Athygliverð ályktun um erfðabreytta útiræktun, ávítur menntamanna og svör forseta NLFÍ

Ályktanir 33. landsþings NLFÍ í október 2011

Erfðabreyttar lífverur – ræktun erfðabreyttra plantna á Íslandi
Náttúrulækningafélags Íslands fordæmir það ábyrgðarleysi íslenskra stjórnvalda að heimila útiræktun á erfðabreyttum lífverum á Íslandi. Fjöldi ritrýndra vísindalegra rannsókna liggja nú fyrir sem sýna fram á að erfðabreyttar lífverur og afurðir þeirra valda óafturkræfu tjóni á umhverfi og heilbrigði dýra og manna. Landsþing NLFÍ telur að notkun erfðabreyttra lífvera skuli einvörðungu fara fram í lokuðu rými. Þingið krefst þess að þar sem leyfi til slíkrar „afmarkaðrar“ notkunar hafa verið veitt tryggi eftirlitsaðilar raunverulega afmörkun þannig að erfðabreytt efni berist ekki út í umhverfi og mengi grunnvatn og jarðveg.

Landsþing NLFÍ hvetur stjórnvöld til að banna með öllu útiræktun á erfðabreyttum lífverum og undirbúa að Ísland verði sem fyrst lýst „land án erfðabreyttra lífvera“.

Erfðabreyttar lífverur – innihaldslýsingar

Landsþing NLFÍ fordæmir aðgerðarleysi íslenskra stjórnvalda varðandi innihaldslýsingu matvæla og hvetur þingið til þess að nú þegar verði tekin upp tilskipun EES í íslensk lög um merkingar á matvælum sem framleidd eru úr erfðabreyttum lífverum og afurðum þeirra.

Lífræn framleiðsla
Landsþing NLFÍ hvetur stjórnvöld til að styðja við bændur í lífrænni framleiðslu og móta stefnu um eflingu lífræns  landbúnaðar á Íslandi.

Vottað lífrænt nytjaland á Íslandi nemur nú aðeins 1.23% af áætluðu flatarmáli þess lands sem talið er nýtanlegt til landbúnaðar.

Vísindalegum rannsóknum fjölgar sem sýna fram á að lífrænar aðferðir auka langtíma hagkvæmni og framleiðslu, hafa jákvæð áhrif á lífríki og umhverfi, auka næringarefnainnihald matvæla og stuðla að bættu heilsufari.

Mataræði barna í grunnskólum
Landsþing NLFÍ hvetur íslensk stjórnvöld til að tryggja börnum hollt fæði í öllum grunnskólum landsins. Rannsóknir sýna tengsl á milli holls og góðs mataræðis og námsárangurs. Því ættu allir grunnskólar á Íslandi að bjóða fjölbreytta fæðu öllum börnum að kostnaðarlausu.

Sykur og auglýsingar
Landsþing NLFÍ varar við auglýsingum á miður hollum neysluvörum. Margar auglýsingar hvetja til neyslu á varningi sem inniheldur mikið af viðbættum sykri og öðrum óæskilegum efnum þótt þær gefi  hollustu í skyn. Vitað er að ofneysla sykurs hefur slæm áhrif á heilsufar. NLFÍ hvetur til að undantekningalaust verði skylt að tilgreina magn viðbætts sykurs á umbúðum matvæla sem seld eru hér á landi.

Áfengi
Landsþing NLFÍ hvetur  til aukinnar almennrar fræðslu um skaðsemi áfengis, einkum er varðar áhrif þess á barnshafandi konur, börn og unglinga.
Neysla áfengis á meðgöngu getur skaðað fóstur og orsakað m.a. greindarskerðingu. Neysla áfengis skaðar einnig börn og unglinga sem eru að taka út þroska og getur leitt til fíkniefnaneyslu. Landsþing NLFÍ hvetur til að sett verði varnaðarorð á umbúðir áfengra drykkja og skorar á stjórnvöld að fylgja betur eftir banni við áfengisauglýsingum og herða viðurlög ef brotið er gegn þeim.

Tóbak
Náttúrulækningafélag Íslands og stofnendur þess hafa mælt gegn tóbaksneyslu í yfir 80 ár. Landsþing NLFÍ fagnar þeim árangri sem náðst hefur í tóbaksvörnum á Íslandi og hvetur stjórnvöld til að taka skrefið til fulls og banna reykingar á almannafæri. Árlega deyja um 260 manns af völdum tóbaksnotkunar á Íslandi.

Hefðbundnar og óhefðbundnar lækningar
Landsþing NLFÍ hvetur til aukinnar samþættingar hefðbundinna lækninga og viðbótarmeðferða. Viðbótarmeðferð vísar til meðferðar sem ekki hefur verið talin hluti af hefðbundinni heilbrigðisþjónustu en sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að nýtist samhliða hefðbundinni meðferð eða sem sjálfstæð meðferð.

Umhverfi
Landsþing NLFÍ minnir á að hreint náttúrulegt umhverfi er mikilvægur þáttur í lífi og heilsu fólks. Almenningur þarf að geta stundað heilbrigt útilíf og hafa aðgang að ósnortnum víðernum. Fólkið í landinu og stjórnvöld verða að standa vörð um stórbrotna náttúru Íslands og lífríki þess.


Opið bréf til stjórnar Náttúrulækningafélags Íslands í Fréttablaðinu 10. nóv. 2011 frá eftirtöldum menntamönnum:

Áslaug Helgadóttir prófessor, Lbhí, Eiríkur Steingrímsson prófessor, HÍ, Jón Hallsteinn Hallsson dósent, Lbhí, Kristín Ólafsdóttir lífefnafræðingur, HÍ, Magnús Jóhannsson prófessor, HÍ, Magnús Karl Magnússon prófessor, HÍ, Sigurður Guðmundsson forseti heilbrigðisvísindasviðs, HÍ

Eru erfðabreyttar lífverur hættulegar fólki?

Náttúrulækningafélag Íslands (NLFÍ) hélt í október síðastliðnum 33. landsþing sitt og sendi í kjölfarið frá sér ályktanir sem meðal annars var komið á framfæri við almenning með heilsíðu auglýsingu í Fréttablaðinu hinn 15. október sl ; Á liðnum áratugum hefur NLFÍ sett mörg þjóðþrifamál á oddinn og meðal annars barist fyrir bættri heilsu almennings með áherslu á rétt mataræði og fræðslu um skaðsemi áfengis og tóbaks.

Nú bregður hins vegar svo við að síðasta landsþing félagsins virðist álíta að erfðabreyttar lífverur séu það sem helst ógni heilsu manna. Slík er fyrirferðin sem þær fá í auglýsingunni, og fer meira pláss undir yfirlýsingar um erfðabreyttar lífverur og meinta skaðsemi þeirra en samanlagt um bæði áfengi og tóbak. umfjöllun um erfðabreyttar lífverur taka ábyrgðarmenn NLFÍ djúpt í árinni og segja „Náttúrulækningafélag Íslands fordæmir það ábyrgðarleysi íslenskra stjórnvalda að heimila útiræktun á erfðabreyttum lífverum á íslandi“. ítarlega hefur verið rannsakað hvort erfðabreyttar lífverur og matvæli skaði heilsu fólks og þar benda gögn ekki til neinnar sérstakrar hættu.

Rétt er að benda NLFÍ á ályktanir í nýlegri skýrslu á vegum Evrópusambandsins þar sem sjónum var beint að niðurstöðum rannsókna á öryggi erfðabreyttra plantna fyrir umhverfi, menn og skepnur (http://ec.europa. eu/research/biosociety/pdf/a_ decade_of_eu-funded_gmo_research. pdf). Frá árinu 1982 hefur sambandið lagt í þessar rannsóknir rúmar 300 milljónir evra, eða um 48 milljarða króna, og niðurstaðan er skýr: „Líftæknin sem slík, og þá einkum erfðabreyttar plöntur, hefur ekki meiri hættu í för með sér en t.d. hefðbundnar kynbótaaðferðir.“ Við skorum á forsvarsmenn NLFÍ að gæta ábyrgðar í yfirlýsingum sínum. Gera verður þá kröfu til samtaka eins og NLFÍ að þau hræði ekki almenning með staðlausum fullyrðingum. Auðvelt er að mistúlka og afvegaleiða niðurstöður vísindarannsókna og margir sem sjá sér hag í að gera það varðandi erfðabreyttar lífverur. NLFÍ á ekki að taka þátt í þeim leik.

Gunnlaugur K. Jónsson forseti NLFÍ  svaraði með grein í Fréttablaðinu15. nóvember 2011.

Náttúrulækningafélag íslands (NLFÍ) birti heilsíðu auglýsingu í Fréttablaðinu 15. október sl. þar sem fram koma ályktanir landsþings NLFÍ sem haldið var 1. október sl. Þær má finna á heimasíðu samtakanna. (www. nlfi.is) Hópur starfsmanna Lbhí og HÍ birtir opið bréf til stjórnar NLFÍ í Fréttablaðinu 10. nóvember sl., tengt ályktunum þingsins, þar sem spurningarmerki er sett við það hvort erfðabreyttar lífverur séu hættulegar fólki. umræddri grein er m.a. vísað í ítarlegar rannsóknir þar sem gögn bendi ekki til neinnar sérstakrar hættu sem heilsu fólks stafi af erfðabreyttum lífverum. Gera höfundar þá kröfu að samtökin hræði ekki almenning með staðlausum fullyrðingum. Stjórn NLFÍ beinir því til hlutaðeigandi að það hefur ekki farið framhjá samtökunum, frekar en öðrum þeim sem fylgjast með þessum málum, að því fer víðsfjarri að sátt ríki um þessi mál innan „vísindasamfélagsins“ Bæði hér á landi og erlendis.

Allt frá árinu 2003 hefur landsþing  NLFÍ lagst gegn því að heimiluð verði í tilraunaskyni útiræktun erfðabreyttra plantna hér á landi og varað við þeirri hættu sem slík ræktun hefur í för með sér fyrir ímynd og hreinleika íslands og opinber markmið um sjálfbæra þróun. NLFÍ telur sér skylt að beita sér fyrir því að náttúra og lífríki íslands fái í öllu að njóta velvildar vafans.

NLFÍ hefur á undanförnum áratugum verið langt á undan sinni samtíð m.t.t. ýmissa mála sem haldið hefur verið á lofti í þeim tilgangi að stuðla að náttúruvernd, bættri heilsu og velferð landsmanna. Oftar en ekki í mikilli andstöðu við ríkjandi skoðanir „vísindasamfélagsins“. Nefna má áherslur NLFÍ á vægi heilbrigðra lifnaðarhátta á heilsufar, t.a.m. tengt mataræði, hreyfingu og þeirri staðreynd að einstaklingurinn verði að bera ábyrgð á eigin heilsu og velferð.

Á sínum tíma stóðu forsvarsmenn NLFÍ í miklum deilum við þáverandi stjórn Læknafélags Íslands. Deilan spratt af því að Jónas Kristjánsson læknir, þáverandi forseti NLFÍ, fordæmdi að tóbaksauglýsingar væru birtar í Læknablaðinu. Stuðningsmenn þessara auglýsinga, ekki síst menn úr „vísindasamfélaginu“, fóru hamförum og voru duglegir að vísa til ítarlegra rannsókna sem sýndu fram á skaðleysi tóbaks. NLFÍ var lýst sem óábyrgum öfgasamtökum sem héldi uppi hræðsluáróðri gagnvart almenningi með því að setja sig upp á móti tóbaksnotkun.

NLFÍ furðar sig á því hvers vegna yfirvöld sáu ástæðu til þess að fresta gildistöku matvælaþáttar reglugerðar nr. 1038/2010 („reglugerð um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs“), sem undirrituð var af ráðherra 14. desember 2010. Almenningur hefur mismunandi skoðanir á erfðabreyttum lífverum og erfðabreyttum matvælum. Hins vegar er með öllu óskiljanlegt að yfirvöld sjái ástæðu til þess að koma í veg fyrir að kaupandi matvæla hafi það val að ákveða sjálfur hvað hann leggur sér til munns eða gefur börnum sínum. Full ástæða er til þess að velta fyrir sér í þágu hverra ákvarðanir sem þessar eru teknar.

í byrjun fimmta áratugar síðustu aldar var fullyrt að skordýraeitrið DDT væri nánast guðsgjöf sem myndi umbylta allri matvælaframleiðslu heimsins, mannkyni til heilla. í dag efast enginn um þann skaða sem DDT hefur valdið vistkerfi  jarðarinnar.

Nú ber svo við að erfðatækninni er m.a. hampað sem bjargvætti m.t.t. matvælaframleiðslu jarðarinnar með svipuðum hætti og gert var á sínum tíma með DDT. Náttúrulækningafélag íslands mun hér eftir sem hingað til halda sínu striki varðandi upplýsingamiðlun og fræðslu til almennings um hvaðeina sem samtökin álíta að varði náttúruvernd og heilbrigt líferni. NLFÍ krefst þess að í öllum málum þessu tengt fái almenningur og náttúra Íslands að njóta velvildar vafans. Berum ábyrgð á eigin heilsu!Flokkar:Kynningar

Flokkar/Tögg, , , , , , ,

%d bloggers like this: