Jóhannesarbrauð – Carob – frábært í staðinn fyrir kakó

Þegar ég var á mínum yngri árum ætlaði ég að gerast jógakennari – hvað annað – og fór því á 3 mánaða námskeið í Svíþjóð um áramótin 1984. Þarna sat ég með fæturna í slaufu og ómaði á milli þess sem ég stóð á haus. Maturinn sem við fengum þennan tíma var lífrænt ræktaður grænmetismatur, alveg laus við sykur, hunang, þurrkaða ávexti og ferska ávexti, kaffi, te og kakó. Sem sagt enginn sykur og ekkert koffein. Að dvölinni lokinni fór ég aftur til Kaupmannahafnar en þar var ég búsett á þessum árum. Á ferjunni yfir til Helsingör fór ég á það ódýrasta ,,fyllirí“ fyrr eða síðar.

Ég sá þetta líka lokkandi Marabú súkkulaði þarna í öllum hillum enda þjóðarstolt ljóshærðu frænda okkar í Svíþjóð. Og áður en ég vissi af hafði ég keypt mér eitt lítið stykki og vúpps, ég snæddi það allt. Áhrifin létu ekki á sér standa. Viti menn ég var í svipuðu ástandi eins og ég hefði drukkið 2 kampavínsflöskur. Lék við hvern minn fingur og flissaði eins og fermingarstúlka. En þeir segja að Adam hafi ekki verið sérstaklega lengi í Paradís, og þegar lestin svo klukkutíma síðar sigldi inn á Hovedbanegården þá var litli jóginn komin í létt þunglyndi, með bullandi höfuðverk og eiginlega grjótþunn. Fór „upp“ á mettíma og „niður“ aftur klukkutíma síðar.

En hvað gerðist? Þarna var ég búin að vera í allskyns úthreinsunum og á ótrúlega hreinu fæði og þar af leiðandi finn ég hvernig kaffeinið og sykurinn virka á þann hátt sem maður les bara um í heilsublöðum og bókum, og heyrir um á fyrirlestrum hjá létt öfgafullum heilsupostulum (t.d. eins og hjá sjálfri mér). En núna veit ég að það er svona sem þetta virkar ef ,,systemið“ er temmilega hreint eða afvatnað. Og það er það oftast hjá litlum börnum. Þess vegna komum við núna að aðalatriðinu. Mér finnst núna frekar sorglegt að sjá fólk dæla í þessi litlu grey bæði súkkulaði, kakómjólk og fleiri kakó/sykur afurðum.

Ég hugga mig reyndar við að þetta er í flestum tilfellum fáfræði og hugsunarleysi. Því finnst mér kjörið að deila með ykkur broti af þeim fróðleik sem ég hef sankað að mér hvað þessi efni varðar. Ég á eina 6 ára dóttur sem hefur fengið karobdrykki í staðin fyrir kakó frá því að hún var lítil. En í kuldanum síðastliðinn vetur guggnaði ég á prinsippinu og gaf henni kakó á kaffihúsarápi okkar. Það tók reyndar fljótt af, barnið varð hreinlega háð kakóskammtinum sínum líkt og við þekkjum með kaffið á morgnana, svo við skiptum aftur yfir í karob. Karob er jurt sem á latínu ber nafnið Caratonia siliqua, hún heitir á íslensku Jóhannesarbrauðstré og Carobtree á ensku. Þessi jurt vex við Miðjarðarhafið og má nota í staðinn fyrir kakó í flestum tilfellum.

Jurtin ber ávöxt sem minnir á belgbaunir og það eru baunirnar í belgnum sem eru notaðar og við köllum karob. Karobið er ólíkt kakói að því leiti að það inniheldur engin eiturefni eða önnur ávanabindandi efni. Það er heldur ekki eins feitt og kaloríuríkt og kakaó. Karobduftið lítur svipað út og kakóduft, það er reyndar svolítið ljósara á litinn. Á bragðið er karobið þó nokkuð sætara en kakóið og ekki eins rammt. Sumir heilsupostularnir kalla það eiturlausa súkkulaðið. Það fæst bæði í duftformi og sem unnið sælgæti, t.d. er hægt að fá lítil „karobsúkkulaðistykki“ sem má nota líkt og gamla góða suðusúkkulaðið. Orðið karob kemur úr arabísku karobe og talið er að frá því komi orðið karat sem er notað sem mælieining. Litlu brúnu baunirnar í karobbelgnum hafa þann eiginleika að vega alltaf jafn mikið eða 0,18 gr. Þessar baunir notuðu arabískir kaupmenn sem vogalóð þegar þeir vigtuðu skartgripi og eðalsteina.

Í dag vegur karat 0,20 gr. Karobduft eða Jóhannesarbrauðsmjöl hefur lengi verið notað til manneldis jafnt sem skepnufóðurs. Það er nefnt eftir Jóhannesi skírara sem nærðist mikið á þessari afurð merkunnar. Sagt er að þessi ávöxtur sé hinn næringarríkasti, innihaldi kolvetni og vítamín af ýmsu tagi. T.d B1, niasin, B2, kalk, magnesíum, fosfór og járn. Líklegast er það ástæðan fyrir því að það hefur mikið verið notað við meðferð vannærðra barna. Einn aðalmunur kakós og karobs er að karobið er eiturefnalaust. Það er laust við theobromin og koffein, sem verka örvandi á starfssemi hjarta og nýrna. Þessi efni eru m.a. notuð til að meðhöndla taugaáfall, hjartaáfall og sem þvagörvandi lyf. Í stórum skömmtum getur theobromin verkað lamandi á miðtaugakerfið en koffein örvar starfsemi þess.

Í kakói er einnig að finna ávanaefnið fenyletylamin sem hækkar blóðþrýsting og verkar hressandi, en framkallar höfuðverk hjá mörgum. Mörg önnur efni í kakói verka á hjarta og æðakerfið og valda mígrenihöfuðverk. Ekkert af þeim finnst í karobi. Talið er að frá því um 1700 hafi fyrirfólkið í Evrópu notað súkkulaði sem nautnalyf. Það er komið frá Indíánum Mið-Ameríku. Í dag þegar það er orðið almenningseign notar fólk það til að hugga sig og róa.

Kaffein innihald nokkurra drykkja miðað við 2,5 dl:
Meðalsterkt uppáhellt kaffi: 100-150mg
Duftkaffi: 86- 99mg
Svart te (+2 mg theobromin 60- 75mg  og 1 mg teofyllin)
Kakó (+250 mg theobromin) 6- 42mg
Kók (miðað við 333 ml) 40- 60mg
Guaranafræ (7-10 gr þurrkuð fræ) 500mg
Kaffeinlaust kaffi 2- 4mg
Súkkulaði (+ 250 mg theobromin) 180mg
Aspirin (1 tafla) 15- 30mg

Sé neysla á kaffeini milli ca. 50 og 250 mg pr. dag er talið að viðkomandi sé á gráu svæði. Fari neyslan yfir 250 mg er nær öruggt að ákveðnar aukaverkanir fylgi. Þær geta verið hjartsláttartruflanir, sviti, ótti, pirringur og höfuðverkur svo eitthvað sé nefnt. Fyrir utan kakóefnið í unnu súkkulaði er mikið af hvítum sykri og alls konar aukaefnum. Við þurfum að hafa þó nokkuð fyrir því að hreinsa þetta úr líkamanum og þessi efni haldast gjarnan lengi við í þörmunum og verka eitrandi á líkamann. Ég hef prufað af eigin raun að ala upp barn sem ekki hefur fengið venjulegt súkkulaði heldur eingöngu karob. Hún saknar einskis því það er erfitt að sakna þess sem við ekki þekkjum. Ég hef alltaf búið til páskaegg fyrir hana úr karobi og er hún alsæl með útkomuna. Og með þessa reynslu í farteskinu hvet ég foreldra að endurskoða súkkulaði/kakó át barna sinna. Nú ef þið eruð með ungabörn sem ekki eru farin að fá sælgæti að gefa þeim karob á laugardögum í staðinn fyrir súkkulaði þegar þar að kemur.

Uppskriftir – Konfekt
1 1/2 dl malaðar Brasilíu hnetur (brazil)
1 1/2 dl Pecan hnetur, gróft saxaðar
2 dl döðlur sem búnar eru að liggja í bleyti með sjóðandi vatni í 10 mín
1 dl fíkjur, skornar í minni bita
1 msk appelsínubörkur, rifinn

Allt sett í matvinnsluvél, mótaðar litlar kúlur sem eru frystar svo þær harðni, ath! hægt er að bræða carobsúkkulaði stykki og velta konfektinu upp úr

Döðlu og carobkökur
225 gr döðlur
1dl ólífuolía
2 bananar, vel þroskaðir
2 egg
75 gr heilhveiti eða spelt
50 gr carobduft
100 gr valhnetur, smátt saxaðar
1 tsk vanilludropar

Ofninn hitaður í 180°C, döðlurnar settar í pott, vatn látið rétt fljóta yfir og þær soðnar í ca 20 mín, hellið aukavatninu frá og kælið. þegar döðlurnar eru orðnar kaldar eru þær hrærðar saman við ólífuolíuna þar til er léttur massi. Hrærið bananana útí og síðan eggin, eitt í einu. Heilhveiti, karobdufti, valhnetum og vanilludropum að lokum hrært útí og sett í smurt tertuform. B akað í 40 mín við 180°C. Hægt er að brytja niður ferska ávexti og setja á kökuna áður en hún er borin fram

Banana og Karobbrauð
450 gr þroskaðir bananar, maukaðir
50 gr saxaðar heslihnetur
1 msk ólífuolía
100 gr rúsínur
75 gr sojamjöl eða 2 egg
75 gr haframjöl
100 gr heilhveiti eða spelt
50 gr karobduft
1/2 tsk kardimommudropar eða 1 tsk malaðar kardimommur.
Smá salt

Ofninn hitaður í 200°C öllu hráefninu hrært saman í hrærivél, setjið í smurt brauðform og bakið í 50-60 mín eða þar til ekkert hangir á prjóninum sem stungið er í miðjuna á brauðinu til að athuga hvort það sé tilbúið. Látið kólna í ca 10 mín áður en tekið úr forminu. Njótið.

,,Súkkulaðisjeik“ fyrir tvo (ath. Að frysta bananana deginum áður)
4 bananar
2 dl góður ávaxtasafi, annað hvort nýpressaður
eða notið e-n góðan Demeter safa úr Yggdrasil
2 lítil carobstykki
Smá vatn

Afhýðið bananana og frystið þá yfir nótt, setjið ávaxtasafa í blandara, skerið í 1/2 cm þunnar sneiðar, kveikið á blandaranum og setjið bananasneiðarnar útí eina í einu og blandið þar til þetta er orðið silkimjúkt, brytjið carobið niður og setjið í pott með ca 1 msk af vatni og hrærið þar til carobið er bráðnað, hellið karobsósunni út í blandarann og blandið örstutt. Tilbúið

Jarðaberja og Karob,,sjeik“ (hér færi ég mig upp á skaftið og skrifa Carob með K)
2 msk hörfræ
1 msk sesamfræ
1 msk karobduft
2 tsk kanill
1/2 – 1 tsk vanilluduft eða vanilludropar
4 döðlur, skornar í litla bita
1/2 banani skorinn í sneiðar
8-10 fersk jarðaber
7-8 ísteningar

Allt sett í blandara og blandað þar til silkimjúkt. Ef þið viljið hafa sjeikinn þynnri er hægt að bæta smá vatni útí.

Karobmjólk (þessi er frábær í staðinn fyrir kakómjólk)
1 dl möndlur, sem búið er að leggja í bleyti í 1
sólarhring og afhýða
4 dl vatn
2-3 döðlur
1-2 tsk karobduft

Setjið möndlurnar í blandarann og myljið smátt og setjið restina af uppskriftinni útí og blandið vel. Sigtið og njótið.

Bananasplitt
bananar
fersk jarðaber
sojaís með vanillubragði
brætt carobsúkkulaði (sjáið uppskriftina hér aðeins
framar)
ristaðar möndluflögur

Það sem ykkur finnst ómissandi í bananasplitti, föndrið ykkar eigin uppskrift og notið ímyndunaraflið. Gangi ykkur vel og verði ykkur að góðu.

Höfundur: Sólveig Eyríksdóttir 2000



Flokkar:Uppskriftir

%d bloggers like this: