Vítamínneysla lagar æðahrörnun og fleira

Í Townsend Letter for Doctors and Patients í janúar 2001 eru nokkrar smágreinar eftir Alan R. Gaby lækni. Þessar greinar fjalla flestar um æðasjúkdóma og tengsl þeirra við skort á nokkrum vítamínum, sérstaklega B6, fólínsýru og B12. Ég hef oft áður rætt um skylt efni, en vegna þess hversu þessir sjúkdómar eru algengir og valda sennilega dauða fleiri Íslendinga en nokkrir aðrir sjúkdómar, ætla ég þó að segja frá því í örfáum orðum, sem dr. Gaby hefur um þetta að segja.

Hundrað og einn sjúklingur, að meðaltali 53 ára gamlir, voru allir með fjölda áhættuþátta fyrir hjarta- og æðasjúkdóma. Hjá flestum þeirra hafði æðakölkun verið staðfest. Þeir voru látnir fá daglega 2,5 mg af fólinsýru, 25 mg af pyridoxin (B6) og 0,25 mg af cyanocobalamín (B12). Í 51 sjúklinganna var homocystein í blóði meira en 14mcmol/l en í 50 þeirra minna en 14 mcmol/l. 14mcmol/l (micromol í lítra) er talið nægilega mikið til að nauðsynlegt sé að gera eitthvað til að minnka það, vegna þess að hómócystein hvetur oxun kolesterols, en oxað kolesterol sest innan í æðar og getur valdið og veldur oft lífshættulegum æðaþrengingum.

Áður en byrjað var að nota vítamínin höfðu þannig útfellingar innan í slagæðum sjúklinganna verið að smá-aukast, en eftir að þeir fóru að nota vítamínin fóru þessar útfellingar að smáminnka. Athygli vakti að jafnvel þó að hómócystein í blóði væri ekki talið hættulega mikið, minnkuðu útfellingar í slagæðum eigi að síður við að nota vítamínin. Vitað er að minnsta kosti eitt þessara vítamína, B6, hindrar oxun kolesterols eftir fleiri leiðum en að draga úr myndun homócysteins, eins og ég reyndar sagði frá í grein í Heilsuhringnum fyrir allmörgum árum.

Alan R. Gaby ráðleggur í framhaldi af þessu, að allir með meira hómócystein í blóði en 9 micromol í lítra, ættu að taka daglega áðurnefnd vítamín og allir sem þjást af æðakölkun ættu að nota daglega B6 – vítamín, hvort sem hómócystein í blóði þeirra er of mikið eða ekki. Þessi ráðlegging er m.a. styrkt af annarri könnun sem dr. Gaby segir frá í sama blaði. Í henna tóku þátt tuttugu ungir sjálfboðaliðar (18-33 ára). Notuð voru 10mg á dag af fólinsýru, sem er mjög stór skammtur, meira en 20 faldur ráðlagður dagskammtur. Þrátt fyrir að hómócysteinmagnið í blóði þátttakenda væri ekki hátt, 7,2 mcmol í lítra, lækkaði það í 5 mcmol á hálfum mánuði við að nota vítamínið.

Gaby bendir á að e.t.v. megi komast af með eitthvað minna af vítamíni, án þess að árangur versni, en vitanlega þarf að prófa það, áður en neinu verður slegið föstu í þeim efnum. Einnig er sennilega rétt að nota B12 – vítamín samhliða, því að svona stór skammtur af fólinsýru getur í undantekningartilfellum falið eða „maskað“ B12 skort, sem valdið getur m.a. taugaskaða. Í sama blaði segir dr. Gaby frá 127 þunglyndissjúklingum sem fengu við tilraun lyfið fluoextine (Prozac, Fontex), 20mg á dag. Helmingur þeirra var valinn tilviljanakennt til að fá 0,5mg (500mcg) af fólinsýru en hinn helmingurinn fékk lyfleysu.

Tilraunin stóð í 10 vikur. Af þeim sem luku prófuninni var umtalsvert betri árangur hjá þeim sem notuðu vítamínið. Allir í könnuninni voru með einkunn yfir 20 á Hamilton þunglyndis mælikvarða (Hamilton Rating Scale, 17 atriða afbrigði). Í lok könnunarinnar var þessi tala hjá konum 6,8 í vítamínhópnum en 11,7 í lyfleysuhópnum. Ekki var sagt hverjar þessar tölur voru hjá körlum en þær voru eitthvað lakari. Einnig er athyglisvert að aðeins 12,9% þeirra sem notuðu vítamínið kvörtuðu um hliðarverkanir af fluoxetine geðlyfinu, en 29,7% þeirra sem notuðu ekki fólinsýru. Þessi könnun gæti bent til að allir sem nota fluoxetine (eða önnur samheitalyf) ættu einnig að nota fólinsýru. Einnig væri mikilvægt að sjá hvort stærri skammtar en 0,5mg, sem er frekar lítill skammtur af fólinsýru (og jafnvel önnur vítamín með) gætu hjálpað þunglyndissjúklingum meira.

Höfundur Ævar J.óhannesson árið 2001Flokkar:Úr einu í annað

Flokkar/Tögg, , , , , , , , ,

%d