Óson og MS

Segja má að þetta sé framhaldsgrein frá því ég skrifaði um taugaboðefna­meðferð sem ég fór í til Svíþjóðar (vorblað Heilsuhringsins 2007). Ég er haldinn MS-taugasjúkdómnum, var greindur með hann í febrúar 1996. Fyrstu árin var ég reglulega í nálarstungum hjá Arnbjörgu Lindu Jóhannsdóttur en í mjög erfiðu kasti árið 1999 tók ég þá ákvörðun að fara í sterameðferð, sem sló svo á MS-einkennin að ég var mjög fljótt orðinn vinnufær eftir þriggja mánaða veikindaleyfi. Ég fór oft í sterameðferð á árunum 1999-2006 en ákvað sumarið 1996 að fara heildrænar leiðir, fyrsta skrefið var taugaboðefnameðferðin haustið 2006 og því næst ósonmeðferð í byrjun árs 2007.

 

Þann 13. janúar 2007 hélt ég áleiðis til Mexíkó, nánar tiltekið til Tijuana; borgar sem er staðsett norðarlega í Mexíkó. Þar fór ég á William Hitt Center (WHC) og var undir handleiðslu Dr. John Humiston. Humiston var á tímabili heimilis­læknir á herstöðinni á Miðnesheiði en hann á ættir að rekja til Evrópu, líkt og margir Ameríkanar. Ég hafði lesið um ósonmeðferð í haustblaði Heilsu­hringsins 2006 þar sem Ólafur Einarsson skrifaði meðal annars um ósonmeðferð sem kona hans, Björg Marteinsdóttir, fór í og lét afar vel af. Björg er haldin gigt en MS og gigt flokkast hvoru tveggja  undir sjálfsónæmissjúkdóma.

svavar og.png

Þegar ég hitti Dr. Humiston fyrst lagði hann áherslu á að meðferðin bæri ekki árangur ef sjúkdómurinn væri langt genginn. Einnig tók hann fram að meðferðin væri fyrirbyggjandi gegn versnun en væri ekki lækning við MS; hún bæri lítinn árangur fyrir einstaklinga með langa sjúkdómssögu. Þó ég kalli þessa meðferð ósonmeðferð og ósonið hafi spilað lykilhlutverki þá komu aðrir mikilvægir þættir inn í. Segja má að meðferðin hafi í grundvallaratriðum byggt á fjórum þáttum:

 

– Ósonmeðferð

– Úthreinsun þungmálma

– Meðhöndlun Candida sveppasýkingar

– Styrking ónæmiskerfisins

 

Ósonmeðferð

Óson er sameind þriggja súrefnisfrumeinda (O3) á meðan súrefnið sem við öndum að okkur úr andrúmsloftinu er sameind tveggja súrefnisfrumeinda (O2). Óson er mjög óstöðug lofttegund og gengur auðveldlega í efnasamband við önnur efni sem ekki hafa styrk til að standa ein og sér. Óson hefur þann eiginleika að gera sumar tegundir baktería og veira óvirkar.

Á hverjum morgni í 3 vikur voru teknir um það bil 70 ml af blóði úr líkama mínum og það blandað við óson. Í framhaldinu var blandan látin renna í æð á um 20-30 mínútum.


Eftir meðferðina á WHC drakk ég blöndu af vatni og ósoni sem ég hafði útbúið heima með litlu tæki sem vann óson úr andrúmsloftinu. Eftir að ég kom heim til Íslands sendi ég nasasýni til WHC á þriggja vikna fresti í um 3 mánuði svo Humiston gæti fylgst með framvindunni mála hjá mér.

 

Úthreinsun þungmálma

Áður en meðferðin hófst safnaði ég þvagi í sólarhring og var það sent í rannsókn (Urine Toxic Metals) til Doctor’s Data Inc. í Chicago og niðurstöðurnar úr því voru sláandi (sjá mynd 2). Í mínu tilfelli var magn áls 33 μg/g en miðað er við að það sé undir 25 μg/g, magn kvikasilfurs var 16 μg/g en það á að vera undir 3 μg/g og magn tins var 30 μg/g en miðað er við að það sé undir 9 μg/g.


Samkvæmt niður­stöðunum hafði ég álíka mikið af kvikasilfri og þeir 1% einstaklinga sem mest höfðu af kvikasilfri.

Í kjölfarið fékk ég NDF (Nano Colloidal Detox Factors) sem hjálpar til við að fjarlægja málma úr líkamanum, QFC (Quantum Fulvic Complex), QHC (Quantum Fulvic Complex), Quantacil, Quantum og DMPS (Dimercapto-propane sulfonate). DMPS er efni sem fjarlægir kvikasilfur úr mjúkum vefjum líkamans.

 

Meðhöndlun Candida sveppasýkingar

Ég lét Humiston fá strok úr nefi mínu, hann strauk því yfir gler og sýndi mér þyrpingu óæskilegra baktería í smásjá. Jafnframt tók hann fram að sterar bæli niður bakteríur sem verji okkur gegn sveppasýkingu. Í meðhöndluninni á Kandíta var byrjað á því að styrkja lifrina með því að taka inn jurtir/meðul í hylkjum (agaricus blazei, cordyceps Cs-4, ólivíu laufblöð, hvítlauk og mjólkurþistil). Það ferli tók 11 daga.

 

Því næst var unnið á Candida sveppasýkingunni, sem stóð yfir í 10 daga, þar sem ég tók inn jurtir/meðul sem heita „Foon Goos“ og „Kantita“ og að lokum var unnið á „eftirleifum“ (spores) sýkingarinnar meðal annars með inntöku „Foon Goos“ og „Blood Toner“.

Í öllu ferlinu tók ég „Nuflora“ sem inniheldur meðal annars acidophilus. Auk þess var ég á sérstöku fæði þar sem ég sleppti algjörlega mat sem inniheldur meðal annars malt, edik, súkkulaði, áfengi, sojavörur og bragðsterkar kryddsósur. Í raun var ekki erfitt fyrir mig að sniðganga þetta fæði þar sem sá aðili sem hýsti mig var í samstarfi við William Hitt Center og eldaði eftir þeirra fyrirmælum. Það var í lagi að borða grænmeti, mjölva,  mjólkurvörur  kjöt, fisk og egg.

 

Styrking ónæmiskerfisins

Þvag inniheldur mörg efni sem virkja ónæmiskerfið og vinna gegn óæskilegum bakteríum og veirum. Meðan ég var úti og fyrstu þrjá mánuðina eftir að ég kom heim var ég í svokallaðri AUIT-meðferð (Autologous Urinary Immunomodulators Treatment).


Fyrstu 5 dagana í Mexíkó var þvagi úr mér sprautað í vöðva. Eftir það var það gert vikulega. Samhliða því fékk ég efni sem heitir Cell-O-Gen. Það leitar uppi prótein í líkamanum  og er notað til að hraða uppbyggingu frumna líkamans auk þess sem það hjálpar til við að fjarlægja málma úr líkamanum.

 

Að lokum

Óhætt er að segja að þessi meðferð hafi tekið talsvert á, bæði líkamlega og andlega.

Þegar meðferðin var um það bil hálfnuð fann ég fyrir auknu máttleysi í fótum, spasma, jafnvægisleysi og yfirþyrmandi stirðleika; allt sem ég tengdi við inntöku á Cell-O-Gen. Smám saman dró þó úr þessum einkennum en ég hafði ákveðnar efasemdir um að meðferðin myndi virka. Dr. Humiston stappaði í mig stálinu og sagði að sumir MS-greindir finndu tímabundið fyrir auknu máttleysi en svo auknum styrk.

 

Helstu breytingar sem ég fann fyrstu vikurnar eftir að ég kom heim var betri melting, minni svefnþörf og meiri orka sem ég tengdi við breytt mataræði og inntöku jurta/meðala sem unnu á Kandíta sveppa­sýkingunni.

 

Ástæða þess að ég skrifa fyrst núna um þessa meðferð er meðal annars sú að ég vildi meta árangurinn þegar frá liði. Ég vissi lítið um þessa meðferð og var að taka ákveðna áhættu. En meðferðin var áhættunnar virði. Ég fékk ekki kast næstu þrjú ár (2006-2009) en eftir að ég greindist með MS árið 1996 og til ársins 2006 liðu að jafnaði þrír mánuðir á milli kasta. Það gat ég séð á línuritum sem ég vann upp úr dagbókum sem ég hélt á þessu tímabili.

 

Fyrir mér er Mexíkó framandi land og þarna fékk ég tækifæri á að kynnast ýmsu sem er mér minnisstætt. Tijuana borg er mjög nálægt bandarísku landamærunum og því má segja að ég hafi fengið innsýn í bæði ameríska og mexíkóska menningu. Á WHC voru nokkrir bandarískir sjúklingar sem sögðu að það myndu líða nokkrir áratugir þar til ameríska þjóðin kysi sér forseta sem væri kona eða af afrískum uppruna. Ári síðar voru Hillary Clinton og Barack Obama þeir frambjóðendur sem mestan möguleika áttu á forsetaembættinu og framhaldið þekkjum við.

 

Þeir sem vilja fá frekari upplýsingar geta haft samband við mig í gegnum netfangið svavars@gmail.com

 



Flokkar:Reynslusögur

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , , , , , , , , ,

%d