Eyrnakertameðferð

Eygló Benediktsdóttir er sjúkraliði, svæðanuddari og reikimeistari hún tekur einnig að sér eyrnakertameðferð. Við fórum þess á leit við hana að hún upplýsti lesendur um eyrnakertameðferðina og ástæðu þess að hún fór að stunda þessa meðferð. Hún sagðist hafa á árum áður unnið við bókhald en hafið nám í reiki- heilun árið 1989 og stuttu seinna drifið sig í nám í svæðameðferð þar sem grunnfögin voru þau sömu og í sjúkraliðanámi. Ákvað hún því að taka sjúkraliðanámið samhliða. Frá árinu 1997 hefur hún starfað við bæði fögin og segir: ,,Eftir því sem ég vinn lengur við svæðameðferð sé ég betur og betur hvað það er frábært meðferðarform. Svæðameðferð er afar árangursrík við að ná fram slökun og vellíðan, líkaminn vinnur ,,viðgerðarstörf“ sín best í þeirri djúpu slökun sem svæðameðferð veitir. Svæðameðferð hentar fólki á öllum aldri, er einföld og skaðar ekki.

Ég lærði eyrnakertameðferð fyrir tveimur árum hjá Aðalheiði Hjelm í Heilsuhvoli. Hún nam aðferðina í Þýskalandi og flytur inn eyrnakerti. Ég byrjaði á því að fara sjálf í meðferð einu sinni í viku í tíu skipti til að finna sjálf hvernig meðferðin virkaði og komst að því að áhrifin af hverri stakri meðferð hafði áhrif næstu þrjá til fjóra daga á eftir. Eyrnakerti eru eingöngu framleidd úr hreinu bývaxi, hunangsþykkni og hefðbundnum jurtum eins og salvíu, jóhannesarrunna, baldursbrá og hreinum ilmkjarnaolíum (sjá vef: www.raetur.is).Uppgufun frá efnum kertisins berst inn um eyrnagöngin og inn í önnur göng höfuðsins.

Létt sog og hreyfing logans framkallar titring frá uppgufuninni frá eyrnakertinu sem myndar nudd á hljóðhimnuna. Ég fann hvernig losnaði um spennu í innraeyranu og á svæðinu í kring um eyrun og niður á háls. Þegar meðferðunum fjölgaði fann ég hvernig það losaði um spennu alveg niður í rófubein og meðferðin veitti mikla vellíðan. Eftir að ég fór sjálf að meðhöndla aðra með eyrnakertum kom í ljós að auk slökunarinnar sem meðferðin veitir vinnur hún gegn ýmsum verkjum og mörgum eyrnakvillum og getur haldið niðri exemi í eyrum. Sagt er að hreinsandi eldurinn dragi neikvæða orku úr árunni og jafni þrýsting í ennis og kinnbeinsholum“.

Að lesa í logann kemur með æfingunni
Þegar horft er í logann sést hversu mikil fyrirstaða er t.d.hvort mergur eða eitthvað annað stíflar eyrað. Við meðferðina losnar um eyrnamerg, ef einhver er, og hann fer smám saman. Það fer eftir ástandi eyrans hvernig kertið brennur og getur verið frá tólf mínútum upp í sautján. En meðferðin tekur að jafnaði um 25 mínútur fyrir bæði eyru. Mikilvægt er að það fari vel um fólk meðan meðhöndlun fer fram svo slökunin verði sem mest.

Vitali skrifað árið 2007  – IS



Flokkar:Kjörlækningar, Meðferðir