Barnamatur –Næring fyrir börn

Náttúran hefur séð til þess að nýfætt barn fái hina fullkomnu fæðu beint frá móðurinni ef allt er eðlilegt. Þá er bara að setja barnið á brjóstið og láta það sjúga hinn dísæta og fullkomna mjólkurvökva. Vissulega skiptir máli að móðirin hugsi um hollustuna, því allt sem hún borðar verður einnig næring fyrir barnið. Þess vegna er auðvitað nauðsynlegt fyrir móður með barn á brjósti að borða sem minnst af því sem hún veit að er óhollt. Ef brjóstagjöfin gengur vel þá er það bæði yndislegt og þægilegt fyrir móður og barn og ekkert stúss með pela eða grauta. Ef barnið vex og dafnar eðlilega þá er í lagi að vera með barnið á brjósti eingöngu í 6 mánuði. En það er ekki alltaf sjálfgefið að barnið sé duglegt að sjúga og að móðirin eigi nóga mjólk. Þá reynir oft á þolinmæðina og að halda áfram að reyna.

Það er ekki meiningin í þessari grein að ráðleggja hvað sé best að gefa barninu ef engin er móðurmjólkin, heldur að koma með ábendingar varðandi mat fyrir barnið eftir að brjóstagjöf hættir. En það eru samt til leiðir til að auka brjóstamjólkina með einföldum náttúrulegum aðferðum. Mjólkuraukandi te t.d. Helios ammete er mjög áhrifaríkt og örvar mjólkurkirtlana til að framleiða meiri mjólk. Það inniheldur meðal annars fennilfræ sem vinna gegn loftmyndun í meltingunni hjá barninu og hjálpar gegn magakveisu. Ef barnið er með magakveisu má
einnig gefa því úr teskeið smá fennilte fyrir hverja gjöf. Ef barnið er órólegt og á erfitt með svefn er gott að gefa vægt kamillute, það er vægt róandi og getur oft hjálpað.

Áður en við gefum barninu fasta fæðu er gott að gefa fljótandi fæðu. Ég var búin að nefna te eins og fennilte og kamillute. Ein gullin regla er mikilvæg áður en við byrjum að gefa barninu annað en móðurmjólkina og það er er að byrja einungis á einni nýrri fæðutegund í einu í 5-6 daga. Þetta er ákveðin varúðarráðstöfun fyrir okkur til að geta áttað okkur á hvort barnið geti hugsanlega verið með ofnæmi fyrir einhverjum mat. Þegar við tölum um barnamat þá hugsum við okkur oftast mat í litlum glerkrukkum og grauta í pökkum. Ég mæli með að til að byrja með notum við eingöngu lífrænt ræktað grænmeti og ávexti og matreiðum það helst sjálf. Krukkumatur er til úr lífrænt ræktuðu hráefni sem er að sjálfsögðu hin besta fæða en ekki til að nota eingöngu. Af ávöxtum er eplið númer eitt.

Best er að gefa safann úr því fyrst og þynna hann þá að minnsta kosti til helminga. Við skulum aldrei gefa litlum börnum óþynnta ávaxtasafa því þeir eru einfaldlega of sterkir fyrir þau. Lítil börn hafa líka miklu næmari bragðlauka en við og því er það alger óþarfi. Við getum líka rifið eplið smátt eða soðið það og maukað. Af grænmeti er besta að byrja á gulrótinni. Hún er alger gullnáma í barnamat, en hún verður að vera lífrænt ræktuð. Gulrætur innihalda mjög mikið af næringarefnum. Gulrætur eru alveg ótrúlega duglegar að sjúga í sig alla næringu úr jarðveginum.

Þess vegna er mjög mikilvægt að jarðvegurinn sem þær vaxa í sé næringar ríkur og án skaðlegra hjálparefna. Gott er að byrja á gulrótarsafa og er þá bæði hægt að pressa hann sjálfur eða kaupa tilbúinn á flöskum. Þá er einnig gott að sjóða gulrætur og mauka þær. Ekki má gefa börnum hrátt grænmeti fyrir 1 árs aldurinn, það er of erfitt fyrir meltingarfærin.

Þegar við byrjum á kornfæði þá er mjög gott að gefa kornsoð áður en byrjað er á grautum. Það er gott að gera í 5-7 daga. Það gerum við með því að nota heilt korn, leggja það í bleyti yfir nótt og sjóða í bleyti-vatninu. Þá fer næringin úr korninu út í vatnið en ekki sterkjan sem er þungmeltust. Síðan gefum við barninu þetta seyði sem er mjög mettandi fyrir barn sem hefur verið á brjóstamjólk. Eftir það byrjum víð síðan að gefa barninu grauta.

Hvernig grauta eigum við þá að velja? Í fyrsta lagi ættum við að velja grauta úr lífrænt ræktuðu korni. Ég hef áður minnst á lífrænt ræktað varðandi ávexti og grænmeti. Fyrir þá sem eru ekki alveg vissir um það hvað lífrænt ræktað þýðir, þá er það ræktun þar sem ekki er notaður tilbúinn áburður, ekkert skordýraeitur, engin hormónalyf, engin sveppaeyðandi lyf, og á tilbúna afurð er ekki notaður brennisteinn á þurrkaða ávexti, ekki notuð geisla-eða gasmeðferð á ferska ávexti og grænmeti, ekki notuð rotvarnar-litar-,eða bragðefni á tilbúnar afurðir til að þær líti betur út, bragðist betur og geymist lengur.

Ekki er heldur notað í vottaðar lífrænt ræktaðar vörur gervisætuefni eða MSG (monosodium glutamat) og alls ekki erfðabreyttar afurðir.  Ég mæli eindregið með grautum sem unnir eru úr lífrænt ræktuðu korni þar sem ekkert hefur verið fjarlægt og engu bætt við. Grautarnir frá Aurion bakaríinu í Danmörku eru þannig og þeir eru með lífrænni demeter vottun þar sem reglurnar eru mjög strangar. Þá er heila kornið ristað við vægan hita í viðarkynntum ofnum og síðan malað á hæggenga steinkvörn. Vinnslan miðast við það að mikilvæg næringarefni fari ekki til spillist og haldist í hinni tilbúnu afurð. Allt korn inniheldur járn sem er í hýðinu eins og önnur stein-og snefilefni og einnig B-vítamín.

Járninnihaldið er mismunandi eftir korntegundum. Sérstaklega mikið járn er í höfrum, hirsi, quinua og spelti. Í hýðinu eru einnig önnur stein-og snefilefni sem eru mjög mikilvæg fyrir heilsuna þó við þurfum sum þeirra í mjög litlum skömmtum. Ef hýðið hefur verið fjarlægt frá korninu þá eru þessi efni ekki til staðar og þá þarf að bæta þeim við. Þar sem þetta er gert er það aðallega járni og B-vítamíni sem bætt er við og það er ekki náttúrulegt heldur tilbúið. Það er ekki eins gott fyrir líkamann og nýtist honum ekki eins vel. Einnig getur fólk fengið í sig of mikið járn ef það borðar of mikið af járnbættum matvörum.

Þegar gefa á fyrsta grautinn er mikilvægt að hann sé auðmeltanlegur og fínmalaður. Helst að gefa bara þunnan velling. Gott er að byrja á rísgraut. Hann er mjög fínmalaður og glútenlaus. Aurion grautarnir eru soðnir í vatni og þegar þeir eru tilbúnir er mjólk bætt út í. Þá er hægt að velja kúamjólk, sojamjólk, rísmjólk eða möndlumjólk eftir því hvort barnið þolir kúamjólk eða ekki. Þó að mjólkuróþol og ofnæmi sé algengt þá þola samt flest börn kúamjólkina. Mikilvægt er að fylgjast með því hvernig barnið bregst við nýjum mat. Ef barnið þolir ekki kúamjólk er ráðlegt að nota ekki einungis sojamjólk í staðinn. Sum börn þola ekki sojamjólkina eftir einhvern tíma ef þau fá hana eingöngu.

Núna er til í verslunum lífræn kúamjólk sem ekki hefur verið fitusprengd og er hún mjög góð. Athugið samt að börn innan 1. árs eiga ekki að fá óþynnta mjólk. Frá 6. mánaða aldri er best að þynna hana til helminga fyrst og síðan minna. Eftir 1. árs er í lagi að þau fái óþynnta mjólk. Börn sem þola ekki nýmjólk þola oft betur sýrðar mjólkurafurðir. Þær eru auðveldari fyrir meltinguna og kalkið úr henni nýtist líkamanum miklu betur en úr nýmjólk. Einnig þola sum börn, sem þola ekki nýmjólk, rjóma. Ekki er fáanlegur ennþá lífrænn rjómi en rjóminn í verslunum er þó ekki fitusprengdur. Í verslunum er bæði fáanleg lífræn AB-mjólk og lífræn jógúrt.

Til að fá fjölbreytni í ávaxtabragð og engan hvítan sykur er hægt að setja lífrænar sykurlausar sultur út í AB mjólkina eða hreinu jógúrtina. Þær eru til í mörgum bragðtegundum frá Ekoland, ég mæli með t.d. apríkósusultu en apríkósurnar eru einmitt svo auðugar af járni. Þessar sultur eru einnig mjög góðar sem eftirréttur, nokkrar tsk. í skál og smá rjómi útá. Fyrir þá sem ekki þola venjulegan rjóma, er til sojarjómi og hafrarjómi. Eigum við að sæta grautana? Auðvitað eigum við alls ekki að nota hvítan sykur, en sum börn þurfa einfaldlega eitthvað sætt, enda ekki undarlegt því móðurmjólkin er dísæt. Þá er mikilvægt að nota sætuefni sem eru sem minnst unnin eins og þurrkaða ávexti, rófusíróp eða óunninn hrásykur.

Óunninn hrásykur og rófusíróp innihalda töluvert magn af járni og einnig B-vítamín (sjá einnig grein í blaðinu um rófusíróp). Ekki er spurning um að nota mikið magn af sætu, ca. 5% af grautnum er hæfilegt. Einnig er gott að setja nokkra dropa af sítrónusafa eða sólberjasafa út í grautinn til að fá C-vítamín til að auðvelda líkamanum að nýta sér járnið úr grautnum. Einnig er gott að setja út í grautinn smávegis af jurtaolíu eða ósöltuðu smjöri ca. 8 g í hverja máltíð. Þá fær barnið hinar mikilvægu lífsnauðsynlegu fitusýrur ómega 3-6 og 9. Það þurfa að vera kaldpressaðar olíur unnar úr lífrænt ræktuðu hráefni og er hægt að nota ólífuolíu (mest ómega 9 ), sólblómaolíu (mest ómega 6) og hörfræolíu (mest ómega 3). Það má ekki setja ólífurnar út í grautinn fyrr en rétt áður en barnið fær hann, það er eftir suðu þegar hann hefur kólnað og er tilbúinn til neyslu.

Mjólkuraukandi te:
1 tsk. Helios ammete sett í bolla af sjóðandi vatn, látið standa í 5-10 mín. og sigtað.

Fennilte:
½ tsk fennilfræ í ¼ l af vatni. Suðan látin koma upp og fræin látin liggja í vatninu undir loki í ca. 2 mín. Sigtað. (Gott fyrir barnið við vindverkjum).

Kamillute:
1-2 kamillublóm í bolla. Hellið sjóðandi vatni yfir og látið standa undir loki í 2-3 mínútur. Sigtið. (Slakandi og róandi) Drukkið ca. ½ l á dag.

Möndlumjólk:
1 msk. tilbúið ljóst möndlumauk ósaltað frá Rapunzel eða Monki. 1½ dl af volgu vatni. Þetta er pískað vel saman. Þetta er mjög næringarríkt.

Hrísgrjónaseyði:
25g (½ dl) lífrænt ræktuð hrísgrjón þvegin og lögð í bleyti í ½ l af vatni yfir nótt. Soðið undir loki í 1 klst. og sigtað frá. – Á sama hátt má gera seyði úr fleiri korntegundum.

Aurion barnagrautar:
1 hluti af grautarmjöli og 4-6 hlutar af vatni sett í lítinn pott og látið sjóða í 2 mínútur. Síðan tekið af hellunni og látið standa í 10 mínútur.

Höfundur: Hildur GuðmundsdóttirFlokkar:Fjölskylda og börn, Greinar

Flokkar/Tögg, , ,

%d