Liðkað um liðina með kírópraktík

Rætt við hjónin Berg Konráðsson kírópraktor og Ingu Lóu Bjarnadóttur
Bergur Konráðsson lauk námi í kírópraktík frá Palmer College of Chiropractic í Bandaríkjunum árið 1994. Hann starfar nú á Sogavegi 69 í Reykjavík með konu sinni Ingu Lóu Bjarnadóttur sem hefur lokið námi sem aðstoðarmaður kírópraktors. Slíkt nám tekur tvö ár og snýst um myndatökur, bókhald, sjúkraskýrslugerð o.fl. Nám kírópraktors tekur 5 ár. Fyrstu tvö árin eru eins og í læknisfræðinámi; krufning, efnafræði, lífefnafræði og líffærafræði. Einnig er farið vel í stoðkerfið, taugakerfið og vefi líkamans. Eftir fyrstu tvö árin snýst námið um hrygginn og meðhöndlun hans,meðal annars er þá kennd röntgenmyndataka og að vinna úr því sem þar kemur fram.

Bergur KonráðssonInga Lóa Bjarnadóttir

Myndir eru teknar af einstaklingnum standandi. Þannig er hryggurinn undir álagi og auðveldara er að greina á myndunum hvað er að, hvort um er að ræða skekkju, kölkun, slit eða annað, t.d. hvort annar fóturinn er styttri eða hvort önnur öxlin er sigin. Slíkt er erfiðara að sjá á myndum sem eru teknar af fólki liggjandi. Á síðasta námsárinu vinnur neminn undir stjórn menntaðs kírópraktors með bóklega náminu. Að námi loknu vann Bergur í eitt ár sem kírópraktor í Illinois-fylki í Bandaríkjunum. Hér á eftir fer viðtal sem Heilsuhringurinn átti við hann.

Hvað er kírópraktík?
Kírópraktík byggist á því að athuga og lagfæra samband milli hryggjar og taugakerfis. Milli hryggjaliða eru taugaendar og vöðvar sem tengjast hryggnum. Stundum gerist það að ákveðnir hryggjaliðir skorðast á röngum stöðum þannig að þeir hreyfast ekki, þrengja að taugum og trufla boð þeirra og það orsakar svo einhver vandamál. Við leitum að slíkum fyrirstöðum og getum síðan leiðrétt þetta með því að breyta afstöðu hryggjarliðanna og gefa taugunum sitt upprunalega pláss, svo að þær geti starfað eðlilega og líkaminn lagað sig sjálfur. Eins og gefur að skilja er oft verið að breyta afstöðu liðbanda og vöðva sem jafnvel hafa haldið hryggjarliðnum skökkum í mörg ár.

Liðir kunna að hafa skekkst af því að viðkomandi hefur dottið eða lent í slysi. Í slíkum tilfellum hreyfir kírópraktorinn þann lið er veldur vandanum og reynir að móta honum nýja eðlilega stöðu og losa þannig um hinar klemmdu taugar. Það sem hefur áhrif á meðferð og árangur er orsök vandans t.d. hvort um er að ræða slit, brjóskeyðingu, kölkun eða fæðingargalla. Talað er um að kírópraktor „hnykki“ en það orð á varla við í þessu sambandi því að handbragðið er mjúklegt. Við erum þjálfuð í að vinna án átaka, þannig að það sé sársaukalaust fyrir þann sem meðferðina fær. Brakið sem heyrist er vegna þrýstingsbreytingar sem á sér stað við hreyfingu liðanna.

Mörg kerfi
Það kerfi innan kírópraktíkurinnar sem ég lærði og starfa eftir er fundið upp og þróað af verkfræðingi sem hét Dr. Clarence Gonstead. Hann varð óvinnufær vegna mikillar liðagigtar og leitaði til kírópraktors, sem hjálpað honum. Dr. Gonstead ákvað að hætta í starfi sínu sem verkfræðingur, settist aftur á skólabekk og lærði kírópraktík.

Hann gerði margar rannsóknir og notaði síðan verkfræðikunnáttu sína til að byggja upp og þróa ákveðið kerfi innan kírópraktíkurinnar. Dr. Gonstead má meðal annars þakka það, að í þessu kerfi er nú notuð röntgenmyndatækni við skoðun og unnið eftir myndum, sem bæði auðveldar vinnu og tryggir öryggi sjúklinga. Ásamt því að mynda, áður en meðhöndlun er hafin, nota ég einnig mælitæki til að mæla hita húðarinnar. Ef hryggurinn er í jafnvægi er hiti húðarinnar jafn, hins vegar breytist hitastigið ef um bólgur er að ræða. Á mælinum eru tveir nemar sem skynja hitabreytingar og er því mjög fljótlegt að átta sig á því hvort eitthvað er að. Þessi mælir er því mikið hjálpartæki við starfið.

Hver eru algengustu vandamál þeirra sem leita til kírópraktors?
Bakvandamál og þá aðallega mjóhryggs veilur, brjósklos og höfuðverkur. Það sem nefnt er brjósklos, er útbungun á brjóski milli liða, sem oftast ertir mænuna eða taugaenda. Þá koma röntgenmyndirnar sér vel. Á þeim má greinilega sjá afstöðu liðanna og hvernig best er að meðhöndla hrygginn.

Er hægt að hjálpa fólki sem hefur verið skorið við brjósklosi?
Í mörgum tilfellum er það hægt. Frumorsök fyrir brjósklosi er oftast sú að það hefur komið veila í hrygginn, oft vegna þess að einn hryggjaliður situr ekki rétt þannig að það verður álag á brjóskið á milli liðanna. Í nútíma bakskurðum er útbungunin á brjóskinu skorin í burtu og þannig komið í veg fyrir að það ýti á taugar, en orsökin fyrir veilunni er enn til staðar því að liðurinn er ennþá fastur og jafnvel skakkur. Hann getur því haldið áfram að valda vanda. Í slíkum tilfellum hefur oft gengið vel að hjálpa fólki. Æskilegt væri að fólk reyndi aðrar leiðir áður en það fer í bakskurð.

Orsaka að leita í hálsinum
Stór hluti þeirra er til mín leita koma vegna mígreni og höfuðverkja. Þó að margar ástæður séu fyrir slíku má oft leita orsakanna í stífum hálsvöðvum og klemmdum taugum í hálsi.  Í kjölfar hálsmeiðsla er tognuðum vöðvum stundum kennt um verki, en ekki má gleyma því að oft eru áverkarnir og einkennin miklu verri en afleiðingar tognunar, t.d. minnisleysi, sjóntruflanir, höfuðverkir, dofi í höndum, kjálkavandamál og eymsli í mjóbaki.Við slíka áverka breytist oft staða hálsliðanna vegna tognunar og stundum réttist úr sveigjunni á hálsinum. Ef kírópraktor hreyfir liðina til og færir þá á sinn stað getur líkaminn oft á tíðum læknað sig sjálfur. Margir koma vegna vandamála í liðum t.d. vegna verkja í úlnliðum, öxlum, olnbogum, hnjám og ökklum. Eins og alltaf er spurningin um hver sé orsökin fyrir verkjunum. Boðin sem berast frá heilanum niður mænuna og út í taugakerfið verða að vera fyrirstöðulaus.

Tennisolnbogi lagaðist
Ég ætla a greina frá einu dæmi um slíkt; um daginn kom hingað kona sem þjáðist af því sem kallað er tennisolnbogi. Læknir hafði sprautað í hana kortisón lyfi sjö sinnum á liðnum árum og gefið henni margs konar bólgueyðandi lyf. Enginn bati fékkst þrátt fyrir það. Henni ofbauð lyfjaátið og hætti því. Eftir að hafa verið í fatla í fjóra mánuði kom hún til mín og var þá illa haldin. Athugun mín leiddi í ljós að vandamálin stöfuðu frá hálsinum og eftir viku meðferð gat hún rétt úr handleggnum, sem hún hafði ekki getað í mörg ár. Ég átti ekkert við olnbogann sjálfan. Þó að fleira geti orsakað slíkan vanda þarf að athuga þennan möguleika því að ef taugar verða fyrir ertingu vegna rangrar stöðu hálsliða getur það valdið sinaskeiðabólgu, tennisolnboga og margvíslegum óþægindum í höndum.

Hvað um liðamót fóta?
Ef við skoðum ökklann þá er hann samsettur úr mörgum beinum, þannig að ef fólk misstígur sig geta liðbönd tognað. Það veldur skekkju á þessum liðamótum og orsakar eymsli þegar stigið er í fótinn. Kírópraktík getur komið þarna að gagni, það má breyta afstöðu beinanna og leiðrétta skekkjuna. Eins má liðka stífa ökkla, því að vandamál í ökkla geta orsakað truflun í hné og líka mjöðm.

Hvað er hægt að laga og hvað ekki?
Erfitt er að segja til um það og fer oftast eftir einstaklingnum sem meðhöndlaður er. Ég hef reynt að ótrúlegir hlutir geta gerst. Ég lít á mig sem aðstoðarmann við að finna út hvað hindrar eðlilega líkamsstarfsemi þess sem til mín leitar og ég reyni að hjálpa líkama hans til að lækna sig sjálfur.

Börn í meðferð sýna oft undraverðar framfarir í því að leiðrétta orkuflæði sitt þó að eitthvað hafi komið fyrir. Dæmi eru um að börn sem fá meðferð í kírópraktík hafi læknast a eyrnabólgu, astma, hægðatregðu, ofvirkni o.fl.. Veikindin má þá rekja til þess að börnin hafi dottið eða orðið fyrir öðru hnjaski, sem á einhvern hátt hafi breytt eðlilegri stöðu hryggsúlunnar og þannig haft áhrif á taugakerfið.

Fékk heyrn
Bergur sagði frá Daniel David Palmer, sem árið 1895 vann við að lækna fólk með hjálp kristalla. Hjá honum starfaði heyrnarlaus húsvörður, sem kvartaði um verki í bakinu. Við skoðun sá Palmer kúlu á einum hryggjarlið hans og ákvað að ýta á hana til að freista þess  að lina bakkvalir mannsins. Þetta hafði ótrúlegar afleiðingar, húsvörðurinn fékk heyrn sem jókst næstu daga þar til hún var orðin fullkomlega eðlileg.

Palmer hélt að hann hefði fundið lausnina og gæti læknað fólk af heyrnarleysi. Hann auglýsti það og margir komu til hans. Hann ýtti á þær misfellur sem hann sá á baki fólksins og sagði því að koma aftur eftir 2 vikur. Enginn af þeim fékk heyrnina aftur en flestir voru samt ánægðir með að hafa komið til hans því að við meðferðina löguðust margir af bakverkjum, höfuðverkjum, magaverkjum og ýmsu öðru, sem hafði þjáð það árum saman. Þetta varð til þess að Palmer fór að kynna sér hvernig hryggurinn tengdist taugakerfinu og fann út það sem vitað er í dag; að taugakerfið stjórnar allri starfsemi líkamans.

Höfundur; Ingibjörg Sigfúsdóttir skrifað árið 1997



Flokkar:Meðferðir

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , , , , , , , ,