Vatn – lífsins elexír

Vatnið er okkur öllum nauðsynlegt. Mannslíkaminn er sagður vera nálægt 60% vatn. Ef við drekkum ekki nóg vatn þá líður okkur illa og líkamsstarfssemin fer úr skorðum. Það er hinsvegar margt merkilegt við vatn sem ekki er jafn augljóst eins og gildi þess gagnvart þorsta eða matargerð. Stuttu fyrir síðustu aldamót deildu vísindamenn hart um rannsóknir sem kynntar voru frá svokallaðri INSERM rannsóknarstofu í París sem Dr. Jacques Benveniste stýrði.

Dr. Benveniste fullyrti að rannsóknir sínar sýndu glöggt að vatn hefði minni og að vatn gæti munað efniseignleika ýmissa efna sem það hefði komist í snertingu við. Tilraunir voru gerðar með ýmsu móti en gengu út á það að blanda í vatn efnum sem menguðu vatnið. Algengast var að nota efnið ovalbumin sem er eggjahvítuefni og mæla áhrif þess. Mælingin fór fram með svokallaðri Langendorf tækni og sýndi tækið viðbrögð við eggjahvítu en engin við vatni. Þegar hreint vatn fer í gegn um mælitækið koma ekki fram nein viðbrögð á mengun.

Ef hinsvegar eggjahvítuefninu er blandað út í vatnið þá sýnir tækið sterka svörun. Tilraun var gerð með þeim hætti að efninu var blandað í vatn og lausnin síðan þynnt. Smátt og smátt þynntist hlutfall eggjahvítuefnisins út og þegar hlutfallið var orðið svo lítið að í raun átti ekki eitt einasta mólekúl af eggjahvítuefninu að vera í vatninu þá sýndi mælitækið samt sem áður viðbrögð við eggjahvítu. Eftir þynningu upp á 10 í -400 veldi þá var lausnin ennþá virk. Samkvæmt eðlisfræðilögmáli Avogadros ætti ekki að vera eftir eitt einasta mólekúl af upprunalega efninu.

Ýmiss efni voru prófuð með þessum hætti eins og kanabis, arsenik og týroxín svo eitthvað sé nefnt með svipuðum niðurstöðum. Þessi rannsókn Benveniste vakti heimsathygli og miklar deilur. Hann fékk að birta niðurstöður sínar í tímaritinu Nature en þar á bæ voru ekki allir jafn hrifnir. Ekki hefur tekist að endurtaka þessar rannsóknir með óyggjandi hætti til að þær teljist vísindalega sannaðar en engu að síður er þetta æði merkilegt ef satt reynist. Það sem styður þessar rannsóknir er helst aðferðafræði hómópata við að útbúa lyf eða remedíu. Sú aðferðarfræði byggist einmitt á því að blanda ákveðnum efnum út í vatn, þynna það síðan verulega með ákveðinni tækni og nýta lausnina sem lyf.

Hómópatían er sívinsæl aðferðafræði við heilun eða lækningar og eru sum apótek hér á landi farin að selja hómópatalyf. Það er hinsvegar fleira sem er áhugavert við vatnið. Japani að nafni Masaru Emoto kynnti fyrir rúmum tíu árum síðan áhugaverðar niðurstöður sínar á rannsóknum á vatnskristöllum sem myndast þegar vatn frýs. Þessar rannsóknir og kenningar Emotos eru kynntar í bókinni „Vatnið og hin duldu skilaboð þess“ í þýðingu Bryndísar Víglundsdóttur. Hann vann að rannsóknum sínum inn á rannsóknarstofu með 20°C frosti og dreypti þar dropa af vatni á plötu undir smásjá og fylgdist með því þegar vatnið fraus. Síðan myndaði hann árangurinn.

Það sem Emoto sá var að í vatninu mynduðust kristallar með ýmiss konar lögun og form. Hinsvegar varð Emoto í meira lagi furðu lostinn þegar hann áttaði sig á því að lögun kristallanna fór eftir ýmsum þáttum eins og hugsunum hans, tónlist eða skrifuðum orðum. Þá færðist fjör í leikinn og Emoto varð hugfanginn af viðfangsefni sínu. Hann myndaði kristalla úr vatni héðan og þaðan úr heiminum, spilaði tónlist, talaði við vatnið, hugsaði hlýlega til þess eða illa og árangurinn var alltaf í takt við hugsanir eða gæði þess sem hann notaði.

Til dæmis mynduðust fallegir kristallar þegar spiluð var klassísk tónlist fyrir vatnið áður en það fraus. Ef hinsvegar hann spilaði dauðarokk þá mynduðust engir kristallar. Hatur hafði sömu áhrif, reiði og öfund einnig. Ef á hinn bóginn hugsað var til vatnsins hlýlega eða með kærleik þá mynduðust hinar fegurstu kristalmyndanir. Emoto prófaði meira að segja að skrifa orð eins og „hatur“, „reiði“, „ást“ og „gleði“ á miða á vefja utan um vatnsflöskuna og skilaði það sama árangri.

Það er erfitt að halda því fram að vatnið kunni að lesa en hann fullyrðir að áhrifin séu skýr. Emoto varð svo snortinn af þessari uppgötvun að hann hefur hafið baráttu fyrir heimsfriði og segir vatnið tala skýrt til okkar að kærleikur eigi að vera okkar leiðarljós. Hann er ekki einn um þessa hugmyndafræði. Það eru ansi margir búnir að segja þetta og tala fyrir daufum eyrum. Hinsvegar er það staðreynd og stór hluti af ýmiss konar meðferðum að ef við hugsum jákvætt þá gengur allt betur. Lífið verður léttara og allar jákvæðar hugsanir sem við sendum frá okkur koma til okkar í jákvæðu formi.

Allar neikvæðar hugsanir koma líka til okkar í neikvæðu formi. Þannig getum við með því að vera alltaf neikvæð, dottið inn í vítahring sem erfitt getur reynst að komast út úr. Ef á hinn bóginn við hugsum jákvætt þá líður okkur betur og allt okkar líf gengur betur. Það er sláandi hve fallegir kristallar koma fram á orðinu „kærleikur“. Það vekur þær vangaveltur hvort ekki sé þess virði að hugsa alltaf jákvætt og einbeita sér að kærleiksríkri hugsun í daglegu lífi. Það hlýtur að vera hægt að þjálfa upp eins og hvað annað. Árangurinn ætti að skila sér í allt okkar umhverfi. Það mætti ætla að áhrifin væru jákvæð á vatnið í líkama okkar og einnig huga og umhverfi.

Hugsum okkur að þú sért út á gangi og ert í rosalegri fýlu, með skeifu og allan pakkann. Þeir sem mæta þér sjá hvernig þér líður og herpast saman gagnvart þér og fara jafnvel í vont skap. Þú sendir manneskju illt auga, hún skynjar það og fer í hnút, kemur heim til sín í hnút, hreytir ónotum í makann og börnin. Áhrifin eru keðjuverkandi. Hugsum okkur á hinn bóginn að þér líði rosalega vel, gengur brosandi út á götu, mætir fullt af fólki og sendir öllum hlýlegt bros sem þú mætir. Þeir sem nema frá þér brosið hlýnar um hjartarætur og þegar heim er komið er makanum klappað og börunum hælt. Það kostar ekkert að hugsa hlýlega til annarra, það kostar ekkert að brosa og sýna jákvætt viðmót. Kærleikurinn kostar ekkert, hann er öllum frír, hann er heilandi, vekur gleði og lífshamingju og stuðlar að betra lífi til þeirra sem tileinka sér hann.

Höfundur: Valdemar Gísli Valdemarsson  18.02.2010

 Flokkar:Næring

%d bloggers like this: