Áhrifamikill eldhugi og frumkvöðull í heilsueflingu Íslendinga

Á þessu ári eru 30 ár síðan Marteinn M. Skaftfells stofnandi Heilsuhringsins lést þann 20. febrúar 1985. Hann var fæddur 14. ágúst 1903, útskrifaðist sem kennari árið 1933 og lauk framhaldsnám í Askov kennaraskóla Kaupmannahafnar. Eiginkona Marteins var Astrid Vik hjúkrunarkona.

Marteinn veiktist af mænuveiki árið 1946 og var þá ekki hugað líf. Viljaþrek hans og staðföst trú á bata ásamt hjálp hins víðsýna læknis Jónasar Kristjánssonar, frumkvöðuls á sviði náttúrulækninga, kom honum aftur til heilsu.  Marteini var ljóst, að læddist efi inn í vissuna um að hann kæmist yfir áfallið væri ekki von. Hann gerði sér grein fyrir því að hann yrði að leggja áherslu á næringu, ásamt andlegri- og líkamlegri þjálfun.  Yoga var nærtækasta andlega æfingin.

Í leit hans á næringarsviðinu komu vítamín og steinefni síðast inn. En svo gerðust þau undur að heilsa hans og vinnuþrek tók kipp upp á við er hann hóf að taka inn stóra skammta af vítamínum og steinefnum. Þá áttaði hann sig á því að sú kenning er röng að það fáist nægilega mikið af bætiefnum úr daglegri fæðu.

Reynsla Marteins opnaði augu hans fyrir því að læknisfræðin væri að mörgu leyti á villigötum. Að marga sjúkdóma mætti rekja til rangra lífsvenja og alveg sérstaklega til rangrar og ófullnægjandi næringar, sem fylgir efnaskertri matvöru í nútíma þjóðfélagi. Það leiddi til þess að hann lagði áherslu á að kynna sér gagnsemi bætiefna og hvernig skortur þeirra leiðir til sjúkdóma og vanheilsu. Hann las allar vísindarannsóknir sem hann náði í um þessi mál og var áskrifandi að fjölda erlendra tímarita um heilsufræði.

Einnig kynnti Marteinn sér allt sem hann náði í um heildrænar lækningar þ.e.a.s.  náttúrulækningar og óhefðbundnar lækningar (alternative medicine). Á endanum varð þekking hans á þessu sviði mjög yfirgripsmikil og fólk byrjaði að leita ráða hjá honum.  Þegar í ljós kom að fólk sem var með mismunandi kvilla hlaut oft mikinn bata, eða fullan bata, við inntöku vítamína. Varð Marteini ljóst, að kvillar þessir voru að meira eða minna leyti afleiðing efnaskorts í daglegri fæðu.

Vegna skorts á innflutningi náttúrulegra vítamína og bætiefna hingað til lands stofnaði Marteinn heildsöluna Elmaro. Þótt hann kysi fremur að aðrir með betri aðstöðu tækju það að sér. (Hver skyldi trúa því nú að þá reyndist ekki áhugi heildsala á slíkum viðskiptum?)

Þrátt fyrir annríkið fann Marteinn sig knúinn til að flytja inn bætiefni. Þótt hann ætti erfitt með að standa í því. Það hvarflaði ekki að honum að hætta, síst eftir að ofsóknir lyfjavaldsins hófust og fjandskapur lyfsala gegn sölu vítamína utan apóteka kom í ljós. Rök þeirra árið 1967 voru þau, að vítamín væru í lyfjaskrá, og væru því lyf. En þá náðu lyfjalög einnig yfir vatn, tjöru og bensín. Marteinn taldi réttilega vítamín vera fæðu en ekki lyf og sala þeirra ætti að vera í matvöruverslunum. Árið 1975 var gefin út reglugerð sem bannaði alla sölu vítamína utan apóteka.

Marteinn taldi  að með þeim róttæku banntilraunum á innflutningi bætiefna utan apóteka væri verið að vinna heilsufarsleg spellvirki.  Hann vitnaði í stjórnarskrána og fleiri lög þessu til stuðnings og reglugerðin var dregin til baka, enda almenn óánægja með hana. Hann barðist fyrir frjálsum innflutningi og dreifingu vítamína, steinefna og annarra nauðsynlegra bætiefna. En átti við vanþekkingu almennings að stríða og óeðlileg þröngsýni æðstu lækna nema Vilmundar heitins Jónssonar, landlæknis, sem hafði fullan skilning á gildi þessara efna.

Brautryðjandinn og hugsjónamaðurinn

Það má segja að sjálfboða- hugsjóna og fræðslustarf Heilsuhringsins sem hófst árið 1977 hafi sprottið upp af reynslu Marteins. Hann var aðalhvatamaður að stofnun félagsins og fyrsti formaður þess. Með Marteini valdist fyrirtaks fólk í stjórn og á augabragði náði félagatalan mörg hundruðum og fjölgaði ört. Árið 1978 var gefið út fyrsta fræðslurit félagsins undir nafninu Hollefni og heilsurækt. Í áranna rás var nafni blaðsins breytt í Heilsuhringurinn. Blaðið var gefið út í 30 ár til ársins 2008. Þá tók tæknin við og nú er það gefið út á Internetinu á heimasíðunni http://www.heilsuhringurinn.is  þar sem allir geta sótt sér ókeypis fróðleik. Kynning greina er á Fésbókarsíðunni:  Heilsuhringurinn.

Marteinn starfaði með Jónasi  Kristjánssyni lækni og öðrum brautryðjendum að stofnun Heilsuhælis NLFÍ í Hveragerði. Hann sat í stjórn Náttúrulækningafélags Íslands, Dýraverndunarfélagi Reykjavíkur og vann að málefnum Sólskríkjusjóðsins ásamt mörgum öðrum dýraverndunar málum.

Marteinn var óvenju víðlesinn og fjölfróður maður, hann kunni skil á hinum ólíkustu hlutum og málefnum. Hann lagði mikla áherslu á íslenska tungu bæði í námi sínu og í kennslu. Árið 1940 skrifaði hann með öðrum námsbókina Íslensk fræði. Hann þýddi greinar úr ýmsum tungumálum fyrir unglinga og ritstýrði unglingablaðinu Hörpunni í tvö ár.  Var glaðvakandi unglingafræðari og frumsamdi fjölda barnabóka.

Martein ritaði margar greinar í dagblöð þ.á.m. nokkrar greinar um skaðsemi flúors og hann átti drjúgan þátt í því árið 1980 að koma í veg fyrir að flúor væri sett í drykkjarvatn Reykvíkinga.

Einkunnar orð Marteins voru: ,,Góð heilsa er gulli dýrmætari. Keppum að því að gera hana að eign okkar, – að eign barna okkar – að eign vina okkar – að eign þjóðarinnar. Sameinumst til baráttu fyrir alhliða heilsurækt“.Flokkar:Annað, Reynslusögur

Flokkar/Tögg,

%d bloggers like this: