Feldenkraistækni

Sibyl Urbancic ólst upp á Íslandi, hún kom hingað með foreldrum sínum eins árs gömul, en er nú búsett í Vín í Austurríki. Hún hefur um nokkurra ára skeið komið hingað heim og kennt hreyfingarfræði Feldenkrais. Sibyl er menntuð tónlistarkona og kenndi m.a. Feldenkraistækni við Tónlistarháskólann í Vín, ásamt því að taka að sér sérstök verkefni fyrir hljómsveitir, kóra og kennarasamtök, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Hún kynntist Feldenkraisaðferðinni í gegnum leiðbeinanda, sem hún hafði sótt hjá námskeið í látbragðsleik. Þegar hún áttaði sig á því að Feldenkrais aðferðin nýttist henni vel og gaf góða raun við kennsluna í háskólanum ákvað hún að leggja hana fyrir sig.

Upphafsmaður Feldenkraistækninnar er vísindamaðurinn Moshé Feldenkrais frá Úkraínu sem var uppi á árunum 1904 til 1984. Hann einbeitti sér að því síðustu 40 æviárin að rannsaka eigin hreyfingarvana og þróa kennsluaðferð, sem byggist á meðvitund um hreyfingar. Aðferðin hefur síðan verið kennd við hann.

athuga hreyfivenjur sínar
Feldenkrais er kennsluaðferð, sem auðveldar fólki að gera sér grein fyrir því, hvað það gerir og hvernig, og hjálpar við að finna nýjar leiðir til að vinna dagleg störf. Hún kennir að nota líkamann sem áreynsluminnst, skerpir meðvitund og leiðbeinir við að hafa áhrif á líf og líðan. Aðferðin er ekki læknismeðferð þó að fólk geti losnað við verki með því að tileinka sér hana, hún er ekki heldur sjúkraleikfimi þó að hún geti hjálpað fólki með hreyfiörðugleika til að nýta hæfni sína betur. Kennslan miðar að því að auðvelda fólki að skynja hreyfingar sínar og hvernig það framkvæmir þær, einnig að benda á aðrar leiðir en nemandinn hefur tamið sér. Þannig getur hver og einn kannað hvort aðrar hreyfingaraðferðir henta betur en vanabundnar hreyfingar.

Um er að ræða kerfi einfaldra hreyfinga sem henta öllum. Þær eru gerðar á leikandi hátt, hægt og þægilega og miða að því að kenna fólki að grannskoða venjur sínar. Ávinningurinn af því að kynnast öðrum hreyfiaðferðum getur verið margvíslegur, en er mjög einstaklingsbundinn og árangurinn fer eftir því hve þátttakandinn er þolinmóður og forvitinn um sjálfan sig. Algengast er að eftir námskeið í Feldenkraistækni verði hreyfingar auðveldari og liprari, það eykur vellíðan, sjálfstraust og sjálfsvirðingu, sem síðan veitir öryggi. Það má segja að það gildi um alla að hugsun, meðvitund og skynjun skýrist.

Hverjum nýtist aðferðin best?
,,Hún nýtist öllum sem áhuga hafa á líkamsbeitingu og vilja læra meira um sig og möguleika sína. M.ö.o. öllum þeim sem finna hjá sér þörf fyrir að auka á vellíðan og jafnvægi, auðvelda dagleg störf eða athafnir, þ.e.a.s. þeim, sem vilja breyta einhverju og eru þ.a.l. opnir fyrir leiðbeiningum, sem hjálpa þeim að verða meðvitaðri um sjálfa sig.“

Gætir þú lýst kennsluaðferðinni svo fólk fái hugmynd um hvað þetta snýst?
,,Það er afskaplega erfitt að lýsa kennsluaðferðinni, vegna þess hversu einstaklingsbundin upplifun hvers og eins er. Það er ekkert dularfullt við Feldenkrais, þó getur það undrum sætt hvaða breytingum aðferðin getur áorkað. Þó svo að ég gæfi hér upp leiðbeiningar um heilan Feldenkrais-tíma, getur fólk ekki gert sér í hugarlund, hvernig aðferðin virkar, án þess að taka þátt og reyna sjálft. En almennt má segja, að hreyfingarnar eru rólegar og einfaldar, og þreyta ekki nema helst heilann. Hvíldir eru mikilvægar, ekki síst fyrir hann“.

Geturðu útskýrt þetta?
,,Það kemur iðulega fyrir, að nýir þátttakendur á námskeiðum furða sig á því, hvað þeir þreytast í tímunum. Ekki líkamlega, nema ekki hafi verið tekið mark á því að það þarf að hvíla sig nógu oft, heldur vegna þess, að við erum ekki vön að beita athyglinni af slíkri nákvæmni og með þarf í Feldenkrais-tíma“.

,,Hreyfing er líf, líf er ferli, bætið gæði ferlisins, þá aukast gæði lífsins“ Moché Feldingkrais

Sibyl hefur á undanförnum árum kennt mörgum Íslendingum Feldenkraistækni. Í fyrstu var það kvennakórinn Vox feminae, en síðan bættist við Sinfóníuhljómsveit Íslands og hópur af píanókennurum, ýmsir tónlistarskólar, en líka aðrir atvinnu og áhugahópar. Af því leiddi fyrsta almenna Feldenkrais-námskeiðið hérlendis fyrir rúmum áratug. Auk Reykjavíkur hafa námskeið verið haldin á Hvanneyri, Selfossi, Akureyri og í Skálholti.Aðferðinni má miðla sem hópkennslu, þar sem sagt er fyrir um hreyfingar, eða í einkatímum, sem leyfa ,,meðhöndlun“ (,,handavinnu“). Fyrri leiðin nefnist ,,Awareness Through Movement“, hin ,,Functional Integration“. Tilgangurinn er sá sami í báðum tilfellunum; að sýna fram á hreyfingarsambönd og möguleika hvers einstaklings. Upplýsingar um námskeið og einkatíma seinna á árinu má fá hjá Tónlistarskóla Félags íslenskra hljómlistarmanna í síma: 588 8255 eða Söngskólanum í Reykjavík í síma 552 7366

Eru hendur þínar mis heitar?
Á hvorri hliðinni kýstu helst að sofa?
Með hvorri hendinni getur þú seilst hærra upp?
Heldurðu andanum niðri í þér á meðan þú reynir á þig?
Hvað gerist í mjaðmalið þínum þegar þú greiðir þér?
Hallar þú höfðinu meðan þú lest þetta? Í hvora áttina?
Getur þú sagt ,,aaaaa“ viðstöðulaust á meðan þú sest upp á gólfinu?
Er nægilegt bil fyrir tungubroddinn milli tanngarðanna, eða bíturðu á jaxlinn?

Viðtalið var skrifað árið 2007.Flokkar:Kjörlækningar, Meðferðir

%d bloggers like this: