Gengið á vit heilbrigðis með Hallgrími

Rætt við Margréti Ásgeirsdóttur og Hallgrím Þ. Magnússon, lækni um viðureignina við Crohn’s sjúkdóm og kerfið (Viðtal frá árinu 2000)

467777_10151440735382341_1340140986_o

Vorið 1993 greindist Margrét með Crohn’s sjúkdóm, sem er þrálátur bólgusjúkdómur í þörmum. Orsakir hans eru óþekktar en þær eru sennilega margar og tengjast erfðum, ónæmiskerfi og þörmum. Hann er flokkaður sem sjálfsofnæmissjúkdómur. Töluvert á annað hundrað Íslendingar eru með Crohn’s sjúkdóm. Sérfræðingur í meltingarsjúkdómum var fljótur að greina sjúkdóminn hjá Margréti eftir að hún hafði gengist undir vissar rannsóknir. Augljóst var að hann var ekki ný tilkominn og hafin var steralyfjameðferð án tafar. En slíkt eru einu úrræðin sem vestrænar lækningar hafa úr að spila og telja læknar almennt að sjúkdómurinn sé ólæknandi. Ýmis óþægindi fylgja stera-lyfjameðferð þannig að tveimur árum seinna er sjúkdómurinn sýndist vera í rénun dró Margrét úr lyfjainntökunni og tókst að vera heilt ár án lyfja. En þá blossaði hann upp aftur.

Margrét lýkur lofi á lækna og hjúkrunarfólk, sem allt gerði sem í þeirra valdi stóð til að hjálpa henni. En þar sem ekki er enn vitað um lækningu við sjúkdómnum var ekki um neitt annað að ræða en að taka inn steralyfin og njóta hjúkrunar á sjúkrahúsum þegar nauðsyn bar til. Nú fær Margrét orðið. „Ég var sífellt að leita mér hjálpar meðal annars hjá heilurum, grasalæknum, nálastungu læknum og í ýmsum öðru, en í kjölfar þeirra meðferða varð ég oft mikið veik, enginn gat útskýrt af hverju líkami minn brást þannig við. Sjúkdómsferlið hélt áfram með viðhlítandi inntöku steralyfja og sjúkrahúsvistum. Ástandið var vægast sagt bágborið og ég orðin óvinnufær. En eins og máltækið segir „þegar neyðin er stærst er hjálpin næst“. Nú er eitt og hálft ár síðan að ég frétti að Hallgrímur Magnússon, læknir hjálpaði oft fólki með erfiða sjúkdóma á undraverðan hátt. Ég beið ekki boðanna og varð mér úti um tíma hjá honum strax daginn eftir.

Batinn

Hallgrímur taldi strax að hann gæti hjálpað mér og vinnan hófst samstundis á því að ganga úr skugga um hvort um fæðuóþol væri að ræða. Hann ráðlagði mér að sleppa einum fæðuþætti í hálfan mánuð í senn, fyrst mjólk, síðan korni og þannig koll af kolli. Ekki virtist vera að veikindin stöfuðu af fæðuóþoli svo að næsta skref var það að hann setti mig á 20 daga kúr þar sem ég neytti aðeins grænmetissafa, fyrir utan soðið vatn. Það var grænmetissafi úr rótargrænmeti, sem fæst í Heilsuhúsinu. Þegar ég heimsótti Hallgrím 20 dögum síðar sagði hann mér að næstu 10 daga skyldi ég drekka seyði af rótargrænmeti (sem ég sauð sjálf), einnig mátti ég fá ávaxtasafa.

Viku eftir að ég hóf grænmetissafadrykkjuna, byrjaði hreinsunin í líkamanum, sem fylgdu mikil höfuðverkjaköst. Það fyrsta stóð í u.þ.b. hálfan sólarhring, síðan komu höfuðverkjaköst viku- til hálfsmánaðarlega, en stóðu styttra og lengra varð á milli kasta, þar til að þau hurfu alveg. Þegar ég fór aftur að borða fasta fæðu byrjaði ég á fæði sem byggðist mikið á ávöxtum. Ég studdist við bók, sem heitir Í toppformi, eftir Harvey og Marilyn Diamond. En mér gekk illa að venjast því fæði og langaði meira í venjulegan íslenskan mat eins og t.d. grjónagraut. Hallgrímur ráðlagði mér að fara eftir eigin innsæi og borða það sem mig langaði í og yrði gott af. Ég breytti mikið fyrri matarvenjum og borða nú ekki verksmiðjuunninn mat eins og pylsur, bjúgu, ofanálegg, salöt og þess háttar.

Ég takmarka mjög mjólkurvörur og reyni að hafa allt hráefni til matargerðar nýtt, fersk og hreint og gera matinn sjálf. Eftir að ég greindist með sjúkdóminn árið 1993 færði ég matardagbók (nokkuð lengi) um allt sem ég borðaði og hvernig mér leið af því. Það auðveldaði mér að útiloka þann mat sem gerði mér illt. Höfuðverkjaköstin var byrjunin á batanum, en í framhaldinu fékk ég margs konar sjúkdómseinkenni sem mest gerðu vart við sig á nóttunni. Ég skráði þau öll niður og furðaði mig á því að alltaf stóðst það sem Hallgrímur var búinn að segja mér fyrirfram hver yrðu næstu viðbrögð líkamans.

Af þeim sökum reyndist mér létt að ganga í gegn um þetta erfiða tímabil. Ég var aldrei hrædd vegna þess að ég vissi alltaf upp á hár hvað myndi ske næst. Ég geri mér grein fyrir því að baráttan er ekki búin, ég á trúlega eftir að verða vör við sjúkdóminn áfram, en ég veit að köstin verða færri og léttari og hverfa að lokum. Þau verða ekkert í líkingu við það sem ég áður gekk í gegnum. Merkilegt var þegar ég byrjaði fyrst að finna fyrir batanum. Ég fann hvernig hann byrjaði fyrst efst í ristlinum og færðist svo hægt niður. Það er hreint undur eftir svona erfið veikindi að finna sig heila aftur,“ sagði Margrét að lokum.

Hallgrímur Magnússon

Af hverju ráðleggur þú föstur, Hallgrímur?
Eftir að hafa heyrt þessa óvenjulegu og áhrifamiklu batasögu Margrétar snéri blaðamaður Heilsuhringsins sér til Hallgríms Þ. Magnússonar, læknis og spurði af hverju hann beitti svo óhefðbundinni lækningaraðferð, sem fasta er og hvað hafi leitt hann inn á brautir kjörlækninga. Samtalið fer hér á eftir og Hallgrímur fær nú orðið. „Það var árið 1989 að með stuttu millibili komu til mín á stofuna nokkrar konur með innvortis mein, allar höfðu þær farið í ristilrannsóknir og speglanir, en slíkar rannsóknir eru ekki framkvæmdar nema að baki liggi miklar úthreinsanir. Það var sammerkt með öllum þessum konum að einkennin höfðu lagast fyrst á eftir til mikilla muna. Ég fór því að lesa og leita að svari við þessu, þar á meðal um lækningar Jónasar Kristjánssonar læknis, sem stofnaði Heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands. Í kenningum náttúrulækna er óhreinn ristill álitinn vera orsök 99% allra sjúkdóma.

Áfram hélt ég leitinni og kynnti mér nú ýmsar almennar stefnur í mataræði og næringu, einnig áhrif andlegs ástands á heilsufar. Þá sá ég að sammerkt er með öllum þessum kenningum að heilbrigði byggist á vissri lífsorku, orku sem liggur undir niðri og stýrir öllu lífi. Svo dæmi sé tekið samræmist það hugsun kristinna mann um ljósið, Kínverja um kí, og Indverja um prana. Allt í einu skildi ég kenningar bókarinnar Kristur í oss, sem ég fékk að gjöf frá gamalli konu er ég lauk læknisfræðináminu. Þar segir að maðurinn sé: Andi, sál og líkami.

Læknisfræðin eins og við þekkjum hana í dag spáir bara í líkamann og er alltaf að reyna að lækna með efnum, töflum og þess háttar, en leggur litla áherslu á að saman fari áðurnefndir þrír þættir. Eftir því sem ég kynnti mér þetta nánar kom í ljós að hvort sem það hét sanskrít, hindúatrú eða eitthvað annað var lögð gríðarlega mikil áhersla á föstur og andlegt líf og sagt að með föstum væri hægt að bæta allt milli himins og jarðar. Þetta varð til þess að á árunum 1989 til ’91 fór ég tvívegis í gegnum 40 daga föstur. Í annað skiptið á grænmetissafa en hitt skiptið á vatni einu saman. Það er einnig sagt að vilji maður gera þvagkerfinu í sér sérlega gott eigi að fasta gjörsamlega, ekki einu sinni drekka vatn. Það gerði ég eitt sinn í 16 daga.

Fljótvirkasta leiðin til bata
Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að við verðum að hreinsa út úr ristlinum gömlu óhreinindin til að við getum hafið uppbygginguna á ný. Það tekur sinn tíma, en fljótvirkasta leiðin er að fara í föstur og hreinsanir og stunda einhverja andlega uppbyggingu. Þar tel ég trúna og bænina vera sterkasta þáttinn, það gildir það sama um alla andlega iðkun, eigi hún að koma að gagni þá þarf að stunda hana reglulega, helst ekki styttra en í fimmtán mínútur tvisvar á dag. En mesti krafturinn fylgir því að biðja fyrir öðrum, þeim sem er verr staddur en maður sjálfur. Þá hef ég orðið var við það aftur og aftur að fólk gerir sér ekki ljóst hvað nægur tími er mikilvægur til þess að við náum bata.

Það tekur tíma að hætta fyrri venjum og breyta um lífsstíl, því að við þurfum að byrja á þeim punkti sem við erum stödd á, síðan að fara í gegn um föstur og hreinsanir og læra að stunda andlega uppbyggingu. Meðan það tekur einn mann tvo mánuði að endurheimta fyrri heilsu, getur það tekið næsta mann heilt ár eða lengur. En með þessum aðferðum má oft ná bata á styttri tíma en annars. Það væri ekki lögð svona mikil áhersla á föstur í öllum trúarbrögðum heims og þær taldar svona sterkt afl til lækninga ef reynsla fyrri kynslóða bæri vott um annað. Frá mínum sjónarhól erum við í raun og veru ekki með neitt heilbrigðiskerfi á Íslandi heldur það sem kalla má sjúkdómakerfi, kerfi sem allt gengur út á að rannsaka og finna einhvern sjúkdóm. Ef hér væri heilbrigðiskerfi myndi það gera fólki ljóst að flest allar heilsufarslegar uppákomur eru okkur sjálfum að einhverju leyti að kenna.

Upphafið
Ég lauk læknisfræðinni 1976, fór síðan í sérnám til Svíþjóðar og lærði gjörgæslu og deyfingar, en um það leyti var verið að byrja að nota deyfingar sem þátt í verkjameðferð. Að ráði þáverandi yfirlæknis Landspítalans fór ég til Bretlands á meðan ég var í Svíþjóð og kynnti mér sérstaklega deyfingar fyrir fæðandi konur. Svo kallaðar utanbarðsdeyfingar, þá er farið inn að mænunni og deyfðar taugar sem sjá um boðflæði verkja frá leginu og fæðingarganginum.Það kom í ljós að slíkar deyfingar gögnuðust einnig við þrálátum verkjum í baki.

Að náminu loknu vann ég í eitt og hálft ár í Keflavík, um sama leyti fór ég að kynna mér hugmyndafræðina á bak við nálastungulækningar og fór á námskeið í nálastungum hjá finnskum svæfingarlækni, sem var einn af átta vestrænum læknum, sem fékk að fara til Kína í kjölfar heimsóknar Nixons Bandaríkjaforseta þangað, til að kynna sér nálastungulækningar í Kína. Árið 1987 opnaði ég eigin læknastofu í kjallara Sundlaugar Seltjarnarness, með það í huga að stunda nálastungur og deyfimeðferð til að hjálpa fólki með verki.

Einnig var ég með líkamsræktarsal, því í bjartsýni minni hélt ég að þegar ég væri búinn að losa fólk við verkina, vildi það sjálft takast á við þá krankleika sem lækna mætti með líkamsæfingum og komast þannig út úr sjúkdómsferlinu. En það kom fljótt í ljós að fólk hafði ekki áhuga á líkamsrækt í þá daga. Flestir vildu bara losna við verkina án fyrirhafnar.

Það sem olli írafári Landlæknis
Á þessum árum lærði ég að lesa í augu, lithimnugreiningu og kynntist því að sjá má hvernig cheilsubrestir koma fram í augunum. Aðferðin er víða þekkt og sumstaðar erlendis notuð við sjúkdómsgreiningar. Það fór sérlega í taugarnar á ,,kerfisfólki“ þegar ég fór að nota þessi fræði í starfi mínu. Til mín leitaði gömul skólasystir, sem lengi hafði þjáðst af astma og tekið inn mikið af lyfjum. Hún vildi breyta þessu veikindaástandi sínu og eftir að við höfðum velt þessu fyrir okkur á ýmsa vegu ákvað hún að fara í föstu, sem tók 30 til 40 daga. Það erfiða við slíkar föstur er, að meðan líkaminn er að hreinsast, er gengin til baka brautin í sjúkdómsferlinu.

Hún fékk slæm astmaköst aftur og aftur og slíkt er erfitt að ganga í gegnum án lyfja. Hjúkrunarkona sem vann hjá mér taldi að hér væri rangt að farið og kærði mig. Þar fékk Landlæknir tilvalið tækifæri til að vesenast, reyndar komst hann strax að því að konan hafði óskað sjálf eftir meðferðinni. Það gerði honum málið flóknara. Hann kallaði mig samt fyrir og vildi að ég skilaði inn læknaleyfinu. Ég hafði þá þegar lent í mótstöðu við hina ráðandi hugsun í læknastétt, sem og Tryggingastofnunar og Landlæknis.

Eins og við vitum er læknisfræðin mjög sérhæfð og hver sérgrein á sinn reit, svæfingaræknir á ekki að vera að kássast inn á annarra manna svið. Það kom því fljótt að því að ég fékk tíðar heimsóknir Landlæknis og Tryggingayfirlæknis á læknastofu mína til að fylgjast með hvort ég fylgdi settum reglum heilbrigðiskerfisins.

Mér var bannað að stunda sjúklinga með vissa sjúkdóma og nákvæmlega var fylgst með sjúkraskýrslum hjá mér. Það versta var, að þó að ég væri að senda Landlækni fræðslubæklinga og úrklippur úr bókum, þá fékk ég ekki annað en afar neikvæðar undirtektir. T.d. sendi ég honum einu sinni íslenska þýðingu á 60 bls. sjúklingahandbók, sem hafði verið notuð mikið í Bretlandi, Þýskalandi og víðar, um svokallað Neural therapy, sem má þýða sem taugameðferð.

Bókin er um hvernig lækna megi, með því að deyfa ýmsar taugar og hafa áhrif á ör og ýmislegt annað. Ég var búin að fá útgefanda að bókinni, þegar þau skilaboð komu frá Landlækni að ég skyldi sko ekki leyfa mér að láta þetta koma fyrir sjónir nokkurs manns því að annað eins bull og kjaftæði hafi hann aldrei lesið. Það er beinlínis hættulegt fyrir íslenska heilbrigðiskerfið að þessir menn vilja ekki hlusta á önnur vísindi en þau sem þeir hafa lesið í Háskólanum.

Dæmi um það er, þó að ég sendi Landlækni heila möppu af greinum sem höfðu birtist í erlendum læknatímaritum um vetnisperoxíð og að víða erlendis væru komin fram samtök lækna, sem stunduðu súrefnislækningar. Þá hlustuðu þessir menn ekkert á það og ég fékk án tafar bréf frá prófessor í lyfjafræði um að slíkt væri stranglega bannað og maður dræpi bara fólk með slíkri meðferð. Vetnisperoxíð var einmitt inní meðferð þessarar astmaveiku konu, sem ég nefndi fyrr. Ég gaf henni og nokkrum öðrum einstaklingum vetnisperoxíð í veikum skömmtum í æð og sumir drukku það.

Aðstoðarlandlæknir og Héraðslæknir Reykjaneshéraðs komu og skoðuðu konuna og sögðu að hún væri mikið veik og hún yrði að hætta þessu strax. Landlæknir sagði að eitthvað yrði hann að gera við mig, annað hvort að láta mig koma fyrir Læknaráð eða fara í geðrannsókn. Ég kaus geðrannsóknina því ég vissi að Læknaráð myndi aldrei samþykkja mína aðferðarfræði, því að í Læknaráði voru vanir að sitja prófessorar sem voru mesta afturhaldið í öllu kerfinu. Landlæknir lokaði stofunni hjá mér og ég fór í geðrannsóknina, það var nákvæm rannsókn hjá geðlækni og sálfræðipróf.

Þó að ég stæðist prófið þá opnaði hann ekki stofuna mína fyrr en að Bjarni bróðir minn sem þá var í pólitík færði þetta í tal við heilbrigðisráðherra og ráðherra lét opna stofuna. Móðir mín var kunnug þáverandi formanni Læknafélags Reykjavíkur og ræddi þetta við hann, en hann svaraði að bragði að það væri nú bara gott á mig því ég væri að taka fólk af lyfjum og breyta út af því sem aðrir læknar væru að gera, þess vegna ætti ég í raun og veru ekki að fá að starfa sem læknir.

Í framhaldi þessa máls kom berlega í ljós að Landlæknir hafði engan áhuga fyrir bata og velferð þessarar astmaveiku konu, heldur greip hann þetta tækifæri til að reyna að gera mig óskaðlegan almenningi og öðrum læknum. Konan hélt áfram meðferðinni og þar kom að, að hún fékk háan hita, sem náttúrulækningarnar telja oft vera endahnútinn í sjúkdómsferlinu, en fólkið hennar var hrætt við hitann og hún var talin á að fara á sjúkrahús, þar sem hún fékk lyfjagjöf og var nær dauða en lífi.

En sagan er ekki öll sögð, því í æviminningum sínum segir fyrrverandi Landlæknir frá samskiptum sínum við mig og tekur sérstaklega fram að það hafi verið í eina skiptið á starfsferli sínum sem ráðherra og ráðuneytisstjóri hafi skammað sig fyrir að gera hluti sem hann mátti ekki gera. Var það vegna þess að heilbrigðisráðherra er sá eini sem hefur leyfi til að veita læknaleyfi og sá eini sem hefur vald til að takmarka það. Reyndar koma fram svo miklar rangfærslur í bókinni um þetta mál að þær eru vítaverðar, bæði hvað varðar mig og astmaveiku konuna. Eftir að konan las bókina gekk hún í að athuga færslur sjúkraskráa er þessu máli viðkomu.

Þá komst hún að því að í sjúkraskránum voru einnig miklar rangfærslur og ekki minnst á marga hluti sem gerðust á spítalanum, sem skýlaust hefðu átt að standa þar. Af umræddri konu er það að segja að hún hélt áfram að berjast á óhefðbundinn hátt fyrir betri líðan og tekur engin astmalyf lengur.  Í samskiptum mínum við kerfið kastaði fyrst tólfunum þegar Örn í Heilsuhúsinu auglýsti að ég myndi verða með ráðgjöf í verslun hans. Þá brást Tryggingarstofnun hart við og svipti mig samningnum við stofnunina. Það er því óráðið hjá mér hvert framhaldið verður“, sagði Hallgrímur að lokum.

Eftirmáli höfundar
Flestum lesendum mun kunnugt um andóf Hallgríms gegn gerilsneyddri mjólk. Þar sem hann hefur sagt frá rannsóknum sem sýna að þær þjóðir sem neyta kúamjólkur eru verr haldnar af beinþynningu en þær sem lítið neyta mjólkur. Kemur þetta heim og saman við rannsóknir sem gerðar voru í Danmörk af Þorbjörgu Hafsteinsdóttur, næringarráðgjafa  og hjúkrunarfræðingi, og sagt er frá í afar fróðlegri grein hennar á bls. 9 í haustblaði Heilsuhringsins 1998. Þar segir Þorbjörg að áróður fyrir mjólkurdrykkju til að fyrirbyggja beinþynningu sé rangur, því að svo lítið magnesíum sé í kúamjólk að við nýtum ekki kalkið í mjólkinni.

Ennfremur er mjólk auðug af eggjahvítu sem veldur því að ph gildi blóðsins verður of lágt. Þar með verður blóðið of súrt. Þegar vitað er um hvernig Tryggingarstofnun brást við, þegar Heilsuhúsið auglýsti Hallgrím Magnússon sem ráðgjafa varðandi bætiefni, vaknar sú spurning hversvegna Landlæknisembættið  og Tryggingarstofnun láti það viðgangast að margir íslenskir læknar og hjúkrunarfræðingar leggi kapp á að auglýsa mjólk í fjölmiðlum, sem besta meðalið við beineyðingu. Halda mætti að fjárhagslegir hagsmunir liggi þar að baki.

Sjö árum seinna var eftirfarandi viðtal tekið við Margréti og hún spurð hvort hún héldi sig enn við sama mataræðið. Fyrirsögnin var: Heldur Chron’s sjúkdómi í skefjum með mataræði.  https://heilsuhringurinn.is/2008/04/01/heldur-crohnas-sjukdomi-i-skefjum-med-rettu-matataedi/

 



Flokkar:Greinar og viðtöl

Flokkar/Tögg, , , ,

%d bloggers like this: