbeitingu og fylla sig af nýrri orku og æskukrafti er hægt að byggja tímann upp í 31 mínútu.

Guðrún Darshan — College of Practical Homoeopathy

http://www.andartak.is / gudrun@andartak.isFlokkar:Hugur og sál

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , ,

%d bloggers like this: