Réttur skófatnaður dregur úr fótameinum

Fótaaðgerðarfræðingar fjalla um skófatnað
Allt frá dögum Egypta hefur skófatnaður verið hannaður til að vernda fætur og prýða og þess vegna algengt að tískuhönnuðir ákveði hvernig skótískan er hverju sinn iog skóhönnuðir margir hverjir hafi að engu hvernig fætur eru skapaðir er þeir hanna skó. Útkoman verður því allskyns eymsli sem hrjá fólk og má oft rekja þau til rangs fótabúnaðar sem notaður hefur verið oft árum saman. Þetta er ekki nýtilkomið eins og gamalt máltæki sem segir „að sjá megi hvar skóinn kreppi að“ þegar einhver eða einhverjir eru komnir í miklar þrengingar.

Ef líkaminn á að geta hreyft sig eðlilega og viðhaldið heilbrigði verða skórnir að vera rétt sniðnir á fæturna. Skórnir eiga að veita vörn gegn hverskyns álagi og verða að vera hæfilega rúmir svo að tærnar séu ekki aðþrengdar og hælkappinn styðji vel við ökklann. Fæturnir halda uppi stoðkerfi líkamans og viðhalda því heilbrigði hans með hollri hreyfingu, hreyfingu sem kallar á sársaukalausar fætur.Til þess að halda fótum okkar heilbrigðum án allra eymsla eða „fótapínu“ (samanber tannpínu) ber okkur að huga vel að þeim ekki síður en öðrum líkamshlutum.

Fólk sem þjáist af vökvasöfnun (bjúg) í fótum þarf að velja rétta skó og stuðningssokka og einnig ef viðkomandi á til að misstíga sig oftar en aðrir samferðamenn og er þar af leiðandi laus í ökklanum þá þarf stuðningurinn að vera góður til þess að hindra ökklaskaða sem er mjög algengur og sársaukafullur fyrir utan að vera kostnaðarsamur fyrir einstaklinginn Fólk hefur mismunandi þarfir fyrir skó, allt eftir því hvaða störfum það gegnir og úrvalið hefur aldrei verið meira af hverskyns efnum sem notuð eru til skógerðar.

Að velja góða skó, veldur fólki oft heilabrotum því að úr mörgu er að velja og tískan hefur sitt að segja. Algengast er að fólk velji sér of stutta eða/og of þrönga skó. Hversvegna? Margt fólk hugsar því miður ekki vel um fæturna á sér eða eins og það beri takmarkaða virðingu fyrir þessum líkamshluta, og það er ekki fyrr en fótamein (hin fyrrnefnda fótapína) gerir vart við sig að fólk vaknar upp við vondan draum, eymsli farin að gera vart við sig í hnjám, baki eða mjóhrygg, fyrir utan eymsli í fótunum sjálfum, tám og iljum. Öll fræðsla varðandi kaup á skófatnaði ætti að vera kærkomin.

Vel upplýstur skókaupandi velur sér væntanlega betri skófatnað. Rétt sniðnir og vel passlegir skór úr vönduðum efnum, notaðir við réttar aðstæður er stór þáttur í að halda líkamanum heilbrigðum og jafnframt besta vörnin í baráttunni við fótamein sem hafa áhrif á versnandi heilsufar manneskjunnar og dregur verulega úr lífsgæðum hennar. Kaup á rétt völdum skóm er góð fjárfesting sem hefur bætandi áhrif á heilsu okkar. Fótaaðgerðafræðingar eru heilbrigðisstétt sem er þjálfuð í umönnun fóta. Þeir geta leiðbeint allri fjölskyldunni um val á réttum skóm og veitt upplýsingar um almenna umönnun fótarins.

Skór barnsins
Þegar barn byrjar að ganga eru skór almennt ekki nauðsynlegir. Það á að leyfa ungbarninu að ganga um berfættu eða á sokkaleistunum (gjarnan með stömum sóla) það hjálpar fætinum að vaxa eðlilega, þjálfar og styrkir vöðvana jafnframt því sem tágripið þjálfast. Þegar börnin fara að hlaupa meira um og fætur þeirra þroskast eykst þörfin fyrir skó. Nauðsynlegt er að fylgjast vel með vaxtarhraða fótanna svo þeir hafi alltaf nægjanlegt rými í skónum og athugið að skór, sem aðrir hafa átt, mótast af fótum fyrri eiganda. Látið því börn ekki vera í notuðum skóm.

Skór fullorðinna
Konur hafa oft farið illa með fætur sínar í gegnum árin með því að ganga í skóm sem þeim finnst þær þurfa að vera í útlitsins vegna. Skórnir eru þá valdir eftir höfðinu en ekki eftir þeirri stærð og  lögun fótanna sem hentar hverri og einni konu. Slíkt val veldur því, að fyrr eða síðar verða fætur fyrir ónauðsynlegum skaða. Sum þessara meina endurtaka sig vegna breytinga og skemmda á beinum, liðum og brjóski. Ástæðan er oft notkun á þröngum og litlum skóm.

Krónískir sjúkdómar s.s. gigt og sykursýki hafa slæm áhrif á fætur og þess vegna þarf fólk með þessar fylgjur að vera sérstaklega vakandi yfir velferð fóta sinna. Skór með hælum hærri en 3.5cm og of mjórri tá sem þrýsta tánum saman inni í skónum valda miklu álagi á mjóbak mjaðmir, hné og ristarbein, of mikið álag verður líka á tábergið og um leið á táliðina sem oft skekkjast vegna álags og brjóskeyðingar sem getur orðið í smáu táliðunum. Við allan þennan núning undir tábergið myndast oft þykkildi sem hæglega geta orðið að slæmum líkþornum.

Fótaaðgerðafræðingar telja slíka skó ( með hælum hærri en 3.5cm),mjög óæskilegan fótabúnað frá heilbrigðissjónarmiði, en þar sem fók velur sjálft sinn fótabúnað má benda á að hægt er að draga úr þessum skaðlegu áhrifum með því að skipta um skó yfir daginn og fara á lægri hæla til að hvíla fæturna. Hægt er að fá mjög klæðilega skó með lægri hælum og breiðari tá. Skótíska karla hefur á undanförnum árum verið þokkalega fótavæn en það gæti verið vegna þess að karlar þola verr sársauka en konur og þess vegna velja þeir sér sjaldnar skó sem eru þröngir og/eða of stuttir.

Í vinnu þar sem aukin hætta er á fótameiðslum nota flestir karlmenn (og konur sem á slíkum stöðum vinna) öryggisskó með stáltá en þeir eru oft hluti af öryggisreglum fyrirtækja til þess að koma í veg fyrir slys. Bestu skórnir fyrir bæði karla og konur eru náttúrulega formaðir fótlaga skór, reimaðir með mjúkum sveigjanlegum sóla og lágum hæl. Gott er að hafa skóskipti til að hvíla bæði fætur og skó og ef skór bila, látið gera við þá eða takið þá úr umferð.

SLITNIR SKÓR
Athugið; að ekki er allt sem sýnist. Skoðið skóna ykkar vel, ekki síst slit á sóla, innleggjum og hælkappa, þreifið skóna vel að innanverðu. Slitnir skór auka á fótamein og geta verið smitberar. Hér má oft finna lykilinn að versnandi heilsufari. Eymsli geta verið í tám, rist, ökkla, hnjám, mjöðmum, mjóbaki og leiða þau jafnvel ofar í stoðkerfið.

Skór íþróttafólks
Mismunandi íþróttir kalla á mismunandi skó sem verja fætur og ökkla og veita góða höggvörn. Það er ekki bara góð hugmynd að nota „rétta“ skó fyrir hverja íþróttagrein þ.e. skó sem eru hannaðir með íþróttagreinina í huga, það er nauðsynlegt. „Íþróttaskór“ sem notaðir eru dags daglega sem léttur skófatnaður eru ekki hannaðir sem æfingaskór fyrir hlaup, en þó er ástand skófatnaðarins mikilvægara. Notið ekki íþróttaskó langt umfram „líftíma“ þeirra. Það eykur hættuna á meiðslum þegar skórnir eru hættir að geta gegnt sínu hlutverki vegna slits.

Þegar þú kaupir skó;
1. Láttu mæla báða fætur þína standandi.
2. Mátið alltaf báða skóna og gangið um í búðinni.
3. Kaupið alltaf skó á stærri fótinn, fætur eru sjaldan jafnstórir.
4.Kauptu ALDREI skó sem þarf að ganga til. Skór eiga að vera þægilegir strax.
5. Festu þig ekki við að kaupa sama númer af skóm og síðast. Fætur okkar stækka með árunum og skónúmer geta  verið mismunandi.
6. Kaupið skó seinni hluta dags, fætur hafa tilhneigingu til að bólgna yfir daginn og það er best að skórnir passi við þær aðstæður.
7. Kaupið aldrei skó sem þrengja að tánum hvorki til hliðanna né ofan frá.
8. Mátaðu skó í sömu gerð af sokkum og þú býst við að vera í þegar þú notar þá.
9. Ef þú notar innlegg í skóna hafðu þau alltaf meðferðis til til að geta prófað þau í nýju skóna í búðinni.
10. Fóturinn lengist örlítið og breikkar við hlaup og langar göngur þess vegna þurfa íþrótta og útivistarskór að vera örlítið rýmri en hinir. ca. 1 númeri.
11. Innlegg eru mörgum fótum nauðsynleg þau létta á of miklu álagi, rétta rangstöðu og eru dempandi. Innleggin draga þess vegna úr þreytuverkjum. Ekki þurfa allir á sérsmíðuðum innleggjum að halda. Leitið ráða hjá fagfólki.

Höfundar: Helga Stefánsdóttir og Eva Sólveig ÚlfsdóttirFlokkar:Greinar

%d bloggers like this: