Túnfifill – Taraxacum officinale – körfublómaætt

Útbreiðsla og kjörlendi: Algengur um allt land. Vex í graslendi, við hús og bæi og til fjalla. Nýttir plöntuhlutar: Rót og blöð. Söfnun: Takist fyrir blómgun. Virk efni: Bitrir sykurungar, þ.á.m. taraxakín, efni lík hormónum, þ.á.m. sítóseteról, taraxateról og taraxerín, einnig innúlín og aðrar sykrur, barksýrur, vaxefni, ýmis vítamín og steinefni, t.d. mikið af kalíum.

Áhrif: Þvagdrífandi, styrkir lifur og meltingarfæri, örvar hægðir og gallmyndun. Notkun: Túnfífillinn er sennilega sú  jurt sem nú er mest notuð til lækninga.Margir blanda saman rót og blöðum til að nýta verkun beggja hluta sem best. Blöðin, sem eru mjög næringarrík, verka lítið á lifrina, en eru þvagdrífandi og innihalda mikið af kalíum. Þau eru því mikið notuð við bjúg, einkum ef hann orsakast af máttlitlu hjarta. Rótin er notuð við öllum lifrar- og gallblöðrusjúkdómum, t.d. gulu og einnig við meltingartregðu, svefnleysi og þunglyndi. Rótin er mjög góð fyrir fólk sem þarf að styrkja sig eftir langvarandi lyfjatöku eða áfengisneyslu. Rótin er einnig góð við bjúg sem orsakast af vanvirkri lifur. Fíflamjólkina má nota á vörtur og líkþorn.

Skammtar:
Urtaveig: 1:5, 25% vínandi, 5-10 ml þrisvar á dag. Te af blöðum og seyði af rót: 1:10, 1-2 dl þrisvar á dag 1-2 tsk: 1 bolli af vatni, drukkið þrisvar á dag. Mjólkursafinn til útvortis notkunar.
? Börn þurfa minni skammta.
? Túnfífillinn er algjörlega skaðlaus jurt, jafnvel í stórum skömmtum.
? Úr blómunum má búa til bragðgott fíflavín og blöðin þykja góð í salat.
? Fyrrum var seyði af fíflablöðum notað til andlitsþvotta í fegrunarskyni og ristuð rótin var notuð í kaffibæti. Heimild: Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir, Íslenskar lækningajurtir – söfnun þeirra, notkun og áhrif. Bókaútgáfan Örn og Örlygur 1992.

Fífill
(Bifukolla, ljónstönn, túnfífill, ætifífill) Taraxacum officinalis Blómgast í maí til september. Vex á túnum og í byggðum. Um allt land. Takist fyrir blómgun. Örvar hægðir og þvaglát, eyðir bólgum, mýkjandi, þynnir vessa. Notað við meinlætum (innanmeinum), vatnssýki, harðlífi, þvagstemmu, skyrbjúgi. Af seyði blaðanna, sem nefnist hrafnablöðkur, drekkist 1 bolli daglega. Úr því er gott að þvo klæjandi limi. Gott þótti að leggja marin blöð við lítil sár og útbrot. Fyrrum voru framleidd fegrunarlyf úr fíflum, t.d. með því að sjóða þá og nota síðan seyðið. Konur þvoðu andlit sitt með því til húðfegrunar. Víða um lönd eru blöðin notuð til matar sem salat. Franskir sjómenn fóru í fíflaleit hér á landi á vorin og gæddu sér um borð á fíflasalati, enda rækta Frakkar fíflana sem matjurt. Rangvellingar grófu upp fíflarætur vor og haust, steiktu þær á glóð og borðuðu heitar með smjöri, líka steiktar á pönnu í smjöri. Unglingar borðuðu rótina hráa. Gott þótti að sjóða ræturnar í mjólk. Þær voru einnig þurrkaðar og brenndar og notaðar í kaffi í staðinn fyrir eða með kaffirót. Heimild: Björn L. Jónsson, Íslenskar lækninga- og drykkjarjurtir. Náttúrulækningafélag Íslands 1973

Fíflaseyði
Eftirfarandi seyði úr fíflum er talið geta haft góð áhrif á lifrina, einnig er góð reynsla af því gegn ýmsum tegundum blöðrubólgu.

Uppskrift:
9-15 gr. túnfífill (rót, má vera blandað með blöðum.
2-3 gr. lakkrísrót
3 – 4 þunnar sneiðar engiferrót
3 gr. piparmynta
1 ltr. Vatn
Allt nema piparmynta, soðið í 15 til 20 mínútur í lokuðum potti. Tekið af suðunni og piparmyntu bætt út í. Látið kólna í lokuðu.

I.S.



Flokkar:Jurtir