Enginn læknir þekkti sjúkdómseinkenni af völdum myglusvepps

Vigdís Vala Valgeirsdóttir þjáðist í þrjú ár af torkennilegum veikindum og leitaði til margra sérfræðinga án árangurs.

Ókunnur maður þekkti sjúkdómseinkennin eftir lestur viðtals við hana í Fréttatímanum og hafði samband við móður hennar Ástu Kristrúnu Ragnarsdóttur. Sonur mannsins hafði gengið í gegn um svipuð veikindi sem voru af völdum myglusvepps í íbúðarhúsnæði þeirra. Við nánari athugun reyndust veikindi Völu vera af sama toga.

Nú fær Vigdís Vala orðið:

Fyrstu alvarlegu veikindi mín voru greind af læknum sem einkirningasótt og ég var frá skóla i tvo mánuði. Eftir páska var ég orðin ágætlega hress. Í sumarfríinu þurfti ég að lesa fyrir sjúkrapróf en ég hafði ekki getað tekið það vegna veikindanna um vorið en þá veiktist þá mjög mikið aftur. Þau veikindi voru fyrst eins og flensa og lýstu sér í svo miklum slappleika að ég gat ekki klárað þetta próf, sem varð til þess að ég þurfti að skipta um námsbraut. Þegar ég byrjaði aftur í skólanum vissi ég ekki betur en veikindin hefðu verið flensa en þó urðu þau til þess að ég var nánast alveg frá skóla allan þennan vetur og líka næsta.

Einkennin komu út í: útlimadoða, lömun, ofskynjunum og sjóntruflunum. Ég gat ekki lesið en var samt með fullkomna sjón. Veikindin komu í köstum og skárri dagar voru inn á milli, en sjaldnast margir í einu. Ég líki þessu ástandi við það þegar ég vann við umönnun á hjúkrunarheimilinu Grund. Það var álíka mikið mál að koma mér út úr rúminu og sjúklingunum sem ég annaðist þar. Það þurfti að hjálpa mér við að rísa upp í rúminu og þegar ég var skárri og komst fram úr lenti ég stundum í því að fæturnir gáfu sig og ég datt í gólfið. Oft á tíðum þurfti að halda á mér á salernið af því að fæturnir sviku mig.

Læknar stóðu ráðþrota og vísuðu iðulega á eftirköst einkirningssóttar

Ég leitaði til mjög margra sérfræðinga og þeir sögðu flestir að ástand mitt væri að öllum líkindum bara eftirköst af einkirningasóttinni. Mér var sagt að fólk sem hafi fengið einkirningasótt geti verið að glíma við eftirköst i langan tíma á eftir. Mér fannst það skrítið því að veikindi mín voru miklu meiri en ég hafði heyrt um að fylgdu einkirningasótt ég hafði t.d. aldrei heyrt um lömun í því sambandi en kannski síþreytu.

Á vefnum http://www.doktor.is segir: ,,Einkirningasótt er veirusýking af völdum Ebstein-Barr-veirunnar sem finnst í munnvatni. Hún smitast manna á milli með kossum en getur lifað utan líkamans í nokkrar klukkustundir. Um 30-50 dagar líða á milli þess sem einstaklingur smitast og þess að einkenni komi fram. Helstu einkenni einkirningasóttar eru þreyta og slappleiki, hiti, höfuðverkur, særindi í hálsi, aumir vöðvar, útbrot og kviðverkir sem stafa af bólgnu milta, auk þess sem lifrin getur bólgnað“.

Fékk lyf gegn MS sjúkdómi.

Það var mikið áfall þegar einn læknirinn taldi að ég gæti verið væri með MS sjúkdóminn. Þegar  í ljós kom að svo var ekki gaf  hann mér samt lyf sem notuð eru við þreytueinkennum  sjúklinga með MS sjúkdóminn, enda eru einkennin svipuð. Lyfið hjálpaði ótrúlega mikið, en lyflið virkaði samt sem áður á einkennin og gerði mér kleift að læra meira en ella og ég gat farið í skólann.

Orsök veikindanna kom í ljós

Þegar maðurinn hringdi í mömmu eins og getið var í upphafi og við komumst að orsök veikindanna vorum við nýlega flutt út úr nýbyggðu húsi þar sem vatnsskemmdir höfðu gert vart við sig í baðherbergi hússins ,en okkur var sagt að búið væri að gera við og koma í veg fyrir frekari vanda af þeim sökum. Okkur var talin trú um að fullkomin viðgerð hefði farið fram, en það kom hins vegar í ljós þegar við fluttum úr húsinu að í veggnum á bak við rúmgaflinn minn var allt löðrandi í svörtum sveppagróðri. Herbergið mitt var við hliðina á þessu baðherbergi og sveppurinn hafði líka étið sig inn í timburgaflinn sem skrúfaður var á vegginn. Eftir flutninginn úr húsinu fann ég strax að heilsan skánaði og ég hef verið á batavegi síðan. Einkennin koma einstaka sinnum fram ef ég lendi í of miklu álagi en ekki í jafnmiklu mæli og þegar þau voru verst. Ég hef verið með fullkomið jafnvegi og fæturnir hafa ekkert svikið mig undanfarið. Til dæmis hljóp ég 8 kílómetra um daginn.

Hvaða sjúkdómaeinkenni geta verið myglusveppi að kenna?

Fljótt getur myndast myglusveppur ef raki er í húsnæði. Hér eru aðeins nefnd nokkur af þeim sjúkdómseinkennum sem vitað er um að upp geta komið hjá fólki sem býr við slíkar aðstæður: Þreyta, höfuðverkur, þvagfærasjúkdómar, jafnvægistruflanir, áhrif á miðtaugakerfi og heilastarfsemi, öndunarfærasjúkdómar, meltingarsjúkdómar, lungnasjúkdómar, útbrot, sýkingar.

Kannski þurfa læknar að kynna sér fleira sjúkdómsvalda en kennt er um í Háskólanum.

Það var ótrúlegt og sárt að fá ekki sjúkdómgreiningu allan þennan tíma, þrátt fyrir alla þessa fínu lækna sem ég leitaði til. Mér fannst það eiginlega átakanlegra að vita ekki hvað þetta var heldur en það var að vera veik. Það hefði verið miklu betra að vita hvað ég var að kljást við.

Tónlistin tók við

Ég reyni að líta á björtu hliðarnar og vera þakklát fyrir breytingar á lífi mínu sem komu í kjölfar veikindanna. Ég lærði margt á þessum erfiðleikum, til dæmis þolinmæði, það var svo erfitt að bíða alltaf eftir lausn sem tók svona langan tíma að finna. Liggjandi í rúminu lærði ég á eiginspýtur að spila á gítar og hvernig hægt er að vera einn með sjálfum sér. Frá fimm ára aldri var ég í píanónámi og spilapi eftir nótum, en það var allt öðruvísi með gítarinn því að í framhaldinu byrjaði ég að semja lög. Ég kynntist frábærum vinum sem spiluðu með mér og þegar ég hresstist betur stofnaði ég nýja hljómsveit með tveimur góðum vinkonum sem báðar syngja og semja lög. Af slíku hefði örugglega aldrei orðið  hefði ég ekki veikst og lært að spila á gítarinn. Ég hef einnig komið fram á nokkrum tónleikum með föður mínum Valgeiri Guðjónssyni og er nýbyrjuð í Háskólanum“.

Viðtalið skráði Ingibjörg Sigfúsóttir 2012



Flokkar:Reynslusögur

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , , , , , , , , ,

%d bloggers like this: