Ég þoli ekki skólannn. – Fyrirlestur um ofnæmi og óþol og áhrif þess á hegðun, líðan og einbeitingu

Erindi Sigríðar Ævarsdóttur flutt á fundi Heilsuhringsins árið 2007

Inngangur:
Ég ætla í þessum fyrirlestri að ræða tengsl milli viðbragða sumra einstaklinga við ákv. fæðutegundum, efnum og lykt og breytingar á hegðun, líðan og hæfni til einbeitingar og náms. Upplýsingar fyrirlestursins eru að mestu fengnar úr bókum dr. Doris J. Rapp aðstoðarprófessors í barnalækningum við State University of NY í Buffalo og dr. Natasha Campbell-McBride bresks læknis með sérgráðu í taugasjúkdómafræði og næringarfræði. Ég bendi fólki sem vill fræðast meira um það efni sem þær hafa gefið út um þessi mál og skylt efni, bækur, myndbönd og vefsíður.  Bók dr. Natasha Campbell-McBride ,,Gut and Psychology Syndrome“ sem gefin var út árið 2005 er í þýðingu og kemur til með að verða aðgengileg á íslensku innan tíðar. Með fyrirlestrinum eru sýnd myndskeið úr upptökum frá Environmental Research Foundation eftir dr. Doris Rapp sem sýna ofnæmisprófanir og viðbrögð við ýmis konar matvælum og efnum.

 

 Tekið skal fram að undirrituð telur sig ekki vera að koma fram með nein ný sannindi enda er sú bók dr. Doris J. Rapp sem fyrirlesturinn er að hluta til unninn uppúr skrifuð árið 1986 og myndböndin gömul. Þannig má ljóst vera að þessi vitneskja hefur lengi verið til. Hins vegar hefur henni ekki verið nægjanlegur gaumur gefinn og er það umhugsunarefni. Fjöldi barna með greiningu á ýmis konar námsog hegðunarörðugleika fer vaxandi og nauðsynlegt að reyna að finna einhverja orsök þar á og einnig að benda á lausnir sem virka, a.m.k. fyrir suma. Eðlilegt væri að fyrirlestur sem þessi væri fluttur af lækni eða sérfræðingi í ofnæmisfræðum eða geðheilsu og hef ég lengi beðið eftir að sú yrði raunin, en þar sem ekki hefur bólað á neinu slíku ákvað ég að gera þetta að umræðuefni kvöldsins og vona að það megi verða til að opna augu einhverra sem málið varðar. Að fyrirlestrinum loknum talar Ása S. Harðardóttir út frá eigin reynslu af þessum málum og kemur hennar innlegg fram aftar í blaðinu.

 

Nútíma læknisfræði skiptir mannslíkamanum í mismunandi líffærakerfi; hjarta- og æðakerfi, meltingarkerfi, taugakerfi o.s.frv. Í takt við þessa skiptingu hafa orðið til sérfræðingar í lækningum er tengjast hverju kerfi fyrir sig, þar sem athygli er beint að þeim ákv. hluta mannslíkamans sem sérfræðikunnáttan er á. Við höfum kvensjúkdómalækna, taugasérfræðinga, meltingarsérfræðinga, tannlækna, lungnalækna, þvagfæralækna o.s.frv. Ástæðan er sú að í gegnum árin hefur safnast upp svo gríðarlegt magn læknisfræðilegrar vitneskju að enginn möguleiki er á að nokkur einn læknir geti ráðið yfir allri þeirri kunnáttu, heldur verður að einbeita sér að ákv. svæði og vitneskju um það og verða sérfróður á því sviði. Þetta er skiljanlegt, en hefur í för með sér ákv. vandamál sem tengist því að missa yfirsýn yfir heildarmyndina, því að sérfræðingur í ákveðin svæði eða kerfi hefur tilhneigingu til að skoða þau líffæri sem hann þekkir best án þess að taka allan líkamann inn í myndina. Sú staðreynd vill gleymast að hvert einasta líffæri í líkamanum er til orðið sem hluti af stærri heild og vinnur á þann hátt. Líkaminn lifir og starfar sem heild þar sem hvert líffærakerfi, líffæri, vefur og frumur reiða sig á hvert annað, hafa áhrif hvert á annað og eiga samskipti sín á milli.

 

Eitt er það kerfi sem hefur verið tilhneiging til að líta á ,,sérstaklega“ án annarra tengsla. Þetta kerfi tengist geðsjúkdómum og geðlækningum. Geðræn vandamál eru skoðuð frá ýmsum sjónarhornum; erfðafræðilegum, reynslu frá uppvexti og sálfræðilegum áhrifum svo eitthvað sé nefnt. Það síðasta  sem yrði skoðað í tengslum við geðsjúkdóma eru tengsl þeirra við meltingarkerfið. ,,Nútíma geðsjúkdómafræði gerir það einfaldlega ekki” segir dr. Natasha Campbell-McBride í bók sinni ,,Gut and Psychology Syndrome” . Samt sem áður er nóg til af dæmum úr sögu læknisfræðinnar þar sem alvarleg geðræn vandamál löguðust við það eitt að ,,hreinsa út” meltingarveg sjúklingsins. Mikill meirihluti geðsjúklinga þjáist af meltingartruflunum sem lítið er sinnt um að laga og tengslum milli þarma og heila er lítill skilningur sýndur af nútíma læknum. Þess í stað eru notuð lyf og aukning ý.k. lyfja til að örva, slaka og kæta fólk eða hafa á annan hátt áhrif á hegðun þess hefur aukist gríðarlega undanfarin 10-20 ár. Á þetta ekki síst við um lyf eins og Ritalin sem er mikið notað til að gefa börnum sem t.d. eru greind með ofvirkni. Gríðarlegir hagsmunir lyfjafyrirtækja pressa á lækna og það ásamt skilningsleysi almennt á tengslum meltingar og hugarástands valda því að þessi leið hefur verið valin.

 

Þetta er aðalorsök þess að ég sé ástæðu til að ræða þessi mál því ég tel að óþarfi sé að lyfja þann fjölda skólabarna sem raun ber vitni til að fá vinnufrið í skólum heldur reyna eins og alltaf ætti að gera, að höggva frekar að rótum vandans og meðhöndla ekki bara einkennin sem eru aldrei annað en birtingarmynd þess ójafnvægis sem ríkir, heldur reyna að takast á við og leiðrétta orsökina. Í okkar háhraða þjóðfélagi er að því er virðist enginn tími til að vinna málin á þann hátt, a.m.k. er okkur talin trú um það og þess í stað rétt glas með pillum sem eiga að laga vandamálið strax og núna! Vandamálið er þó ekki lagað meira en svo að um leið og inntöku lyfjanna er hætt koma einkennin fram aftur og því eru þessi börn oft gerð háð lyfjum og lyfjafyrirtækjunum frá barnsaldri í stað þess að markvisst sé unnið með foreldrum og öðrum uppalendum að varanlegri lausn fyrir þessa einstaklinga. Þetta hentar að sjálfsögðu lyfjaframleiðendum vel enda eru þau fyrirtæki rekin eins og hvert annað fyrirtæki með hagnað að leiðarljósi. Við skulum átta okkur á að lyfjafyrirtæki í heiminum í dag eru einhver ríkustu fyrirtæki sem til eru og hafa ítök í pólitík og víðar og hika ekki við að beita þeim meðulum (ef svo má segja) sem þau telja sig þurfa til að tryggja stöðu sína á markaðnum áfram.

 

Allir vita að aðalástæða þess að við höfum meltingarkerfi er sú að við þurfum að melta fæðu og frásoga úr henni næringu. Rannsóknir sýna að meltingarkerfið getur ekki starfað eðlilega án heilbrigðrar þarmaflóru. Gott dæmi um þetta er melting mjólkur og hveitis. Þessar matvörur eru ekkert endilega óhollari en aðrar matvörur sem slíkar, en orsökin fyrir því að fólk hættir að þola þær er sú að þær ná ekki að meltast eins og þær eiga að gera og það hindrar eðlileg viðbrögð við þeim í meltingarveginum og líkamanum. (Óþol fyrir þessum tveimur matvörum er algengasta óþol sem ég verð vör við í minni vinnu og þessar matvörur eru í miklum meirihluta þess matar sem dæmigert er að íslensk börn neyti). Fyrra stig meltingar þessara matvara gerist í maganum þar sem mjólkur- og hveitiprótein brotna niður í peptíð sem sum hver hafa morfín-líka uppbyggingu og eru kölluð casomorfín (úr mjólkurpróteininu kasein) og gluteomorfin (úr hveitiglúteni). Úr maganum færast þessi peptíð niður í smáþarma þar sem næsta stig meltingar þeirra á sér stað. Brissafar blandast þeim og þegar þau komast í snertingu við þarmaveggi hitta þau fyrir ensím kölluð peptíðasa úr örtotum þarmanna sem brjóta þau frekar niður og fullkomna þar með meltingu þeirra.

 

Þeir sem eru með óeðlilega þarmaflóru missa af þessu seinna stigi meltingarinnar vegna þess að örtotur þarmanna í líkama þeirra eru í svo lélegu ástandi að þær geta ekki framleitt umrædd ensím (peptíðasa) og þar með ekki brotið niður casomorfínið og gluteomorfinið. Því fara þessi efni á morfínlíku formi inn í blóðstrauminn og orsaka vandamál í líkamanum; sérstaklega hafa þessi efni truflandi áhrif á heilastarfssemi og virkni ónæmiskerfisins.Einhverfa, geðklofi, athyglisbrestur og ofvirkni, þunglyndi og sjálfsónæmissjúkdómar eru meðal þess ástands sem tengt hefur verið við vöntun á betri meltingu þessara tveggja matvara.

 

Þegar ristilflóran er löguð geta hins vegar margir þessara aðila melt bæði casein og gluten í hóflegu magni án þess að einkenni komi aftur. Í ristli fullorðins manns eru allt að 3 kg af örverum. Hluti af þeim starfar í ,,verksmiðjum“ sem þar eru staðsettar og framleiða nauðsynleg bætiefni fyrir okkur og við köllum þessar örverur ,,vinveittar“ þar sem við njótum góðs af þeirra starfssemi. Í ristlinum eru einnig aðrar örverur s.s. sveppir, ekki eins vinveittar okkur sem slíkar nema í litlu magni en þó nauðsynlegar til að framkvæma ákv. verkefni. Fari magn þeirra úr böndunum hættir sambúðin við þær að vera til góða fyrir okkur og þær taka yfirhöndina á kostnað ,,vinveittu“ gerlanna. Séu ákv. örverur til staðar í meltingarveginum geta þær framleitt eiturefni sem fara út í þarma og þaðan með blóði upp í heila með sömu afleiðingum og ef við hefðum neitt eiturefnisins.


Óeðlileg þarmaflóra orsakar blöndu taugaeiturefna sem geta valdið mismunandi einkennum hjá ólíkum einstaklingum. Þetta eru þess lags eiturefni að þau geta gert hvern sem er geðbilaðan. Þekktur japanskur prófessor, Kazudzo Nishi, metur það svo að a.m.k. 1/10 hluti geðrænna vandamála stafi af sjálfseitrun sem verður til í þörmunum. Fólk með óeðlilega þarmaflóru þjáist auk þessa af ý.k. vítamín og næringarefnaskorti vegna þess að til að nýta næringarefnin úr matnum þarf ákv. bakteríur til aðstoðar og framleiðslu á sumum þessara efna. Þessar bakteríur eru ekki til staðar í þeim mæli sem þarf hjá þessum einstaklingum. Í staðinn þrífast ýmsar aðrar bakteríur og sveppir þar í óeðlilega miklu magni og orsaka vannæringu með því að taka til sín næringarefni og koma í veg fyrir að „vinveittir“ gerlar og bakteríur þrífist og framleiði þau vítamín sem okkur eru nauðsynleg og einnig að melting ákv. efna s.s. laktosa geti átt sér stað. Í stuttu máli má segja að: Til að líkaminn í heild og þ.m.t. heili og taugakerfi þroskist eins og það á að gera þarf ákv. næringarefni og sé upptaka þeirra ekki í lagi er ekki við öðru að búast en að skortur sé á þeim og þroski því ekki skv. því sem eðlilegt getur talist.

 

 Málið er því ekki flókið: Meltingarvegur sem er heill og starfar eðlilega er undirstaða andlegrar og líkamlegrar vellíðunar. Því er það númer 1,2 og 3 að koma ristilflóru barna í gott lag og gera allt sem hægt er til að halda henni þannig svo melting verði eðlileg og næringarefni skili sér á réttu formi út í blóðið og valdi ekki truflunum s.s. ofnæmisviðbrögðum. Ristilflórunni heldur maður í lagi með hollu mataræði og lágmarks inntöku sætinda og lyfja s.s. sýklalyfja og með inntöku öflugra probiotic-gerla. Að þessum inngangi loknum er nú komið að kjarna málsins þ.e. ofnæmi og óþoli.. Ofnæmi og viðkvæmni fyrir mat, lykt og efnum er vaxandi vandamál í nútíma þjóðfélagi. Við lifum í umhverfi sem inniheldur alltaf meira og meira af kemískum efnum og eiturefni ý.k. eru einnig að aukast hérlendis þó minna sé af þeim en víða annarsstaðar. Skordýraeitur er í umtalsverðum mæli í notkun á ákv. árstímum, sérstaklega í þéttbýli, illgresiseitur einnig. Útblástursmengun úr bílum er orðin veruleg og sjálfsagt mætti tína fleira til en mig langar að benda á að það eru ekki bara hættuleg efni eða óhollusta sem ofnæmi eða óþol getur þróast fyrir heldur einnig efni og matur sem á mikinn meirihluta fólks hefur engin neikvæð áhrif og teljast jafnvel holl til neyslu.

Fólk reynir að finna út fyrir hverju það hefur óþol og forðast þá vöru/aðstæður en það er oft ekki heiglum hent því það er hægt að fá ofnæmi og óþol fyrir nánast hverju sem er og oft fleiru en einu og það flækir málin töluvert fyrir þá sem í hlut eiga. Einkennin eru einnig margvísleg þó flestir tengi ofnæmis- og óþolsviðbrögð við e.k. útbrot á húð eða hnerra, nefstíflur og augnrennsli auk almenns slappleika og þreytu. Færri gera sér grein fyrir að ofnæmis- og óþolseinkenni geta allt eins líklega brotist út í slæmri eða annarlegri framkomu hvort sem það er ofvirkni, vanvirkni, árásargirni, einbeitingarskortur, skortur á samhæfingu hreyfinga, óeðlileg hlédrægni, þreyta o.fl. Þegar heilinn er undir álagi getur hann ekki myndað útbrot eða önnur einkenni sem algengast er að tengd séu við ofnæmi. Breytingarnar sem hann sýnir koma fram í breyttri hugsun, skynjun og hegðun. Ef eitthvert þessara þriggja atriða breytist verða þeir sem eru með viðkomandi varir við að barnið er ,,öðruvísi“ Sé grunur um óþol þarf því að athuga með breytingar á útliti, líðan, framkomu og hegðun, námsgetu og samhæfingu hugar og handa t.d. breytingu á skrift eða teiknifærni. Einnig má búast við breytingum á öndun, púls og blóðþrýstingi. Þessar breytingar geta orðið innan sekúndna eða mínútna frá því einstaklingurinn kemst í snertingu við ofnæmis – eða óþolsvakann. Þó getur liðið allt að 1 klukkustund þar til einkenni koma fram.

 

Helstu einkenni ofnæmis sem sjást í andliti eða á líkama eru:
– Dökkir baugar undir augum – bláleitir, svartir  eða bleikir
– Hrukkur eða pokar undir augum
– ,,Speisað“ útlit – úti á þekju
– Rauðar kinnar, nefbroddur eða eyrnasneplar
– Órólegir fætur, kippir og rykkir. Einnig hendur og handleggir. Erfitt að sitja kyrr.
– Nefnudd
– Hósti, ræskingar og más
– Sleikir varir
– Bólgið andlit.
– Óeðlileg þreyta
– Vöntun á einbeitingu og erfitt að halda fókus.

Einnig:
– Nefstíflur og nefsnörl.
– Kláði í augum og augnrennsli.
– Bólgnar, sprungnar varir.
– Húðútbrot með kláða, sérstaklega í húðfellingum á handleggjum og fótleggjum.
– Heyrnarmissir í kjölfar síendurtekinna eyrnasýkinga.
– Skyndilegur verkur eða hringingar í eyrum.
– Tíðir höfuðverkir.
– Tíðir verkir í fótum / leggjum og vöðvaverkir.
– Endurtekin einkenni frá meltingarvegi s.s. ógleði, uppþembur, verkir, ropi, andremma,
viðrekstur,niðurgangur eða hægðatregða.
– Óeðlilega mikill þorsti.
– Síendurteknar sýkingar ý.k. eða vanlíðan sem veldur fjarvistum úr t.d. skóla / leikskóla.
– Óútskýrður fölvi í andliti / fölt útlit.
– Viðkomandi óeðlilega mikið kitlinn.

Sum börn eiga í erfiðleikum með að hafa stjórn á hægðum og þvagláti eftir að hafa komist í tæri við ofnæmisvaka og svo mætti áfram telja. Aðrir ofnæmis- og óþolsvakar hafa áhrif á hugann þannig að barnið dregur sig tilbaka og fer inní sig. Sé barnið látið t.d. látið skrifa undir þannig kringumstæðum verður skriftin of lítil og/eða þau skrifa eitthvað neikvætt t.d. að engum þyki vænt um þau o.s.frv. Valdi ofnæmis- eða óþolsvakinn hins vegar ofvirkni eru líkur á að skriftin verði stærri en barnið á vanda til. Breytingar á skrift geta einnig verið þannig að barnið skrifar verr en venjulega, afturábak eða speglar jafnvel orð. Myndir teiknaðar undir þessum kringumstæðum sýna svipuð einkenni þ.e. neikvæðar myndir. Bæði fín- og grófhreyfingar verða fyrir áhrifum – börnin verða klaufaleg, hlaupa á, reka sig í o.s.frv.


Ofnæmi getur valdið vangetu til að lesa og reikna – stundum kemur þetta frekar fram í einni námsgrein umfram aðra. Einkunnir geta rokkað á bilinu frá A-D fyrir og eftir mat í sama námsefni eða eftir að ákv. efni er andað að sér. Ofnæmi getur einnig valdið hegðunarbreytingum þannig að þessi börn eru eins og dr. Jekyll og mr. Hyde, óútreiknanleg, pirruð, árásargjörn eða þunglynd ef þau verða fyrir áhrifum ofnæmisvakans en eru annars ljúf og blíð. Breyting á skynjun getur falið í sér aukið næmi fyrir hljóðum, ljósi eða snertingu. Önnur einkenni sem geta bent til óþols eða ofnæmis er óvenjulega þrálát líkamslykt og lykt af hári, sem kemur í kjölfar þess að barnið kemst í snertingu við eitthvað sem það þolir ekki og á sama tíma breytist hegðunin. Einnig er óeðlilega mikil tilhneiging til að handfjatla eða  snerta kynfæri sín og ástæða til að athuga með ofnæmi komi þau einkenni fram á sama tíma og hegðunin breytist. Af einhverri ástæðu sem ekki hefur enn verið skírð hafa ljóshærðir, bláeygðir drengir meiri tilhneigingu til vandamála tengdri hegðun og virkni en börn með annan litarraft þó vissulega geti allir þróað með sér ofnæmi.

 

Ef grunur er um óþol- eða ofnæmi þarf því að reyna að tengja einkennin sem fram koma við það sem barnið hefur komist í snertingu við áður en einkennin komu fram. Hvað borðaði barnið, lykt aði af eða snerti ? Einnig að reyna að átta sig á því hvort einkenni koma þegar barnið er inni eða úti. Algengustu ofnæmisvakar eru matur, ý.k. lykt, ryk og mygla (saggi, fúi, í mat). Ef við skoðum fyrst matinn þá orsakar hann einkenni sem endast oftast frá hálftíma upp í 2 klst. en þó er vitað að einkenni hafi enst sólarhringum saman. Einkennin þurfa ekki að koma fram strax og því er það mjög ruglandi oft á tíðum að reyna að finna út sjálfur hvaða matvæli eru að trufla, sérstaklega ef um fleiri en eina matartegund er að ræða. Oft er fylgni milli fíknar í mat og óþols- eða ofnæmis fyrir honum, þ.e.a.s. þú ert fíkinn í það sem þú þolir ekki. Fyrsta ráð til að finna orsakavaldinn er því að skrifa niður 5 uppáhaldsmatartegundirnar sem barnið borðar og sleppa þeim í 5 daga og sjá hvort og hvernig einkennin þróast á þeim tíma. Taka svo eina tegund inn í einu og athuga viðbrögðin.

Varðandi ofnæmi- og óþol fyrir lykt er oft það sama uppi á teningnum varðandi fíkn, oft sækir viðkomandi í ákveðna lykt sem hann þolir ekki t.d. lykt af nýrri málningu. Einnig eru þau börn sem hafa ofnæmi eða óþol fyrir lykt oft óeðlilega næm á lykt, þ.e. þau finna lykt sem enginn annar finnur eða tala um svona eða hinsegin lykt sem enginn annar tekur eftir. Algengt er að börn hafi ofnæmi fyrir lykt af hreinsiefnum, gerviefnum í teppum, vinyl-plastefnalykt t.d.í leikföngum, formaldehyde og öðrum efnum sem notuð eru til byggingar og viðhalds, einangrunarefnum og skordýraeitri. Ilmvötn, rakspírar, hársprey, lyktarsprey (vellyktandi), hreinsiklútar fyrir andlit, mýkingarefni, klór, mölkúlur, ný föt úr gerviefnum s.s. polyester og tóbakslykt eru einnig algengir ofnæmisvakar. Ryk í heimahúsum og skólum veldur sumum börnum vandamálum og það sama má segja um myglu – hvort heldur hún er í húsnæði eða matvælum (ostar, brauð og önnur kornvara o.fl.)

 

Ýmis efni eru notuð í skólum og á vinnustöðum sem ekki eru notuð heima. Því getur það verið staðreynd að barn sýni engin einkenni heimafyrir en gjörbreytist þegar það kemur t.d. í skólann. Maður hefur svosem heyrt þetta í foreldraviðtölum o.þ.h. ,,að óþekktarormurinn láti aldrei svona heima hjá sér!“. Í sumum tilfellum er hægt að kenna um óþoli eða ofnæmi fyrir lykt , byggingarefnum eða öðrum efnum í skólahúsnæðinu t.d. eru notaðir tússpennar með sterkri lykt til að skrifa á töfluna, í efnafræðistofum eru ýmis efni sem ekki finnast á venjulegu heimili og hreinsiefni geta verið önnur þar en heimafyrir. Í skólum eru einnig ljósritunarvélar, plasthúsgögn og flúorljós sem ekki eru á hverju heimili. Það er því staðreynd að sum börn þola hreinlega ekki skólann, en þá í annarri merkingu en við myndum í fyrstu telja. Því er full ástæða til að skoða þann möguleika ef hegðun barnsins breytist án nokkurrar annarrar sýnilegrar ástæðu og besta ráðið til að forðast þessi viðbrögð er að finna orsökina og halda sig fjarri henni.

,,Maður sér einungis það sem maður leitar eftir og maður leitar aðeins eftir því sem maður þekkir“. (Goethe)

Þetta segi ég til að vekja athygli heilbrigðisstarfsfólks á þeirri staðreynd að það skiptir svo sannarlega máli hvað við borðum og hverju við öndum að okkur og fyrir suma t.d. fólk með ofnæmi, skiptir það meira máli en fyrir aðra. Ef maður veit þetta ekki þá leitar maður ekki þeirra lausna sem henta heldur stimplar viðkomandi einstakling sem óþekkan, ofvirkan, vanvirkan osfrv. og gefur honum lyf við því í staðinn fyrir að taka á þessum ákv. óþols- eða ofnæmisvaldi. Jafnvel einhverfum börnum og börnum með Tourette heilkenni hefur verið hjálpað að vissu marki með því að finna og taka út ofnæmisvalda. Foreldrar og aðrir sem eyða miklum tíma með börnunum og þekkja þau best, þurfa ef grunur er uppi um ofnæmi eða óþol að fara í hlutverk leynilögreglumanns og reyna að tengja einkennin við það sem barnið var að gera – þ.e. hvað borðaði barnið, lyktaði af eða snerti allt að sólarhring áður en einkenni birtust . Einnig þarf að reyna að átta sig á hvort einkenmánuði eða ni koma stöðugt eða í bylgjum – tengjast einkennin ákv. degi, viku, ári í lífi barnsins. Sé um árstíðabundin einkenni að ræða er hægt að styðjast við að:

– Á haustin er mygla og myglugró í hámarki, einnig sum frjókorn.
– Á veturna er ryk, mygla, húsdýr, inniloft og algeng fæða aðalorsök.
– Á vorin eru það trjáfrjókorn og í rigningartíð mygla
– Á sumrin: Grasfrjókorn


Úrlausn:
Það er hægt að fara í ofnæmispróf hjá læknum og óþolspróf hjá óhefðbundnum meðferðaraðilum sem nota ,,kinesiology“ og/eða orkugreiningartæki til að nema viðbrögð. Hefðbundin ofnæmispróf virðast ekki henta best til að finna fæðuofnæmi-/óþol sem veldur breytingum á hegðun. Varðandi mat þá er einföld þumalputtaregla sem hægt er að nota til að útiloka fæðutengt óþol. Ef viðkomandi getur borðað ákv. fæðutegund 5. hvern dag án þess að vart verði persónuleikabreytinga innan 1-24 klst. er ólíklegt að sú matartegund sé til vandræða.
Rétt er að reyna að halda sig sem mest frá ofnæmisóþolsvakanum, a.m.k tímabundið meðan reynt er að lagfæra ástandið. Mögulegt er að meðhöndla ofnæmið með hómópataefnum – sem byggja upp einstaklinginn og styrkja hann og létta þannig á einkennum t.d. frjókornaofnæmi sem mjög erfitt er að forðast. Hreinsa þarf út eiturefni, leiðrétta og byggja upp heilbrigða þarma- og ristilflóru , ég ráðlegg inntöku á vönduðum sykrum (glyconutrients) og síðast en ekki síst að borða hollan mat sem ekki inniheldur ofnæmisvaka. Í myndbrotunum sem fylgja fyrirlestrinum eru notaðar sprautur með því efni sem viðkomandi hefur ofnæmi fyrir útþynntu til að ,,afnæma“ einstaklinginn. Þetta þýðir að viðkomandi þarf að fara með tiltölulega stuttu millibili í sprautur í allt að 2-3 ár.

 

Ofnæmið lagast mikið eða alveg en getur komið aftur undir álagi t.d. við þungun. Þarf þá að endurtaka ferlið. Þessi tegund meðhöndlunar hefur staðið fólki til boða hérlendis af sumum ónæmislæknum t.d. hefur dr. Helgi Valdimarsson notað hana um margra ára skeið. ,,Afnæmingu“ er einnig hægt að framkvæma með tíðnitækjum ý.k. sem í notkun eru hérlendis en ekki hefur undirrituð reynslu af árangri þeirrar meðferðar eða hversu lengi slík meðferð endist. Foreldrar, kennarar, fóstrur og aðrir sem vinna með börn geta lært að þekkja bæði meiri- og minniháttar líkamlegar breytingar hjá börnum, sem oft koma á undan eða samhliða breytingum í námsgetu og hegðan og benda til ofnæmis. Aukin vitneskja gerir þessu fólki kleift að negla niður og tengja orsök og afleiðingu. Með einföldum hætti er þá oft hægt að leysa sum námstengd vandamál, s.s. með að færa barn til í kennslustofu frá ákv. efnum, fluorljósum eða sleppa ákv. mat. Þetta getur skipt sköpum fyrir þau börn sem í hlut eiga og getur gert þeim kleift að stunda nám og hegða sér á eðlilegan hátt. Það leggur grunn að betri framtíð fyrir barnið, foreldra þess, kennara og samnemendur þannig að allir hafa í raun hag af.


Heimildir:
Gut and Psychology Syndrome, Natural treatment for Dyspraxia, Autism, A.D.D., Dyslexia, A.D.H.D., Depression, Schizophrenia eftir dr.Natasha Campbell-Mc-Bride MD, MmedSci (neurology), MmedSci (nutrition) 1. útgáfa 2005
The impossible child: in School – At home. A guide for caring teachers and parents eftir dr.Doris J.Rapp, M.D. 1. útgáfa 1986.
Is this your child´s world? Is your child allergic to schools? eftir dr.Doris J.Rapp, M.D. 1. útgáfa 1996.
Our Toxic World – A Wake Up Call eftir dr.Doris J.Rapp, M.D. Board Certified in Environmental Medicine, Pediatrics and Allergies. 1. útgáfa 2003.
Myndir teknar úr bókinni The impossible child: in School – At home. A guide for caring teachers and parents eftir dr.Doris J.Rapp, M.D. 1. útgáfa 1986.
Myndbönd frá Environmental Research Foundation, Buffalo, New York 14223, USA frá dr. Doris Rapp
Einnig vefsíðan: www.drrapp.com

Sigríður Ævarsdóttir árið 2007Flokkar:Fjölskylda og börn, Greinar

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , , , ,

1 Svar

Trackbacks

  1. Samantekt greina um – Líf án Rítalíns – Heilsuhringurinn
%d