Vallhumall er fjölær 15-50 cm há jurt með skríðandi jarðstöngla. Blómin er smáar hvítar blóma-körfur (finnast einnig bleikar) sem mynda þéttar skermlaga hvirfingar. Blómstrar í júní –sept. Tegundaheitið, millifolium, þýðir þúsundblað, sem lýsir vel fjaðurlaga blöðum vallhumalsins sem eru mynduð úr óteljandi litlum blaðgreinum og hafa sterkan ilm og bragð. Vallhumallinn vex í þurrum brekkum, melbörðum, valllendi og heima við bæi. Hann er útbreiddur um alla Evrópu, mið og norður Asíu og norður Ameríku.
Vallhumallinn er talinn ein elsta lækningajurt sögunnar og hefur í gegnum aldirnar öðlast háan sess í sögu jurtalækninga sem alhliða lækningajurt. Fyrstu heimildir sem getið er um lækningamátt vallhumalsins eru í fornum kínverskum og egypskum ritum mörgum öldum f. Kr. Þar er hann nefndur sárajurt eða blóðjurt enda löngum verið talinn ein af bestu lækningajurtum til að græða sár og stilla blæðingar. Frá fornum menningarþjóðum kring um Miðjarðarhafið, Grikkjum, Egyptum og Rómverjum breiddist þekkingin á jurtalækningum norður um Evrópu og þaðan til Skandinavíu.
Í miðaldaklaustrum skráðu munkar lyfjauppskriftir sem þeir þýddu úr fornum ritum og ræktuðu lækningajurtir í klausturgörðum og stunduðu nunnur og munkar jurtalækningar, sem síðan breiddust út á meðal almennings. Mikil hjátrú og dulúð var tengd mörgum lækningajurtum og var vallhumallinn talinn heilög jurt og var einnig notaður við galdra og spádóma, líkt og norrænir menn notuðu rúnir. Hann var hengdur upp í híbýlum manna til að reka burt illa anda og halda frá drepsóttum. Öruggt ráð þótti að binda vallhumal í vönd brúðarinnar til að tryggja farsæld hjónabandsins fyrstu sjö árin.
Ungar stúlkur sem efuðust um trygglyndi unnusta sinna stungu vallhumalsstilkum upp í nasirnar, ef úr blæddi var unnustinn þeim trúr. Skömmu e. Kr. fær plantan sitt núverandi heiti, Achillea millifolium, eftir grískum stríðsforingja Achilleus sem flutti í herfarangri sínum kistur fullar af vallhumli til að stöðva blæð-ingar særðra stríðsmanna sinna, hreinsa sár þeirra og græða. Segir sagan að hann hafi gleymt að smyrja hægri hæl sinn, sem varð orsök þess að hann féll í orrustunni um Troju. Er þaðan komið máltækið um Akillesar-hælinn, þegar leitað er að ástæðu fyrir veikum punkti í fari einhvers.Vallhumallinn hefur gengið undir ýmsum nöfnum og má af þeim ráða við hverju hann hefur verið notaður.
Ölkóngur, Ölkall:
Vín bruggað úr vallhumli þótti enn sterkara og betra en úr humli.
Hermanna-jurt:
Öldum saman var vallhumallinn fyrsta hjálp hermanna á vígstöðvum til að hreinsa og græða sár hinna særðu, svo og til innvortis notkunar við ýmsum farsóttum s.s. blóðkreppusótt. Kistur með vallhumli voru ómissandi í herfarangrinum.
Skógarhöggsmanna-jurt:
Skógarhöggsmenn höfðu með sér vallhumal til að hreinsa og græða sárin þegar þeir slösuðust.
Konu-jurt:
Konur notuðu vallhumalsdrykki við móðurlífsbólgum, legkrampa og of miklum tíðablæðingum,einnig við ýmsum óþægindum á breytingaskeiðinu. Seyði og smyrsl úr vallhumli þóttu ein bestu fegrunarlyf sem konur áttu völ á fyrr á öldum. Þvoðu þær andlit sitt úr vallhumalsseyði og smurðu andlit sitt og líkama með vallhumalssmyrslum sem átti að yngja og fegra húð þeirra og seinka hrukkum og öldrun húðarinnar. Í dag byggist vitneskjan um lækningamátt vallhumalsins á fræðilegum rannsóknum á þeim efnum sem hann inniheldur og eru heilsuvörur unnar úr honum viðurkenndar víða um heim. Í Noregi hafa lyf úr vallhumli verið mest seldu jurtalyfin á síðustu árum. Vallhumallinn inniheldur mikið af virkum efnum s.s. ilmolíu sem inniheldur kazulan (smbr. Kamillujurtin) kíneól, pínen, tújon, einnig alkóhólíða og achillean auk margra annarra efna. Öll þessi efni hafa hvert fyrir sig læknandi eiginleika og samverkandi áhrif.
Kamazulan er bólgueyðandi, kíneól bakteríudrepandi og slímlosandi, achillean blóðstillandi þ.e.a.s. flýtir storknun blóðs í sárum. Innvortis er vallhumallinn góður við magabólgum, hann örvar meltinguna, stillir maga og þarmakrampa og stemmir niðurgang, dregur úr verkjum við tíðablæðingar, svita og þvagdrífandi, bjúglosandi og hreinsandi fyrir nýru og þvagblöðru. Hann lækkar sótthita og er slímlosandi í öndunarvegi. Útvortis er vallhumallinn notaður í seyði, olíur og smyrsli við ýmsum húðkvillum, s.s. exemi, psoriasis, ofnæmisútbrotum , bruna og sárum, sviða og kláða, hann virkar einnig samandragandi á æðarhnúta og gyllinæð. Þetta er engan veginn tæmandi upptalning á eiginleikum vallhumalsins en sýnir þó hversu fjölhæf og alhliða lækninga-jurt hann er, bæði til innvortis og útvortis notkunar og í engu síðri en margar þeirra erlendu jurta sem mikið eru auglýstar í verslunum í dag. Vallhumallinn er aðgengilegur víðast hvar á landinu, blóm og blöð eru tínd um það leyti sem jurtin er að springa út.
Og að lokum uppskrift af heilsute:
1 tsk. mulinn þurrkaður vallhumall eða 2 tsk. saxaður ferskur.
1 bolli sjóðandi vatn hellt yfir,
látið standa í 15. mín.
Síað og drukkið ósætt eða með örlitlu hunangi.
Heimildir:
Våre medisinske planter. Forlaget det beste. Mit eget planteapotek. Kolibriforlag. Urter for kropp og sjel. Hilt og Hansteen forlag. Íslenkar lækningajurtir. Auðbjörg Linda Jóhannesdóttir
Höfundur: Gígja Kjartansdóttir
Flokkar:Jurtir