Epsomsalt (magnesíumsúlfat)

Ábendingar um notkun
Hægt er að nota epsomsalt ef kölkun er í liðum eða stirðleiki eða eymsli eftir meðferð eða líkamlega áreynslu eins og íþróttir eða garðyrkju. Hægt er að nota það staðbundið við kölkun í hönd eða fót en það er einnig notað fyrirbyggjandi og almennt til að hjálpa til við slökun. Það verkar þannig að það minnkar uppsöfnun sýru í líkamanum og mjakar honum nær eðlilegu sýru-basa-jafnvægi. Það er einnig mjög gagnlegt við sótthita, kvefi og flensu. Einnig getur fólk með húðvandamál á borð við húðbólgu (dermatitis) eða exem notað það.

Aðferðir við notkun
Ef nota á epsomsalt í hand- eða fótabað eru tvær matskeiðar settar í um tvo lítra af heitu vatni og hendur eða fætur látnir liggja í 15-20 mínútur. Í venjulegt bað eru um 280 grömm sett út í um 70 lítra af vatni. Hægt er að miða við fulla stóra drykkjarkönnu í baðið. Vatnið á aðeins að vera hæfilega heitt því annars getur líkaminn hitnað svo mikið að það verður óþægilegt.

 Tíðni
Hægt er að nota epsomsalt í hvert sinn sem maður baðar sig en við sérstökum vandamálum eins og kiðtá (bunion) þarf að láta liggja reglulega í bleyti, t.d. að meðaltali fimm sinnum í viku til að draga úr kölkuninni. Einnig er mælt með Idosalve til að minnka kiðtá.

Athugasemdir eða varnaðarorð
Vatnið í saltbaði ætti ekki að vera heitt heldur hæfilegt, rétt heitara en líkamshiti. Ef vatnið er of heitt hækkar líkamshitinn vegna saltsins og sjúklingurinn svitnar óskaplega. Því ættu sjúklingar með háþrýsting eða hjartasjúkdóma að fara varlega við saltböð. Ekki er mælt með notkun epsomsalts í bað hjá börnum yngri en fimm ára nema undir eftirliti.

Hvar fæst það?
Hægt er að kaupa epsomsalt í stórum pokum í lyfjaverslunum en einnig fæst það í gróðrarstöðvum í lausu og í stórum pokum sem magnesíumsúlfat. Garðheimar hafa selt epsomsalt í sekkjum og er það tiltölulega ódýrt einnig er hægt að fá það í sumum heilsubúðum í minni einingum.

Höfundur: Margeir Sigurðsson.



Flokkar:Næring

Flokkar/Tögg, , , , , , ,

%d bloggers like this: