Wayne Martin skrifar langa grein í Townsend Letter for Doctors and Patients, desember 2000. Þessi grein kemur víða við en ræðir þó einkum um eyðni og hugsanlegar lækningar á þeim illvíga sjúkdómi. Í þessum greinarstúf, sem hér kemur fyrir almenningssjónir, verður það helsta í grein Wayne Martins, annaðhvort þýtt óbreytt eða endursagt dálítið stytt. Margt það sem Wayne Martin ræðir um er mjög áhugavert og spennandi og jafnvel þó að ekki megi líta þannig á að það sé allt „vísindalega sannað“ er þó áreiðanlega full ástæða til að eyðnisjúklingar (og læknar þeirra) taki þessar upplýsingar með fullri alvöru. Hér gef ég svo Wayne Martin orðið: Það er svo margt sem eyðnisjúklingar geta gert til hjálpar, sem almennt hefur samt ekki verið gert.
Áður en lengra er haldið er rétt að nefna dr. Wagner-Jaunegg. Árið 1918 sýndi hann fram á að væru syfilis-sjúklingar sýktir af malaríu læknaðist heilasyfilis, sem áður var talinn banvænn. Árið 1927 fékk hann Nóbels-verðlaun í læknisfræði fyrir uppgötvun sína. Frá 1918 og fram til síðari hluta sjöunda áratugarins læknaði malaría þúsundir einstaklinga af annars ólæknandi syfilis. Eitt afbrigði malaríu, P. vivax, er auðlæknanlegt með lyfjum, en áður en lengra er haldið er rétt að fræða lesendur um dr. Henry Heimlich, sem stofnaði Heimlich Institute Foundation Inc. til að vinna að því að nota malaríu við að lækna eyðnisýkingu.
Hann kynnti sér til hlítar hvernig malaría var notuð til að lækna syfilis (sárasótt). Ein aðferðin var að taka 10ml af blóði úr sjúkling sem sýktur var af P.vivax malaríu. Síðan var þetta blóð sett í æð á sjúkling með taugaheila-syfilis. Eftir nálægt 10 daga fékk hann fyrsta sótthitakastið, sem endurtók sig annan hvern dag. Sjúklingurinn var oftast látinn fá 10 sótthitaköst á 20 dögum. Síðan var malarían læknuð með lyfjum en yfirleitt læknaðist syfilisinn við þetta.
Hugmynd dr. Heimlich var að hægt mundi að nota sömu aðferð við að lækna eyðni. Hann fór til Alþýðulýðveldisins Kína til að prófa þetta fyrir nálægt 5 árum, þar sem tveir eyðnismitaðir sjúklingar voru smitaðir með malaríu, eins og hér hefur verið lýst. Þessir sjúklingar voru með 300-500 CD-4 frumur í ml. blóðs. Að öðru leyti höfðu þeir engin einkenni. Þegar búið var að meðhöndla þá með malaríu, eins og áður var lýst, í 30 daga var eyðni (HIV) veirufjöldinn í blóði þeirra kominn niður í 0 og CD-4 frumufjöldinn orðinn næstum því eðlilegur.
Ekki er vitað hversu margir í Kína hafa núna fengið þessa læknismeðferð en dr. Heimlich telur að þessi aðferð sé nú raunar tilbúin til fjöldanotkunar fyrir eyðnismitað fólk, sem ennþá er einkennalítið eða -laust. Helst mega CD-4 frumurnar í blóði ekki vera færri en 200 í ml blóðs.” Wayne Martin segist hafa haft vinsamleg samskipti við Mary Enig, PhD við Efnafræðideild Maryland Háskólans í USA. Þekking hennar á fitusýrum er einstæð. Hún segir: Kókoshnetuolía, sem aðallega er miðlungslöng mettuð fitusýra, er bæði bakteríu- og veirueyðandi.“ Hún telur að virka efnið í kókoshnetuolíu sé „monolaurin” sem myndist í líkamanum úr „laurin“- sýru í olíunni. Monolaurin er sagt að leysi upp fitukennda húð eða himnu sem umlykur veirur. Við það hættir veiran að hegða sér eins og veira. (Lík skýring hefur verið gefin á því að nota lesitín til að eyða veirum. þýð.)
Dr. Mary Enig segir að veiruhindrandi verkanir kókoshnetuolíu hafi verið sannaðar í prófun á nokkrum einstaklingum. Þar hafði eyðniveiruálag þeirra minnkað frá 400.000 í 2.400. Fitusýran var tekin inn í mat, nálægt 50g á dag (þetta eru þrjár eða fjórar matskeiðar). Kókoshnetuolía er einnig nefnd kókóssmjör. Vefsíða dr Mary Enig er: www.lauric.org. Þeir sem vildu vita meira um þetta ættu að líta á þessa vefsíðu.
Ef einhverjir eyðnisjúklingar vildu reyna kókósolíu við eyðni þarf að vera öruggt að um „ekta” kókoshnetuolíu sé að ræða en ekki einhverja aðra olíu t.d. kakóbaunaolíu eða herta eða hálfherta kókóshnetuolíu. Wayne Martin segist hafa verið vinur Karls Folkers, prófessors við Texas of Austin háskólann í Bandaríkjunum frá 1969 til andláts hans 1998. Sem ungur maður uppgötvaði hann B12 vítamín og aðferð til að búa það til efnafræðilega.
Sú uppgötvun hefur síðan bjargað ótöldum einstaklingum frá örkumlun og dauða og þessi uppgötvun veitti dr. Folkers heimsfrægð. Síðar fór hann að vinna með kóensím Q-10. Um 1975 hafði honum tekist að búa það til efnafræðilega á viðráðanlegu verði. Um það leyti mun hann hafa átt í einhverjum erfiðleikum í samskiptum við bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið, FDA. Það varð til þess að hann samdi við Japani um að framleiða það, en nú er framleiðsla Q-10 orðin margra milljóna dollara virði árlega. Í læknadeildinni við Texas of Austin hefur Q-10 mikið verið rannsakað við hjartabilun. Hjartalæknarnir þar mæla eindregið með því sem hjartalyfi, enda þótt flestir aðrir „rétttrúaðir“ hjartalæknar hafi ennþá ekki viljað viðurkenna það.
Árið 1991 var gerð þar könnun á hvort gagn væri af að gefa eyðnisjúklingum Q-10. Fyrst var gerð athugun sem sýndi að sjúklingar með eyðni voru með lítið Q-10 í blóði. Sjúklingar, ekki eyðnismitaðir, voru með 0,81ug (microgrömm) af Q-10 í lítra blóðs, að meðaltali, en eyðnisjúklingar höfðu að meðaltali 0,52ug. Skammturinn af Q-10 sem notaður var lítill, miðað við það sem nú mundi vera notaður, og eins
var aðferðin við að gefa það röng. Samt komu áhugaverðar niðurstöður úr þessari könnun. Aðeins fáir sjúklingar tóku þátt í könnuninni.
Einn þeirra hafði fengið eyðni með blóðgjöf. Hann þjáðist af lungnabólgu og þreytu. Eftir að hafa notað Q-10 í fjóra mánuði var hann laus við lungnabólguna og þreytan hafði minnkað. Eftir 39 mánuði var hann einkennalaus með engin merki um sýkingar. Könnuninni lauk með því að tveir sjúklingar voru eftir og höfðu þeir notað Q-10 í 37 og 39 mánuði. Þeir voru báðir lausir við tækifæris-sýkingar, sem venjulega þjá eyðnisjúklinga.
Eitt það síðasta sem Folkers, prófessor gerði fyrir dauða sinn 1998 var að finna aðferð til að auðvelda Q-10 að komast út í blóðið. Q-10 í duft- eða kristalla formi nýtist aðeins að litlum hluta. Í áðurnefndri könnun voru notuð 200mg á dag, en sennilega hefur aðeins lítill hluti þess raunverulega komið að notum. Dr. Folkers taldi að rétti skammtur við lækningar væri 500mg á dag. Hann taldi að mjög mikilvægt væri að bræða kristallana sem Q- 10 myndar, áður en þeirra er neytt, því að þeir bráðna við hitastig lítið eitt hærra en líkamshitinn er. Kóensím Q-10 er fituleysanlegt og því þarf að neyta þess með fitu eða olíu. Hann mælir með að fá sér bolla með heitu kaffi eða tei. Síðan á að setja 500mg (1/2g) af Q-10 í kristöllum eða duftformi (sem er mörgum sinnum ódýrara en í belgjum) út í kaffið eða teið. Það bráðnar á nokkrum sekúndum. Síðan á að láta eina teskeið af kókóshnetuolíu út í bollann og hræra saman við og drekka síðan, meðan það er heitt og bráðið, með aðalmáltíð dagsins.
Rétt fyrir dauða sinn undirbjó Folkers könnun á að nota Q-10 við krabbameini í blöðruhálskirtli. Niðurstöður úr þeirri könnun hafa enn ekki verið birtar en heyrst hefur að þær séu mjög spennandi. Síðan fer Wayne Martin að tala um Bernard Bihari, lækni, sem síðustu 10 ár hefur meðhöndlað krabbameinssjúklinga með lyfinu Naltrexone, 3mg á hverju kvöldi. Það eru krabbamein sem hafa mikið af frumum með opóíta-viðtökum sem hann notar naltextrone við. Þetta eru hvítblæði og krabbamein í eitlum (Hodgkins og non-Hodgkins), ristli, briskirtli og blöðruhálskirtli. Sagt er að nokkur árangur sé af þessu
Bihari, læknir hefur einnig notað naltrexone til að meðhöndla eyðnisjúklinga. Það virðist fjölga NK (natural killer cells, sjá grein í Hh vor 2000) frumum hjá þeim sem fengu naltrexone, í tólf vikna könnun á 22 eyðnisjúklingum ásamt 16 öðrum eyðnisjúklingum, sem ekki fengu naltrexone til viðmiðunar. Fimm úr viðmiðunarhópnum fengu tækifærissýkingar, en enginn úr hópnum sem fékk naltrexone. Þetta er ekki stór hópur til að draga miklar ályktanir af, en naltrexone er sagt að sé skaðlaust og ódýrt lyf, sem þarf þó að hafa lyfseðil til að geta fengið.
Í þýska tímaritinu Deutsche Zeitschrift für Onkologie, 1989 er sagt frá dr James Carter við Tulane háskólann sem gerði könnun á að nota leginn hvítlauk, Cyolic, fyrir langt leidda eyðnisjúklinga. Tíminn sem könnunin stóð yfir var 12 vikur (Townsend Letter for Doctors sagði frá könnuninni 1991 í hefti 91-92, bls. 120). Eins og sést í greininni, jókst virkni NK frumanna heilmikið eins og taflan sýnir, en léleg NK-virkni er talin spá illa fyrir eyðnisjúklinga. Tíu eyðnisjúklingar tóku þátt í könnuninni í upphafi. Þessum sjúklingum voru gefin 5g af Cyolic á dag í sex vikur og síðan 10g í aðrar sex vikur. Þrír sjúklinganna fengu meltingarvandamál eða annarskonar vandræði sem ollu því að þeir hættu. Þeir dóu allir áður en könnuninni lauk
.
Taflan hér sýnir virkni NK frumanna meðan á könnuninni stóð.
Sjúklingur Fyrir meðferð Eftir 6 vikur Eftir 12 vikur
nr. 1 4% 53% 28%
nr. 2 5% 26% 38%
nr. 3 12% 33% 68%
nr. 4 2% 14% 28%
nr. 5 3% 38% 30%
nr. 6 10% 28% 35%
nr. 7 2% 28% 25%
Eðlileg virkni er talin vera frá 22% upp í 85% (sjá grein í Hh. vor 2000, MGN-3)
Einnig batnaði hlutfallið á CD-4/CD-8 eitilfrumum heilmikið hjá flestum sjúklinganna. Þessi mikli bati í NK-virkni kom fram með ýmsu móti t.d. að niðurgangur lagaðist (cryptosporida), herpessýkingar bötnuðu, candida og annarskonar sveppasýkingar hurfu og sýkingar í nefholi einnig. M.ö.o. almennt heilsufar batnaði heilmikið og sjúklingarnir hættu að fá sótthitaköst.
Þessa einföldu læknismeðferð ættu allir eyðnisjúklingar að geta nýtt sér. Líkt má segja með að nota silfurlausnir (silver colloid) við ýmiskonar sýkingar. Þegar um 1890 voru nokkrir þýskir og bandarískir læknar farnir að nota efnablöndur með silfri í við sýkingum. Læknar nú til dags fá meiri hluta þekkingar sinnar í lyfjafræði frá stórum lyfjafyrirtækjum. Sjaldgæft er að læknar noti lyf sem ekki hafa verið þróuð og sett á markað af einhverju þeirra. Þetta hefur það í för með sér að margir halda að allt sem ekki kemur frá lyfjafyrirtækjum hljóti að vera annað hvort gagnslaust eða jafnvel skaðlegt. Lyfjafyrirtæki hafa lítinn áhuga á að nota eitthvað sem ekki er hægt að fá einkaleyfi á, sérstaklega ef efnið er ódýrt og auðvelt að framleiða. Því hafa þau ekki sýnt silfurefnasamböndum, né neinum öðrum einföldum og ódýrum lausnum áhuga og vilja ekki viðurkenna. Ein undantekning var þó lengi gerð hjá hefðbundnum læknum, m.a. á Íslandi.
Nokkrir dropar af silfurnitrat-lausn voru settir í augu allra nýfæddra barna rétt eftir fæðingu, til að hindra að nýburinn fengi sýkingar í augun, m.a. af lekanda, sem þá var illa læknanlegur og hefði getað valdið blindu. Á síðustu árum hefur þó aukist áhugi hjá læknum með óhefðbundnar hugmyndir, að nota t.d. silfurlausnir við lækningu ýmissa bakteríu og veirusýkinga. Í Bandaríkjunum fæst efni sem kallað „Mild silver protein” með silfurinnihald nálægt 400 ppm (hlutum af milljón). Það hefur verið notað m.a. við eyðni. Veirufjöldi sjúklinganna hefur þá oftast skyndilega lækkað og þeim fór að líða betur en þá hættu þeir oft að nota efnið. Einnig hefur það verið notað við lifrarbólgu C með áhugaverðum árangri.
Lýst er hvernig „silfurprótein“ er notað. Búast má við alvarlegum Herxheimer-viðbrögðum (Herxheimer-viðbrögð það kallað, þegar einskonar fráhvarfs- eða eitureinkenni koma fram við að sýkillinn er drepinn, sennilega vegna eiturefna sem losna úr dauðum sýklum, þó að fleiri skýringar hafi reyndar komið fram þýð). Því er byrjað með smáa skammta, hálfa teskeið sem er tekin inn. Síðan má smá auka skammtinn í 4 teskeiðar á dag. Þessu má halda áfram í allt hálfan mánuð eða jafnvel lengur. Hafi engar aukaverkanir verið í tvær vikur eða meira er byrjað gefa efnið beint í æð. Notaðir eru 28ml blandað hálfan lítra af saltvatni sem fæst í lyfjabúðinni gefið á tveimur klukkustundum.
Eftir átta daga hið sama endurtekið, nema nú eru notaðir ca. 85 af silfurlausninni í ½ lítra af saltvatni gefið í æð tveimur klukkustundum. Eftir átta daga er sama endurtekið, nema nú eru notaðir ca 85ml silfurlausninni í ½ lítra af saltvatni. Í síðasta skiptið sem efnið er gefið í æð eru notaðir ca 110 ml silfurlausninni í ½ lítra af saltvatni gefið í æð tveimur klukkustundum. Mataræði er grundvallaratriði til þess að þessi og aðrir óhefðbundnir læknisdómar komi að gagni. Ekki má nota bjór eða sterka drykki. Þá er sykur talinn óheppilegur og einnig sætir ávextir.
Wayne Martin mælir með að eyðnisjúklingar prófi að nota daglega 50g af kókoshnetuolíu, 500 mg af kóensím Q-10, 3mg af naltrexone og 10mg af Cyolic-hvítlauk. Með aðstoð vinsamlegs læknis mætti svo bæta silfurlausn við þetta. Hann endar bréf sitt með því að ræða Fredrich Klenner, lækni, í Reidsville í Norður Karólínu, sem nú er látinn. Klenner taldi að oftast mætti lækna sýkingar án sýklalyfja með hæfilega stórum skammti af C-vítamíni gefnu í æð á réttan hátt. Í lömunarveikisfaraldri árið 1948 fékk hann til meðferðar 60 lömunarveiki-sjúklinga. Meiri hluti þeirra voru börn. Hann gaf þeim C-vítamín í æð, 1-2g á fjögurra klukkustunda fresti. Síðasta daginn sem læknismeðferðin stóð yfir var vítamínið gefið á sex stunda fresti. Við lok 72 klst. voru allir sjúklingarnir lausir við sjúkdóminn og versnaði ekki
aftur.
Klenner taldi að svo auðvelt væri að lækna lömunarveiki að engin þörf væri á bóluefni við þeim sjúkdómi. Hann taldi að best væri að gefa C-vítamín í æð á þriggja stunda fresti og að þýðingarlaust væri að gefa meira en 2-4g í einu, gefa það frekar oftar, því að C-vítamín fer svo fljótt úr líkamanum að betra sé að gefa það í mörgum smáum skömmtum en einum stórum, sem hann taldi vera sóun á vítamíni.
Hann taldi að sýklalyf væru oftast ónæmisbælandi og því ynnu þau á vissan hátt gegn lækningu sjúkdómsins, sem verið var að reyna lækna. Sé t.d. lungnabólga ekki farin að lagast eftir 72 klst., á að hætta að gefa sýklalyf en byrja gefa C-vítamín í æð, vegna þess að þá er lungnabólgan sennilega veirusýking, sem sýklalyfin lækna ekki en bæla í þess stað ónæmiskerfið gera lungnabólguna verri en annars mundi vera. Wayne Martin giskar í lokin á, að væri Frederich Klenner ennþá meðal okkar, mundi hann vera önnum kafinn við að lækna eyðnisjúklinga með af C-vítamíni í æð á 3-4 stunda fresti. Þetta er einfalt að gera og tími til kominn að einhver læknir prófi það á eyðnisjúklingum.
Höfundur og þýðandi Ævar Jóhannesson.