Hún gefur heilsufarsleg heillaráð

Sigurdís Hauksdóttir lærði heilsuráðgjöf við Biopatskolen-Scandinavian School of Biopaty í Danmörku árið 1991 og hefur rak Heilsuráðgjafann í Kjörgarði í tæp fjögur ár. Nú lauk fjögurra ára námi í hómópatíu (homeopaty-smáskammtalækning), sem „College of Practical Homoeopathy“ í Englandi hélt hér á landi. Við litum inn til Sigurdísar og fræddumst um í hverju heilsuráðgjöf er fólgin. Viðtalið fer hér á eftir og Sigurdís fær orðið:

Það eru margir þættir sem geta haft skaðleg áhrif á heilsuna. Þörf er á að skoða vandann frá  mörgum hliðum og finna hvað raskar heildarjafnvægi hvers og eins. Sjúkdómar eru afleiðingar af flóknu samverkandi neti atburða og aðstæðna. Ástæðan getur verið lífsstíll einstaklingsins, huglæg afstaða til lífsins, andleg áföll, næring, og umverfisþættir. Þegar veitt er heilsuráðgjöf er brýnt að leita að orsök vandans sem við er að etja og gera sér heildræna mynd af einstaklingnum. Við slíka könnun vinn ég út frá fimm eftirfarandi þáttum:

1. Sálræn áhrif
Andleg áföll sem við verðum fyrir í lífinu geta valdið okkur líkamlegum skaða. Ef við tökumst ekki á við þessi áföll og vinnum úr þeim getur það veikt ónæmiskerfið og valdið alvarlegum sjúkdómum. Öll neikvæð hugsun er afar heilsuspillandi t.d. getur ótti, reiði, biturleiki, sjálfsgagnrýni eða gagnrýni á aðra, afbrýðisemi, minnimáttarkennd, léleg sjálfsímynd, sektarkennd, og virðingarleysi fyrir sjálfum sér og öðrum haft skaðleg áhrif á heilsu okkar.

Í kínverskum fræðum segir að vissar hugsanir og hugarástand hafi áhrif á orkubrautir líkamans. T.d. geti reiði, biturleiki, óróleiki og þunglyndi veikt lifur og gallblöðru. Streita, æsingur, hræðsla og þráhyggja skaði hjarta, blóðrás, smáþarma og innkirtlakerfi. Þunglyndi, áhyggjur, óánægja, ofreynsla og spenna hafi áhrif á milta, bris og maga. Sorg, sektarkennd og neikvæðni truflar lungu og ristil. Ótti og óöryggi vanda í nýrum og þvagblöðru.

2. Meðfædd áhrif
Heilsufar og lifnaðarhættir móður á meðgöngutíma skiptir miklu máli fyrir heilsufar barnsins. Þar skiptir næring, tilfinningalegt og sálrænt ástand hennar miklu máli. Meðfæddir heilsufarslegir eiginleikar fólks eru mismunandi. Sumir geta lifað heilsuspillandi lífi en átt langa ævi án alvarlegra veikinda. En aðrir verða að temja sér reglusamt, heilbrigt líf til að halda heilsu. Þetta eru þættir sem þarf að huga að við heilsuráðgjöf.

3. Örveru áhrif
Það er vitað að örverur geta valdið sjúkdómum ef þær komast í líkamann. Þær geta valdið sýkingum. Örverur eru t.d. bakteríur, sveppir, sníkjudýr, vírusar og fleira. En svo eru líka í líkamanum örverur sem lifa saman í sátt og  samlyndi t.d. á húðinni og í slímhimnu meltingarfæra, kyn- og þvagfæra. Þessar annars meinlausu örverur geta valdið sjúkdómum ef jafnvægi líkamans raskast, sem getur komið í kjölfar streitu og álags, fúkkalyfjaneyslu, lélegs mataræðis, rotvarnar- og geymsluefna í mat og fleiru. Slík fjölgun örvera getur orsakað sveppasýkingu í þörmum og leggöngum svo eitthvað sé nefnt. Sveppirnir framleiða eiturefni sem geta haft skaðleg áhrif á ónæmiskerfið og verði slíkt ástand langvarandi geta ýmsir sjúkdómar fylgt í kjölfarið.

4. Líkamleg áhrif
Stundar viðkomandi reglubundna hreyfingu, fær hann nóg súrefni og ferskt loft, er hvílst og sofið nógu mikið? Eru jarð- eða vatnsárur að trufla, þarf að athuga íverustað með tilliti til rafsviðs og rafsegulsviðs? Eru notaðir rafknúnir símar eins og t.d. þráðlausir símar, GSM eða farsímar? Er unnið í eða mikið verið í flúrlýsingu?

5. Efnafræðileg áhrif
Kannað er hvort vöntun er á nauðsynlegum næringarefnum eins og vítamínum, steinefnum, snefilefnum, ómettuðum fitusýrum, ásamt fleiru. Tekið er tillit til umhverfismengunar, mengunar matvæla, lyfjaneyslu, eiturefna t.d. kaffis, tóbaks og áfengis. Kvikasilfurs eitrum frá amalgami í tönnum, en það getur skaðað heilann, mænuna, taugakerfið og meltinguna.

Úrvinnsla
Með viðtölum má fá svör við mörgum af þeim atriðum sem athuga þarf og hafa verið nefnd hér. En skortur á vítamínum, steinefnum, fitusýrum, fæðubótarefnum svo og ofnæmi er mælt með til þess gerðu tæki og notaðir við það nálastungupunktar í orkubrautum líkamans.

Í starfi mínu hef ég rekið mig á hve margir þjást líkamlega vegna sálrænna eða tilfinningalegra áfalla, jafnvel sem þeir hafa orðið fyrir í bernsku, þegar kunnátta og geta var ekki fyrir hendi til að takast á við slíkar aðstæður. Af þeim sökum hefur viðkomandi alið með sér reiði, sorg, ótta eða eitthvað annað sem hefur sest að í sálarlífinu. Slíkt er beinlínis hættulegt heilsunni og má ekki loka inni. Nauðsyn er að læra að vinna úr slíku og fá hjálp við það. Það er ekki nóg að líta á hvað amar að í líkamanum, heldur verður líka að athuga hvort viðkomandi sé fastur í neikvæðu hugsanamunstri sem viðheldur sjúkdómnum.

Gegn slíkum vanda beiti ég hómópatíu því að í þeirri meðferð finnast svör við flestum mannanna meinum, bæði á sál og líkama. Þannig má oft ná miklum árangri gegn sjúkdómum sem komið hafa vegna tilfinningalegs og andlegs álags. Hómópatía er árangursrík heildræn aðferð sem hjálpar náttúrlegum heilunareiginleikum líkamans til að lækna sjálfan sig. Í hómópatíu er gert ráð fyrir að öll einkenni heilsuleysis sé að finna innra með manneskjunni sjálfri og að það sé hún sjálf sem þarfnast meðferðar en ekki sjúkdómurinn. Samhliða hómópatíunni nota ég líka oft svæðameðferð. Hún kemur af stað hreinsun í líkamanum og örvar starfsemi hans.

Hver er sinar gæfu smiður
Árangur næst með ástundun. Það getur útheimt mikla vinnu að koma heilsunni í lag, en sú vinna er mismikil og fer eftir því hver vandinn er og hve fljótt er brugðist við. Flestir sem til mín leita eru búnir að taka þá mikilvægu ákvörðun að takast á við vanda þann sem við er að etja. Með ákvörðuninni einni er mikill sigur unninn og er það byrjunin á því að snúa vörn í sókn. Í kjölfar þess næst oftast góður árangur. Þegar fólk tekst á við lífið og horfist í augu við það, hættir að lifa í fortíðinni og sleppir fortíðardraugunum úr sálarlífinu með því að fyrirgefa sjálfum sér og öðrum, er undravert hve góður árangur næst.
Höfundur: Ingibjörg Sigfúsdóttir skrifað árið 1997.Flokkar:Greinar og viðtöl

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , , , , , , , , ,

%d bloggers like this: