Kókóshnetuolía. Mataræðisleiðbeiningar og ráðleggingar

Hvernig nota má kókóshnetuolíu til matar. Uppfært í sept. 2009 sjá http://www.coconutketones.com

Kókóshnetuolíu má nota í stað annarrar fitu t.d. tólgar, smjörs eða smjörlíkis við að baka eða sjóða og má blanda í annan mat, sem áður hefur verið matreiddur. Sumir taka kókóshnetuolíu beint með skeið en flestum líkar það ekki vegna bragðsins að nota hana þannig og fellur betur að nota hana blandaða í mat. Sé hún notuð við djúpsteikingu fer að rjúka úr henni ef hún hitnar yfir 180°C, eða meðal hita. Sé bætt í hana lítilsháttar af ólífuolíu eða jarðhnetuolíu má komast hjá þessu. Nota má kókóshnetuolíu saman við annan mat við hvaða hitastig sem óskað er.

Hvaða næringargildi hefur kókóshnetuolía ?
Er omega-3 fita í henni ?

Kókósolía er með nálægt 117-120 hitaeiningar í einni matskeið, um það bil sama og flestar aðrar matarolíur. Hún er með 57-60% meðallangar fitusýrur sem þríglyserið, sem líkaminn tekur auðveldlega upp, án þess að þurfa að nota nein meltingarensím. Hluti þeirra umbreytist í lifrinni í ketón, sem flestar frumur líkamans geta nýtt sér sem orkugjafa. Sá hluti getur ekki geymst sem fita. Kókóshnetuolía er um 80% mettuð fita, að miklum hluta þríglyserið úr meðallöngum fitusýrum sem líkaminn meðhöndlar á annan hátt en mettaða fitu úr dýraríkinu. Þessi fita inniheldur hvorki kólesteról né transfitusýrur, svo lengi sem kókóshnetuolían hefur ekki verið ,,hert”. Kosturinn við mettaða fitu fram yfir ómettaða er sá að í henni er hvergi að finna stað þar sem stakeindir eða oxunarvaldar geta verkað á. Um það bil 6% af kókóshnetuolíu er ein-ómettuð og 2% fjöl-ómettuð. Í henni er einnig lítilsháttar af jurta-sterólum, sem eru hluti af þeim efnasamböndum sem eru í ,,statin”-efnum, sem notuð eru til að minnka kólesteról í blóði. Í kókóshnetuolíu eru ómega-6 fitusýrur en engar omega-3 fitusýrur, svo að þær verður að fá annarsstaðar. Þú getur fengið allar ómissandi fitusýrur sem þú þarfnast með því að nota kókóshnetuolíu og bæta við ómega-3 olíu sem þú færð t.d. úr laxi, tvær máltíðir á viku eða nota lýsi daglega eða línfræolíu (hörfræolíu). Önnur góð aðferð til að fá ómega-3 fitusýrur er að nota línfræolíu, valhnetuolíu eða valhnetur.  Lársýra (lárinsýra) 12:0 er meðallöng mettuð fitusýra sem er um helmingur fitusýra í kókóshnetuolíu. Rannsóknir sýna að þessi fitusýra vinnur gegn margs konar örverum og getur hindrað vöxt fjölda baktería, sveppa, veira og frumdýra. M.a. finnst hún í brjóstamjólk og hindrar þar að ungbarnið veikist af margs háttar sýkingum. (Sjá Heilsuhringurinn 2002, haust).

Hvernig kókóshnetuolíu er best að nota ?
Notaðu kókóshnetuolíu sem ekki hefur verið hert, sem þýðir án transfitu. Forðastu herta olíu eða olíu sem hefur verið yfirhituð, því að það breytir efnafræðilegri uppbyggingu hennar. Ef þér fellur ekki þefurinn af kókóshnetum skaltu sækjast eftir að fá olíu sem nefnd er ,,meyjar-, jómfrúr, lífræn- eða óunnin,” sem oftast er eitthvað dýrari en ,, hreinsuð” eða ,,al-lífræn” eða hreinsuð, bleikt og lyktarlaus kókóshnetuolía. Sjálf olían er bragðlaus. Hún hefur alltaf svo til sama næringargildi, nálægt 57-60%, sem öll meðallöng matarolíu-þríglyserið hafa. Sennilega er ekkert sérlega sniðugt að nota kókóshnetuolíu í belgjum, sem aðeins vega eitt gramm hver og eru því til þess að gera dýrir. Belgina má þó nota ef fólk getur alls ekki tekið olíuna úr skeið og því má líta á þá sem kostnaðarsama neyðarráðstöfun.

Hversvegna sýnist kókóshnetuolía stundum vera ,,gruggug” ?
Kókóshnetuolía er glær eða lítilsháttar gulleitur vökvi, sé hún yfir 25°C heit, en storknar og verður að föstu efni ef hún kólnar um eina gráðu niður fyrir þann hita. Sé kókóshnetuolía rétt við bræðslumarkið virðist hún oft eins og ofurlítið gruggug vegna þess að smáagnir af storknuðu hvítu eða gulleitu efni fljóta þá um í bráðnu efni.

Hvaða önnur efni úr kókóshnetum eru í kókóshnetuolíu ?
Kókóshnetumjólk er blanda úr olíu og vökva úr kókóshnetunni en meirihluti hitaeininganna koma úr olíunni. Svipastu um hvort þú finnur kókóshnetumjólk sem er með 10-13 grömm af fitu í 55 grömmum. Athugaðu þetta í þeim verslunum, sem eru einkum með vörur frá Asíu. Sum merki eru ódýrari en önnur, en þau eru oftast þynnt með vatni. Kókóshneturjómi er oftast aðeins kókóshnetumjólk, stundum með íbættum sykri. Flakaðar eða rifnar kókóshnetur má bera fram ósykraðar eða með sykri bættum í. Þetta er afar góð aðferð til að neyta kókóshnetuolíu og trefja til samans. Um það bil 15 g af olíu og 3g af trefjum í fjórðungi úr bolla. Í frosnu eða niðursoðnu kóksóhnetukjöti er oftast heilmikið af sykri en ekki mikið af olíu í hverjum skammti. Ferskar kókóshnetur má skera í sneiðar og éta hráar. 5×5 cm sneiðar sem eru með nálægt 160 hitaeiningar, hafa 15 g af olíu og 4 g af trefjum. MCT olía (meðal langar fitusýrukeðju-þríglyserið) eru hluti kókóshnetuolíunnar og hægt að fá í sumum heilsuvörubúðum. Þessar vörur geta verði gagnlegar fyrir önnum kafið fólk með lítinn tíma til að elda mat. Vegna þess að MCT olía fer eingöngu til að framleiða orku en ekki til að mynda fitu, gagnast hún fyrir  þá sem þurfa að létta sig, sé hún notuð í stað annarrar fitu í mat. Kókóshnetuvatn inniheldur yfirleitt enga olíu en ýmisleg önnur hollefni úr kókóshnetum m.a. til að verjast og meðhöndla ofþornun.

Hvernig geyma skal vörur úr kókóshnetum
Kókóshnetuolía er sérlega stöðug í geymslu og má geyma óskemmda í stofuhita  að minnsta kosti í tvö ár. Engin þörf er á að nota kæligeymslur fyrir kókóshnetuolíu þar sem hún verður afar hörð sé hún mikið kæld. Viljir þú geyma kókósolíu í kæligeymslu skaltu mæla út eina eða tvær matskeiðar í hvert hólf í bakkanum til að frysta ís í. Kókósolían hoppar auðveldlega upp úr bakkanum þegar hún er orðin storkin. Kókóshnetumjólk er að mestu leyti olía og hægt að nota hana á margan hátt í stað hennar. Hana þarf að geyma í kæli. Flakaðar eða rifnar kókóshnetur má geyma við stofuhita í nokkrar vikur og lengur í kæligeymslu. Ferskar niðurskornar kókóshnetur má geyma í kæligeymslu (t.d.ísskáp) í nokkra daga og lengur í frystigeymslu.

Hverjir ættu að reyna þetta ?
Fólk sem þjáist af eyðileggjandi taugasjúkdómum sem stafa af lélegri upptöku eða vangetu heilafruma (neurons) til að nýta þrúgusykur í blóðinu, ætti að hafa gagn af því að fá kókóshnetuolíu eða MTC olíu í fæðunni til að mynda ketón, sem heilafrumurnar geta nýtt sér í stað þrúgusykurs til orkuframleiðslu. Þessir sjúkdómar eru meðal nokkurra annarra: Alzheimer-sjúkdómur og fleiri heila sjúkdómar sem einkum hrjá gamalt fólk, Parkinson-sjúkdómur, Lou Gehrig (Amiotropic lateral sclerosis) heilkenni, MS (heila-og mænusigg), Huntington chorea o.fl. Ketónar geta einnig gagnast sem orkugjafi fyrir aðrar frumur líkamans sem eru  með ,,insúlinviðnám”, eða insúlín gagnast þeim ekki  til orkuframleiðslu og er þannig nothæft fyrir fólk með sum afbrigði sykursýki. Sértu í hættu vegna fjölskyldusögu að fá sykursýki , væri skynsamlegt að hugleiða hvort ekki væri rétt að breyta um mataræði. Sé einhver ástvinur þinn í þannig stöðu er heimilislæknir þinn örugglega fús á að mæla með að nota kókóshnetuolíu með hverri máltíð og síðan smá-auka daglegt magn sem  notað er.

Hversu mikið er rétt að nota daglega ?
Ef  þú notar of mikið af kókóshnetuolíu á skömmum tíma færðu sennilega magaverk og niðurgang. Til að byrja með er rétt að taka olíuna aðeins með mat og má byrja með einni teskeið með hverri máltíð. Síðan má auka þetta smátt og smátt. Komi niðurgangur er rétt að minnka skammtinn aftur. Fyrir flesta ætti takmarkið að vera að auka skammtinn smá saman upp í 2-4 matskeiðar á dag eftir stærð einstaklings, dreift á 2-4 máltíðir. Blanda má saman MTC-olíu og kókóshnetuolíu sem getur náð fram meira af ketónum og jafnara magn í blóði. Ein uppskriftin mælir með að blanda 16 hlutum af MCT olíu saman við 12 hluta kókóshnetuolíu og byrja með að nota eina matskeið og auka síðan hægt. Þessi blanda helst fljótandi við lægra hitastig en óblönduð kókóshnetuolía.

Hvað með börn ?
Börn með Downs-heilkenni (Mongólisma) og sum börn með einhverfu eru með minnkaða getu til að taka upp þrúgusykur í hluta heilans. Hæfilegt magn til að gefa barni væri fjórðungur úr teskeið af kókóshnetuolíu fyrir hver 4-5 kg. af líkamsþyngd barnsins, tvisvar til þrisvar á dag. Sumum börnum finnst kókósmjólk bragðgóð. Hægt er að gefa þeim 1½ -2 teskeiðar af kókósmjólk fyrir 4½- 5 kg af líkamsþunga, tvisvar til þrisvar á dag. Ef kókóshnetumjólk er notuð handa börnum á fyrsta ári, verið þá viss um að geyma hana í kæliskáp og að hún sé ekki eldri en tveggja daga. Ekki bæta hunangi í kókósmjólk fyrir börn á fyrsta ári, vegna hættu á sýkingu.

Þarf ég að óttast að þyngjast af auka fitu úr kókósolíunni ?
Vissulega. Besta leiðin til að hindra það er að kókóshnetuolían komi í stað annarrar fitu eða olíu í matnum og ef það nægir ekki, að draga úr neyslu á kolhydrötum (kolvetnum) t.d. brauðvörum, hrísgrjónum, kartöflum, morgunnkorni o.m.fl. að ótöldum margs konar sætindum. Yfirleitt er það góð hugmynd að nota heilmjölskornvörur en ef þyngdaraukning eða yfirþyngd er vandamál má t.d. nota fitusnauðar mjólkurvörur af ýmsu tagi. Margs konar matvara t.d. salöt og margt annað sem matarolía er sett út á eða blandað í má breyta þannig að nota kókóshnetuolíu í stað t.d. sólblóma eða ólífuolíu. Í verslunum eru fáanlegar ,,mæliskeiðar” til að mæla magn af ýmis konar vöru t.d. olíu til matargerðar.

Eykur kókóshnetuolía kólesteról í blóði ?
Hert kókóshnetuolía getur aukið kólesteról. Biðjið því ævinlega um óherta kókóshnetuolíu með enga transfitu. Ekkert kólesteról er í kókóshnetunni sjálfri og með óhertri kókóshnetuolíu sést yfirleitt enginn munur eða heldur hækkun á ,,góða” kólesterólinu (HDL), en lækkun á því ,,slæma” (LDL). Stöku sinnum sést einhver aukning á heildar-kólesterólinu, oftast vegna aukningar á ,,góða” kólesterólinu.

Ýmislegt annað gagn sem við höfum af kókóshnetum
Líkaminn tekur auðveldlega upp efni úr kókóshnetum og kókóshnetuolíu. Það bætir upptöku sumra vítamína og steinefna og fleiri mikilvægra næringarefna. Þetta á t.d. við um kókóshnetumjólk, kókóshnetukjöt, hvort heldur vott eða þurrt. Trefjarnar í kókóshnetukjöti eru t.d. sérlega góðar fyrir fólk með Crohns-sjúkdóm eða aðrar tegundir iðrabólgusjúkdóma eða lélega upptöku næringarefna í meltingarfærunum og langvarandi niðurgang sem sumir fá við að nota mikið af MCT olíum eða kókóshnetuolíu.
Allar frumuhimnur í okkur og 60-70%  heilans eru gerð úr fituefnum. Kólesteról er afar mikilvægt byggingarefni í heilanum. Ýmis starfsemi frumanna fer fram í frumuhimnunni. Síðan um miðja öldina sem leið hafa margir í Bandaríkjunum notað eingöngu 100% jurtaolíu til matar, sem oftast er aðallega hert fjölómettuð fita, sem inniheldur transfitur sem geta borið skaðlegar stakeindir inn í frumuhimnurnar. Ef þú skiptir um og ferð að nota kókóshnetuolíu og aðra náttúrulega feiti eins og t.d. ólífuolíu og jafnvel smjör, ásamt ómega-3 olíum, munt þú verða fær um að bæta fyrir hluta þess skaða sem þegar hefur orðið. Meiri hluti frumanna í líkamanum umbreytast á 3-6 mánuðum og þú munt uppgötva að húðin er sléttari og mýkri en áður og laus við sveppasýkingar sem áður var stundum vandamál.

Æ.J. Þýddi

Athugasemd frá þýðanda
Oft má nota kókóshnetuolíu í stað annarrar matarfitu t.d. við að steikja eða djúpsteikja, og í hrásalöt og í margs konar annan mat þar sem matarolía er notuð. Kókóshnetuolía þolir hita betur en nokkur önnur matarfeiti. Úr henni myndast aldrei eitraðar stakeindir, öfugt við flestar fjölómettaðar jurtaolíur. Hún er því sennilega hollasta matarolían sem völ er á.

Þýðandi

Heimildir: http://www.coconutketones.com/dietguidelines.doc  – Sjá einnig:  http://heilsuhringurinn.is/index.php?option=com_content&view=article&id=134:kokoshnetuolia-natturleg-oerveruhemjandi- faeea&catid=27:greinar&Itemid=22

http://www.coconutketones.com/whatifcure.pdf   – http://coconutketones.blogspot.co.uk/



Flokkar:Greinar, Skrif Ævars Jóhannessonar

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , ,