Heldur Crohn’s sjúkdómi í skefjum með réttu mataræði

Rætt við Margréti Ásgeirsdóttur

Í vorblaði Heilsuhringsins árið 2000 var viðtal við Margréti Ásgeirsdóttur undir nafninu ,,Gengið á vit heilbrigðis með Hallgrími“.  https://heilsuhringurinn.is/2000/04/02/gengie-a-vit-heilbrigeis-mee-hallgrimi/     Viðtalið snerist um baráttu Margrétar við Crohn’s sjúkdóm og undraverðan bata hennar eftir mataræðisbreytingu. Ekki er ætlun að rekja áðurnefnt viðtal nú heldur fá að vita hvernig henni hefur vegnað þessi sjö ár síðan viðtalið fór fram.

467777_10151440735382341_1340140986_o

Margrét:  Ég er nú nærri búin að gleyma þessu því að mér er búið að líða vel í svo langan tíma. En saga mín er sú að 1993 greindist ég með Crohn´s og var mjög veik í mörg ár, fór oft á sjúkrahús og fékk margar sterameðferðir í æð. Árið 1998 sá ég Hallgrím Magnússon lækni í sjónvarpinu. Nokkrum dögum seinna kom maðurinn minn heim og sagði: ,,Hvað með Hallgrím?“ Þá kviknaði á perunni hjá mér og ég dreif mig í viðtal til hans. Meðferðin byrjaði strax og fólst í því að ganga úr skugga um hvort um fæðuóþol væri að ræða. Þegar búið var að útiloka það hófst 30 daga grænmetissafafasta.

Þegar ég byrjaði aftur að borða fasta fæðu byggðist það mest á ávöxtum. Hallgrímur var afar natinn við mig og útskýrði allt vel. Fyrst kom batinn afar hægt, en alltaf á milli heimsókn til læknisins merkti ég örlítinn bata, sem var svo lítill að hann var varla greinanlegur. Þetta tímabil var óskaplega erfitt af því að ég var svo veik og lá oftast í rúminu. Ég held að mér hafi gengið svona vel í bataferlinu vegna þess að ég var alveg komin á botninn og hafði allt að vinna en engu að tapa.

Hélt matardagbók
Ég taldi mjög nauðsynlegt að halda dagbók og skrá niður allt sem ég borðaði. Mér fannst það veita mér aðhald og hjálpa mér að halda aga. Ég skráði líka líðan mína af matnum, þannig síaðist það betur inn hvað gerði mér gott.

Hvernig er mataræði þitt núna?
Hafragrautur á morgnana með mjólk. Oft borða ég heimabúnar súpur, í þeim er undirstaðan sætar kartöflur eða kúrbítur (eða bæði), einnig set ég í þær grænmeti sem mér þykir gott. Ég sýð allt og þeyti svo í blandara alveg í mauk (nota aldrei gróft grænmeti eins og spergilkál eða annað gróft kál). Svo bæti ég Kallo organic, eða Vetara organic krafti út í, sem ég kaupi í Maður lifandi. Stundum sýð ég mikið magn af þessum súpugrunni og skipti því niður og frysti, þegar ég nota það í matinn bæti ég út í minna soðnu grænmeti.

Einnig borða ég oft soðinn graut úr eplum og baka einnig pönnubrauð úr fínmöluðu spelti (skonsur) með eggjum og lyftidufti. Ég borða ekki gróft korn. Oftast fæ ég mér einu sinni á dag Komplett Näring / Teho næringardrykk frá Resource. þeir fást í apótekum og Tryggingarstofnun tekur þátt í kostnaði hans. Aðalmáltíð dagsins felst í fiski eins og t.d.: þorski, silungi, laxi, humri og skötusel. Einnig borða ég lambakjöt og kjúkling en lítið magn í einu.

Ég hef ekki tekið inn nein lyf gegn Crohn’s sjúkdóminum síðan ég breytti mataræðinu og nú er búin að vera góð svo lengi að ég svindla stundum og borða þá eitthvað sem hentar mér ekki. Það koma strax fram óþægindi í meltingarvegi og jafnvel í munni og ég finn að það truflar líka taugakerfið. Til þess að hjálpa meltingunni út úr þannig vanda og ná jafnvægi aftur, tek ég inn hrátt egg u.þ.b. hálftíma fyrir morgunverð og svo aftur að kvöldi áður en ég fer að sofa. Ég þeyti eggið vel og set kókosolíu, sem ég velgi í vatnsbaði áður en ég hræri hana saman við eggið.

Tilfinningalegt jafnvægi jafn mikilvægt og mataræðið
Það er mikilvægt að taka til í kringum sig, ég á við að vera alltaf sáttur við sjálfan sig og fjölskyldu sína. Ég er ljúf manneskja í umgengni og í samskiptum. Stundum átta ég mig á því að inni í mér er ég kannski orðin fjúkandi reið af því að það hefur verið gengið á mig og ég er ekki sátt. Þetta er af því að stundum þekki ég ekki mörk mín í samskiptum við aðra. Það má segja að ég þurfi að mála mig út í horn til að átta mig á þessu. En þá geri ég líka hreint fyrir mínum dyrum.

Ég hef tekið eftir því að þegar ég hef komið mér í slíkar aðstæður byrjar viðkvæmni í kviðarholinu, herpingur og stingir í smáþörmunum. Meðan ég var sem veikust og lá í rúminu hafði ég góðan tíma til að velta þessu fyrir mér og þá áttaði ég mig á því að trúlega má kenna tilfinningaálagi á þeim tíma sem ég veiktist jafn mikið um veikindi mín og röngu mataræði.

Að treysta innsæinu
Öll höfum við innsæi og eðlisávísun varðandi næringu sem hentar okkur best. Það hefur gefist mér vel í seinni tíð að efla þessa vitund og fara eftir henni. Börn nota eðlisávísun óspart meðan hún er óbrengluð af völdum okkar sem eldri eru. Ég á 7 ára gamlan dótturson, sem er með óþol gagnvart hinu og þessu eins og t.d. soja og hnetum. Hann elskar gulrætur og þegar hann dvaldi hjá mér í fyrra sumar ætlaði ég að gleðja hann sérstaklega og keypti þessar útlensku litlu fallegu gulrætur, sem fólki er bent á að hafa fyrir snakk. En hann snerti ekki við þeim og þær döguðu uppi í ísskápnum hjá mér í marga mánuði án þess að skemmast. Þá gerði ég mér grein fyrir því hve eðlisávísun drengsins var næm, hann þurfti ekki að smakka þær til að finna rotvarnarefnin í þeim.

Fleiri sögur er hægt að segja af þessu næmi hans. Eitt uppáhald hans eru kjúklingaleggir svo að ég bauð honum kjúklingaleggi á Kentucky, sem voru steiktir í raspi. En hann leit ekki við þeim. Svipaða sögu má segja um steiktan fisk sem einnig er vinsæll hjá honum. Ég ætlaði að gera honum sérstaklega gott og steikti fisk í raspi, sem ég keypti en nota annars ekki. Hann leit ekki við fiskinum en með fortölum tældum við hann til að smakka á honum. Eftir aðeins einn bita byrjaði roði í kringum munninn og óþolið rauk upp. Mér hafði láðst að lesa innihaldslýsinguna á rasppakkanum, þar stóð örlitið hnetukurl.

I.S.



Flokkar:Greinar og viðtöl

Flokkar/Tögg, , , ,

%d bloggers like this: