VIÐVÖRUN! Ógnvænleg framtíðarsýn

Lyfseðilsskyld bætiefni og heilsuvörur?
Hvar er heilsufrelsið? – Er þetta það sem við viljum sjá?

Þegar Heilsuhringurinn var stofnaður fyrir rúmlega aldarfjórðungi síðan var aðalástæða þess hin mikla tregða yfirvalda hérlendis til að opna heilsuvörum og fæðubótarefnum leið inn í landið. Stofnendur Heilsuhringsins voru hópur áhugafólks um ,,heilsufrelsi“ og Heilsuhringurinn var ritgagn samtakanna til að koma upplýsingum um óhefðbundnar meðferðir og heilsubætandi efni á framfæri við almenning. Í dag er öldin önnur…eða það höldum við a.m.k.

Blikur eru þó á lofti og full ástæða til að hafa varann á og vera tilbúin til að berjast fyrir því sem áunnist hefur. Það er ógnvænlegt til þess að vita að nú á tímum, í þeim ríkjum sem helst hafa viljað kenna sig við lýðræði og frjálshyggju skuli vera í deiglunni reglugerðir sem hannaðar hafa verið með það að markmiði að kippa fótunum undan framleiðslu og sölu fæðubótarefna, vítamína og annarra heilsubætandi vara til almennings nema eftir geðþótta lækna eða lyfjafræðinga.

Eins og svo oft áður eru það stóru lyfjafyrirtækin sem koma til með að græða á því ef þessar reglugerðir ná fram að ganga. Sívaxandi áhugi almennings á náttúrulegum leiðum til að viðhalda og bæta heilsu sína hentar ekki þessum fyrirtækjum og þau sjá ofsjónum yfir þeim fjármunum sem almenningur eyðir í slíka þjónustu og varning og vilja fá sneið af þeirri köku.

Lyfjafyrirtækin hafa ekki haft áhuga á náttúrulegum lausnum fram til þessa því ekki er hægt að fá einkaleyfi á framleiðslu og sölu þeirra og því ómögulegt að græða á þeim þær formúur sem þau gera af lyfjum. Því hafa þau í gegnum tíðina reynt að hundsa þann árangur sem ótvírætt er af notkun náttúruefna, heilsusamlegs mataræðis og alþýðulækninga svo eitthvað sé nefnt, en nú hafa þau semsagt snúið við blaðinu og ætla sér að sölsa þann markað undir sig í krafti reglugerða sem ómögulegt er fyrir venjuleg fyrirtæki að fara eftir eða standa straum af kostnaði við að framfylgja.

Með því að sitja einir að þessum markaði er hagnaður lyfjafyrirtækjanna tvöfaldur í það minnsta þ.e. þau myndu hafa einokunarvald og þar með ráða framboði og verði á þeim vörum sem í boði væru og annað hitt að ef fólk ekki hefur tækifæri til að bjarga sér sjálft með ýmis bætiefni versnar heilsan þannig að það þarf að leita aðstoðar sem yrði þá veitt á form dýrra lyfja. Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) sem semur lögin, reiknar sjálft með að sú verði raunin og viðurkennir það að kostnaður neytenda eigi eftir að hækka og að reiknað sé með að sú hækkun verði til þess að neysla fæðubótarefna minnki og að markmiðið sé að lyf verði fyrsta val fólks ef eitthvað bjátar á heilsufarslega. FDA undirbýr nú setningu laga þar í landi sem kveða á um að öll vítamín, fæðubótarefni, jurtir og jafnvel grænmetissafar verði flokkað sem ,,lyf“.

Nuddolíur og steinar notaðir til að hita og nudda með myndu flokkast sem ,,lækningatæki“ og þyrfti samþykki FDA fyrir notkun þeirra. Skjal þetta kallast Docket No.2006D-0480. Draft Guidance for Industry on Complementary and Alternative Medicine Products and Their Regulation by the Food and Drug Administration. Hægt er að skoða skjalið á slóðinni: http://www.fda.gov/OHRMS/  DOCKETS/98fr/06d-0480-gld0001.pdf  Ætlunin var að lauma þessum breytingum í gegn en upplýsingar um þetta láku út sl.vor og varð það til þess að forsvarsmenn óhefðbundinna meðferða og úrræða brugðu við skjótt og hvöttu almenning til að gera athugasemdir í þeirri von að það mætt koma viti fyrir þingmenn landsins.

Óljóst er þó þegar þetta er skrifað að það hafi borið árangur. Ætlun FDA er að koma þessum lögum og reglugerðum í gagnið á næstu 3 árum. Gangi það eftir þýðir það að innan 5 ára má búast við að u.þ.b. helmingur þess iðnaðar í kringum heilsuvörur hvers konar sem í dag blómstrar í Bandaríkjunum verði hættur og vörur og meðhöndlanir sem fólk reiðir sig á annaðhvort ekki í boði lengur eða á verði sem er mun hærra en það er í dag.

Dæmi um það sem vænta má:
Hver sá sem framleiðir, auglýsir eða selur vörur án þess að hafa til þess samþykki FDA má búast við að vera brennimerktur sem glæpamaður og handtekinn. FDA getur í raun ákveðið að hvað sem er (tæki, efni, annað) sem notað er við e.k. óhefðbundna meðhöndlun flokkist sem lækningartæki. Þetta þýðir að ,,biofeedback“-vélar (t.d. SCIO), tíðnitæki hverskonar, nálar til nálastungumeðferða bolli af jurtate, nuddolía, glas af grænmetissafa og þess vegna vatnsglas séu lækningartæki og þar með skráningarskyld og jafnvel bönnuð.

Hrár grænmetissafi verður flokkaður sem lyf og þarf samþykki FDA sem slíkur ef hann hefur einhver heilsubætandi áhrif yfirhöfuð. Að rétta einhverjum slíkan bolla með hráum grænmetissafa og segja honum að innihaldið sé gott til afeitrunar á lifrinni gæti orðið átilla fyrir því að vera handtekinn fyrir að stunda „lækningar án leyfis“ og nota til þess ,,ósamþykkt lyf“. Þetta minnir óneitanlega á ,,fasistíska“ stjórnarhætti fyrri tíma, því eitt af því sem ríkisstjórnir fasistaríkja voru þekktar af að gera var að uppræta heilsufrelsi og aðgengi þegna sinna að heilsubætandi möguleikum. Þeir vissu að það var nauðsynleg aðgerð til að eiga auðveldara með að heilaþvo þá og ná undirtökum í þjóðfélaginu.

Meðal þeirra efna sem þyrfti að fá samþykki FDA til að nota væru t.d. extraktar unnir úr dýraafurðum, vítamín, steinefni, fitusýrur, amínósýrur, protein, prebiotics og probiotics, krem, olíur og jafnvel fingur nuddara þyrftu, strangt til tekið, að fá samþykki FDA sem lækningatæki! Gangi þessi lög í gildi er viðbúið að áhrifa þeirra muni koma til með að gæta annarsstaðar í heiminum einnig og ólíklegt verður að teljast að lyfjafyrirtækin láti staðar numið þar. Í Evrópu eru þegar blikur á lofti um að breytinga sé að vænta til hins verra. European Commission hefur gefið út svokallað ,,Orientation Paper“ sem inniheldur hugsanlegar tillögur að reglum um hámarksmagn vítamína og steinefna í öllum fæðubótarefnum seldum í löndum Evrópusambandsins.

Stefnt er að því að ræða þessar tillögur á fundi Evrópusambandsríkja (European Union Member State) í lok september. Líkt og í Bandaríkjunum fer lítið fyrir kynningu til hins almenna neytanda á þessum tillögum og European Commission hefur ekki séð ástæðu til að birta tillögurnar opinberlega á heimasíðu sinni heldur hafa fáir útvaldir þessar upplýsingar undir höndum. Þetta verður í hæsta lagi að teljast óeðlileg vinnubrögð þar sem augljóst má vera að það er hinn almenni borgari og neytandi sem hefur mestu að tapa við setningu slíkra takmarkana. Hætta er á að þúsundir öruggra og áhrifaríkra fæðubótaefna detti út af markaði ef viðmiðunarmörk ákv. vítamína og steinefna verða hert.

Afleiðingin er sú sama og í Bandaríkjunum; styrkari staða stórgróðafyrirtækja í lyfjaiðnaði á kostnað heilsufarslegra hagsmuna og frelsis almennings til að velja sér sjálfir leiðir til heilsubóta. Hér heima á Fróni er ýmislegt í bígerð einnig. Ég hafði samband við Lyfjastofnun til að fá upplýsingar þaðan en svar hafði ekki borist þegar blaðið fór í prentun. Hitt er ljóst að þeir sem hafa fylgst með vöruúrvali í heilsuvöruverslunum í gegnum árin hafa orðið varir við að vörur sem sannarlega eru að ,,virka“ fyrir fólk hverfa fljótlega af markaði og sjást ekki meir. Þetta er merkilegt framlag yfirvalda fyrir bættu heilsufari í landinu! Í október á að stöðva sölu Glucosamins í heilsuvöruverslunum þannig að þeir sem vilja kaupa það verða að kaupa það yfir búðarborðið hjá lyfsala.

Þetta gerist einungis vegna þess að nú er búið að ,,sanna“ með vísindalegum hætti að Glucosamin virkar og því er það ekki lengur ,,heilsuvara“ með ,,hugsanlegri einhverri virkni“ heldur flokkast það sem ,,lyf“og skal því selt af aðila sem hefur leyfi til að selja lyf. Eins og ég skrifaði um í síðasta tölublaði Heilsuhringsins er Glucosamin sykra og flokkast sem slík ekki til lyfja heldur sem matur. Það fer að verða vandlifað ef allt sem við borðum og hefur hugsanlega heilsubætandi áhrif á okkur þarf að vera lyfseðilsskylt eða selt af lyfsölum.

Þetta er náttúrulega afleit þróun og verður ekki stöðvuð nema almenningur þrýsti á um það og geri kröfu um heilsufrelsi og að hafa aðgengi að efnum og heilsuvörum sem margar hverjar hafa verið í notkun og sannað virkni sína svo mörg hundruð árum skiptir. Ef áfram heldur sem horfir mun sala náttúruefna sem sannast að virka færast á hendur lyfjaverslananna og viðbúið að þróunin verði sú sama og í Bandaríkjunum og Evrópu með minnkuðu úrvali og hækkuðu vöruverði. Ég hvet því alla lesendur til að halda vöku sinni og fylgjast með heilsuvöruúrvali í verslunum og gera miskunnarlaust athugasemdir þegar slíkar vörur hverfa úr hillunum.

Með því að vera meðvitaður um hvað er í gangi og þekkja aðferðirnar við að framfylgja slæmum reglugerðum getum við sem neytendur veitt aðhald og vonandi komið í veg fyrir að sá árangur sem náðst hefur með baráttu undanfarinna áratuga tapist ekki og að góðar náttúruvörur hverfi jafnvel fyrir fullt og allt úr framleiðslu vegna þeirra misvitru manna sem við stjórnvölinn sitja hverju sinni. Það erum við neytendur sem höfum öllu að tapa og hér er mikið í húfi !

Höfundur: Sigríður Ævarsdóttir árið 2007Flokkar:Annað, Ýmislegt

%d bloggers like this: