Þó að kerrupúl sé kynnt sem útivistar- og líkamsræktarnámskeið fyrir mæður með börn í vagni eða kerru þá eru feður í fæðingarorlofi eða ömmur og afar, frændur og frænkur að sjálfsögðu velkomin til okkar með börnin eða barnabörnin í vagninum! Þetta segja þær Halla Björg Lárusdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir og Melkorka Árný Kvaran, íþróttakennari og matvælafræðingur sem stofnuðu Kerrupúl. Samtals eiga þær sjö börn á aldrinum 2-15 ára og eru því vanar að ýta vagni og kerru á undan sér. Báðar eru þær miklar áhugamanneskjur um hverskonar hreyfingu, almennt heilbrigði og holla lífshætti.
Kerrupúl er alhliða æfingakerfi frá toppi til táar sem miðar að því að styrkja mæður eftir barnsburð og feður í fæðingarorlofi eftir samúðarmeðgöngu, og er því miklu meira en bara göngutúr úti í náttúrunni. Allir geta stundað Kerrupúl, hvort sem barnið er nýfætt og móðirin nýstigin upp úr sængurlegunni eða barnið orðið eldra og farið að sitja upp í kerru og hafa gaman af umhverfinu. Tímarnir eru byggðir upp á þol- og styrktarþjálfun þar sem stuðst er við umhverfið og allt sem þar er í boði.
Kerrupúl á sér amerísk fyrirmynd
Halla Björg: Ég bjó vestan hafs í mörg ár og kynntist þessari hugmynd þar. Íslenskar mæður eru mjög duglegar við að fara út að ganga með börnin sín og fannst okkur því tilvalið að heimfæra þetta yfir á íslenskar aðstæður. Í Ameríku púla konurnar inni í verslunar-miðstöðunum með kerrurnar á veturna, má ég þá frekar biðja um hreina loftið hér á klakanum 🙂
Hvers vegna ættu nýbakaðir foreldrar að stunda kerrupúl?
Þær segja margar ástæður fyrir því: ,,Hjá okkur eru foreldrarnir úti og anda að sér fersku lofti og njóta samverunnar með barni sínu í leiðinni. Það þarf ekki að skilja barnið eftir í barnagæslu og geta þau því sameinað þessa mikilvægu þætti sem felast í því að hugsa vel um sjálfa sig og barnið sitt í leiðinni. Einnig er félagslegi þátturinn mjög mikilvægur; stuðningur og samband við aðra foreldra sem eru eins þenkjandi og með svipaðar áherslur í lífinu, er ómetanlegur.
Halla Björg Lárusdóttir og Eygló dóttir hennar.
Æfingakerfið er einfalt en um leið mjög krefjandi og styrkjandi og hefur þetta hjálpað mörgum konum að koma sér af stað eftir barnsburð. Þar sem rekstrarkostnaður er lítill þá getum við leyft okkur að hafa þetta ódýrt og það finnst okkur gríðarlega mikilvægt á þessum síðustu og verstu tímum. Þannig að fyrir utan það hvað Kerrupúlið er gott og heilsubætandi, bæði fyrir líkama og sál, þá er það líka ódýrt, einfalt og við allra hæfi.“
Hvar er kerrupúl stundað?
,,Í Reykjavík hittumst við alltaf í paradísinni í Laugardalnum og nýtum þessa frábæru aðstöðu og fallega umhverfi og allar þær lautir og stíga sem dalurinn hefur upp á bjóða. Það er þvílík veðursæld þarna í dalnum og merkilegt hvað það er alltaf gott veður þar þó svo það sé kannski stormur í næsta hverfi. Einnig hefur Kerrupúl dreift sér um landið og hafa námskeið verið kennd á Ísafirði, Selfossi, Stykkishólmi og Hvolsvelli svo eitthvað sé nefnt”.
Hvernig hefur kerrupúli verið tekið?
Melkorka Árný: ,,Alveg gríðarlega vel, það var klárlega þörf fyrir svona tegund af námskeiðum hér á landi. Við höfum fengið mjög góða umfjöllun og jákvætt umtal. Við höfum haldið úti námskeiðum í allan vetur (enda varla komin vetur hérna í Reykjavík) og konurnar mæta bara klæddar eftir veðri og finnast fátt meira hressandi en að taka á því með okkur. Og fyrst við erum farnar að tala um jákvæðnina þá finnst mér rétt að benda á það að ég hef kennt allavega tegundir af líkamsrækt í gegnum árin bæði í námskeiðsformi og svo einstaklingsmiðaðri þjálfun og hef aldrei haft jafn mikið samansafn af jákvæðum konum á einum stað, það er ekki til neikvæðni eða uppgjöf hjá þessum konum og ég er hundrað prósent viss um að útiloftið spilar þar stórt hlutverk! Maður getur orðið háður þessu dásamlega súrefni “.
Melkorka Árný Kvaran
Allar nánari upplýsingar er að finna á: www.kerrupul.is netfang: kerrupul@kerrupul.is