Það er u.þ.b. áratugur síðan erfðabreytt (GMO =genetically modified organism) matvæli fóru að koma á almennan matvörumarkað og sem fóður fyrir gæludýr og búfénað.
Undanfarið hefur verið tekist á um hvort merkja skuli þessar vörur sérstaklega – það hefur ekki verið gert hingað til – og hvort einhver ástæða væri til þess. Hvað er það við erfðabreyttar vörur sem fólk hræðist? Lítið hefur verið fjallað um þetta þrátt fyrir þá staðreynd að erfðabreytt matvæli séu á borðum flestra vestrænna heimila að staðaldri, þó í fæstum tilfellum sé neytendunum kunnugt um að svo sé. Þannig hefur líka markaðssetningin farið fram.
90 daga löng fóðurtilraun
Markaðssetning á erfðabreyttum matvælum byggir á einni 90 daga langri rannsókn á áhrifum slíks fóðurs á tilraunarottur. Hún var framkvæmd af eiturefna- og landbúnaðarlíftæknifyrirtækinu Monsanto, sem sjálft er stærsti framleiðandi erfðabreyttra lífvera í heiminum. Niðurstaða rannsóknarinnar var að sögn talsmanna fyrirtækisins, að engin hætta fylgdi neyslu slíkra matvæla og í framhaldinu setti það vörur sínar á markað.
Rannsóknir á afleiðingum erfðabreyttra matvæla eru mjög flæktar af þeirri staðreynd, að afar fáir sjálfstætt starfandi rannsakendur hafa yfirhöfuð haft tækifæri til að vinna þær, vegna strangrar einkaleyfisverndar eigenda erfðabreytta efnisins. Það gerir það að verkum að meirihluti þeirra rannsókna sem farið hafa fram hafa verið framkvæmdar af vísindamönnum ráðnum á vegum líftæknifyrirtækjanna sjálfra, þ.e. í vinnu hjá þeim.
Nú, rúmum áratug eftir að matvæli með erfðabreyttu efni komu á markað fyrir menn og skepnur, eru komnar fram niðurstöður rannsókna annarra aðila.
Aðrar niðurstöður langtímarannsókna
Hverri einustu rannsókn sem framkvæmd hefur verið af óháðum aðilum á áhrifum neyslu erfðabreyttrar fæðu ber saman í meginatriðum og stangast á við niðurstöður rannsóknar Monsanto.
Sjá áhugaverða heimildarmynd: http://www.youtube.com/watch?v=eUd9rRSLY4A
American Academy of Environmental Medicine hefur staðið að nokkrum dýratilraunum með fóðrun á erfðabreyttu fóðri og telur sérstaklega upp ákv. flokka sjúkdóma og heilsutengd vandamál sem fundist hafa:
- • Ýmis vandamál tengd meltingarvegi
- • Líffæraskemmdir
- • Vandamál í ónæmiskerfi
- • Frjósemisvandamál
- • Blóðfitu(kólesteról)-vandamál
- • Insúlínvandamál
Niðurstöður fleiri rannsókna óháðra aðila er hægt að skoða hér:
Click to access Peer-reviewed-studies-on-GM-food-health-risks.pdf
Árið 2012 birtust niðurstöður 2ja rannsókna. Önnur var úr 10 ára fóðurtilraun á nokkrum mismunandi dýrategundum sem famkvæmd var í Noregi og birtist hjáForskning.no (vefmiðill sem fjallar um norskar og alþjóðlegar rannsóknir). Hún sýndi að erfðabreytt korn og afurðir úr því orsaka fitusöfnun og breyta virkni meltingarvegarins og aðallíffæra, s.s. lifrar, nýrna, briss og kynkirtla. Skepnur fóðraðar á slíku korni átu meira, urðu feitari og áttu erfiðara með að melta eggjahvítu vegna breyttrar samsetningar örveruflóru í innyflum þeirra. Þær þjáðust einnig af breytingum á ónæmiskerfi. Vangeta til að melta eggjahvítu er sérstakt áhyggjuefni, – geti líkaminn ekki nýtt hana verður hann vanhæfur til að framleiða amínósýrur, sem eru nauðsynlegt uppbyggingarefni fyrir frumuvöxt og virkni.
Séralini-rannsóknin sýndi eitrun og ofnæmisvandamál, gríðarmikinn æxlisvöxt í mjólkurkirtlum (93% hjá kvendýrum), nýrna- og lifrarskemmdir og ýmis önnur alvarleg heilsuvandamál hjá rottum fóðruðum með erfðabreyttum maís.
Rannsókn Séralini´s
Hin rannsóknin var framkvæmd af Gilles-Eric Séralini, frönskum rannsóknarmanni og teymi hans. Hún er fyrsta rannsókn sem gerð hefur verið á afleiðingum fóðrunar sem spannar allan líftíma ákv. dýrategundar (tilraunarotta). Rotturnar voru fóðraðar að hluta til með erfðabreyttu Roundup ready maískorni (22% af fóðrinu var erfðabreytt NK603 maískorn sem er algengt í mat í Bandaríkjunum). Skv. upplýsingum franska tímaritsins Le Nouvel Observateur var rannsóknin framkvæmd mjög leynilega til að koma í veg fyrir að hún yrði eyðilögð með skemmdarverkum!
Rannsóknin var sett upp alveg eins og 90 daga rannsóknin sem framkvæmd hafði verið 8 árum áður af fyrirtækinu Monsanto; sami fjöldi dýra var notaður, sama afbrigði af rottum, sama tegund fóðurs – það eina sem var öðruvísi var að tilraunin stóð allan líftíma dýranna í stað einungis 90 daga. Ritrýndar niðurstöðurnar voru birtar í Elsevier´s Food and Chemical Toxicology í september 2012.
Séralini-rannsóknin sýndi eitrun og ofnæmisvandamál, gríðarmikinn æxlisvöxt í mjólkurkirtlum (93% hjá kvendýrum), nýrna- og lifrarskemmdir og ýmis önnur alvarleg heilsuvandamál. Rotturnar drápust fyrr og dánartíðni var hærri en í samanburðarhópnum. Niðurstöðurnar voru hormónatengdar og kynbundnar og heiladingullinn varð fyrir alvarlegum skaða. Jafnvægi hormónakerfisins umbreyttist við notkun erfðabreytts fóðurs og Roundup illgresiseiturs sem notað er með erfðabreyttu fóðurplöntunum. Nýrnabilun var afleiðingin. Skipti ekki máli hvort rotturnar voru fóðraðar á erfðabreyttu fóðri með eða án illgresiseitri.
Í tilrauninni kom fram að sjúkleg einkenni fóru að birtast í kringum 13 mánaða aldur, þó æxli og nýrnaskemmdir sæjust fyrr, allt niður í 4-7 mánaða dýr.
Rannsóknin sýndi líka að gen í erfðabreyttu fóðri geta ferðast gegnum veggi innyflanna út í blóðið (kom einnig fram í norsku rannsókninni). Slík gen hafa fundist í umtalsverðu magni í blóði fólks, vöðvavef og lifur. Óþekkt er hvaða líffræðilegu áhrif þessi genatilfærsla hefur, einnig á næstu kynslóðir manna.
Sláandi niðurstöður
Það er raunverulega ekki vitað hverjar afleiðingarnar koma til með að verða á heilsu og líf fólks sem neytir slíkra matvæla, því við erum jú ekki rottur og því erfitt að yfirfæra niðurstöðurnar beint. Tilraunir á fólki eru í gangi um allan heim í dag, í því formi að erfðabreyttu hráefni er blandað í matvöru án þess að merkja hana og því veit fólk ekki að það er að neyta þess. Afleiðingarnar eru ófyrirséðar og geta enn tekið einhvern tíma að koma fram.
Það gæti þó gerst fyrr en okkur grunar og niðurstöður dýratilrauna með fóðrun á erfðabreyttu fóðri sýna nú þegar tengsl og ákveðna samsvörun við mynstur og þróun sjúkdóma hjá fólki.
Erfðabreytt Bt-korn inniheldur gen úr jarðvegsbakteríunni Bacillus thuringiesis sem framleiðir skordýraeitur sem ver plöntuna fyrir skordýrum. Í rannsókn sem framkvæmd var af læknum við Sherbrooke háskólasjúkrahúsið í Quebeck fannst Bt-eiturefni í blóði 93% ófríkskra kvenna sem rannsakaðar voru, í 80 % af nafnastrengsblóði barna þeirra og hjá 67% kvenna sem ekki voru ófrískar. Fullyrðingar líftæknifyrirtækjanna um að þessi gen eyðileggist við meltingu standast ekki og genin virðast halda áfram að vinna við að stuðla að framleiðslu eiturefna, eftir að þau koma inní líkama neytandans.
Niðurstöður þessara rannsókna er einhver sterkasta sönnun hingað til um að fara verður með fullri gát við neyslu erfðabreyttrar fæðu, þar sem ekki liggja fyrir óyggjandi sannanir um öryggi hennar. Neytendur eiga vissulega að njóta vafans en ekki fyrirtækin. Erfðatækni er vísindi á byrjunarstigi og þó vísindamenn viti eitthvað, þá vita þeir ekki allt!
Ýmislegt virðist vera að koma í ljós með langtímanotkun sem ekki kom fram strax. Mikið lengri tíma þarf því að taka í að rannsaka afleiðingar fóðrunar með erfðabreyttu fóðri á lifandi dýr, fleiri kynslóðir dýra og á umhverfið, en hingað til hafa verið framkvæmdar – það þarf áratuga rannsóknarvinnu óháðra aðila.