Nýjar leiðir í krabbameinslækningum. – Hugmynd að verða að veruleika

Í haustblaði Heilsuhringsins árið 2006 var mjög athyglisverð grein um hvernig nota mætti bakteríur eða veirur til að ráðast á krabbameinsfrumur og útrýma þeim, án þess að skaða sjúklinginn. Þetta gæti í fljótu bragði sýnst lyginni líkast og vera tæpast hægt að taka alvarlega. Þó að sumir hafi kannski ekki lagt mikla trú á að þetta væri raunverulega eitthvað sem innan fárra ára kynni að verða það sem að lokum sigrast á þessum bölvaldi, er þó ýmislegt sem bendir til að svo kunni þó að verða. Í Fréttablaðinu sumarið 2007, kom t.d. stutt fréttagrein sem augljóslega var um þetta sama efni, þó að allt aðrar heimildir væru þar nefndar en í greininni sem við birtum fyrir ári og fyrst kom í Lifandi vísindum.

Í greininni sem við birtum var talað um að fyrstu tilraunir á fólki væru að hefjast og að örveran sem nota ætti væri veiklaður stofn mislingaveiru. Í Fréttablaðinu var ekki talað um annað en erfðabreyttan stofn herpesveiru og sagt að tilraunir á fólki væru hafnar. Vel getur því hugsast, og er reyndar mjög líklegt, að nú sé verið að prófa fjölmargar tegundir og afbrigði, bæði af veirum og bakteríum og að líklegt sé að innan skamms tíma, sem e.t.v. má telja í mánuðum, frekar en árum, verði hægt að lækna krabbamein að fullu með aðstoð einnar eða fleiri þessara örvera. Möguleikar á að genabreyta alls konar örverum er nánast óendanlega mikill, svo að þó að fyrsta tilraun takist ekki er það enginn dauðadómur á þá hugmynd að einhver örvera, annaðhvort óbreytt eða genabreytt, verði hið endanlega svar við að lækna krabbamein.

Fleiri hugmyndir eru að þróast
Í Lifandi vísindum nr. 12, 2007 er svo önnur hugmynd, gjörólík þeirri, sem búið er að fjalla um. Þar er rætt um raunverulegt lyf, einfalt og ódýrt efnasamband sem búa má til næstum hvar sem er úr einföldum hráefnum. Þetta efnasamband er ,,dichloroacetat“, sem vísindamaðurinn Evangelos Michelakis við háskólann í Alberta í Kanada uppgötvaði.

Í greininni er útskýrt hvernig þetta verkar á krabbameinsfrumur. Eins og þýski nóbelshafinn Otto Warburg upgötvaði fyrir seinni heimstyrjöldina bendir ýmislegt til að þegar fruma breytist í krabbameinsfrumu hætti hún að mestu að mynda orku sína með öndun en fer í þess atað að nota gerjunarferli, sem ekki þarfnast súrefnis eins og öndun krefst til að mynda orkuríku sameindina ATP, sem sér öllum frumum líkamans fyrir orku. Það ferli nýtir þó orkuna úr næringarefnum mjög illa, miðað við öndunarferlið, sem er hin náttúrlega orkumyndunaraðferð frumunnar. Þetta veldur því að krabbameinsfruma notar mörgum sinnum meiri þrúgusykur en heilbrigð fruma og það sem hún skilar af sér er ekki koldíoxið og vatn eins og heilbrigðar frumur gera, heldur mjólkursýra, sem veldur því m.a. að fruman og umhverfi hennar súrnar óeðlilega mikið.

,,Dichlorocetat“ verkar inni í svokölluðum mitochondrium eða orkukornum, sem eru eins konar líffæri sem starfa inni í frumunum og sjá öðrum frumuhlutum fyrir orku. Séu frumur sjúkar af krabbameini þurfa þær ekki á starfsemi orkukornanna að halda og þau verða þá óvirk. Erfðavísir (gen) sem nefndur er P-53 verður þá einnig óvirkur en hlutverk hans er að fyrirskipa frumum að deyja, ef þær verða fyrir óbætanlegum skaða eða fara að gera eitthvað annað en stjórnkerfi líkamans ætlast til að þær geri, m.a. ef þær eru að breytast í krabbameinsfrumur. Við það að orkukornin hætta að starfa verður þessi mikilvægi neyðarhemill sem P- 53 erfðavísirinn er óvirkur og þá geta krabbameinsfrumur vaxið óáreittar.

Við það að gefa sjúklingnum ,,dichloroacetat“ fara orkukornin aftur að starfa og P-53 erfðavísirinn segir frumunni að deyja samstundis. Þetta gildir aðeins með krabbameinsfrumur, heilbrigðar frumur verða ekki fyrir neinum skaða og lifa, jafnvel þó að þær séu umkringdar krabbameinsfrumum. Í greininni í Lifandi vísindum er ekkert sagt um hvernig efnið er notað eða hversu stóra skammta á að taka daglega eða um aukaverkanir. Á meðan verðum við að bíða og fylgjast með hvað skrifað verður meira um þetta merkilega rannsóknarefni og hvort það á eftir að útrýma krabbameini sem dánarorsök á komandi árum.

Meiri fréttir um ,,dichloroacetat“
Þegar ég var nýbúinn að skrifa greinarstúfinn sem hér er á undan barst mér nýjasta tbl. af Townsendletter. Þar var þá einmitt grein eftir Ralph Moss, ph.d. um líkt efni. Hann byrjar á að tala um Otto Warburg sem hann telur að hafi verið einn snjallasti frumulíffræðingur sem uppi var á hans tíð. Warburg fékk Nóbelsverðlaunin árið 1931, m.a. gerði hann sér fyrstur manna ljósa frumuöndun og hvernig frumurnar nýta sér orku úr fæðunni. Það er þó of langt mál til að ræða hér en ég bendi á vefslóðina: www.nobelprize.org . Hann taldi að grundvallarmunur  væri á hvernig krabbameinsfrumur mynda orku miðað við heilbrigðar frumur, eins og lýst var hér á undan og hann taldi að þessi munur væri það sem raunverulega skipti máli um hvort fruma væri heilbrigð fruma eða krabbameinsfruma.

Margir vísindamenn þess tíma voru honum mjög andsnúnir, bæði í skoðunum og af öðrum ástæðum, m.a. af því að hann var Þjóðverji en þjóðverjahatur var á árunum fyrir stríðið og fyrst á eftir mjög útbreitt. Sennilega hefur hrein öfund stundum valdið því að snjallar hugmyndir sem komu frá Þjóðverjum voru síður rannsakaðar af öðrum vísindamönnum og féllu því stundum í gleymsku í lengri eða skemmri tíma. Skoðanaandstæðingar hans í vísindum gerðu líka allt sem þeir gátu til að gera lítið úr hugmyndum hans og kenningum, þó að stundum fengju þær almenna viðurkenningu mörgum áratugum síðar. Ein slík hefur nú fengið nafn hans og er kölluð ,,Warburg-áhrifin“. Síðan fer Ralph Moss að tala um ,,dichloroacetat“ og verkanir þess á krabbameinsfrumur, sem eru í raun og veru bein sönnun á að hugmyndir Ottos Warburg voru réttar.

Vísindamaður hjá Krabbameinsfélagi Bandaríkjanna setti á vefsíðu sína: ,,Það er eins og flóðbylgja hafi riðið yfir og enginn veit hvar hana ber að landi“. Þá var hann að ræða um grein sem birtist í jan. 2007 í tímaritinu Cancer Cell um háskólann í Alberta og uppgötvunina sem þar var búið að gera. Í framhaldi fer Moss að ræða um hvernig ,,dichloroacetat“ sigrast á krabbameini í dýrum, en ennþá eru engar tilraunaniðurstöður á fólki komnar, en dýratilraunirnar hafa gengið mjög vel, eins og reyndar var sagt frá í greininni í Lifandi vísindum.

Áður er búið að útskýra að ,,dichloroacetat“ snýr við efnaskiptum í krabbameinsfrumum frá því að nota gerjunarferli sem ekki þarfnast súrefnis til orkuvinnslu sem byggist á öndunarferli. Það gerist í ,,mitochondrínum“ inni í frumunum sem nú hegða sér líkt og heilbrigðar frumur. Annað ekki síður mikilvægt gerist samtímis og það er að P-53 erfðavísirinn í frumunum fer aftur að starfa og nú getur stjórnkerfi frumunnar sagt henni að deyja, ef hún gerir eitthvað sem ekki er ætlast til að hún geri. Það er kallað ,,sjálfseyðing“ eða ,,apoptosis“, þegar fruma þarf að grípa til þessa ráðs og er afar mikilvægur ,,neyðarhemill“ sem í raun og veru getur hindrað fullkomlega að krabbamein fari að vaxa, sé hann í lagi.

Í júní 2007 birti Evangelos D. Michelakis læknir, sá sem stjórnaði þessum rannsóknum við Alberta háskólann, svo fréttabréf um gang rannsóknanna. Þar sagði hann að rannsóknarhópurinn sem hann stjórnaði, hefði hug á að fara að snúa sér frá rannsóknarstofu-tilraunum að ,,klínískum“ prófunum á krabbameinssjúku fólki. Hann gerði sér þó ljóst að við ýmsa erfiðleika væri að etja og að ekkert lyfjafyrirtæki styrkti rannsóknirnar. Hann er þó vongóður um að geta hafið prófanir á fólki innan tíðar og fá þannig skorið úr um hvort aðferðin sé örugg og jafn áhrifarík og vonir standa nú til. Áður hefur ,,dichloroacetat“ verið notað í meira en tvo áratugi sem lyf við öðrum sjúkdómi, svo að lítil hætta ætti að vera af óvæntum eiturverkunum. Ekki hefur þó ennþá verið fundið, hversu mikið þarf að nota af efninu til að lækna krabbamein í fólki.

Þegar fréttin um ,,dichloroacetat“ í byrjun árs 2007 var birt, hófst taugaveiklunarkennd múgsefjun, bæði hjá sjúku og heilbrigðu fólki, til að verða sér úti um þetta merkilega lyf, sem ef vel tekst til á eftir að sigrast á ,,hræðilegasta“ bölvaldi sem þjáð hefur mannkynið á síðari öldum. Hægt hefur verið í Bandaríkjunum að fá ,,dichloroacetat“ í gegnum internetið í töfluformi, en vegna þess að enginn veit hvernig best er nota það er líklegt að árangur sé stundum vafasamur og hafi jafnvel í einhverjum tilfellum skapað vonbrigði. Þrátt fyrir að ennþá sé alltof lítið vitað um lækningar með ,,dichloroacetati“ finnst mér þó að höfundur greinarinnar sé bjartsýnn og telji að uppgötvun þessa efnis muni á komandi árum valda straumhvörfum í meðferð illkynja sjúkdóma.

Fleiri efnasambönd eru í farvatninu
Annað efnasamband sem virðist líklegt að geti hindrað eða stöðvað vöxt krabbameina er efnið 3-,,bromopyruvat“ (3-Br. PA), sem er virkur hindrari á myndun orku í frumum sem mynda orku sína með gerjunarferli (glycolysis) en ekki öndun, sem er hin náttúrulega aðferð frumanna eins og áður var sagt. Þetta efni kom í sviðsljósið þegar rannsóknarvinna Young Ko og félaga hennar við Johns

Hopkins Lækningastofnunina í Baltimore var birt árið 2002. Þar var kanínum með ígrædd lifrarkrabbamein gefið þetta efni í æð. Það olli því að flestar krabbameinsfrumurnar dóu mjög fljótlega, þar að auki drápust meinfrumur sem komnar voru í lungu sömu dýra samtímis. Þetta virtist ekki skaða dýrin að neinu leyti öfugt við flest önnur krabbameinslyf og bendir til að sé æxlið staðbundið þurfi aðeins að sprauta efninu beint í meinið og að þarflaust sé að nota það á allan líkamann, nema meinvörp séu komin. Samkvæmt grein á vefsíðu www.law.com segir Young Ko, að eftir að rannsóknarskýrsla hennar kom út féll hún í ónáð og var látin hætta rannsóknum. Reyndar segir hún að félagar hennar hafi stolið frá sér rannsóknunum, e.t.v. vegna þess að hún er ættuð frá Asíu en hafi samt notið meiri velgengni en margir aðrir við stofnunina.

Svo gæti virst að skýrsla Young Ko, frá einum virtasta rannsóknarháskóla Bandaríkjanna hefði átt að brjóta niður þá múra sem hindra að róttækar nýjar hugmyndir fái notið sín. En þess í stað kom þögn frá lyfjarisunum, sér í lagi lyfjaframleiðendum.  Og til að bíta höfuðið af öllu saman óskaði háskólinn að hætta við að endurnýja þriggja ára samning sem Young Ko hafði gert og báru því við að hún væri ósamvinnuþýð og erfið í samskiptum við eldra samstarfsfólk. Afleiðing þess varð sú að frekari þróun á 3-Br. PA var lögð niður eða hætt, enda þótt þetta væri án efa eitt áhugaverðasta þróunarverkefni sem unnið hafði verið að árum saman. Og það var gert áður en búið var að þróa efnið nægilega til að hægt væri að hefja klínískar rannsóknir á fólki.

Höfundur greinarinnar, Ralph Moss, bætir við að eitthvað meira en lítið hljóti að vera að í kerfi sem leggur mikla peninga í að rannsaka rándýr og gagnslítil efnasambönd, en á sama tíma skuli hætt við að rannsaka og prófa til hlítar ódýr og mjög áhugaverð efni sem við dýratilraunir gáfu margfalt betri árangur en hin efnin, sem hlutu náð fyrir augum ráðamanna, sem ákveða hverskonar og hvaða rannsóknir skuli gera. Ralph Moss endar með því að segjast óttast að fjöldi ára líði áður en 3-Br. PA verður tekið í notkun sem krabbameinslyf. Sennilega eru til lækningajurtir sem hafa líkar verkanir eins og 3-Br. PA. Skrifað hefur verið um að jurtir af súruættinni, t.d. hundasúra, njóli, rabarbari o.fl. hafi eiginleika til að hindra orkuvinnslu fruma án þess að súrefni kom til, þ.e. með gerjunarferli sem fer fram án aðstoðar súrefnis (glycolysis).

Það er einmitt það sama og bæði ,,dichloroacetat“ og 3-Br. PA gera. Höfundur þessarar greinar getur vissulega ekki fullyrt, hvort þetta er rétt en einkennilegt er þó að sumar þessara jurta hafa verið hafðar í jurtablöndur sem notaðar hafa verið við krabbameinslækningar í fleira en einu landi, án neins sambands þeirra á milli. Hundasúra er ein höfuðjurtin, ásamt rabarbararót í jurtalyfinu ESSIAC, sem farið var að nota í Kanada á árunum í kringum 1930, og vel má vera að sé miklu eldra, því að sennilega er uppskriftin fengin frá indíánalækni. Ég hef sjálfur notað njóla í jurtablönduna sem m.a. er notuð í lúpínurót og geithvönn ásamt fleiri jurtum. Ástæða þess að ég nota njóla var ekki að ég hefði séð uppskriftina að ESSIAC jurtalyfinu, sem ég hafði ekki, þegar ég ákvað að nota njólann. Síðar sá ég haft eftir Rene Caisse, sem bjó ESSIAC til í marga tugi ára, að það væri hundasúran sem raunverulega læknaði krabbameinið. Hinar jurtirnar væru aðeins hjálparefni. Vera má að nú sé loksins komin skýring á hvernig þessar jurtir lækna stundum krabbamein.
Æ.J.Flokkar:Krabbamein

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , , , , ,

%d bloggers like this: