Á ráðstefnunni ,,Nutritional Medicine Today“, sem haldin var í Vancouver í Kanada, flutti hinn heimskunni vísindamaður og rannsakandi á fjölómettuðum fitum, David Horrobin, athyglisvert erindi um að nota fitusýru úr lýsi, EPA (eicosa pentaensýru), til að lækna geðklofa hjá fólki sem engin önnur ráð höfðu dugað við. Þessi læknismeðferð grundvallast á alveg nýrri kenningu um geðklofa sem Horrobin kallar ,,fosfólípíð-kenningu“. Rétt er að árétta það hér að sennilega á þessi kenning ekki við allar tegundir geðklofa, heldur einungis við þá tegund sem veldur varanlegum skaða á heilafrumum og geðlyf hafa lítil áhrif á til bóta. Horrobin telur að þessi tegund geðklofa sé sjúkdómur í fosfólípíðum í frumuhimnum heilafrumanna.
Fosfólípíð eru meginefni frumuhimnanna og í heilanum eru þau meira en 60% af þurrefnisinnihaldi hans. Þegar taugaboðefni hittir viðtaka í taugafrumu gerir það ensímið fosfólípíð A2 (PLA2) virkt, sem lýfur fosfólípíð í tvo hluta, lyzofosfólípíð og háfjölómettaða fitusýru. Það eru þessar tvær sameindir sem framkvæma ýmiskonar störf innan frumunnar, t.d. hreyfa kalkjónir, ,,kveikja“ eða „slökkva“ á vissum genum (erfðavísum) o.m.fl. Annað ensím, FACL, gerir PLA2 óvirkt og tengir aftur saman lyzofosfólípíð og fitusýruna og myndar fosfólípíð á ný.
Horrobin telur að hjá geðklofasjúklingum sé PLA2 ensímið of mikið virkt en FACL of lítið virkt, sem svo veldur taugahrörnun og glötun á taugaefni. Þetta virðist falla vel inn í sjúkdómsmynd vissra geðklofasjúklinga. Lækning væri þá í því fólgin að finna leið til að gera virkni þessara tveggja ensíma eðlilega. Horrobin uppgötvaði að fitusýra í lýsi EPA (eicosapentaensýra) hefur einmitt næstum nákvæmlega þessa æskilegu eiginleika. Hún er óeitruð, hindrar PLA2 en örvar FACL ensímið. Horrobin kynnti rannsóknarniðurstöður frá þremur nýjum könnunum sem gerðar voru á geðklofasjúklingum sem hefðbundin lyf verkuðu lítið á.
Notuð voru daglega nokkur grömm af hreinsuðu EPA. Athuguð var þörf sjúklinganna fyrir geðlyf, hliðarverkanir, sálrænt ástand og hvort þeim sjálfum fannst ástand sitt hafa batnað. Nokkra undrun vakti að fitusýran bætti ástand sjúklinganna meira en lyf sem þeir höfðu áður notað, án neinna hliðarverkana. Svo virðist að hæfilegt magn af fitusýrunni sé tvö grömm á dag og að árangurinn batni ekki við að auka magnið fram yfir það.
Undrun vöktu myndir af heila geðklofasjúklinga sem teknar voru með sérstakri tækni, ,,kjarnsegulómunar- myndum“ (neuclear-magnetic-resonance imaging). Þar sást að heilinn smá rýrnaði í sjúklingum með geðklofa. Við það að gefa þessum sjúklingum EPA hætti þessi rýrnun og heilinn fór jafnvel að jafna sig aftur og verða eins og áður en sjúkdómurinn fór að valda heilaskaðanum. Gaman væri að vita hvort fosfatidyl serin, sem er fosfólípíð, sem talið er bæta heilastarfsemina, sérstaklega hjá öldruðu fólki, kynni að gagna með EPA til að lagfæra geðklofa einkenni.
Þetta efni er nú fáanlegt á Íslandi en ég sagði lítilsháttar frá því í Heilsuhringnum í vorblaðinu 1997 undir nafninu ,,Tauganæring úr lesitíni“.
Heimild úr kanadíska tímaritinu Nutrition and Mental Health, sumar 2000.
Höfundur: Ævar Jóhannesson árið 2000
Flokkar:Greinar, Skrif Ævars Jóhannessonar