Ásíðustu mánuðum hafa verið birtar í erlendum vísindaritum nokkrar tímamótagreinar um D-vítamín og áhrif þess á sjúkdóma og heilsufar okkar. Höfundar þessara greina eru allir sammála um að drjúgur hluti fólks í vestrænum samfélögum þjáist af skorti af D-vítamíni og að þessi skortur eigi verulegan þátt í nokkrum alvarlegum og algengum sjúkdómum sem herja á þjóðir sem dvelja á þeim svæðum jarðarinnar, þar sem sólarljós er af skornum skammti meiri hluta ársins. Þeir álíta að fólk hafi að ástæðulausu verið gert hrætt við að nota nægilega stóra skammta af lýsi til að fullnægja þörf líkamans fyrir D-vítamín og fólk er oft varað við að láta sólina skína neins staðar á bert hörund, nema áður sé búið að smyrja húðina með sólarvarnarkremi, sem kemur í veg fyrir að D-vítamín myndist í húðinni þegar sólin skín á hana. Þessi grein er aðallega samin eftir heimildum úr þremur greinum. Tvær þeirra komu í vísindatímaritinu ,,Journal of Orthomolecular Medicine og ein í Townsend Letter for Doctors and Patients“.
Margar upplýsingarnar eru sameiginlegar þessum greinum og þeim öllum fylgja langir listar af tilvitnunum í fjölda vísindagreina. Á nokkrum stöðum vitna ég beint í þær greinar innan sviga. Vel má vera að einhverjir kunni að gagnrýna þessa grein og segja að ég sé hér að ráðleggja fólki að nota stærri skammta af D-vítamíni heldur en nokkur þörf sé á og að svo mikið D-vítamín í langan tíma geti valdið eiturverkunum og jafnvel alvarlegu heilsutjóni. Þetta var einnig skoðun mín, áður en ég las greinarnar sem ég vitna hér í.
Eftir lestur þessara greina og annarra um sama efni, hef ég algerlega skipt um skoðun og tel nú, að bæði ég og flestir aðrir, þ.á.m. margir læknar og heilbrigðisráðgjafar, hafi áratugum saman verið heilaþvegnir með röngum upplýsingum um þörf fólks á norðlægum slóðum fyrir D-vítamín. Þetta hefur m.a. leitt til þess að heilu þjóðirnar hafa áratugum saman þjáðst af skorti á þessu vítamíni, en sá skortur hefur m.a. valdið beinkröm, gigt og liðagigt, hækkuðum blóðþrýstingi, heila- og mænusiggi og jafnvel sumum krabbameinum og síðast en ekki síst, beingisnun hjá öldruðum, sem sennilega þjáir meirihluta fólks sem komið er á efri ár.
Hvað er D-vítamín?
D-vítamín var fyrst einangrað úr túnfiskalýsi 1936 og búið til efnafræðilega 1952. Það er raunar á vissan hátt hormón, eða sterol forefni, 7- dehydrokolesterol, sem myndar fyrir áhrif frá útfjólubláum geislum sólarljóssins efni sem kallað er D-3 vítamín (C27 H44 O) kolecalciferol, sem er sú tegund D-vítamíns sem við og önnur dýr mynda við sólarljós og meðal annars er í lýsi og feitum fiski. Fiskar mynda ekki D-vítamín, þeir fá það úr þörungum í sjónum sem smádýr nærast á og stærri fiskar síðan á þeim. Annað afbrigði D-vítamíns myndast ekki úr kólesteróli, heldur úr ergosteroli og er kallað ergocalciferol.
Það myndast í jurtum og er nefnt D2-vítamín. Bandaríkjamenn nota það m.a. til að bæta í mjólk. D-3 vítamín er oftar notað í fæðubótarefni í Evrópu en D-2 í Ameríku. Í fléttu sem nefnd er „hreindýramosi“, eru bæði D-2 og D-3 vítamín. Þó að munurinn á D-2 og D-3 vítamíni sé aðeins sá, að einu kolefnisatómi er fleira í D-2 en D-3 vítamínsameindinni, bendir margt til þess að við nýtum D-3 betur en D-2. Því er sennilega rangt að leggja bæði þessi efni að jöfnu, hvað næringargildi varðar. D-2 vítamín er oftast unnið, annaðhvort úr olíu úr feitum fiski eða úr lifur þeirra, eða þá úr ullarfeiti Sum dýr, t.d. kettir, fá D-vítamín við það að sleikja feld sinn. Hægt er að lækna beinkröm hjá börnum með því að nudda þorskalýsi inn í húð þeirra.
Hvað er hæfilegur skammtur af D-vítamíni?
Eins og með mörg önnur næringarefni hafa sérfræðingar ekki verið einhuga um hversu miklu af D-vítamíni sé hæfilegt að neyta daglega. Þetta er jafnvel erfiðara með D-vítamín en mörg önnur næringarefni, því að hluta af því fáum við fyrir atbeina sólarljóssins, ef við dveljum nakin eða léttklædd utandyra í sólskini.
Í Bandaríkjunum hafa verið gefin út svokölluð „efri mörk“ fyrir D-vítamín, sem e.t.v. eru grundvölluð jafn mikið á persónulegum skoðunum, eins og þekktum staðreyndum. Fyrir ungbörn, innan við árs gömul, eru þessi mörk 1000 alþjóðaeiningar (a.e.) (25mcg) á dag. Fyrir alla aðra, þ.á.m. þungaðar konur og konur með barn á brjósti eru þessi mörk 2000 a.e. (50mcg). Vieth o.fl. telja aftur á móti að 4000 a.e. (100mcg) á dag sé öruggt til inntöku fyrir fullorðna, þótt 1000 a.e. sé sennilega eðlilegur skammtur ,, (A.Vieth: Vitamin D supplementation, 25 hydroxy D-concentrations and safety. Am. J. Clin. Nutrition, maí 1999) og (A. Vieth, Chan DC, McFairline GD: Efficacy and safety of vitamin D intake exceeding the lowest observed adverse effect level. Am. J. Clin. Nutr. febr. 2001).“
Stundum hefur verið litið á D-vítamín sem „hættulegasta“ vítamínið, þó að sárasjaldan hafi sannast að D-vítamín hafi raunverulega valdið eitrun. Oftast er bent á gömul dæmi um heimskautafara sem fengu eitrun af að nota til matar hráa eða illa soðna ísbjarnalifur og veiktust og jafnvel dóu af. Ísbjarnalifur inniheldur að vísu mjög mikið af D-vítamíni, svo að ein slík máltíð getur hæglega verið með nokkur hundruð þúsund alþjóðaeiningar af D-vítamíni. Þó álíta sumir nú, að sennilega hafi þessir heimskautafarar ekki dáið út D-vítamíneitrun, heldur hafi ísbirnirnir verið með sníkjudýr eða –orma sem hafi valdið dauða heimskautafaranna.
Einnig gæti langvarandi matar- og bætiefnaskortur hafa valdið því að þeir veiktust af því að fá skyndilega svo gríðarlega mikið af D-vítamíni, eftir að hafa skort það í langan tíma. Baldur Johnsen, sem lengi var læknir í Vestmannaeyjum, skrifaði bók um lýsi einhvern tíma skömmu eftir miðja síðustu öld. Hann var mjög hrifinn af lækningarmætti þorskalýsis og taldi það afar mikilvægt fyrir góða heilsu og til að fyrirbyggja sjúkdóma. Hann fullyrti þar að engin dæmi væru til um að nokkur hefði fengið vítamíneitrun af að nota lýsi, jafnvel þó að það væri notað í margfalt stærri skömmtum en ráðlagðir voru.
Vitað er að sumir trillukarlar í Vestmannaeyjum og víðar drukku lýsi á morgnana áður en þeir fóru á sjóinn. Frásagnir um D-vítamíneitranir voru allar umdæmi þar sem notað var tilbúið D-vítamín, sem Baldur taldi að innihéldi eitruð efnasambönd, sem mynduðust þegar útfjólublátt ljós væri notað til að geisla fituefni við framleiðslu á D-vítamíni í verksmiðjum. Því miður hef ég ekki bók Baldurs Johnsen við höndina og því er það sem hér er sagt byggt á minni mínu, en margt fleira í þeirri bók er mjög athyglisvert og sýnir að hann var hálfa öld á undan samtíð sinni í því að gera sér ljósa hollustu þorskalýsis. Hjá þeim sem hafa skrifað um hvað mikið megi nota af D-vítamíni daglega, virðast vera nokkuð skiptar skoðanir. Flestir telja þó að lítil hætta sé á að fá eitrunareinkenni af minna en 4000 a.e. og sumir tala um miklu stærri skammta, 10-20 þúsund a.e. (250-500mcg) á dag.
Árið 2003 birti tímaritið ,,British Medical Journal“ tvíblinda könnun á 2000 öldruðum einstaklingum sem voru gefnir 100 þúsund a.e. af D-vítamíni fjórða hvern mánuð í fimm ár (rúmlega 800 ein. á dag). Engar hliðarverkanir komu fram, hvorki hjá körlum né konum en beinbrotum fækkaði mikið miðað við samanburðarhópinn. Reynt hefur verið að meta hversu mikið D-vítamín myndast daglega í húðinni hjá fólki sem dvelur utandyra, léttklætt eða nakið í hitabeltinu, eins og gert er ráð fyrir að mannkynið hafi gert meiri hluta þróunar sinnar. Algengt er að tölur eins og 10 þúsund a.e. (250mcg) séu þá nefndar. Ráðlagði dagskammturinn í Bandaríkjunum fyrir konur og karla að 50 ára aldri er 200 a.e. (5mcg) og fyrir 51-70 ára 400 a.e. (10mcg), en 600 a.e. (15mcg) fyrir fólk eldra en 70 ára. Þetta er veruleg aukning frá eldri ráðleggingu sem var 200 a.e. (5mcg) fyrir alla aldurshópa nema smábörn.
Fólk í tempruðu beltunum nýtur sólar oft mjög lítið og þar að auki er miklu minna af útfjólubláum geislum í sólarljósinu, þegar sólin er lágt á lofti. Gera má því ráð fyrir að við sem dveljum á norðlægum slóðum, verðum að fá næstum því allt okkar D-vítamín úr fæðunni meiri hluta ársins. Þá fáu mánuði sem sól er hátt á lofti, nýtum við auk þess mjög illa, með því að ljósvarnarefni, sem drekka í sig meiri hluta útfjólubláu sólargeislanna, er bætt í margskonar sólarvarnarkrem og – olíur sem fólki er ráðlagt að bera á sig, til að verja sig fyrir skaðlegum áhrifum sólarljóssins. Það eru þó einmitt þessir sömu geislar sem breyta kólesteróli í húðinni í D-vítamín.
Erlendu sérfræðingarnir sem ég hef allar mínar upplýsingar frá, halda því fram að þrátt fyrir að nýju, endurbættu dagskammta ráðleggingarnar í Bandaríkjunum séu vissulega spor í rétta átt, þá þurfum við að fá miklu meira D-vítamín úr fæðunni heldur en ráðlögðu dagskammtarnir mæla fyrir um. Þeir álíta að til að öðlast bestu heilsu þurfum við að fá allt að því 10 sinnum meira D-vítamín, eða 2000-4000 a.e. (50-100mcg) á dag. Þeir leiða að því sterkar líkur að stöðugur skortur á D-vítamíni alla ævi, geti verið ein meginástæða fyrir sumum svokölluðum „menningarsjúkdómum“, sem plaga flest okkar meira eða minna.
Þar má nefna:
● Beingisnun á efri árum og léleg bein alla ævi.
● Háan blóðþrýsting sem engin ástæða finnst fyrir.
● Sjálfsónæmissjúkdóma, t.d. liðagigt, M.S. og margt fleira.
● Sykursýki I, eða barnasykursýki.
● Sumar tegundir af krabbameini.
● Við þetta má bæta psoriasis.
Allt eru þetta sjúkdómar sem læknavísindunum hefur ekki tekist að lækna til hlítar. Í besta falli hefur tekist að draga úr verstu einkennunum. Hér á eftir verður ofurlítið sagt frá hverjum þeirra um sig og færð rök fyrir því að skortur á D-vítamíni sé meginástæðan fyrir því að þeir hrjá flest okkar meira eða minna.
Beingisnun á efri árum
Sennilega er beingisnun eða beinþynning einhver algengasti sjúkdómur sem þjáir aldraða, sér í lagi konur. Líklega veldur beingisnun fleiri örkumlum meðal aldraðra en flestir aðrir sjúkdómar og ekki er óalgengt að mjaðmarbrot valdi dauða hjá fólki þegar komið er á efri ár. Beingisnun veldur litlum eða engum einkennum fyrr en beinin eru orðin svo veik að þau brotna við minni háttar áverka og oft verður óvænt beinbrot til þess að beinþynningin uppgötvast.Beingisnun er algengari hjá konum en körlum og verður oft hjá nokkru yngri einstaklingum.
Reynt hefur verið að gefa fólki með beinþynningu stóra skammta af kalki með litlum eða engum árangri. Sama er að segja um að láta aldrað fólk drekka mjólk og þekktar eru auglýsingar frá mjólkuriðnaðinum, sem gefa í skyn að „tvö mjólkurglös á dag alla ævi“ tryggi sterk bein. Því miður reynist það tálsýn og í fáum löndum er beingisnun algengari en þar sem mjólkurdrykkja er hvað mest, samkvæmt opinberum heimildum. Til þess að kalk í fæðunni nýtist líkamanum þarf D-vítamín að vera til staðar.
Því kemur að litlu gagni að bryðja kalkpillur eða þamba mjólk, skorti D-vítamín til að geta nýtt kalkið. Þetta virðist augljóst en hefur þó vafist fyrir hæfustu sérfræðingum. Einnig þarf að huga að sýrustigi líkamans, sem best má finna með því að mæla sýrustig þvagsins, sem æskilegt er að sé nálægt pH 6-6,5. Verði blóðið of súrt, jafnvel sáralítið er tekið kalk úr beinunum til að rétta það af. Sýrustigið má rétta af með mataræðinu, en það er utan þess sem hér er til umræðu og verður ekki rætt frekar. Sé sífelldur skortur á D-vítamíni verður um leið skortur á kalki í blóðinu og kalkkirtlarnir fara að mynda hormón sem losar um kalk úr beinunum, en það fer út í blóðið, sem helst þarf alltaf að innihalda álíka mikið kalk, auk annarra steinefna. Sé þetta ástand varanlegt losnar meira og meira kalk úr beinunum og þau verða veikari og veikari. Það ástand köllum við beingisnun.
Mikill skortur á kalki úr fæðunni veldur líku ástandi, en samkvæmt hinni nýju kenningu, sem hér er til umræðu, er miklu líklegra að D-vítamínskortur valdi beingisnun, heldur en kalkskortur. Samkvæmt kenningunni má bæta úr þessu ástandi með því að nota D-vítamín í nægilegu magni, sem líklega er 1000-2000 a.e. (alþjóðaeiningar) af D-vítamíni á dag. Það fæst sennilega úr 2-4 matskeiðum af þorskalýsi, sem margir læknar telja sjálfsagt hættulega mikið en höfundar greinanna sem ég hef hér í höndunum, segja að trúlega mætti að skaðlausu vera tvöfalt meira. Þeir sem ekki geta notað lýsi af einhverjum ástæðum, verða að fá D-vítamínbelgi, sem líklega fást ekki hér nema eftir lyfseðli. Sennilega verður þó innan tíðar hægt að fá D-vítamín án lyfseðils. Auk þess er rétt að velja hollan og steinefnaríkan mat en sleppa fæðutegundum sem fyrst og fremst gefa bætiefnasnauðar hitaeiningar.
Hár blóðþrýstingur sem engin ástæða finnst fyrir
Hækkaður blóðþrýstingur er sennilega einn algengasti sjúkdómur sem herjar á vestræn samfélög. Í mjög mörgum tilfellum finnst engin ástæða fyrir þessu. Blóðþrýstingurinn er bara of hár, en allt annað virðist í lagi. Oftast er þá gripið til þess ráðs að gefa lyf til að reyna að ná honum niður, því að löng reynsla er af því, að hár blóðþrýstingur smá eyðileggur mikilvæg líffæri t.d. nýrun og skaðar æðakerfið, auk þess að margfalda hættu á heila- og hjartaáföllum. Þá er oft byrjað á að gefa þvagræsilyf, sem oft lækka blóðþrýsting dálítið. Beta-blokkarar draga úr áhrifum adrenalíns á hjartað og hægja á hjartslættinum, sem einnig lækkar blóðþrýstinginn Kalcíum-blokkarar, sem loka fyrir streymi kalkjóna inn í frumurnar eru stundum notaðir með dálitlum árangri sem og nýjustu og sennilega bestu blóðþrýstingslyfin, sem nefnd eru angiotensin II blokkarar (ACE inhibitors). Þetta eru mikið notuð lyf eins og Captopril (Capoten) Enapril (Renitec) og Losartan (Cozaar) og eru mikið notuð hér á landi.
Þessi lyf verka þannig að þau hindra hormón sem nefndur er angiótensín II, og stjórnar æðasamdrætti, hækkar blóðþrýsting og minnkar útskilnað salta í nýrunum. Lyfin draga m.ö.o. úr virkni angiotensín II hormónsins, sem aftur lækkar blóðþrýstinginn. D-vítamín verkar ekki ólíkt þessu, nema engar aukaverkanir fylgja því að nota það. Örlítill hluti erfðavísa mannsins hafa stjórn á ensími sem nefnt er renin. D-vítamín virðist stjórna virkni þessara erfðavísa. Renin stjórnar hversu mikið angiotensín myndast og þá um leið stjórnar það blóðþrýstingnum (Li Yc o.fl. J. Clin Invest. 2002:110;229-238).
Aðrir vísindamenn hafa fundið að beint samband er á milli þess hversu mikið er af D-vítamíni í blóði og hvað blóðþrýstingurinn hjá fólki er hár. Sé lítið D-vítamín í blóði er blóðþrýstingurinn hár. ,,(Y Kimura o.fl. Intern. Med. 1999;38:31-35) og (C.W o.fl. Am. J. Kidney Dis. 1999;33:73-81“). Annar nýlega uppgötvaður hormón sem myndast í kalkkirtlunum og nefndur er PHF (Parathyroid hypertensive factor), hefur einnig áhrif á blóðþrýsting, en þó á annan hátt en með því að minnka renin í blóði. Talið er að PHF opni calcium rásir í frumuhimnum í æðunum en það fær slétta vöðva í æðaveggjunum til að dragast saman, en við það hækkar blóðþrýstingurinn.
Þetta gerist aðeins, þegar of lítið kalk er í blóðinu og kalkkirtlarnir taka til starfa. Sé nægilegt kalk í blóðinu starfa kalkkirtlarnir lítið og blóðþrýstingurinn helst lágur. Skorti D-vítamín hinsvegar, verður of lítið kalk í blóðinu og kalkkirtlarnir fara að mynda bæði PHF og kalk-hormón, sem flytur kalk úr beinunum, út í blóðið til að kalkmagnið þar sé ávalt rétt. Þá hækkar blóðþrýstingurinn um leið og PHF og renin í blóðinu vex. (Frá þessu var sagt í vorblaði Heilsuhringsins 2004). Þetta sýnir að D-vítamín lækkar blóðþrýsting eftir að minnsta kosti tveimur leiðum. Með því að hafa áhrif á myndun ensímsins renin, og með því að hindra myndun annars ensíms, PHF.
Sjálfsónæmissjúkdómar
Sjálfsónæmi eða -ofnæmi er það nefnt þegar einhverjar ónæmisfrumur fara að ráðast á eða reyna að tortíma heilbrigðum frumum eða frumuhópum í líkamanum. Fjöldamargir sjálfsónæmissjúkdómar eru þekktir en ég ætla hér aðeins að nefna örfáa þá algengustu. Stundum er erfitt að greina sjálfsónæmi frá ofnæmi og jafnvel sérfræðinga greinir stundum á um hvort heldur er í vissum tilfellum. Algengustu sjálfónæmissjúkdómarnir eru sennilega liðagigt og skyldir gigtarsjúkdómar t.d. lúpus. Sjögrenssjúkdómur og skyldir sjúkdómar. Sáraristilbólga og fleiri bólgusjúkdómar í þörmum. Heila og mænusigg og sykursýki I. Sumir mundu e.t.v. bæta psoriasis við þessa upptalningu og enn aðrir telja psoriasis ofnæmi.
Sama má segja um exem. Hvað sem segja má um þetta eru flestir einhuga um að skökk starfsemi ónæmiskerfisins eigi hér hlut að máli. Væri hægt að koma því í lag, mundi bæði sjálfsónæmi og ofnæmi hverfa. Til einföldunar má gjarnan líta á sjálfsónæmi sem ofnæmi fyrir einhverju sem tilheyrir eigin líkama. Samkvæmt þeirri nýju kenningu, að skortur á D-vítamíni sé almennt útbreiddur, hefur verið bent á að D-vítamínskortur valdi bjögun á starfsemi ónæmiskerfisins, þannig að hlutar þess verði ofvirkir en aðrir vanvirkir. Þetta lýsir sér með aukinni tíðni ofnæmistilfella og fjölgun á sjálfsónæmissjúkdómum, ásamt aukningu á ákveðnum krabbameinum t.d. ristilkrabbameini.
Þó að D-vítamínskortur hafi sennilega frekar aukist en minnkað í vestrænum samfélögum undanfarna áratugi, m.a. vegna ótta fólks við að dvelja í sólarljósi og að flestir nota sólarvarnarkrem, ef þeir fara í sólarlandaferðir, má þó alls ekki líta svo á að D-vítamínskortur sé alltaf nútímafyrirbæri eða „menningarsjúkdómur“. Á norðlægum slóðum hefur D-vítamín sjálfsagt alltaf skort, að minnsta kosti hluta úr árinu, nema hjá þeim sem áttu greiðan aðgang að fiskmeti eða lýsi. Því hafa sjúkdómar eins og liðagigt kvalið marga í gamla daga, ekki síður en nú.
Liðagigt og skyldir sjúkdómar
Þorskalýsi hefur verið alþýðulækning við liðagigt mjög lengi. Nú á síðustu árum hefur neysla þess fengið allt að því almenna viðurkenningu, bæði lækna og leikra, sem hjálparefni fyrir liðagigtarsjúklinga. Það er þó ekki vegna D-vítamínsins í því, heldur vegna þess að í lýsi eru omega-3 fitusýrur sem vinna gegn bólguhvetjandi prostaglandinum og skyldum efnum sem einkenna liðagigt. Minna hefur verið rætt um það, að sennilega er það ekki síður D-vítamínið í lýsinu sem hjálpar liðagigtarsjúklingum.
Gallinn er bara sá, að fólk hefur verið varað við að nota nema mjög smáa skammta af lýsi, svo það hefur ekki nægt til að lækna fólkið, aðeins hjálpa því ofurlítið. Þetta gildir jafnt, hvort sem litið er á omega-3 fitusýrurnar eða D-vítamínið. Sennilega þarf að nota 3-4000 a.e. af D-vítamíni á dag til að liðagigtareinkenni hverfi að mestu. Þetta á líka við um aðra skylda sjúkdóma t.d. Lúpus. Sömu meðferð má einnig reyna við Sjögrenssjúkdóm og bæta þá við þremur grömmum af kvöldvorrósarolíu daglega (6x500mg).
Sykursýki
Ég tel sykursýki I til sjálfsónæmissjúkdóma, þó að einhverjir séu mér kannski ekki sammála um það. Sykursýki I kemur oftast snemma á ævinni og stundum í bernsku. Þá er oft talið að einhver sýking hafi komið henni af stað, eða ofnæmi eða óþol fyrir fæðu, t.d. glútein eða gliadin í hveiti, eða ákveðnum kaseinefnum í mjólk. Hvort svo er eða ekki, má láta liggja milli hluta, en sannanir eru fyrir því að með því að gefa ungbörnum þorskalýsi fækkaði tilfellum af sykursýki I um 80%, miðað við börn sem ekki fengu lýsi. (Stene LC, Ulriksen J., Magnus P. o.fl.:,, Use of cod liver oil during pregnancy assiciated with lower risk of Type I diabetes in the offspring. Diabetoligia, 2000; 43:1093). Og Eurodiab. Substudy Group. Vitamin D-supplement in early childhood and risk for Type I diabetes mellitus. Diabetoligia 1999;42:51-54)“. Niðurstöður þessara rannsókna gætu bent til að öll börn ættu að fá lýsi strax á fyrsta ári og síðan öll uppvaxtarárin.
Heila og mænusigg
Heila og mænusigg eða M.S. er sjúkdómur sem leggst á taugakerfið og veldur stundum alvarlegri lömun og hreyfihömlun eða, ef sjúkdómurinn leggst á taugar skynfæranna, jafnvel blindu eða skorti t.d. á tilfinningu í vissum líkamshlutum. Nú er yfirleitt talið að M.S. sé sjálfsónæmissjúkdómur, sem leggist á frumurnar sem mynda einskonar hlíf eða slíður úr fitukenndu efni sem nefnt er mýli (myelin) utan um taugar. Þetta slíður gegnir því hlutverki að einangra taugarnar, bæði hverja frá annarri og einnig frá umhverfinu, líkt og þegar rafleiðslur eru einangraðar svo að straumurinn fari ekki út í umhverfið, þar sem hann kemur að engum notum.
Hjá M.S. sjúklingum „leka“ taugaboðin út í umhverfið og glatast að meira eða minna leyti og komast, annað hvort alls ekki á leiðarenda, eða eru meira eða minna bjöguð. Lengi hefur því verið veitt athygli, að M.S. er mjög fátíður, jafnvel óþekktur sjúkdómur í hitabeltinu. Þá er og vitað að því lengra sem fólk býr frá miðbaug, þess algengari verður sjúkdómurinn. Sama er hvort farið er í norður eða suður, fjarlægðin frá miðbaug er það sem máli skiptir. Þó eru nokkrar undantekningar frá þessu. Í löndum þar sem mikils sjávarfangs er neytt er M.S. töluvert fátíðara en í öðrum löndum á sömu breiddargráðu, þar sem ekki næst í fiskmeti.
Einnig virðist mikil neysla á kornvöru, sem er auðug af fytinsýru, fjölga M.S. tilfellum, en þannig matvara dregur einmitt úr að D-vítamín í fæðunni nýtist. Allt þetta, ásamt öðru, styður þá tilgátu eða kenningu, að sumt fólk sé með vissa ættgenga veilu, sem orsaki að skortur á D-vítamíni valdi því að það fær M.S. sjúkdóminn frekar en einhvern annan sjálfsónæmissjúkdóm, t.d. liðagigt. Stungið hefur verið upp á þeirri skýringu að fólk sem fær M.S. þurfi að fá meira D-vítamín en annað fólk og að þetta sé líklega vegna galla eða afbrigðileika á einhverjum erfðavísi eða –vísum. Mikið sólarljós myndar nægilegt D-vítamín í húðinni til að hindra að þessi afbrigðileiki eða galli komi að sök. Líklega kemur að sama gagni að fá D-vítamínið úr fæðunni en þá verður að fá daglega 2000-4000 a.e. af því.
Sennilega á þessi sama skýring við aðra sjúkdóma sem læknast við að fá nægilegt D-vítamín. Þá vaknar sú spurning hvort þessi „galli“ eða „afbrigðileiki“ eigi ekki við mikinn hluta mannkynsins og að við þurfum flest okkar að fá svona mikið D-vítamín til að vera fullkomlega heilbrigð. Ekki er fyllilega vitað ennþá hvort M.S. í fullorðnu fólki læknast við það að fá nægilegt D-vítamín. Sé þessi kenning eða tilgáta rétt, að D-vítamínskortur valdi sjúkdómnum, ætti þó að mega koma í veg fyrir að ástandið versni, með því að gefa fólkinu 4000 a.e. af D-vítamíni daglega. Ef til vill veldur langvarandi D-vítamínskortur óbætanlegum mýlisskaða sem ekki gengur fyllilega til baka, þó að úr vítamínskortinum sé bætt. Þó gæti allt eins verið að einkenni M.S. löguðust smá saman, en það verður reynslan að skera úr um.
Psoriasis
Psoriasis er trúlega sá sjúkdómur sem flestir eru tilbúnir að tengja við D-vítamín. Það stafar af því að lengi hefur verið kunnugt, að sólarljósið bætir ástand psoriasis sjúklinga. Þó eru sennilega færri sem gera sér ljóst, að það er einmitt D-vítamínið sem myndast í húðinni þegar sólin skín á hana, sem bætir þennan hvimleiða og erfiða sjúkdóm. Húðkrem sem inniheldur D-vítamín hefur jafnvel verið notað sem aðalmeðferð við psoriasis. En ef þið viljið reyna D-vítamínkrem við psoriasis, verið þá viss um að það sé raunverulaga D-vítamín í því.
Einkaleyfi hefur nefnilega verið veitt á tilbúnu gerviefni sem ekki er raunverulegt D-vítamín og því ekki víst að það hafi sömu verkanir á psoriasis. Flasa í hári er sennilega oft afbrigði psoriasis. Gaman væri ef einhver með flösu vildi prófa að ota daglega í nokkrar vikur 3-4 matskeiðar af þorskalýsi og sjá hvort flasan hverfur. Sama er að segja um rauðleita flekki sem sumir eru með framan á bringunni og stundum víðar. Ég veit um dæmi þess að þannig flekkir hurfu á viku eftir að farið var að neyta þriggja matskeiða af lýsi daglega. Greinarhöfundur yrði þakklátur, ef einhverjir með flösu reyndu þetta og létu Heilsuhringinn vita um árangur. Sennilega þarf að nota 3000-4000 a.e. af D-vítamíni á dag til að halda einkennum psoriasis niðri, eða taka ekki minna en 4 matskeiðar af þorskalýsi. Einnig flýtir fyrir bata að bera D-vítamínhúðáburð á blettina.
Krabbamein
Vitað er að ristilkrabbamein er nátengt skorti á D-vítamíni. Ef til vill er sá skortur ein höfuðástæðan fyrir þeirri ógnvænlegu fjölgun sem orðið hefur á ristilkrabbameini í vestrænum samfélögum á undanförnum árum, þó að vafalaust komi fleira til. Ég hef engar tölur um hvað sú fjölgun er mikil hér á landi, en hef tilfinningu fyrir að ristilkrabbameinið sé að verða eitt algengasta krabbameinið. Giskað hefur verið á að fækka mætti þessari tegund krabbameina um allt að 80% með því að allir fengju hæfilega mikið af D-vítamíni, sem er að mati þeirra sem skrifað hafa um þetta, 3000-4000 a.e. (alþjóðaeiningar) á dag.
Áróður fyrir að nota sólvarnaráburð á allan líkamann, þegar farið er í sólbað kemur ekki aðeins í veg fyrir að útfjólubláu geislar sólarljóssins auki líkur á að fá sortuæxli. Það hindrar um leið að sömu útfjólubláu geislar gagnist til að mynda D-vítamín í húðinni. Athyglisvert er það sem höfundar bókarinnar „Naked at Noon: Understanding Sunlight and Vitamin D“ skrifar: „Eitt af því sem vitað er að verndar húðfrumum frá að mynda forstigseinkenni krabbameins er D-vítamín. Fyrir flesta bandaríkjamenn er sólarljósið meginuppspretta D-vítamíns. Útfjólubláir B-geislar sólarljóssins eru einu geislarnir sem mynda D-vítamín í húðinni og eru aðeins til staðar á norðlægum slóðum í teljandi mæli nokkrar klukkustundir á dag yfir há-sumarið. Þetta er einmitt sá tími sem fólk er varað við að vera úti í sólskini. Sólarvarnarkrem og –olíur hindra einmitt þessa geisla“. Of mikil dvöl í sólarljósi veldur ekki D-vítamíneitrun.
Það ætti að kenna okkur hversu mikið af því má nota án áhættu. Fólk sem dvelur léttklætt eða nakið utanhúss í hitabeltinu myndar sennilega daglega í húð sinni meira en 10 þúsund a.e. af D-vítamíni, jafnvel allt að 15-20 þús. a.e. Þetta er 20-40 sinnum meira en ráðlagði dagskammturinn, sé miðað við að hann sé 500 a.e., sem verið getur þó að búið sé að auka eitthvað. Eigi að síður þarf að gæta varúðar þegar fólk sem er óvant miklu sólarljósi fer skyndilega í sólarlandaferð og fer þá að liggja óvarið í sterku sólarljósi. Þá getur sólvarnarkrem átt rétt á sér, sérstaklega fyrstu dagana. Fólk af norrænum uppruna er yfirleitt með ljósa húð sem þolir illa sterkt sólskin, fyrr en hún hefur aðlagast sólarljósinu.
Þetta á alveg sérstaklega við um rauðhært fólk, sem alltaf þarf að gæta sín, vegna þess að litarefni sem ver húðina fyrir sólarljósinu, myndast ekki eins auðveldlega í húð rauðhærðra og annarra. Þó að ristilkrabbamein sé sú illkynja meinsemd sem oftast er orðuð við D-vítamínskort er þó vitað, eftir því sem heimildarmenn mínir fullyrða, að krabbamein í blöðruhálskirtli, brjóstum og eggjastokkum og sennilega fleiri meinsemdir eru örvaðar við D-vítamínsskort. Jafnvel sumar tegundir húðkrabbameins, aðrar en sortuæxli eru meðal þeirra.
Krispin Sullivan segir í bók sinni „Naked at Noon: Understanding Sunligth and Vitamin D“, að það sé kaldhæðnislegt að sólarljósið, sem margir telja nú eina höfuð ástæðu fyrir húðkrabbameini, er e.t.v. ein besta vörn okkar gegn mörgum tegundum krabbameins, þ.á.m. sumum húðkrabbameinum öðrum en sortuæxlum. Þeir sem lítið njóta sólarljóssins, t.d. hér á Íslandi, geta bætt það upp með því að nota 3-4 matskeiðar af þorska- eða ufsalýsi á dag. Sumir þola lýsi illa og virðast hafa einhverskonar óþol fyrir því. Þeir einstaklingar verða sennilega að reyna að nota D-vítamín í belgjum, en því miður fást sennilega ekki ennþá D-vítamínbelgir með hæfilegu magni til að fá 2000-4000 a.e. úr einum belg.
Læknar geta látið fólk fá lyfseðil fyrir nokkrum tugum þúsunda eininga af D-vítamíni í einum skammti. Það er allt of mikið til að nota nema í skamman tíma, en mætti e.t.v. nota í nokkra daga eða vikur til að bæta úr bráðum skorti á D-vítamíni. Í Bandaríkjunum og víðar má fá D-vítamín í skömmtum milli 1000 og 5000 a.e.. Flogið hefur fyrir að von sé á að þannig skammtar verðir leyfðir hér á landi fljótlega.
Hugsanleg eitrunaráhrif
Í marga áratugi hefur fólk verið hrætt við að D-vítamín geti valdið alvarlegri eitrun og jafnvel dauða. Þá eru gjarnan sagðar hryllingssögur af heimskautaförum sem veiktust eða vesluðust upp, eftir að hafa nærst á ísbjarnarlifur eftir langvarandi fæðuskort. Nú held ég að flestir taki slíkum sögum með vissum fyrirvara. Að vísu er ísbjarnarlifur mjög auðug af D-vítamíni, svo að vafalaust er hægt að fá nokkur hundruð þúsund a.e. (alþjóðaeiningar) af D-vítamíni úr einni máltíð. Það er þó langt frá því að nægja til að fá bráða D-vítamíneitrun, jafnvel þó að nokkrar slíkar máltíðir væru á borðum, hver á eftir annarri.
Í Bandaríkjunum er D-vítamíni oft bætt í nýmjólk og þar hefur m.a. orðið „slys“, þannig að margfalt meira D-vítamín fór í mjólkina, heldur en átti að vera. Aðeins er vitað um eitt dauðsfall, sem rakið var til þessa óhapps. Þó er óvíst hvort ofneysla á D-vítamíni var raunverulega dánarorsökin. Lyfjaneysla var ekki síður líkleg, eða samvirkni lyfjaneyslu og vítamínofneyslu. Margir veiktust í þessu óhappi,en öllum öðrum tókst að bjarga. Þó var talið að um 250.000 a.e. af D-vítamíni hafi verið í einum lítra mjólkurinnar. Talið er að sumir hafi notað þessa mjólk í langan tíma áður en óhappið uppgötvaðist og því er raunar frekar að þetta sýni hve lítil hætta er á að fá D-vítamíneitrun af stórum skömmtum, heldur en að D-vítamín yfirleitt sé varhugavert. Nú er almennt álitið að heimskautafararnir, sem áður var getið, hafi ekki veikst af D-vítamíneitrun, heldur af öðrum ástæðum, eins og áður var lýst. Einkenni langvarandi D-vítamíneitrunar eru þessar helstar:
Fyrsta einkennið er lystarleysi, flökurleiki og uppköst. Á eftir fylgir taugabilun, slappleiki og kláði. Því næst getur komið nýrnabilun. Kölkun getur valdið skaða, sér í lagi í nýrunum. Hjá smábörnum getur orðið svokölluð „ofkölkun“ (hypercalcemia) og að þau hætta að þrífast, fái þau daglega 2000-3000 a.e. af D-vítamíni. Þetta gæti samsvarað því að fullorðnir fengju 30-50 þúsund a.e. en vitanlega skiptir aldur barnanna hér heilmiklu máli. Leggja skal áherslu á það að D-vítamín er fituleysanlegt vítamín sem ekki er svo auðvelt að losna við úr líkamanum á skömmum tíma.
Aftur á móti má að skaðlausu taka inn í einu lagi risa stóra skammta, án þess að heilsutjón hljótist af. Það geymist í líkamanum til síðari nota. Aðeins ef teknir eru stórir skammtar í langan tíma er hætt við eituráhrifum, með þeim einkennum sem áður er lýst. Þó að talað sé um að D-vítamín geti valdið eiturverkunum, sé það notað lengi í stórum skömmtum, eru þær mjög sjaldan lífshættulegar og ganga til baka fljótlega þegar hætt er að nota vítamínið. Því er að þarflausu verið að hræða fólk, þegar því er sagt að nota alls ekki meira en eina eða tvær teskeiðar af lýsi á dag, sem er sennilega varla meira en ráðlagði dagskammturinn. Vísindamennirnir sem ég hef fróðleik minn frá fullyrða, að óhætt sé að nota 10000 a.e. af D-vítamíni árum saman án neinnar hættu á eitrun. Þó telja þeir að oftast sé nægilegt að nota 3-4000 a.e. á dag.
Heimildir:
1 Vitamin D: Deficiency, Diversiency and Dosage. Andrew W. Saul. Journal of Orthomolecular Medicine 3+4 2003, vol 18.
2 Vitamin D Supplementation in the Fight Agains Multiple Sclerosis. Ashton F. Embry, Ph. D Journal of Orthomolecular Medicine. Nr. 1, 2004 – vol 19.
3 Vitamin D, Its Role in Autoimmune Disease and Hypertension. Jonathan V. Wright, MD. Townsend Letter for Doctors and Patients, maí 2004.
Höfundur: Ævar Jóhannesson árið 2004
Flokkar:Greinar, Skrif Ævars Jóhannessonar