Heilabólgur og liðagigt eftir bit evrópskra skógarmítla

Nýlega var hjá mér íslensk kona á stofunni sem var fædd og uppalin í Eistlandi, en sem hugði nú mörgum árum síðar, að heimsækja æskuslóðirnar ásamt barni sínu. Hún heyrði hins vegar frá ættingjum og vinum, að ekki væri vogandi að koma að sumri til í heimsókn nema að vera vel bólusettur gegn algengri heilabólgu sem þar er landlæg, ,,Tick borne encephalitis (TBE)„. Veirusýking sem berst með biti skógarmítla (Ixodes ricinus).

mynd 1

Alvarlegur smitsjúkdómur og algengur á síðustu árum víða í mið-Evrópu og Skandinavíu og ég skrifaði um sl. sumar af gefnu tilefni. Í sumar þegar ég var aftur í heimsókn í Stokkhólmi var reyndar frétt í staðarblaðinu um að fjórða hvert barn sem kæmi á bráðamóttökuna vegna taugaeinkenna, tengdist smitsjúkdómum sem bærist með biti skógarmítlanna, og því full ástæða að gera betur grein fyrir vandanum. Heilbrigðisyfirvöld treysta enda víðast hvar á fyrirhyggju einstaklingsins og fjárráð hvað forvarnir og bólusetningar gegn þessum vágesti viðkemur. Saklausum Íslendingum og félitlum oft til lítillar huggunar og sem eru á faraldsfæti.

Þannig reynist sannleikurinn stundum eins og í vísindaskáldsögu eða skulum við heldur segja hryllingssögu. Jafnvel þar sem eitt lítið skordýrabit getur haft slíkar alvarlegar afleiðingar í för með sér, þótt lítil séu og sakleysisleg í byrjun. Þannig geta víða í nágranalöndum leynst hættulegir smitsjúkdómar sem allt of margir vita ekki um, og sem á ákveðnum svæðum má jafnvel kalla faraldra eða plágur. Þar sem full ástæða fyndist manni að bjóða ætti upp á ókeypis bólusetningu og spara þjóðfélaginu um leið óþarfa lyfjanotkun síðar og annan heilbrigðiskostnað, jafnvel vegna örorku sem af smitunum getur leit.

Skógarmítilinn er náskyldur lundarlúsinni okkar illskeyttu. Aðeins er farið að bera á skógarmítlum hér á landi og líklegt að þeim eigi eftir að fjölga með tímanum, ekki síst þar sem þeir geta auðveldlega borist með farfuglum til landsins. Skógarmítllar eru Annars algengir víða um heim, en ólíkt er hvaða smitefni þeir geta borið með sér eftir heimsálfunum. Skógarmítlarnir lifa aðallega í hávöxnu grasi og í skó- og kjarrlendi, þar sem þeir bíða færis að geta bitið dýr með heitt blóð, ekki síst nagdýr og elgi sem bera síðan með sér mítlana, jafnvel hunda og ketti. Eins fólk á göngu úti í nátttúrunni eða sem umgengst dýrin á einhvern hátt. Hlýnandi veðri og meiri raka er oft kennt um aukna útbreiðslu á mítlunum í seinni tíð en bitin eru algengari seinni part sumars, þegar hitinn er hvað mestur og mítlarnir eru blóðþyrstir.

skógarmítla 3

Heilabólgan TBE, er af völdum svokallaðs flavivirus og sem er náskyldur hinni illræmdu Gulusótt (Yellow fever). Talið er að um 3000 tilfelli af TBE komi upp árlega í Evrópu allri utan Rússlands þar sem tilfellin eru mun algengari. Síðastliðin ár hafa nokkur hundruð tilfella greinst í Svíþjóð á hverju sumri, flest á Stokkhólmssvæðinu eins og meðfylgjandi mynd frá sænska sóttvarnarlæknisembættinu (SLL) í fyrra ber með sér. Tilfellin eru mun algengari en t.d. alvarleg tilfelli af völdum mislinga og sem mikið hefur verið rætt um í Evrópu, tengt mikilvægi ókeypis bólusetningar til sem flestra, til að ná hjarðónæminu (herd immunity) sem bestu og líkja má við eldvegg og mikilvægt er þegar vírusar smitast auðveldlega á milli manna. Ekkert er þó síður mikilvægt að huga að bólusetningu gegn TBE ef maður hugar að ferðalögum á þær slóðir sem skógarmítilinn er algengur og TBE landlægur, eins og áður sagði.

Heilbrigðisyfirvöld í mörgum löndum Evrópu hafa enda séð ástæðu til að hvetja íbúa til að láta bólusetja sig, því engin góð meðferð er til við TBE veirusýkingunni sjálfri. Sumstaðar hefur verið m.a. komið upp bráðabirgðaaðstöðu til bólusetninga í stórmörkuðum eins og t.d. í Stokkhólmi, til að auka aðgang almennings sem best að bólusetningunum.

Í fyrstu er um inflúensulík einkenni að ræða eftir að hafa tekið smit TBE veirunnar, 1-2 vikum eftir bit mítils, oft með háum hita, sárum höfuðverk og miklum beinverkjum. Jafnvel krömpum og þar sem heilabólgueinkennin geta leitt til dauða í allt að 2% tilvika. Í allt að 30% tilfella verða hins vegar um langvinn einkenni að ræða með mikilli þreytu, minnistruflunum og jafnvel lömunum. Þótt stofninn á Norðurlöndum valdi síður mjög alvarlegustu einkennunum í bráðafasanum en sá sem fyrirfinnst víða í Austurlöndum fjær, að þá eru langvinnu einkennin þeim mun algengari.

skógarmítla 4

En til að gera málið enn flóknara að þá er líka um annan smitvald að ræða sem berst með biti skógarmítlanna og sem er algengari þótt hann sé ekki eins alvarlegur. Bakteríusýking sem einnig getur valdið síðkominni heilabólgu auk langvinnrar liðagigtar (Lyme disease). Lúmskur smit- og  gigtsjúkdómur sem sífellt er að verða algengari í hinum vestræna heimi. Borrelíósa (Borrelia burgdorferi) er bakterían sem þarna er sökudólgurinn. Hún veldur fyrst húðsýkingu, en síðar, jafnvel mörgum vikum, langvinnri heila- og taugabólgu með síþreytueinkennum og höfuðverkjum.

Auk þess getur hún valdið alvarlegum síðkomnum bandvefs- og taugasjúkdóm með því að trufla sjálfsofnæmiskerfið, en „Lyme liðagigtin“ var fyrst skilgreind í tengslum við þessa sýkingu fyrir aðeins nokkrum áratugum síðan (1976). Bara í Noregi er áætlað að milli 2-3000 smitist og þar af um 10% alvarlega og eigi á hættu að bera með sér Lyme sjúkdóminn. Sjúkdómur sem hugsanlega getur orðið líka landlægur á Íslandi í framtíðinni, enda borrelíósa greinst hér á landi áður.

Sýkingu af völdum borellíósa bakteríunnar er mikilvægt að bregðast tímalega við með sýklalyfjagjöf og sem fyrst ef húðsýkingar verður vart. En íbúar svæðanna sem í hlut eiga treysta hins vegar í vaxandi mæli á bólusetningu í framtíðinni, á svipaða hátt og gegn TBE. Þannig mætti líka komast hjá óþarfa sýklalyfjanotkun því oft eru gefin sýklalyf af minnsta tilefni ef grunur vaknar um húðsýkingar tengt allskonar skordýrabitum á sumrin.

Bit af völdum skógarmítla og ef húðsýking kemur í kjölfarið er oft auðþekkt á rauðum hringlaga þrota í húðinni þar sem svo annar hringur myndast utan um, svokallaður flökkuroði (erythema migrans) eða „Bull´s eye“. Fæst blóðbit skógarmítla leiða þó til sýkinga, TBE eða Borrelíósis,(1%) og langan tíma getur tekið fyrir að bakteríuna að komist frá munni mítilsins til að sýkja húðina, tími sem þó mítillinn fær oft því hann deyfir húðina til að fá frið meðan hann grefur sig inn í húðina til að ná til blóðæðar. Best er því að leita af sér allan grun og leita mítla með því að skoða vel húðina, ekki síst á börnum og ef viðkomandi hefur verið úti í náttúrunni, í háu grasi eða kjarri. Það getur nefnilega liðið allt að sólarhringur frá því mítill festi sig á húðina og þar til hann nær að bíta til blóðs.

Hálfinngrafna mítla er óalgengt að sjá á læknamóttökum hér á landi hjá ferðafólki, svipað og sjá má mynd af hér efst. Helst þarf ákveðnar tengur til að klemma ofan við munn mítilsins um leið og hann er dreginn út, til að koma í veg fyrir að munninnihald hans spýtist í bitsárið og valdi frekari sýkingu og eitrun. Svipaðar aðferðir og þegar fjarlægja þarf Lundalúsina okkar illskeyttu, sem eins og áður sagði er náskyldur mítill og er jafnvel talin geta borið með sér borrelíósu. Reyndar er gamalt húsráð að bera feiti yfir lúsina svo henni liggi við köfnun og sleppir hún þá oft takinu. Síðkomin útbrot og sýkingareinkenni eftir hugsanlegt bit skógarmítills eru miklu algengara hjá fólki á bráðamóttökum og sem dvalist hefur nýlega erlendis.

skógarmítla 5

Bóluefnið sem hefur verið notað á Norðurlöndum til að verjast TBE er  ,,FSME-IMMUN vaccine“ (FSME-IMMUN junior fyrir börn) og samanstendur af þremur bólusetningum, en strax eftir tvær bólusetningar er komin yfir 90% vörn. Mælt er með bólusetningu 2-3 vikum fyrir brottför á svæði þar sem hætta er á smiti og annarri bólusetningu þá rétt fyrir brottför. Þriðju sprautuna síðan 6-12 mánuðum síðar. Hver sprauta kostar um 10 þúsund krónur svo kostnaður fyrir hvern og einn er umtalsverður. Síðan er mælt með einni endurbólusetningu á 3-5 ára fresti, sérstaklega hjá þeim sem eldri eru (>60 ára). Ekki er talin ástæða að bólusetja börn undir eins árs aldri.

(Víða erlendis var áður hægt að fá bólusetningu gegn Borrelíósu (Lyme sjúkdómnum) undir heitinu (LYMErix) en það bóluefni er nú víða í afskráningu vegna lélegrar virkni og hugsanlegra aukaverkana.)

Frétt í norska Dagbladet nýlega um Borrelíosu go TBE, http://www.dagbladet.no/2012/06/01/nyheter/flatt/flattsykdom/borrelia/tbe/21883219/

NEO, enn ein bakterían sem smitast með skógarmítlum, frétt í sænska Aftonbladet 3.7.’12, http://www.aftonbladet.se/nyheter/article15070895.ab

Skógarmítill breiðist um Ísland, http://www.feykir.is/archives/38231

Höfundur: Vilhjálmur Ari Arason læknir.

Greinin var áður birt sem blogg á Pressunni 4. júlí 2012 og hér birt með leyfi höfundar. Slóðin á frumgreinina er:  http://blog.pressan.is/vilhjalmurari/2012/07/04/heilabolgur-og-lidagigt-eftir-bit-evropskra-skogarmitla/

Lesendur eru beðnir afsökunar á því að myndir féllu út þegar heimasíðan var uppfærð í Nóvember 2018

 Flokkar:Greinar og viðtöl, Kjörlækningar

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , ,

%d bloggers like this: