Kúamjólk og sykursýki

Að undanförnu hefur verið rætt um að flytja til landsins norskan kúastofn sem gæti e.t.v. verið hagkvæmari til mjólkurframleiðslu en sá stofn sem á Íslandi hefur verið í meira en 1000 ár. Hér ætla ég ekki að fara að ræða um hagkvæmni eða óhagkvæmni í íslenskri mjólkurframleiðslu.

Til þess eru aðrir miklu hæfari. Eitt er þó sem ég tel samt að ekki hafi verið nægilegur gaumur gefinn, þó að vissulega hafi fyrrverandi landlæknir og fleiri góðir menn bent á það, en sennilega er mjólk úr íslenskum kúm hollari en mjólk úr flestum öðrum kúakynjum. Fjölmörg afbrigði eru til af því próteini í kúamjólk sem nefnt er „beta-kasein“. Algengustu afbrigðin eru nefnd A-1 og A-2. Komið hefur í ljós að neysla á A-1 beta-kaseini hjá börnum hefur aukið tíðni á sykursýki I eða insúlínháðrar sykursýki.

A-1 kaseinið myndar fyrir áhrif meltingarensíma líffræðilega virkt peptíð sem nefnt er „beta-kasomorfín-7.“ Þetta peptíð myndast ekki úr A-2 betakaseini. Beta-kasomorfín-7 hefur eiginleika annarra opóíða, t.d. ónæmisbælingu og önnur óheppileg áhrif á ónæmiskerfið sem gæti verið orsök sjálfsónæmissjúkdóma t.d. insúlínháðrar sykursýki. Masaii þjóðflokkurinn í Afríku neytir mjög mikillar kúamjólkur allt frá barnæsku. Þrátt fyrir það er insúlínháð sykursýki afar fátíð þar. Í ljós hefur komið að mjólkin úr kúm þeirra inniheldur aðeins A-2 en ekki A-1 betakasein.

Kannanir sýna að mjólkin úr íslenskum kúm inniheldur minna af beta-kasein A-1 heldur en mjólk úr flestum öðrum kúm, þ.á.m. norskum. Einnig hefur komið í ljós að insúlínháð sykursýki er helmingi fátíðari á Íslandi en í flestum nálægum löndum.

Fyrst beta-kasein A-1 getur valdið sykursýki I, sem er sjálfsónæmissjúkdómur, gæti vel hugsast og er alls ekki ólíklegt að sama eigi við um fleiri sjálfsónæmissjúkdóma, þó að það hafi ekki verið athugað sérstaklega að mér vitandi. Þó hefur verið bent á að einhverfa í börnum kunni að tengjast „óþoli“ fyrir mjólk (sjá annarsstaðar í blaðinu). Þessar upplýsingar má alls ekki líta á sem þær skipti ekki máli þegar rætt er um nýtt kúakyn á Íslandi. Raunar mætti segja að frekar væri ástæða til að Norðmenn fengju íslenskar kýr til að kynbæta sinn kúastofn, heldur en að Íslendingar fái norskan. Sennilega mætti með kynbótum og úrvali fá fram úr íslenska kúastofninum kýr sem ekki mynduðu neitt teljandi beta-kasein A-1. Mjólk úr þannig kúm væri miklu verðmætari en mjólk úr flestum erlendum kúm, t.d. til að framleiða „ungbarnamjólk“ eða mjólk til að gefa einhverfumbörnum.

Heimild er m.a. úr Diabetologia, bls. 292–296, eftir R.B. Elliot o.fl. Þessi grein hefur áður verið birt í Morgunblaðinu.

Ævar JóhannessonFlokkar:Greinar

Flokkar/Tögg, , , , , , ,

%d