Inngangur
Í haustblaði Heilsuhringsins 1998 var birt grein um nýja hugmynd; hvernig lækna mætti krabbamein með því að koma í veg fyrir að nýjar æðar myndist í æxlinu og þannig ,,svelta“ krabbameinsfrumurnar og hindra að þær fjölgi sér. Frétt um þetta var birt í fjölmiðlum um allan heim og margir fylltust bjartsýni og vonuðu að nú væri aðeins tímaspursmál þangað til þessi gamli fjandi, krabbameinið, yrði endanlega af velli lagður.Því miður reyndust efnin ,,Angiostatin“ og ,,Endostatin“ ekki eins vel og vonir stóðu til, en þó er þessi hugmynd að lækna krabbamein með nýæðahindrandi efnum, ennþá í fullu gildi. Til dæmis hefur gamla lyfið ,,Thalidomide“, sem á sínum tíma olli alvarlegum fæðingargöllum, fengið nýtt hlutverk sem öflugt nýæðahindrandi efnasamband, sem reynst hefur vera nothæft krabbameinslyf, eftir að tókst að finna ástæðuna fyrir því hversvegna það olli fósturskemmdum.
Það thalidomide sem á markaðinum var fyrir meira en 40 árum var samsett úr tvennum svokölluðum ,,spegil-ísómerum“, sem mynduðust í jöfnum hlutföllum, þegar efnið var búið til. Aðeins annar ,,ísómerinn“ olli fæðingargöllunum. Hinn ekki. Spegil-ísómerar hafa nákvæmlega eins sameindabyggingu. Eini munurinn er sá sami og er á hægri og vinstri hlið. M.ö.o. er annar ísómerinn eins og spegilmynd hins ísómerans. Nú hefur tekist að búa til thalidomide, sem í er aðeins sá ísómerinn sem ekki veldur fæðingargöllum, að því talið er, og farið er að nota það sem krabbameinslyf.
Það var þó ekki um thalidomide, sem ég ætlaði að fjalla í þessum greinarstúf, heldur jurtalyf sem töluverðar vonir eru bundnar við um þessar mundir og talið er að hindri nýæðamyndun hundrað sinnum betur en hákarlabrjósk, sem trúlega er fyrsta efnið með þannig verkanir sem notað hefur verið við krabbameinslækningar. Þetta jurtalyf, sem nefnt er ,,Vascu-Statin“, er svokölluð ,,proteoglycan“ efnablanda, sem e.t.v. mætti nefna á íslensku ,,prótein-sykru“ og er unnin úr illgresi, vafningsjurt sem nefnd er Akurklukka (convolvulus arvenis) og er algeng víða um lönd og mikill þyrnir í augum þeirra sem stunda landbúnað.
Vafningsjurtin uppgötvuð
Eiginlega má segja að kennslukona frá Tulsa í Oklahoma í Bandaríkjunum hafi orðið upphafið að þessu öllu saman. Kennslukonan sem heitir Myrna Simone Corbette fékk krabbamein í eggjastokka og var sagt að hún ætti sennilega skammt eftir ólifað.Hún frétti um indíána, sem sagt var að mundi geta læknað hana og hann bruggaði jurtaseyði úr illgresi, akurklukku, sem hún drakk og ári seinna var hún laus við krabbameinið í eggjastokkunum, ásamt öllum meinvörpum sem hún hafði haft. Árið 1994 frétti Corbette um feðga, tvo lækna sem fúsir voru til að hlusta á sögu hennar. Faðirinn var geðlæknir og sérfræðingur í ,,orthomolecular“- lækningum, Hugh D. Riordan að nafni og sonur hans Neil H. Riordan, sem var heilsugæslulæknir með nýjungar í krabbameinsmeðferð sem sérgrein.
Nú eru þeir báðir lífefnafræðilegir sérfræðingar við Bio Communications Research Institute, Improvement of Human Functioning, Wichita, Kansas, USA. Þeir hafa unnið í sameiningu að krabbameinsrannsóknum, m.a. á að nota C-vítamín og ýmis önnur náttúruefni, auk akurklukku-extraktsins, gegn krabbameini. Þeir hafa m.a. uppgötvað jurta extrakt, sem þeir nefna Muramyl-Polysaccharide-Glycan-Complex (MPGC) sem e.t.v. er tímamóta næringar-bætiefni gegn meinfrumum. Það verður þó ekki rætt nánar í þessari grein.Þeir uppgötvuðu heilmikið af prótein-sykrum í akurklukku-extrakti, sem þeir gáfu nafnið Vascu- Statin, sem ég hér eftir í þessari grein mun skrifa vascustatin, en vegna þess að um er að ræða flókna efnasamsetningu fjölmargra próteinsykra mun ég ekki ræða nánar efnainnihald extraktsins.
Vascustatin hindrar nýæðamyndun
Í ljós kom að vascustatin er öflugur hindrari á að nýjar háræðar myndist. Þetta var fyrst sýnt fram á með aðferð sem J. William Lane þróaði til að nota við hákarlabrjósk og sagt var frá í Heilsuhringnum á sínum tíma. Notuð voru kjúklingafóstur og dropi af vascustatin settur nálægt miðju svæðisins, sem síðar verður líffæri eða útlimur. Vascustatin hindraði verulega að nýjar háræðar yrðu til og þær sem fyrir voru hurfu eða eyðilögðust og líffærið „svalt“ því af næringarskorti. Sama á sér stað með æxli sem eru að myndast. Vegna þess að æðakerfið í æxlum er venjulega ófullkomið og að meirihluta háræðar eða óskipulegar smáæðar eru þær sífellt að eyðileggjast og þarfnast stöðugrar endurnýjunar.
Sé nýæðamyndun heft kemur því fljótlega að því að æxlið fer að skorta næringu og deyr innanfrá. Þó að vascustatin sé að vísu mjög öflugur nýæðamyndunar hindrari, hindrar það þó ekki algerlega að nýjar æðar verði til. Það fer þó töluvert eftir því hversu mikið er notað af efninu og sennilega er ennþá ekki búið að finna besta skammtinn. Við músatilraun hindraði efnið að æxlin þyngdust frá 54-77%, miðað við samanburðarhóp, mest hjá þeim músum sem stærsta skammtinn fengu af vascustatin. Þar að auki hvetur vascustatin ónæmiskerfið á fleira en einn veg, t.d. með því að örva átfrumur (phagocytes) og eitilfrumur. Virkni þessara varnarfruma getur skipt sköpum í sumum tilfellum. Ónæmisvirknin jókst með aukinni skammtastærð af vascustatin. Riordan feðgar, sem áður getur, nefna fimm jákvæð atriði við að nota vascustatin:
1. Vascustatin hindrar nýæðamyndun í illkynja æxlum.
2. Sýnt hefur verið fram á að vascustatin stöðvar óeðlilegan frumuvöxt í músum með krabbamein.
3. Vascustatin er virkt, hvort sem það er gefið inn í gegnum meltingarfærin eða sem sprautumeðferð í vöðva eða æð.
4. Vascustatin eykur virkni, bæði hjá átfrumum og eitilfrumum í tilraunaglösum.
5. Vascustatin hefur mikla ónæmishvetjandi verkun. Fyrir utan dýratilraunir og einstaklinga sem notað hafa vascustatin, eru nú í gangi vísindalegar prófanir, t.d. hjá Ben Pfeifer, prófessor og forstjóra fyrir Læknisfræðilegar rannsóknir (Clinical Research) við Aeskulap krabbameinsmiðstöðina í Brunnen í Sviss. Niðurstöður rannsókna hans verða líklega birtar mjög bráðlega. ,,Niðurstöður annarra rannsókna verða birtar þegar þeim lýkur“, segir Neil Riordan ,,og því get ég ekki sagt meira frá þeim, en þær eru afar mikilvægar og fyrstu dýratilraunirnar verða birtar mjög fljótlega í tímaritinu Anticancer Research“.
Nokkrar sjúkdómssögur
Julian Kenyon, læknir, sem upphaflega var skurðlæknir en sneri sér síðan að óhefðbundnum eða hjálækningum, eins og sumir nefna svo, hefur notað vascustatin síðan árið 2000. Hann segir um reynslu sína: ,,Samverkafólk mitt og ég sjálfur hef horft á að vascustatin er áhrifaríkt ný æðahindrandi efni. Mig langar til að segja nokkrar sjúkdómssögur máli mínu til staðfestingar“: Karlmaður, 64 ára gamall, var hættur að geta unnið vegna lungnakrabbameins á háu stigi. Honum hafði verið haldið gangandi eftir að liðið var hálft ár fram yfir að talið var að hann hefði átt að vera dáinn. Þótt hann fengi enga aðra krabbameinsmeðferð en vascustatin, tvö hylki, tvisvar á dag. Vegna kostnaðar hafði hann ekki efni á neinu öðru. Honum líður vel, að undanskildum dálitlum hósta og hann getur ferðast frá Cambridge til Lundúna og gengið þar um, þegar honum sýnist. Annar krabbameinssjúklingur, sem lyfjameðferð var hætt að verka á, fékk vascustatin til viðbótar við lyfjameðferðina. Þá virtist eins og lyfjameðferðin færi aftur að verka.
Maðurinn sem er 61 árs, fór aftur að vinna sem bankastarfsmaður, enda þótt hann væri ennþá á lyfjameðferð. Kenyon, læknir segist þekkja fjölda sjúklinga sem líkt er ástatt með. Eitt dæmið er um konu sem þurfti að nema burtu úr barkakýlið, vegna skjaldkirtilskrabbameins. Á eftir átti hún mjög erfitt með að kyngja, þar til hún fékk vascustatin, tvö hylki, tvisvar á dag. Nú kyngir hún án erfiðleika. Leonid Marchert, læknir, sem er forstjóri fyrir Partners in Wellness Treatment Center í Cincinnati í Ohio, segir m.a. svohljóðandi: Vascustatin hefur gert heilmikið gagn fyrir marga sjúklinga mína. Einn þeirra er 34 ára gömul kona, gift með tvö börn. Lyfjameðferð dugði ekki til að lækna hana af eggjastokkakrabbameini og meinsemdin hafði verið tekin með skurðaðgerð. Aðgerð sem gera þurfti á þörmum hennar til að lagfæra skaða sem sjúkdómurinn hafði valdið olli því að hún átti í miklum erfiðleikum með meltinguna og að fá næringu úr fæðunni. Eftir að hún fékk viscustatin varð ótrúleg breyting á henni og henni líður nú vel og er laus við meinvörp.
Framtíðarsýn
Eftir er að ákveða hversu lengi á að nota vascustatin. Reyndar er engin ástæða til að álíta að efnið hætti að verka við langvarandi notkun en sennilega verður að hætta því tímabundið á meðan fólk er að ná sér eftir slys eða meiðsli og einnig ef gera þarf skurðaðgerðir, á meðan sárin eru að gróa og fyrst á eftir. Einnig er eftir að ákveða hversu stóra skammta hagkvæmast er að nota. E.t.v. má nota stærri skammta en notaðir hafa verið fram að þessu. Sennilega má nota flest krabbameinslyf samhliða vascustatin. Sama má trúlega segja um flest náttúrulyf og sum gætu jafnvel haft samverkun með vascustatin, eins og reyndar má einnig segja um önnur nýæðahindrandi lyf, t.d. angiostatin og endostatin, hákarlabrjósk eða thalidomide. Allt þetta bíður frekari rannsókna og á meðan verðum við að láta okkur nægja sú vitneskja sem við þegar höfum.
Heimild: Morton Walker, Townsend Letter for Doctors and Patients, maí 2002. Vefsíða Walkers er: http://www.drmortonwalker.com
Höfundur Ævar Jóhannesson haust 2002
Flokkar:Krabbamein