Lífvirk B-vítamín og nýlegar framfarir í læknisfræði tengdar þeim. Síðustu ár hafa borist fréttir erlendis frá af sjúklingum með ýmsa sjúkdóma sem hafa hlotið mismunandi mikinn og stundum talsverðan bata fyrir tilstuðlan meðhöndlunar með lífvirkum B-vítamínum. Þessi vítamín hjálpa sjúklingum sem geta ekki unnið úr venjulegum B-vítamínum til þess að öðlast aftur heilbrigðari methyl-efnaskipti. Hérlendis hefir þessi aðferð hlotið nafnið Methylhjálp (Enskt heiti: Methylationhelp/ Methylation Protocol).
Þróun Methylhjálparaðferða koma í kjölfar erfðauppgötvana undanfarin ár sem hafa sýnt að sumir sjúklingar með tauga- og ónæmiskerfissjúkdóma hafa takmarkaða getu til að vinna úr venjulegum B-vítamínum og aðallega takmarkaða getu við að vinna úr venjulegu B-9. Þessi vanvirkni á sér rætur í genabreytingu í MTHFR geni sjúklinga sem á að sjá um að framleiða ensím í líkama sjúklinga til að vinna úr B-9 vítamíni. Methylhjálparaðferðir eru því mjög eðlilegar fyrir lífefnafræði líkamans því þær bæta einfaldlega upp vangetu sjúklinga til að vinna úr venjulegum B-vítamínum með beitingu lífvirkra B-vítamína í staðinn. Aðallega er um lífvirk B-6, B-12 og hið áríðandi, lífvirka B-9 að ræða og þarf venjulega að beita þessum vítamínum saman í nákvæmum, litlum skömmtum til að fá methyl-efnaskiptahringinn til að vinna betur (stórir skammtar hjálpa ekki). Lífvirk vítamín eru vítamín sem búið er að vinna á það form að líkaminn getur nýtt þau beint án þess að þurfa að forvinna þau.
Það er ekki langt síðan lyfjafyrirtæki fóru að geta framleitt þessi vítamín og má segja að með þessari þróun hafi hafist nýr kafli á sviði lífefnalækninga. Methylhjálp hefur hlotið lof bæði heildrænna- og hefðbundinna lækna sem fylgjast með þróuninni vestanhafs. Rannsóknir á MTHFR genabreytingum eru líka mjög vinsælar. Heita má að nýjar rannsóknarniðurstöður berist gagnabanka bandarískra heilbrigðisyfirvalda vikulega. Sumir telja að allt að 40% fólks hafi einhverja MTHFR breytingu og eigi því í vandræðum með að vinna úr venjulegu B-9 vítamíni og fleiri B- vítamínum. Þessi vangeta er venjulega talin vera á bilinu 30% til 70% skerðing á því magni af því virka B-9 vítamíni sem nauðsynlegt er til heilbrigðra efnaskipta.
Hvernig virkar Methylhjálp?
Methylhjálp stuðlar að betri hreinsun líkamans. Eitt af því sem hefur komið fram við forrannsóknir á meðhöndlun með lífvirkum B-vítamínum, er það að Glutathionemagn líkamans eykst (dr. Richard Van Konynenburgog dr. Neil Nathan – sjá fyrirlestra í heimildaskrá). Glutathione másegja að sé kjarninn í hreinsi- og andoxunarkerfum líkamans og hefur þetta efni mikið að segja um almennt heilbrigði. Methylefnahvörf leika einnig þátt í ótal fleirum efnaferlum og þau eiga sér stað billjónsinnum á hverri sekúndu í hverri einustu frumu. Talsvert af forrannsóknum hafa sýnt fram á græðandi áhrif lífvirkra B-vítamína á taugakvilla og fleira. Vísbendingar eru um að methylhjálp henti mörgum sjúklingum með skjaldkirtilsvanvirkni (ógreind væg skjaldkirtilsvanvirkni sem kemur ekki fram í hormónamælingum er af mörgum talið stórt heilbrigðisvandamál) og er kenningin um það sú (dr.Richard Von Konynenburg) að Glutathioneaukningin sem fylgir methylhjálp verji skjaldkirtilinn fyrir vægum sjálfsofnæmis skemmdum afvöldum vetnisperoxíðs (vægt Hashimoto´s).
Í þeim tilfellum sem sjúklingar fá einhverja hjálp fyrir tilstuðlan methylhjálpar er hún venjulega svolítið strembin fyrstu tvær til fimm vikurnar. Sjúklingum er ráðlegt að fara vel með sig, reyna ekki mikið á sig líkamlega og draga úr félagslífi á þeim tíma. Hreinsunargeta er að verða betri og líkaminn er að vinna upp verkefni sem hann hefur ekki ráðið við á meðan að Methyl-efnaskipti voru biluð. Þetta eru yfirleitt væg viðbrögð og stundum sleppur fólk við erfiðleika. Eftir 5 vikur upplifa sjúklingar oftast jákvæðu breytingarnar af Methylhjálp og aðlögunar-batatímabilið er nokkurn vegin liðið hjá. Stundum getur orðið væg aukning á einkennum sjúklinga á meðan á aðlögunartímabilinu stendur og því er langveikum sjúklingum venjulega ráðlegt að vinna meðl ækni að þessari aðferð. Sérstaklega þegar eru til staðar sjálfsofnæmissjúkdómar eða erfiðir efnaskiptasjúkdómar. Mikilvægt er þó að gera sér grein fyrir að aðlögunartímabilið er ekki eiginlegar aukaverkanir af lífvirku B-vítamínunum, heldur gott merki um bata (heimildir: Dr Rich Van Konynenburg og dr Neil Nathan).
Hverjir hafa verið að beita methylhjálp og við hvaða sjúkdómum?
Það er sífellt að verða algengara meðal upplýstra lækna og sjúklinga í Bandaríkjunum að fara fram á MTHFR próf til að athuga hvort þörf er fyrir methylhjálp. Dæmi um lækna sem hafa verið leiðandi í þessari þróun vestanhafs eru dr. Amy Yasko sem hefur náð umtalsverðum árangri í meðhöndlun einhverfra barna. Dr. Neil Nathan sem hefur notað aðferðina til meðhöndlun M.E./Síþreytu og stundum vefjagigtar og dr.Ben Lynch sem hefur staðið fyrir fyrirlestrarröðum í Bandaríkjunum undanfarin ár. Sá síðastnefndi hefur nær alfarið snúið sér að fræðslu og útbreiðslu þessarar aðferðar meðal lækna sem stunda hefðbundnari aðferðir (sjá tengla í bækur og upplýsingaefni þessara lækna í heimildaskrá hér fyrir neðan).
Athyglisvert er að sumir methylefnaskipta-sérfræðingar álíta hátt magn B-12 vítamíns í blóðprófsniðurstöðum vísbendingu um að methylvanvirkni sé til staðar hjá sjúklingum og vilja í framhaldinu ávísa lífvirku B-12 (methyl-cobalamin eða hydroxo-cobalamin) því ástæða þessa háa magns B-12 í blóði sé einmitt sú að sjúklingurinn sé ekki að ná að vinna vel úr því. Stundum vara þessir læknar við inntöku VENJULEGS B-9 (fólinsýru) því fólk með methylvanvirkni nái heldur ekki að vinna vel úr því, það safnist fyrir í blóði og geti jafnvel verið til ógagns (sjá t.d. upplýsingar Dr. Ben Lynch).
MTHFR breytingum, sem valda skorti á úrvinnslu B-vítamína, geta fylgt alls konar erfiðleikar og þær eru taldar vera áhrifaþáttur í mörgum sjúkdómum. Veikindi sem methylhjálp er beitt við geta því verið margvísleg. Og mismunandi áherslur í samsetningu methylhjálpar vítamína eru venjulega til staðar hverju sinni þó aðferðin sé svipuð í aðalatriðum. Hér eru þeir flokkar sjúkdóma sem aðferðinni hefur verið beitt hvað mest við erlendis (listinn er ekki tæmandi):
- Vefjagigt
- Hjartasjúkdómar
- Sykursýki
- Taugasjúkdómar
- Einhverfa og sjúkdómar á einhverfurófinu
- Alzheimer
- Frjósemisvandamál, meðganga og saga um fósturlát
- Ofnæmi, ónæmiskerfis- og meltingarvandræði
- Lyndisraskanir, þunglyndi og geðsjúkdómar
- Öldrunarsjúkdómar
- Skjaldkirtilsvanvirkni
- Gigtarsjúkdómar
- M.E. / Myalgic Encephalomyelitis (Síþreyta)
- Methylhjálp á Íslandi
Nokkrir íslenskir M.E. og vefjagigtarsjúklingar hafa reynt Methylhjálp við veikindum sínum. Á sjálfshjálpar- og upplýsingahóp M.E. félags Íslands um Methylhjálp á Fésbókinni eru settar upp upplýsingar um þær aðferðir sem hefur verið beitt af læknum erlendis við meðhöndlun M.E.sjúklinga ásamt tenglum á rannsóknarniðurstöður og fleiri sjálfshjálparhópa erlendis. Notkun lífvirkra B-vítamína til meðhöndlunar M.E. sjúklinga kom mikið til vegna rannsóknarstarfs dr.Richard Van Konynenburg eðlisfræðings. Richard, sem átti konu með M.E. sjúkdóminn, var einna virkastur þeirra fræðimanna sem undanfarin ár fylgdist með vísindauppgötvunum á MTHFR genabreytingum og störfuðu við það að koma þeirri þekkingu á það form að hægt væri að beita henni í meðhöndlun sjúklinga með tauga- og ónæmiskerfissjúkdóma.
Konynenburg skýrði mikið af kenningum læknisins dr. Amy Yasko o.fl. um beitingu lífvirkra B-vítamína til að fást við veikindi fólks með þessa genabreytingu, einfaldaði þær og gerði þær aðgengilegar M.E. sjúklingum. Það sem var athyglisvert við þátt Van Konynenburg í þessari nýju þekkingarbylgju var það að hann vann allt sitt starf í sjálfboðavinnu og í yfir tíu ár aðstoðaði hann sjúklinga með ítarlegum svörum sínum til sjálfshjálparhópa. Hann birti einnig greinasöfn sín á upplýsingaveitum M.E. sjúklinga á vefnum. Methylhjálpar-stuðningshópur M.E. félags Íslands á Fésbókinni var stofnaður í minningu dr. RichardVan Konynenburg sem lést árið 2012.
Íslendingar sem hafa reynt þessa aðferð hafa yfirleitt pantað þessi vítamín frá Bandaríkjunum eða Bretlandi. Sjúklingum hefur reynst auðvelt að flytja þau inn á eigin vegum en læknar mega skrifa upp á undanþágur fyrir tollafgreiðslu ef þörf krefur. Ekki þarf að framvísa læknisvottorði til að kaupa þau í Bretlandi og Bandaríkjunum. Þó lífvirk B- vítamín megi fá erlendis án uppáskriftar hefur þótt ráðlegt að læknir fylgist með sjúklingum á methylhjálp. Sjúklingar hérlendis hafa venjulega farið með upplýsingaefni um þessa aðferð til heimilislæknis eða sérfræðings og beðið þá um að fylgjast með framvindunni. Viðtökurnar hjá læknum hafa verið mjög góðar hérlendis og hafa sjúklingar oft fengið að njóta yfirsýnar þeirra samhliða meðhöndluninni. Sumir læknar hafa tekið ýmis blóðpróf ef þeim hefur þótt ástæða til varðandi veikindi viðkomandi. Aðrir hafa látið nægja að fara yfir upplýsinga efnið og vítamín listana og gefið samþykki sitt í framhaldi.
MTHFR-erfðapróf standa sjúklingum ekki til boða í íslenska heilbrigðiskerfinu og læknar hér hafa ekki séræft sig í methylhjálp né unnið markvisst á einhvern hátt að meðhöndlun sjúklingahópa með henni. En gaman verður að sjá hvernig þróunin verður á næstu árum og hvort framsæknir læknar taki Methylhjálp upp á arma sína hérlendis. Ástæða er til að ætla að þessi mjög svo ódýra og oft skilvirka aðferðafræði komi til með að skipta máli fyrir stóran hóp sjúklinga og kostnað heilbrigðiskerfisins (Sjá tengil í heimildum hér fyrir neðan á rannsókn á 1628 sjúklingum með taugasjúkdóminn Diabetic PeripheralNeuropathy sem var birt í: The American Journal of Pharmacy, nóv. 2012. Rannsóknin leiðir í ljós nærri 300.000 kr. lægri meðal-sjúkrakostnað yfir 12 mánaða tímabil, fyrir þann hóp sem fékk grunn vítamínin í Methylhjálp (lífvirkt B-9, B-12 & B-6)
.Hvar fær maður lífvirk B-vítamín til notkunar við Methylhjálp?
Mikilvægt er að spjalla við góðan lækni um methylhjálp og vítamíninntöku. Þegar vítamínin eru valin skiptir máli að vera meðvitaður um nauðsyn þess að nota góðar tegundir lífvirkra B- vítamína og rugla þeim ekki saman við venjuleg B-vítamín. Einnig er gott að vera meðvitaður um orðið lífvirkt (bioactive) er orðið eins konar tískufyrirbæri í bætiefnaiðnaðinum. Framleiðendur auglýsa oft B-vítamínin sín sem lífvirk þó ekki sé um að ræða þær tegundir sem hér er fjallað um.
-Lífvirkt B-9 (Methylfolate) lífvirkt B-12 (Methyl- og/eða Hydroxocobalamin) og B-6 (pyridoxal-5-phosphate) eru oftast notuð saman. Dæmi um virkilega góð vítamín sem eru notuð í Methylhjálp eru t.d
-Solgar Metafolin (lífvirkt B-9 sem hægt er að panta á Iherb.com), Venjulega tekin inn 200 til 400 míkrógrömm (1/4 til ½ úr töflu). Metafolin er vörumerki Merck lyfjaframleiðandans en Solgar er dreifingaraðili.
-Perque Hydroxocobalamin (lífvirkt B-12 sem fæst í versluninni: Mamma Veit Best), Venjulega tekin inn 2000 míkrógrömm (1 tafla leyst uppundir tungu).
-Solgar P-5-P (lífvirkt B-6 sem hægt er að panta á Iherb.com).Venjulega tekin inn 25 – 50 milligrömm (1/2 til 1 tafla).
Verslunin Mamma Veit Best hefur verið að skoða að bjóða fleiri vítamín til nota í Methylhjálp.
Þetta eru grunnvítamínin í methylhjálp en yfirleitt eru flóknari samsetningar notaðar með mismunandi áherslum eftir því um hvaða sjúkdóm ræðir og þarf að hafa samráð við lækni um það. Oft leggja læknar erlendis áherslu á að tekin séu inn Lechitin og góð steinefni með lífvirkum B- vítamínum. Linsoðin eða spæld egg eru rík af lecithini og góð aðferð til að fá nægilegt magn af steinefnum er að borða u.þ.b. 700 grömm af grænmeti daglega (auðveld leið fyrir þá sem eiga erfitt með að borða mikið grænmeti er að mauka það með vatni í blandara og drekka það).
Stundum er gefið steinefnið Molybdenum með methylhjálp og sérstaklega þegar um er að ræða sjúklinga með fjölefnaóþol. Dæmi um gott Molybdenum er: Molybdenum Glycinate frá Thorne Research (hægt að panta á Iherb.com).
Einnig er stundum gefið steinefnið Chromium með methylhjálp, sérstaklega þegar um er að ræða sjúklinga með efnaskiptavillu (Metabolic Syndrome – þyngdaraukning) og blóðsykurvandamál. Chromium Picolinate hefur ekki þótt gott en Chromium Chloride hefur gefið góða raun (dr. Neil Nathan).
Er eitthvað sem maður þarf að vera sérstaklega meðvitaður um í Methylhjálp?
Yfirleitt er ráðlagt að hafa samstarf við lækni þegar meðhöndlun meðlífvirkum vítamínum er reynd. Aðferðin er stundum erfið fyrstu 4 til 6 vikurnar á meðan Glutathione magn og hreinsunargeta líkamans er að aukast. Oftast er sjúklingum ráðlagt að varast vítamínblöndur með venjulegu B-9 vítamíni/fólinsýru þar sem það keppir við hina lífvirku um upptöku (heimild: Dr. Ben Lynch) og dregur úr virkni aðferðarinnar (sumir sjúklingar þurfa nána samvinnu við lækni um þetta atriði). mikið magn B-3/Niacins (yfir 30 mg) þykir einnig draga úr virkni aðferðarinnar (heimild: Dr. Ben Lynch). Methylhjálp er oft notuð með lág kolvetnafæði, sérstaklega þegar sjúklingar eru að fást við efnaskiptavillu (Metabolic Syndrome), þyngdaraukningu og blóðsykurvandamál. Í þeim tilfellum þarf oft einnig að takast á við matarfíkn samhliða svo aðferðin njóti sín til fulls til að laga efnaskipti. Dæmi um sjálfshjálp við matarfíkn hérlendis eru samtökin gsa.is og MFM miðstöðin (sjá tengla hér fyrir neðan).
Heimildir, rannsóknir og sjálfshjálp:
Rannsókn á 1628 sjúklingum með taugasjúkdóminn Diabetic PeripheralNeuropathy birt í: The American Journal of Pharmacy, nóv. 2012. Rannsóknin leiðir í ljós nærri 300.000 kr. lægri meðal-sjúkrakostnað yfir 12 mánaða tímabil, fyrir þann hóp sem fékk grunn vítamínin í Methylhjálp (lífvirkt B-9, B-12 & B-6). http://www.ajpblive.com/issues/2012/AJPB_SepOct2012/Impact-of-L-Methylfolate-Combination-Therapy-Among-Diabetic-Peripheral-Neuropathy-Patients
Bókin Healing Is Possible: New Hope for Chronic Fatigue, Fibromyalgia, Persistent Pain, and Other Chronic Illnesses eftir lækninn dr. NeilNathan. Þessi bók er ætluð sjúklingum og í henni er kafli um methylhjálp. http://www.amazon.com/Healing-Possible-Fibromyalgia-Persistent-Illnesses/dp/1591203082/ref=la_B004IW6A5A_1_1?s=books&ie=UTF8&qid=1385296122&sr=1-1
Í bókinni Acquired Mitochondropathy – A New Paradigm in WesternMedicine explaining Chronic Diseases er kafli um methylhjálp og er þetta fyrsta læknisfræðiritið sem fjallar um þessa meðhöndlunarleið og er mjög hentugt til endurmenntunar: http://www.amazon.com/Acquired-Mitochondropathy-Paradigm-explaining-Prevention/dp/9400720351/ref=sr_1_1?s=books&ie=UTF8&qid=1362555023&sr=1-1&keywords=acquired+mitochondropathy
Lítil rannsókn sem kemst að þeirri niðurstöðu að lífvirk B-vítamín (Methylfolate og MethylCobalamin) ásamt NAC séu hjálpleg við meðhöndlun Alzheimer: http://www.cnsspectrums.com/aspx/articledetail.aspx?articleid=2498
Dr. Amy Yasko brautryðjandi í methylhjálparalækningum fjallar um methylefnaskiptahring líkamans og þá sjúkdóma sem hún notar methylhjálp við: http://www.dramyyasko.com/our-unique-approach/methylation-cycle/
Upplýsingavefur methylefnaskiptasérfræðingsins og læknisins dr. Ben Lynch: http://mthfr.net/
Samsafn af efni Richard Van Konynenburg á Phoenix Rising. upplýsingaveitu M.E. sjúklinga. Ítarlegt skjalasafn sem inniheldur kenningar hans um meðhöndlun M.E. með lífvirkum B- vítamínum, skýrslur og rannsóknatilvísanir: http://phoenixrising.me/research-2/glutathione-depletionmethylation-blockades-in-chronic-fatigue-syndrome/glutathione-depletion-methylation-cycle-block-a-hypothesis-for-the-pathogenesis-of-chronic-fatigue-syndrome-by-richard-a-van-konynenbury-ph-d
Fyrirlestrar dr. Richard Van Konynenburg um methylhjálp í Stokkhólmi:Fyrsti hluti fyrirlestrar. Hér fjallar Konynenburg um M.E. og þátt methylvanvirkni og Glutathioneskorts í þróun sjúkdómsins: http://vimeo.com/36511892
Annar hluti fyrirlestrar. Konynenburg skoðar áhrif methylvanvirkni á hin ýmsu líffærakerfi líkamans: http://vimeo.com/36727242
Þriðji hluti fyrirlestrar fjallar um tímamótarannsókn Richard VanKonynenburg og dr. Neil Nathan á methylhjálp við M.E. sjúkdómnum og niðurstöður hennar: http://vimeo.com/30129653
Tvíblind rannsókn um árangur af notkun lífvirks B-9 (Methylfolate) samhliða SSRI lyfjum á þunglyndi (Major Depression Disorder): http://www.businesswire.com/news/home/20121218005331/en/Breakthrough-Study-Shows-Benefits-Adjunctive-L-methylfolate-Treatment
Upplýsingavefur M.E. félags Íslands: http://www.mefelag.is/
Methylhjálparvefur M.E. félags Íslands, sjálfshjálp á fésbókinni: https://www.facebook.com/groups/426850964044584/?fref=ts
Upplýsingavefur sjálfshjálparsamtakanna gsa.is sem takast á viðkolvetnis- og aðra matarfíkn: http://gsa.is/
MFM miðstöðin. Einstaklingsmiðuð meðhöndlun við matarfíkn: http://www.matarfikn.is/
Höfundur: Gísli Þráinsson skrifað 2014
Flokkar:Fæðubótarefni, Greinar, Næring