Hugarafl á afmæli.
Í dag (skrifað í byrjun júní 2011) langar mig kæru hlustendur að ræða um Hugarafl sem stendur á tímamótum. Hugarafl átti afmæli um síðustu helgi og fagnaði þá áttunda árinu og af því tilefni var einnig gefin út bókin „Geðveikar batasögur II“. Um þessar mundir er starfsemin að flytjast í ný húsakynni svo það er ærið tilefni til að fagna og láta hugann reika. Við sem stofnuðum Hugarafl á sínum tíma þekktumst og höfðum starfað saman áður á öðrum vettvangi, nánar tiltekið í Geðhjálp. Þar lentum við í krísu, ef svo má segja á slæmri íslensku og ákváðum að láta gott heita þar á bæ. Því það er nú einhvern veginn þannig, að þegar setja á nýjan tón í rótgróið mynstur og gera breytingar, er það bara hreinlega ekki hægt ef menn eru ekki samstíga og hræðast jafnvel breytingar.
Þó að það sé býsna vont að ganga í gegnum erfiðleika þá er það nú samt svo að þeir verða gjarnan til góðs og opna að endingu nýjar og spennandi leiðir. Það má eiginlega líkja þessu við bataferli geðsjúkra. Hræðslan við áföll og erfiðleika geta eðlilega hamlað framþróun býsna lengi en þegar viðkomandi einstaklingur sér að það er hægt að komast í gengum áfallið, þá opnast nýr heimur með nýjum tækifærum sem ekki voru ljós áður. Tilfinningar sem dúkka upp í erfiðleikunum svo sem ótti og reiði verður hægt að höndla og nota til góðs. Það er jú alþekkt að reiði til dæmis er oft upphafið af jákvæðum breytingum og getur komið „ferskum vindum af stað“, ef rétt er á málum haldið.
Við höfðum háleit markmið þegar við ákváðum að stofna Hugarafl og fórum aðrar leiðir en vant var. Iðjuþjálfi og 4 notendur settu hugmyndir sínar í púkk og fylgdu eftir hugsjónum og löngun til að hafa áhrif og gera breytingar í okkar samfélagi. Samhliða Hugarafli var stofnuð geðheilsumiðstöð sem Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra veitti brautargengi og við ákváðum að þetta tvennt færi vel saman. Félagasamtök og eftirfylgd innan Heilsugæslunnar í bataferli sem byggir á að efla geðheilsu og tækifærin í daglegu lífi er leiðarljósið. Sá sem slæst með í för kynnist því bæði faglegum stuðningi og þekkingu geðsjúkra og það getur orðið sameiginlegt veganesti í bataferlinu.
Til að fagna afmælinu hefur Hugarafl undanfarin þrjú ár staðið fyrir svökölluðu „Rúmruski „eða „bed run“. Þetta er gjörningur sem er tekinn að láni frá notendasamtökum í Bandaríkjunum sem beyta Mindfreedom og þau beyta sér á margvíslegan og róttækan hátt fyrir breytingum á geðheilbrigðiskerfinu þar í landi. Mörg notendafélög víðsvegar í heiminum eru meðlimir í Mindfreedom og svo er einnig með Hugarafl. Rúmrusk er glaðlegur og litríkur gjörningur sem fer þannig fram, að farið er frá einum stað til annars með sjúkrarúm og sjúkling í rúmi og gjarnan lagt upp frá stofnun og áfangastaðurinn er út í lífið.
Hugarafl hefur lagt af stað frá Kleppi og farið í Grasagarðinn og einnig farið frá geðdeildinni við Hringbraut og sem leið liggur í í miðbæinn. Það hefur verið vel tekið á móti Hugarfli af mikilli gestrisni af forstjóra geðsviðs og öðru starfsfólki þar á bæ og óskað góðs gengis. Ámeðan göngunni stendur eru kölluð slagorð, þeir sem ganga eru í litríkum náttfötum og blöðrur og fánar skreyta gönguna og vekja athygli. Slagorðin eru m.a. „Bati fyrr alla konur og karla“, „Fordómana fjandans til“ afsakið orðbragðið, „Völ á ekki að vera kvöl“, „Valdefling í verki er okkar vörumerki“ og fleira skemmtilegt mætti upp telja. Almenningur hefur tekið göngunni vel, fleiri mættu reyndar slást með í för og sýna þannig samtakamátt.
Boðskapur göngunnar er sá að hefðbundnar leiðir í bataferli geti verið farsælli en þær hefðbundnu, að fólk með geðraskanir hafi misjafnar þarfir, langanir drauma og þrár og að fjölbreytileikinn sé dýrmætur. Litagleðin, náttfötin og það að geta skopast að sjálfum sér, ítrekar að þó svo að við skerum okkur úr fjöldanum er ekkert rangt eða hættulegt við það, heldur er undirstrikað að flóra mannlífsins er mikilvæg og gefur lífinu aukið gildi fyrir okkur öll.
Hugarafl lagði á sínum tíma upp með að nýta reynslu geðsjúkra til að skapa viðhorfsbreytingu, koma henni í farveg og hafa þannig áhrif á ríkjandi og að hluta til staðnað kerfi. Við vildum nýta fagþekkinguna og notendaþekkinguna á jafningjagrunni og koma hugmyndum í farveg á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Við vildum minnka fordóma og efla þekkingu almennings á að það sé hægt að ná bata af geðröskun og nota til þess valdeflinguna og batamódelið sem hefur verið kynnt í fyrri pistlum. Það er mikil hugsjón í starfinu, reynsla og tækifæri til uppbyggingar í samfélagi sem virðir hvern og einn og nýtir samhug og kærleika í öllu samstarfinu. Jafnframt persónulegri nálgun sem ég tel vera lykilatriði.
Margar hugmyndir hafa kviknað hjá Hugaraflmönnum undanfarin ár s.s. eins og Samherjaverkefnið þar sem notandi í bata styður einstakling sem er að hefja sitt bataferli, Geðfræðslan sem byggir á fræðslu í grunn-og framhaldsskólum, Unghugaverkefnið svo fátt eitt sé upptalið. Ég mun gera að umtalsefni í dag hugmyndina um safehouse eða skjólshús sem er núverandi vinnuheiti. Hugaraflsmenn hafa í 8 ár unnið að því að þróa hugmyndina og koma þessum valmöguleika við hefðbundna þjónustu á laggirnar. Í bæklingi sem hefur verið þýddur af Hugaraflsmönnum segir:
Þeir tímar koma að venjulegar aðferðir fólks til þess að eiga við tilfinningalegtöldurót duga ekki til. Þegar fólk með geðraskanir stendur frammi fyrir erfiðum áskorunum, hefur það í gegn um tíðina ekki haft annan valkost en að beita bráðaþjónustu og/eða innlagnar á geðdeild. Skjólhús eins og því sem Hugarafl vinnur að, býður fólki sem á við geðræn vandamál að stríða, stað til þess að ná áttum og komast frá geðshræringu og versnandi einkennum á öruggum stað þar sem það hittir aðra sem hafa verið á sama stað og geta kennt, verið fyrir myndir og hvatt til þess að takast á við vandann með aðferðum sem hafa sýnt sig að virka. Þessi bæklingur hefur að geyma yfirlit yfir nýjar og áhrifaríkari aðferðir til að styðja fólk á tímum álags, án þeirra hindrana, skrifræðis, langs biðtíma og innbyggðra streituvalda sem hefðbundin bráðaþjónusta hefur svo oft í för með sér. Þau gildi og grundvöllur sem liggja að baki skjólhúss byggja á reynslu sem notendur geðheilbrigðisþjónustunnar hafa af henni.
Skjól hús er hannað til að lágmarka þætti sem eru ekki hjálplegir og beinlínis streituvaldandi og skipta þeim út fyrir aðra sem fólk hefur beðið um.
Hugmyndin um skjólhús, semeralgerlegastýrtaffólkisemhefurpersónulegareynsluafgeðröskunum, er ekki ný af nálinni. Félagar í Hugarafli hafa alið með sér þennan draum frá stofnun, árið 2003.Við höfum leitað í smiðju sambærilegra samtaka í Bandaríkjunum og Hollandi, þar sem rekstur slíkra húsa hefur gefið góða raun. Rose House í New York fylki hefur þjónað 550 manns frá því það var stofnað árið 2001. Að fyrirmynd þess hafa hús verið opnuð í Nebraska og Hollandi auk margra annarra sem eru í undirbúningi.
Tveir Hugaraflsmenn fóru til Californíu síðastliðið haust og kynntust þá meðal annars þessu úrræði enn frekar á ráðstefnunni „Alternatives 2010“ sem haldin er ár hvert að Empowerment center og fleiri aðilum. Það sköpuðust mikilvæg tengsl við aðila sem eru tilbúnir að styðja stofnun skjólhúss á Íslandi og miðla dýrmætri og áratuga reynslu.
Við munum klárlega kappkosta á næstu árum að skjólhús verði að veruleika, vonandi í samstarfi við sem flesta sem láta sig varða og sjá hag í fjölbreytileikanum. Skjólhúsi er ekki ætlað að koma í stað hefðbundinna innlagna en getur orðið mikilvægur valmöguleiki engu að síður. Það er einmitt það sem okkar þjónusta á að byggja á, valmöguleikar og virðing fyrir þeirri staðreynd að við erum misjöfn og viljum takast á við hlutina á mismunandi hátt. Það getur aldrei verið farsælt að reikna með að við pössum öll í sama mótið.
Erindið var áður flutt ( 2011 ) i þættinum Vítt og breitt í ríkisútvarpinu stöð eitt og birt með leyfi höfundar sem er: Auður Axelsdóttir iðjuþjálfi og forstöðumaður Geðheilsu-eftirfylgdar og einn af stofnendum Hugarafls. Símar eru: 41415508212183 og netfangið: audur.axelsdottir@heilsugaeslan.is
Flokkar:Hugur og sál