Gigtarlyf gegn krabbameini

Að undanförnu hafa verið birtar greinar um gagnsemi ýmissa gigtarlyfja við sum krabbamein. Flest þessi gigtarlyf verka þannig að þau hindra ensím sem nefnt er cyclo-oxygensi (cox-1 og cox-2), en þetta ensím hvetur myndun prostaglandina sem koma við sögu við flesta bólgusjúkdóma (sjá grein í Hh um kvöldvorrósarolíu, haust 1996). Nú hefur komið í ljós að þessi lyf virðast hindra  viss krabbamein. Fyrst var bent á þetta í New England Journal of Medicine árið 1983. Þar kom í ljós að aspirín, sem er eitt þessara lyfja, fækkaði dauðsföllum úr ristilkrabbameini um helming, ef notaðar voru 16 töflur á dag í ár eða lengur.

Í ljós kom að krabbameinsæxli mynda mikið magn af cox-2 ensíminu. Vísindamennirnir ályktuðu þá í framhaldi af þessu, að væri myndun þess hindruð kynni það einnig að hindra vöxt ákveðinna krabbameina, t.d. í ristli, brisi eða þvagblöðru. Búin hafa verið til lyf sem aðeins hindra cox-2 en ekki cox-1. Talið er að þannig lyf valdi síður magasári og/eða blæðingum heldur en eldri lyf gera, t.d. aspirín. Fyrsta þannig lyf sem kom á markaðinn var Celebrex. Nokkru síðar kom Merck með lyfið Vioxx. Það nýjasta er sennilega Aptosyn sem þróað var af vísindamanninum Rifat Ramukcu úr lyfinu Sulindac frá Merck. Hann segir að lyfið hindri myndun „ristilsepa“ (polyps) og það valdi því að frumur með forstigs einkenni krabbameins „fremji sjálfsmorð“.

Mörg jurtalyf hindra sennilega cox-2, og reyndar einnig annað ensím, lipoxygenasa, sem myndar svokölluð „leukotrien-efni“ sem eru skyld prostaglandinum og eru einnig bólguhvetjandi. Þar má t.d. nefna hvítlauk, engiferrót, boswellía, mjaðarjurt, glitbrá og margar fleiri. Hvort þessar jurtir eru einnig nothæfar til að hindra krabbamein vil ég ekkert fullyrða um á þessu stigi málsins, þó að mér þyki það að vísu ekki ólíklegt. Vel gæti hugsast að hugmyndir Wayne Martin, sem sagt var frá í haustblaði Hh 2000, séu réttar og að krabbameinshindrandi verkanir gigtarlyfja stafi fyrst og fremst af þeim eiginleika þeirra að hindra samloðun blóðflaga, sem áður nefndar jurtir gera.

Heimildir að þessari grein eru að mestu fengnar úr Townsend Letter for Doctors and Patients, nóvember 2000.

Höfundur: Ævar Jóhannesson 2001



Flokkar:Krabbamein

Flokkar/Tögg, , , , , , , , ,