Hormóninn melatonin

Seinni hluti

Í síðasta tölublaði Heilsuhringsins (haust 1996) ræddi ég um hvernig hormóninn melatonin virðist stjórna „líkamsklukkunni“, þ.e. ýmsum ferlum sem háðir eru daglegum sveiflum og einnig því sem ég nefndi „æviklukku“, en það eru ferli sem hefjast við fæðingu og fela í sér líkamsþroska, kynþroska, hrörnun og að lokum dauða. Einnig sagði ég frá áhrifum melatonins á svefn. Nú ætla ég að segja frá ýmsu fleiru sem vísindamenn telja sig hafa uppgötvað í sambandi við melatonin og starfsemi heilaköngulsins eða „pineal-kirtilsins“ eins og hann stundum er nefndur. Upplýsingarnar eru að mestu fengnar úr bókinni „The Melatonin Miracle“, eftir vísindamennina dr. Walter Pierpaoli og dr. William Regelson eins og greinin í síðasta blaði, þó að nokkrar tímaritsgreinar hafi einnig verið hafðar til hliðsjónar.

Melatonin og ónæmiskerfið
Gott heilsufar hvílir á heilbrigðu og kröftugu ónæmiskerfi. Ónæmiskerfið er samsett úr mörgum þáttum, sem hver um sig gegnir mismunandi hlutverki í vörnum líkamans gegn utanaðkomandi áreiti, s.s. bakteríum eða veirum. Einnig ræðst ónæmiskerfið gegn öllu óæskilegu sem myndast í líkamanum, eða sem hann (líkaminn) framleiðir sjálfur s.s. krabbameinsfrumur, eða eðlilegar, dauðar frumur sem líkaminn þarf að losa sig við. Ónæmiskerfið notar margar mismunandi frumur til þessara verka sem allar til samans mynda samræmda heild. Þekktastar eru svokallaðar B-frumur sem þroskast í beinmerg og stjórna mótefnamyndun. Aðrar eru svokallaðar T-frumur sem til eru af nokkrum mismunandi afbrigðum.

Þær þroskast í hóstar(thymus)- kirtlinum, sem liggur undir bringubeininu allra efst. Þær kljást m.a. við krabbameinsfrumur og sveppi auk margs annars. Sumar T-frumur, svokallaðar bælifrumur hafa t.d. það hlutverk að fylgjast með starfsemi annarra ónæmisfruma og stöðva virkni þeirra, þegar „óvinurinn“ hefur verið sigraður, svo að ónæmiskerfið fari ekki að ráðast á eigin líkama. Gerist það er það nefnt „sjálfsónæmi“ eða „sjálfsofnæmi“. Vanvirkni bælifrumanna er talin valda fjölda sjúkdóma og einkenna sem einu nafni eru nefnd sjálfsónæmissjúkdómar, t.d. liðagigt, M.S. (heila- og mænusigg), blæðandi ristill og margir fleiri sjúkdómar. Raunar má segja að þeir lýsi sér sem ofnæmi fyrir einhverju líffæri eða frumum í eigin líkama. Í ónæmiskerfinu eru líka átfrumur (stórfrumur), sem beinlínis innbyrða og „melta“ framandi efni og einnig náttúrulegar drápsfrumur (NK cells) auk fleiri tegunda ónæmisfruma sem ekki verða nefndar hér.

Hversu mikilvægir hinir ýmsu þættir ónæmiskerfisins eru má sjá af því að eyðni hefur aðeins áhrif á tvær tegundir T-fruma en eigi að síður nægir það til að valda banvænni ónæmisbilun. Dýratilraunir og kannanir á fólki sýna að melatonin hefur afgerandi áhrif á virkni flestra þátta ónæmiskerfisins. Þegar aldur færist yfir, bæði menn og dýr, dregur oftast úr virkni ónæmiskerfisins. Höfundar bókarinnar The Melatonin Miracle telja að þetta stafi oftast nær af því að með árunum minnkar framleiðsla á melatonin í heilakönglinum. Þeir ákváðu að gera tilraun til að sannreyna þetta. Hún fólst í því að gefa músum efni sem hindraði þær í að mynda melatonin. Þetta kom fram sem alvarleg bæling á ónæmiskerfinu sem m.a. mátti sjá á hæfni þess til að framleiða mótefni.

Ef þeir gáfu þessum sömu músum melatonin komst ónæmiskerfi þeirra aftur í dag. Einnig kom í ljós í annarri músatilraun, að mýs sem fengu melatonin eftir bólusetningu sýndu miklu sterkari ónæmissvörun gegn sýkingarefninu sem bólusett var með, heldur en mýs sem ekkert melatonin fengu. Þó að ennþá vanti meiri rannsóknir á þessu sviði gæti það bent til að æskilegt væri að gefa melatonin eftir bólusetningar til að ná betri árangri en nú fæst af bólusetningum almennt.

Melatonin eykur einnig viðnám músa, að minnsta kosti gegn veirusýkingum. Í einni tilraun voru mýs sýktar með veiru sem veldur oftast banvænni sýkingu í hjarta (encephalomiocarditis). Miklu fleiri mýs lifðu ef þær fengu melatonin heldur en búast mátti við, og svo var að sjá sem melatonin hindraði að veiran næði að skaða hjartað. Melatonin virðist geta hindrað að streita bæli ónæmiskerfið, svo sem sannað hefur verið ótal sinnum og auðvelt er að sýna fram á með tilraunum á músum. Sennilega stafar þetta af því að melatonin dregur úr myndun streituhormóna og barkarstera (corticosteroids), sem myndast í ofgnótt við streitu.

Ástæður þess að melatonin styrkir ónæmiskerfið eru sennilega fleiri en ein. Melatonin hindrar að hóstarkirtillinn rýrni með aldri, eins og venjan er. Sennilega stafar þessi rýrnun af skorti á melatonin, sem einmitt verður á sama tíma. Þegar hóstarkirtillinn rýrnar hættir hann að geta þroskað nýjar T-frumur og ónæmiskerfið smáhrörnar. Sé melatonin tekið inn virðist hóstarkirtillinn endurnýjast og fara að þroska T-frumur aftur. Þetta gæti bent til að gagnlegt væri fyrir eyðnisjúklinga að nota melatonin. Það telja að minnsta kosti vísindamennirnir áðurnefndu og benda á enn eina músatilraun sem þeir gerðu.

Til eru mýs án hóstarkirtils. Þær sýna flest sömu einkenni og eyðnisjúklingar og deyja oftast ungar úr einhverri sýkingu. Sé þessum músum gefið melatonin verða þær hinsvegar næstum því eðlilegar og lifa lengur. Þær virðast geta þroskað T-frumur án þess að hafa hóstarkirtil, aðeins ef þær fá melatonin í fóðrinu. Fleira bendir til að melatonin sé gagnlegt fyrir eyðnisjúklinga, án þess þó að ég sé hér að gefa í skyn að melatonin lækni eyðni. Það gerir melatonin sjálfsagt ekki, en það gæti e.t.v. bætt mörgum „góðum“ árum við ævi eyðnisjúklinga.

Fleira en áhrif melatonins á hóstarkirtilinn veldur því trúlega að melatonin styrkir ónæmiskerfið. Það hvetur einnig skjaldkirtilinn til að framleiða meira af hormónum. Skjaldkirtilshormónar (T3 og T4) styrkja og hvetja nefnilega ónæmiskerfið svo að sennilega má þakka þeim að hluta fyrir ónæmishvetjandi verkanir melatonins. Áður fyrr var joð oft gefið við kvefi og öðrum sýkingum. Nú er vitað að joð örvar skjaldkritilinn til að mynda hormóna, svo að þeir gömlu virðast hafa vitað sínu viti.

Krabbamein og melatonin
Í síðasta blaði var sagt frá því að aldraðar mýs fengu ekki krabbamein væri þeim gefið Vor 1997 á neti› 3.4.2009 15:33 Page 3 melatonin. Flestar mýsnar úr samanburðarhópi sem ekkert melatonin fékk, drápust hinsvegar úr krabbameini. Dr. Pierpaoli og dr. Regelson trúa því að höfuðástæðan fyrir þessu sé áhrif melatonins á ónæmiskerfið, ásamt hæfileika melatonins til að eyða stakeindum, sérstaklega inni í frumunum, þar sem þær eru sífellt að myndast við eðlilega orkuvinnslu frumanna. Þeir telja að þessi tvö atriði, ónæmisbilun og skemmdir á erfðaefni frumanna af völdum stakeinda (sindurefna, free radicals) sé hin raunverulega orsök illkynja frumubreytinga.

Sé ónæmiskerfið sterkt og heilbrigt finnur það afbrigðilegar frumur og eyðir þeim áður en þær valda neinu tjóni. Sé það hinsvegar bælt eða starfar illa, geta afbrigðilegar frumur náð að fjölga sér og verða að krabbameini. Sindurefni inni í frumunum auka líkur á að skemmdir verði á DNA-erfðaefninu. Því geta oxunarvarnarefni í fæðu dregið úr hættu á þannig skemmdum og minnkað líkur á illkynja frumubreytingum. Melatonin er öflugt oxunarvarnarefni og það sem gerir það einstakt er að það verkar bæði í vatnslausn og fitulausn, sem er mjög fátítt með oxunarvarnarefni.

Það kemst því auðveldlega inn í frumurnar og er talið verka þar sérstaklega vel til að verja viðkvæm innri líffæri þeirra gegn skemmdum frá sindurefnum. Sennilega verkar það með samvirkni við önnur oxunarvarnarefni inni í frumunni, t.d. oxunarvarnarensímin SOD (superoxid dismutasa) og glutathionperoxidasa og oxunarvarnarvítamín, kóensím Q-10 o.fl. Þetta dregur mjög úr oxunarskemmdum inni í frumunum en getur þó aldrei komið algerlega í veg fyrir þær. Þá kemur ónæmiskerfið til sögunnar og finnur afbrigðilegar frumur sem myndast hafa og tortímir þeim. Þannig getur melatonin á að minnsta kosti tvennan hátt minnkað líkur á krabbameini.

Það sem hér hefur verið fjallað um er þó fyrst og fremst fyrirbyggjandi, en melatonin er einnig gagnlegt við krabbameinslækningar. Sýnt hefur verið fram á að það hvetur líkamann til að mynda efni sem verka gegn krabbameini. Þar má nefna TNF (tumor necrosis factor), interferon og interlauken-2, auk þess að það hvetur T-frumur ónæmiskerfisins sem áður hefur verið rætt um. Þær virðast nefnilega missa hluta hæfileika sinna til að kljást við krabbameinsfrumur eða framandi efni þegar fólk eða dýr fara að eldast, sennilega vegna skorts á melatonin. Sé melatonin tekið inn öðlast T-frumurnar þennan hæfileika aftur. Því má telja að melatonin sé gagnlegt, bæði til að fyrirbyggja og lækna krabbamein.

Innkirtlakerfið
Að mati vísindamannanna áðurnefndu er melatonin stýrihormón sem stjórnar á einn eða annan hátt virkni allra annarra hormóna líkamans. Þeir nefna heilaköngulinn „master gland“, sem sennilega væri best að þýða með „yfir“- eða „stjórnkirtill“. Þetta fellur ótrúlega vel að hugmyndafræðum  gömlu meistaranna frá Indlandi, sem skrifuðu Vedabækurnar fyrir mörg þúsund árum. Orðið „Veda“ í sanskrít er samstofna sögninni „að vita“ í íslensku og hliðstæðum orðum í öðrum indó-evrópskum málum. Hvernig indversku fræðimennirnir „vissu“ um hlutverk og mikilvægi þessa kirtils er okkur sem nú lifum þó alger ráðgáta.

Melatonin hefur áhrif á hormóna úr heiladingli með frekar flóknu samspili þar sem undirstúka heilans, sem er ofan við heiladingulinn, gefur boð til heilaköngulsins um að framleiða melatonin. Melatonin hefur svo aftur  áhrif á taugar í undirstúku heilans til að framleiða stýrihormóna, sem síðan hvetja heiladingulinn til að framleiða ýmsa aðra hormóna. Heiladingulshormónar gegna margskonar hlutverki, m.a. að örva skjaldkirtilinn til að mynda T3 og T4 skjaldkirtilshormóna, sem stjórna efnaskiptum. Í heiladinglinum myndast svokallaður „vaxtarhormón“ sem einkum myndast í djúpsvefni og við áreynslu.

Hann hvetur lifrina til að mynda efni sem nefnt er IGF (insúlínlíkir vaxtarþættir) sem stýra m.a. vexti sina, beina og vöðva. Í heiladinglinum myndast einnig hormóninn ACHT, sem stýrir m.a. myndun barkarstera (corticosteroids) í nýrnahettuberkinum og einnig svokallaður LH hormón sem örvar kynkirtla, bæði karla og kvenna, til að framleiða kynhormóna (testósteron, prógesteron, östrogen). ACTH hormóninn hvetur einnig nýrnahetturnar til að mynda enn einn hormón sem nefndur er pregnenolon sem myndast úr kólesteróli. Pregnenolon er móðurhormón allra sterahormóna og er m.a. stundum talinn geta læknað liðagigt, án aukaverkana. Þessi upptalning er nú orðin svo flókin að sennilega botnar enginn neitt í henni, en með almennum orðum má segja að melatonin hafi bein eða óbein áhrif á flesta hormóna líkamans sem vitað er um.

Einnig er það álit, að minnsta kosti sumra vísindamanna, að innkirtlarnir „tali saman“ með hormónum, þ.e.a.s. að boð frá einum innkirtli hafi áhrif á annan, sem síðan hefur aftur áhrif á þann fyrsta og e.t.v. þriðja o.s.frv. Þannig er innkirtlakerfið ein samfelld heild, þar sem einn hormón hefur trúlega áhrif á alla hina. Einnig er nú vitað að náið samband er á milli innkirtlakerfisins og ónæmiskerfisins svo að segja má að þessi tvö kerfi vinni einnig saman sem ein heild. Þetta skýrir kannski betur en flest annað hvernig einn hormón, – melatonin, getur haft jafn víðtækar verkanir eins og raun er á.

Æðakerfið og melatonin
Eftir það sem á undan er sagt ætti engum að koma það á óvart að melatonin viðist hafa mjög jákvæð áhrif á hjartað og æðakerfið. Dýratilraunir sýna að sé kólesteról í blóði dýra meira en æskilegt er talið, minnkar það, en sé það eðlilegt breytist það lítið við að gefa þeim melatonin. Séu mýs aldar á kólesterólauðugu fóðri vex kólesteról í blóði þeirra, en minnkar fái þær melatonin í drykkjarvatninu. Dr. Walter Pierpaoli segir frá vini sínum, sem búinn var að fara þrisvar sinnum í hjartaaðgerð. Hann var með of mikið kólesteról í blóði og átti að fara í fjórða skiptið í hjartaaðgerð. Hann fór þá að nota 5 mg skammta af melatonin fyrir svefn.

Honum fór fljótlega að líða betur og svaf værara á nóttunni. Næst þegar hann fór í læknisskoðun var kólesterólið í blóði hans orðið eðlilegt og allt ástand hans miklu betra. Vísindamennirnir telja að kólesteróllækkandi áhrif melatonins stafi fyrst og fremst af betri virkni skjaldkirtilsins, sérstaklega að umbreyting thyroxins (T4) í T3, sem er virkara form skjaldkirtilshormóns, verði miklu hraðvirkari. Fjöldi sannana er fyrir því að melatonin hjálpar til við að halda blóðþrýstingnum eðlilegum.

Á nóttunni, meðan melatonin er í hámarki í blóði, er blóðþrýstingurinn venjulega einna lægstur. Þegar líður að morgni minnkar melatonin í blóðinu og samtímis fer blóðþrýstingurinn að hækka. Það er því ekkert undrunarefni þeirra sem hafa rannsakað verkanir melatonins, að flest hjarta- áföll verða snemma morgunns, um sexleytið eins og fólk á bráðavakt sjúkrahúsa hefur fyrir löngu veitt athygli. Einnig er það athyglisvert að blóðþrýstingur í fólki fer yfirleitt ekki að hækka umtalsvert fyrr en komið er á fimmtugsaldurinn, einmitt þegar melatonin frá heilakönglinum fer að minnka verulega. Hjá dýrum hækkar blóðþrýstingurinn samstundis þegar heilaköngullinn er tekinn og lækkar ekki aftur.

Vísindamennirnir álíta að m.a. séu verkanir melatonins tengdar áhrifum þess á hormónana renin og aldosteron sem stjórna m.a. salt- og vatnsbúskap líkamans með áhrifum á nýrun. Vafalaust er það þó aðeins hluti skýringarinnar. Kaldhæðnislegt er það, að beta-blokkerar, sem er lyfjaflokkur sem mikið er notaður við háþrýstingi og hjartasjúkdómum eru, að minnsta kosti af sumum vísindamönnum, taldir trufla eða hindra að heilaköngullinn framleiði melatonin. Sé þetta rétt valda þessi lyf beinlínis háþrýstingi, sé til lengri tíma litið, enda þótt fyrstu áhrif þeirra kunni að vera blóðþrýstingslækkandi.

Sé melatonin einnig notað, samhliða beta-blokkerum, veldur það þó sennilega ekki skaða að nota þá við háþrýstingi. Þetta er hliðstætt því að blóðfitulækkandi lyfin simvastatin og lovastatin hindra líkamann í að mynda kóensím Q-10 og verka því beinlínis öfugt við það sem ætlast er til, sem er að fækka hjartaáföllum, nema Q-10 sé einnig notað. Melatonin dregur úr myndun streituhormóna og það eitt skýrir margt af þeim jákvæðu verkunum sem það hefur á hjarta og æðakerfið. Vísindamennirnir sem skrifuðu bókina sem hér er mest vitnað í, telja að melatonin hjálpi frumum líkamans við að mynda meiri orku með því að örva rafeinda-flutingakeðjuna í svokölluðum „mitokondrium“ í frumum líkamans.

Fleiri efni koma þar við sögu t.d. kóensím Q-10 og NADH, sem ég áður hef skrifað um. Rafeinda-flutningakeðjan myndar orkuríku sameindina ATP, sem sér frumunum fyrir orku. Sé flutningakeðjan of hægvirk skortir  frumuna orku og pyrofosfat getur farið að myndast í stað ATP. Það getur síðan bundist kalki sem sest getur á viðkvæma staði og valdið ýmis háttar vandræðum sem oft hrjá aldrað fólk.

Vísindamennirnir segjast trúa því að melatonin geti stöðvað þessa þróun og jafnvel snúið henni við. Flestar nýjustu kenningar um sjúkdóma í æðakerfinu gera ráð fyrir á einn eða annan hátt, að oxuð lágþéttnifituprótein (LDL kólesteról) setjist innan í mikilvægar æðar og smáloki þeim (sjá grein í Hh 1991, haust). Til að hindra oxun á kólesteróli er því mikilvægt að ekki skorti oxunarvarnarefni. Margar kannanir sýna að oxunarvarnarvítamín í fæðu (A, C, E, B6 o.fl. vítamín), ásamt mörgum öðrum oxunarvarnarefnum, skipta sköpum um hvort fólk fær ýmsa sjúkdóma sem sindurefni eða ótímabær oxun er talin eiga þátt í.

Melatonin er eitt besta oxunarvarnarefni sem völ er á og hjálpar því til við að minnka líkur á að kólesteról oxist og setjist innan í æðar, ásamt áðurgreindum bætiefnum. Til er kenning sem gerir ráð fyrir að einhvern tíma í þróunarsögu lífsins á jörðinni hafi svefninn orðið til sem hagkvæm leið til að losna við stakeindir sem mynduðust við lífsstarfsemina. Stakeindir myndast lítið á meðan dýr eða menn sofa. Ef við svæfum aldrei mundu stakeindir fljótlega hlaðast upp og sennilega verða okkur að aldurtila. Þá uppgötvaði móðir Náttúra melatonin og svefninn.

Melatonin gerir okkur syfjuð og við sofnum og oxunarvarnareiginleikar melatonins hjálpa líkamanum til að losna við skaðleg sindurefni sem hlaðist hafa upp í erli dagsins. Myrkrið hjálpar til við að hvetja heilaköngulinn til að framleiða melatonin þegar réttur tími er kominn til að hvílast og losa okkur við stakeindirnar og samræma lífshrynjandina við lengd dags og nætur, sem allir sjá að hlýtur að vera mjög hagkvæmt. Hvort þessi kenning er rétt læt ég aðra um að dæma, en hún er skemmtileg og góð til íhugunar.

Eftirmáli
Enda þótt ótal margt fleira en hér hefur verið fjallað um sé áhugavert í sambandi við melatonin finnst þó greinahöfundi að nóg sé komið í bili. Höfundar bókarinnar The Melatonin Miracle eru t.d. með ýmsar framtíðarhugmyndir um að nota megi melatonin til að hjálpa fólki með ólíklegustu sjúkdóma og einkenni. Sumt af þessu er stutt allveigamiklum rökum en annað er meira eða minna skemmtilegar vangaveltur. Ég ætla hér til gamans í lokin, að nefna nokkrar af þessum hugmyndum: Alzheimersjúkdómur, astma, sykursýki, mongolismi (Down´s Syndrome), Parkinsonsveiki, sjúkdómar í augum o.m.fl. Þó að ennþá sé mikið starf óunnið við að prófa melatonin við sumu af þessu, er samt þegar ljóst að melatonin er trúlega eitt merkilegasta efnið sem komið hefur í sviðsljósið til að bæta líðan og heilsu aldraðs fólks á síðara helmingi þessarar aldar.

Séu upplýsingar dr. Pierpaolis og dr. Regelsons réttar, sem ég sé ekki ástæðu til að efa, þykir mér ekki ólíklegt að spara mætti háar fjárupphæðir árlega hér á Íslandi að nokkrum árum liðnum í heilsugæslu og lyfjakostnaði aldraðs fólks, ef allt fólk á Íslandi sem komið er á sextugsaldur eða eldra, ætti kost á að fá melatonin á svipuðu verði og það kostar í Bandaríkjunum, sem er nálægt 250-300 krónur á mánuði í 3 mg pillum, án lyfseðlis. Melatonin kostar hér á Íslandi meira en tíu sinnum meira og er þar að auki ekki hægt að fá nema lyfseðillinn sé samþykktur af Lyfjanefnd ríkisins, líkt og um stórhættulegt efni væri að ræða, sem læknum væri ekki treystandi til að fara með. Hér læt ég staðar numið með von um að úr rætist sem fyrst.

Munið að nota melatonin að kvöldi dags, en ekki að morgni (þeir sem eiga þess kost að neyta þess). Ævar Jóhannesson  Heimildir: Bókin The Melatonin Miracle, eftir dr. Walter Pierpaoli og dr. William Regelson með Carol Colman. Auk þess nokkrar tímaritsgreinar, m.a. úr Townsend Letter for Doctors and Patiens, Heilsu og sport og Heilsuvernd 1. tbl. 1996.

Melatonin kostar hér á Íslandi meira en tíu sinnum meira og er þar að auki ekki hægt að fá nema lyfseðillinn sé samþykktur af Lyfjanefnd ríkisins, líkt og um stórhættulegt efni væri að ræða, sem læknum væri ekki treystandi til að fara með.

Höfundur: Ævar Jóhannesson

Hér er slóð á fyrri greinina:  https://heilsuhringurinn.is/1996/09/06/hormoninn-melatonin-2/?fbclid=IwAR3UE8b43ropH6fKQUqnvhuvUoS75XIAOBxtDwmDwPOeYGLixRG6SPOYOBg



Flokkar:Greinar

Flokkar/Tögg, , , ,

%d bloggers like this: