Frásögn af breyttu mataræði eftir kenningum bókarinnar Rétt mataræði fyrir þinn blóðflokk

Mig langar að segja frá þeirri reynslu sem ég varð fyrir eftir að ég kynntist kenningum dr. Peters J.D´Adamo náttúrulæknis frá Bandaríkjunum. Kenningar hans fjalla um val á matvælum eftir því í hvaða blóflokki fólk er. D´Adamo stundaði nám m.a. við John Bastyr náttúrulækningaskólann í Seattle og tók við áratuga rannsóknum af föður sínum varðandi tengsl blóðflokka og mataræðis. Sjálfur kynntist ég þessum fræðum í byrjun janúar sl., eftir að hafa lesið bókina „Rétt mataræði fyrir þinn blóðflokk“ og hreifst ég af kenningunum, fannst þær einfaldar og rökréttar og hóf þegar að breyta um mataræði. Ég er 35 ára gamall, hef aldrei reykt, en frá 23 ára aldri hefur heldur hallað undan með heilsufar.

Ég var byrjaður að þyngjast og kominn með astma sem ágerðist jafn og þétt og síþreyta var viðloðandi. Fyrstu tvær vikurnar eftir að ég byrjaði að breyta um mataræði fór mér að líða ver, var rennandi sveittur og með höfuðverk. Gat verið að þetta væru batamerki? Ég tel svo vera og hef haldið mig við þetta mataræði í 8 mánuði. Þann 5. apríl sl. fór ég í nýtt þolpróf hjá lungnasérfræðingi þeim sem úrskurðaði mig með astma á sínum tíma. Í skýrslu hans um þetta þolpróf segir: „kemur til að fara í áreynslupróf. Spírómetrian í upphafi í neðri normal gildum en það verður ekkert fall við áreynslu eins og var í prófinu 1990. Hann ætti því ekki að þurfa lyf eins og er“ tilvitnun lýkur.

Einnig gekkst ég undir skoðun hjá Rannsóknarstöð Hjartaverndar þann 18. apríl og voru niðurstöður eftirfarandi:
1. Blóðþrýstingur 112/70
2. blóðfita – heildarkólesteról 4,4 mmol
3. HDL 1,15 mmol
4. Sykur 5,8 mmol

Í dag er ég kominn í kjörþyngd. léttist um 12 kg fyrstu 2 mánuðina eftir að ég breytti um mataræði og astminn er alveg horfinn, en hann hafði háð mér í 15 ár. Ég er mun þróttmeiri og úthaldsbetri í áreynslu og styrkist stöðugt í þeirri trú að hugsanlega geti lykilinn að heilbrigðu, þróttmiklu lífi án sjúkdóma verið að finna í blóðflokkunum. Einnig að blóðflokkarnir hafi að geyma lykilinn að leyndardómum langlífs, hreysti og tilfinningarstyrks ásamt því að leiða okkur framhjá viðsjárverðustu heilbrigðisvandamálum nútímans. Að lokum langar mig að segja ykkur smá sögu úr starfinu mínu. Fyrir 2 vikum þurfti ég að hafa afskipti af 17 ára pilti sem hafði brotið rúðu í bíl. Þegar hann varð okkar var tók hann til fótanna. Ég lagði lögreglubílnum og hóf að veita honun eftirför. Ég hljóp eins hratt og ég gat og sá strax að svo virtist sem ég ætlaði að hafa við honum. Það dró saman með okkur og fór svo að lokum að ég hafði betur. Þann sprengikraft sem ég gat gripið til, þetta umrædda kvöld, hefði ég ekki haft ef ég væri í sama gamla farinu varðandi illa samsett og lélegt fæðuval. Í dag hefur verið stofnaður klúbbur sem heitir Ábyrgt líferni, rétt mataræði fyrir þinn blóðflokk og er tilgangur þess félags að gefa út fréttabréf, halda fundi  og skiptast á upplýsingum til stuðnings þeim sem vilja, eða hafa breytt um mataræði samkvæmt kenningum Peters D´Adamo.Flokkar:Greinar

%d bloggers like this: