Svæðameðferð er eins og kærleikurinn, hún fellur aldrei úr gildi.

Á tíu ára afmælishátíð Græðara sem haldin var helgina 4. og 5. september 2010 hittum við Ingu Norðdahl sem um langt skeið hefur lagt stund á svæðameðferð. Við spurðum hana hvað hafi vakið áhuga hennar á svæðameðferð og um notagildi meðferðarinnar. Svar Ingu var eftirfarandi:

Hrein tilviljun réði því að ég lærði svæðameðferð í Heilsusetri Þórgunnu á árunum 1998 til 1999. Eitt sinn hittist þannig á í vinnunni að ég kom að samstarfskonu minni við að nudda fót á stöllu okkar. Þessi ótrúlega sjón vakti forvitni mína og ég spurði hana um hvað þetta snérist. Hún var þá nýútskrifuð frá Heilsusetri Þórgunnu og ákaflega áhugasöm um svæðanudd, eins og við verðum allar sem lærum þetta. Hún gaf mér nafn og símanúmer hjá Þórgunnu og ég lofaði henni að hringja þangað. Þegar heim kom þorði ég ekki öðru en að efna loforðið og hringdi til Þórgunnu, þó að áhuginn væri lítill. Mér var tjáð að skólinn væri byrjaður fyrir mánuði síðan og full setinn, en ég gæti sótt um á næsta ári. Fínt, málið dautt, frá minni hendi!  Næsta dag hringdi Þórgunna og sagði að það hefði losnað pláss vegna veikinda og bauð mér að koma. Ég mætti klukkutíma síðar í skólann og vissi ekkert út í hvað ég var að fara, hvorki námslengd, né kostnað eða annað. Meðan á náminu stóð voru nemendurnir hvattir til að æfa sig eins og mögulegt væri og allir hlýddu því.

Svæðameðferð er mjög áhrifa- og árangursrík meðferð, sem veitir djúpa slökun. Slökunin virkar á lækningamátt líkamans sem vinnur best sín viðgerðarstörf í slíku ástandi. Þegar við erum hraust, erum við orkumikil en í veikindum, þreytu og undir miklu álagi erum við orkulítil. Svæðameðferð eflir orkuflæðið, blóðstreymið og súrefnisupptakan í líkamanum verður eðlileg. Andlegt og líkamlegt atgervi eykst. Þetta er meðferðarform, sem vinnur að alhliða jafnvægi.

Sagt er að svæðameðferð eigi rætur í menningu margra þjóða, t.d. Egypta, Indíána, Kínverja og Indverja. Það má kalla hana ævaforna handiðn. Kínverjar voru fyrir þúsundum ára, farnir að þróa þrýstinudd á ýmis svæði líkamans. Dr. Wang kínverskur nálastungulæknir, taldi fæturna næmustu líkamspartana og hafa mörg orkugefandi svæði. Það er talið sterkt samband milli svæðameðferðar og nálastungu-lækninga, báðar meðferðirnar byggja á líkri hugmyndafræði og eru álitnar orkumeðferðir, þar sem orkulínur (rásir) tengja hendur og fætur mismunandi líkamshlutum.

Það var ekki fyrr en á 20. öld, sem svæðameðferð var endurvakin á Vesturlöndum og er bandaríski læknirinn dr. William Fitzerald almennt talinn upphafsmaður svæðameðferðar. Hann vann læknis- og rannsóknarstörf beggja vegna Atlantshafs. Það lærðu nokkrir læknar hjá honum svæðameðferð. Eunice Ingham, samstarfskona eins þessara lækna, þróaði meðferðina áfram og gerði nákvæmt kort af því hvernig líkaminn og öll líffærin tengjast viðbragðssvæðum fóta og handa. Hún þróaði einnig sérstaka nuddtækni, sem er nefnd Ingham-aðferðin. Það er sú aðferð, sem ég lærði í skóla Þórgunnu.

Það kemur mér sífellt á óvart hve virkni nuddsins getur verið mikil og hvað svæði og punktar á fótum segja mikið um ástand nuddþegans. Það er mikið gleðiefni þegar hægt er að vara við slæmu ástandi eða jafnvel sjúkdómi á byrjunarstigi. Ég minnist eins atviks, þegar ég var að nudda eldri mann og hann hrökk upp úr djúpri slökun við mikinn sársauka, þegar ég þrýsti á svæðið tengt blöðruhálskirtlinum: ,,Alltaf þurfa þessir nuddarar að meiða mann“ kvartaði hann. En ég bað hann að fara til læknis og láta athuga þetta. Við rannsókn kom í ljós krabbamein á byrjunarstigi og tjáði læknirinn honum að þetta væri lítið mál fyrst hann kæmi svona tímanlega.

Nú orðið þekkja flestir til svæðameðferðar á fótum en ég nota líka töluvert svæðameðferð á höndum, bæði með fótanuddi eða eitt og sér. Það virkar vel að nudda hendur þeirra, sem eru með handadofa vegna vöðvabólgu í herðum og hálsi, eða með harðsperrur af of miklum átökum. Það er hægt að lina bakverk fljótt, svo eitthvað sé nefnt. Stundum getur komið upp sú staða að hvorki sé tími né aðstaða til að nudda fæturna. Þá er alltaf hægt að taka hönd í hönd og nudda svæðin þar. Komið hefur fyrir að fætur hafa verið sárir af exemi eða iljar brenndar vegna krabbameinsmeðferðar. Þá er handanudd frábær kostur. Síðast en ekki síst er hægt að nudda eigin hendur með góðum árangi.

Gott er að þrýsta þéttingsfast á þau svæði, þar sem þarf að létta á verkjum, og nudda svo í örsmáa hringi á auma punktinn í u.m.þ.b. hálfa til heila mínútu. Hryggsvæðið er eftir endilöngum þumalfingrinum og byrjar við úlnlið. Mjóbakið er u.m.þ.b. miðja vegu upp að fyrsta liðnum. Þá nuddar maður frá lófa og aðeins uppundir beinið með þumalfingri hinnar handarinnar, gott að láta höndina hvíla í lófanum á meðan. Axlasvæði er neðan við litlafingur, handarbaksmegin (sjá teikningu). Svona nudd léttir heilmikið á verkjum og vanlíðan, en dugar frekar skammt og þarf að endurtaka eftir þörfum hvers og eins.

Mörgum finnst mjög þægilegt að koma í svæðameðferð, það þarf ekki að afklæðast, bara fara úr skóm og sokkum. Viðkomandi getur svo lagt sig og slakað á, hvílist og jafnvel endurnærist. Sumir koma aftur og aftur með löngu millibili, þá nokkra tíma í senn. Aðrir koma reglulega, t.d. annan hvern mánuð og telja þetta jafnast á við að fara í klippingu eða eftirliti hjá  tannlækni.

Þó að ég hafi lokið námi í höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð og kynnst fleiri aðferðum, hefur svæðameðferð aðallega heillað mig. Hún er mér sérlega hugleikin og mér þykir vænt um meðferðaformið. Það er afar þægilegt og hægt að nota það hvar sem er og hvenær sem er. Það þarf engan sérstakan viðbúnað og gerir öllum gott. Það léttir og lagar marga krankleika og það styrkir og eykur vellíðan hjá þeim sem ekkert amar að.

Það má deila um hvort það var tilviljun eða fjarstýring, þegar ég eiginlega alveg á óvart, lenti í skólanum og lærði svæðameðferð. Hver sem skýringin er, þá er ég alsæl að hafa farið þessa leið og tel nuddið nauðsynlegt fyrir heilsu mína. Auk þess hefur það veitt mér mikla gleði.

Netfang Ingu er: inga@nett.isFlokkar:Meðferðir

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , , , , , ,

%d