Meira um mikið járn í blóði

Eins og áður hefur komið fram í Heilsuhringnum (vor 1999) dregur það verulega úr hættu á að fá hjartaáfall að gefa reglulega blóð. Flestir sem skrifað hafa um þetta telja að blóðgjöfin valdi því að þeir sem reglulega gefa blóð séu með minna járn í blóði en þeir sem aldrei gefa blóð. Járn hvetur oxun, m.a. á kólesteróli í blóðinu. Aðeins oxað kólesteról er nú talið að setjist innan á æðaveggina. Því veldur aukið magn af járni í blóðinu því að meira kólesteról oxast og sest innan í slagæðar og getur með því valdið hjarta eða heilaáföllum.  Þó að þetta sé að vísu dálítið einfölduð mynd af orsökum æðahrörnunar og margt fleira en járn í blóði skiptir máli, er járn í blóði þó sennilega ein höfuð orsök þess að kólesteról oxast og sest innan í æðar og smá lokar þeim.

Japanskir vísindamenn hafa rannsakað þetta mikið undanfarið. Þeir telja að óhollusta rauðs kjöts fyrir æðakerfið sé ekki vegna þess að það inniheldur mettaða fitu, heldur sé ástæðan fyrst og fremst sú að það er auðugt af járni. Hidehiro Matsuoka, formaður háþrýstingsdeildar læknaskólans í Kurume í Japan stjórnar rannsóknum á þessu og ræddi um þetta nýlega í viðtali og sagði m.a.:

„Margir vísindamenn hafa skýrt það með hormóninum östrógen, hversvegna konur á barneignaaldri eru í lítilli hættu að fá hjarta- og æðasjúkdóma. Sú skýringartilgáta hefur þó einnig komið fram að minna járn í blóði, vegna mánaðarlegra tíðablæðinga, geti frekar verið höfuðástæðan“. Lífefnafræðilegar rannsóknir hafa sýnt að járn hvetur myndun stakeinda, sem eru örlitlir rafhlaðnir hlutar sameinda sem valdið geta eyðileggingu á frumum líkamans.

Á ráðstefnu sem bandaríska Hjarta og æðaverndarfélagið hélt um rannsóknir háum blóðþrýstingi, sagði Matsuoka að hann rannsóknarhópur hans hefðu ákveðið að finna þau tengsl sem eru milli járns í blóði og æðaskemmda. Þeir athuguðu áhrif járns á lagið sem þekur innra yfirborð æðanna (endothelium) en það er einmitt nátengt hjarta- og æðasjúkdómum. Mikið járn blóði eykur magnið af efninu malondialdehyd, sem er merki um oxun og skerta virkni í innsta lagi æðanna (endothelium). Við það að nota lyf semminnkaði járnið í blóðinu í 10 heilbrigðum reykingamönnum minnkaði malon-dialdehyd í blóði þeirra samtímis.

Vísindamenn bandaríska Hjarta- og æðaverndarfélagsins telja að könnun Japananna sé sú fyrsta sem gerð hefur verið, sem sýni beint, að mikið járn í blóði skaði innsta lag æðanna. „Könnun okkar sýnir að við verðum að líta járn sem áhættuþátt fyrir æðakölkun og verðum gera okkur ljóst, að nauðsynlegt er að hafa stjórn járninu í líkama okkar til að hindra hjarta- og æðasjúkdóma“, fullyrðir Matsuoka að lokum. Hann segist trúa því að járn trufli á einhvern hátt níturoxíð, efnasamband,sem getur verið taugaboðefni, sem slakar á smávöðvum í æðum, svo blóðið renni auðveldar (og blóðþrýstingur lækki, þýð.).

Hann vill láta lækna mæla hvernig innra borð æðanna starfar og gera það að staðlaðri athugun, líkt og þegar blóðþrýstingur er mældur. Hann segir að þetta sé einföld mæling með hátíðnihljóði. Þá segir hann að nýrnasjúklingar sem nota gervinýra, séu oft blóðlitlir og fái járn í æð. Þetta fólk þjáist oft af hjartasjúkdómum og æðakölkun, sem er afleiðing þess að járnið skaðar æðakerfið. Betra er, segir hann, að gefa járnið í pillum og hann varar alla sem nota gervinýru við þessu.

Þetta er þó ekki það eina sem gerir mikið járn í blóði óæskilegt. Fjölmargt bendir til að mikið járn auki stórlega líkur á ýmsum krabbameinum. Þó að sumir munu vafalaust mótmæla því, hefur ýmislegt komið fram sem bendir til þess að þeir sem nota mikið af rauðu kjöti, sérstaklega nautakjöti, fái miklu oftar sum krabbamein en þeir sem neyta annarrar fæðu. Þessi tengsl eru svo sterk að jafnvel hefur verið sagt, að sé vitað hversu mikið af nautakjöti sé notað í einhverju landi, þá megi um leið segja hversu margir fá ristilkrabbamein í því landi. Rautt kjöt inniheldur mikið af járni, eins og vitað er. Járnið hvetur oxun og myndun skaðlegra stakeinda og annarra vafasamra efnasambanda t.d. malon-dialdehyd, sem áður er getið.

Ekki má þó líta þannig á að járn sé alltaf til ills. Svo er vitanlega ekki, því að járn er ómissandi næringarefni m.a. til að mynda blóðrauða. Það er einungis þegar of mikið er af því sem það fer að valda skaða. Þar er því að að finna hið vandrataða meðalhóf, hvorki of mikið né of lítið. Oxunarvarnarefni í fæðu, og önnur sem líkaminn myndar, sjá um að stakeindir, sem hljóta stöðugt að vera að myndast í líkamanum eru gerðar skaðlegar, meðan ekki myndast of mikið af þeim. Skorti hinsvegar andoxunarefni eða of mikið er af stakeindum fara þær að valda skemmdum, m.a. á erfðaefni frumanna. Þetta getur leitt til frumubreytinga sem líkaminn getur ekki lagfært. Sumar þannig breytingar valda ótímabærri öldrun en aðrar geta leitt til að krabbamein fari að myndast.

Allt of mikið járn í blóði veldur því að stakeindum í blóðinu fjölgar meira en annars mundi vera. Fræðilega mætti segja að þetta mætti bæta að hluta til með því að nota meira af oxunarvarnarefnum í mat, t.d. C- og E-vítamínum og fjölda annarra andoxunarefna. Reynslan sýnir líka, að sum þessara efna fækka krabbameinstilfellum. Líklega er þó aldrei hægt að eyða óæskilegum áhrifum allt of mikils járns í blóði nema að hluta til. Sennilega verkar ofgnótt af járni í líkamanum einnig ónæmisbælandi, sem einnig eykur líkur á krabbameini og sýkingum.

Sérstaklega er fullorðið fólk varað við að nota bætiefnapillur sem innihalda járn og sennilega hafa járnmeðul, hvort sem þau eru seld gegn lyfseðli eða keypt í heilsubúðum, valdið ótöldum einstaklingum meira tjóni en gagni. Í vissum tilfellum eiga þó járnmeðul rétt á sér, t.d. hjá konum með óeðlilega miklar tíðablæðingar eða við annan blóðmissi eða slys. Líklega ættu sem flestir að gefa blóð reglulega en Blóðbankinn vill ekki fá blóð úr fólki sem notar einhver lyf. Það fólk ætti að eiga kost á að láta taka blóð úr sér reglulega, þó að blóðið sé ekki nothæft til blóðgjafa.

Wayne Martin skrifaði um þetta efni langt bréf í Townsend Letter for Doctors and Patients, október 2000. Bréfið er bæði fróðlegt og skemmtilegt en er því miður of langt til að birta það hér. Dálítið af efni úr því er þó notað í þessa grein. Hann segir í lok greinar sinnar að sennilega sé best að vera með eins lítið járn í blóði og hægt er, án þess þó að um skort sé að ræða. Annað efni í þessari grein er m.a. fengið úr internetinu, en vegna þess að bannað er að nota efni úr þeirri vefsíðu til endurbirtingar gef ég ekki slóðina. Þegar þessi grein var tilbúin, kom sú frétt í fjölmiðlum  að vísindamenn teldu sig hafa uppgötvað, að hjá sjúklingum með Parkinsons-sjúkdóm væri of mikið járn á vissum stöðum í heilanum og að það kunni að vera ástæðan fyrir sjúkdómnum. Vísindamennirnir álíta að járnið valdi of mikilli stakeindavirkni sem skaðar heilafrumurnar. Sé þetta rétt er það enn ein ástæða til að varast að hafa of mikið járn í líkamanum.

Höfundur Ævar Jóhannesson árið 2001Flokkar:Úr einu í annað

Flokkar/Tögg, , , , , ,

%d bloggers like this: