Áfengis- og eiturlyfjameðferðin, NTR,,Neurotransmitter restoration“

Sett saman af dr. William Hitt
Þegar við hjónin vorum stödd á þeirri heilsustofnuninni Tijuana í Mexíkó (sem sagt er frá í grein í haustblaði Heilsuhringsins 2006 um ,,fuglaflensan og möguleg meðferðarúrræði“) var á öðrum stað í þessari sömu heilsustofnun í gangi meðferð sem mig langar til að segja ögn frá hér. Þessi meðferð er sett saman af dr. William Hitt með stuðningi frá Alþjóða heilbrigðisstofnuninni WHO á áttunda áratugnum og byggðist á því að endurreisa laskaða og ónýta móttakara (receptors) með hjálp amínósýra. Þegar móttakarar hafa skaðast vegna misnotkunar áfengis og eiturlyfja. Ég átti símaviðtal við dr. John Humiston en hann vinnur á heilsustofnun William Hitt og vinn þessa grein upp úr því viðtali ásamt þeim upplýsingum sem finna má á heimasíðu dr. Hitt: http://www.williamhittcenter.com

Ég gef dr. Humiston orðið. Meðferðin byggir á því að ánetjun sé líkamlegt vandamál, að breyting verði á vinnuferli heilans við neyslu ávanaefnanna, og hann verði háður þeim þ.e. móttakarar heilans breytast. Flestir skilja ekki ánetjun, heldur dr. Humiston áfram, og reyna að leysa vandamálið út frá sálfræði en þar sem fíkillinn er ekki að misnota sálfræðina til að komast í vímu þá hlýtur vandinn að liggja annars staðar. Raunin er að hann er að misnota raunveruleg efni eða lyf til þess að komast í vímu, og niðurstaðan er því sú að ef við lögum ekki líkamann sem nú er brotinn, þá mun fíknin halda áfram, sama hvað gert er, sama hve mikið fíkillinn vill hætta að nota efnin. Þetta er í læknisfræði kallað ,,tolerance“ þar sem þróunin er í þá átt að nota stærri skammta af sama lyfinu til að ná sömu áhrifunum og áður.

Þar sem lyfið breytist ekki í styrk og hegðun, er spurning: hvað breyttist þá? …og svarið er, líkaminn breyttist, nú þarf viðkomandi stærri skammta til að líða eins og áður. Einu sinni dugði einn bjór á kvöldi en nú er nauðsynlegt að drekka 6 bjóra til að ná sömu áhrifum. Hin skilgreiningin er ,,dependance“ sem þýðir að viðkomandi er sannfærður um að hann þurfi þetta á hverjum degi til að líða eins og hann sé starfhæfur. Þetta er fíkn. Til að þessi meðferð eins og aðrar virki er nauðsynlegt að viðkomandi hafi vilja til breytinga. Einnig er nauðsynlegt að gera við það sem afvega hefur farið í líkama viðkomandi.

Stundum lagast þetta að einhverju marki sjálft og flestir hafa það í sér en oft gerist það ekki. Þetta er ástæðan fyrir því að sumir reykingarmenn sem ákveða að hætta að reykja, hætta bara á meðan aðrir t.d. stórreykingarmenn með 2-3 pakka á dag ákveða að hætta en þegar á reynir ráða þeir engu um reykingarnar og geta ekki einu sinni dregið úr þeim. Munurinn er ekki viljastyrkurinn, heldur liggur hann í þeim áhrifum sem líkaminn hefur orðið fyrir af völdum tóbaksins. Ekki er beint samband milli þeirra sem ekki ráða við tóbak og t.d. áfengi eða önnur vímuefni, þó það geti verið. Stundum er það svo að fólk verður háð öllu, sama hvað það heitir, en oftar er það að fólk nær að vinna bug á einhverri einni fíkn, en ekki á annarri. Fylgifiskur fíknar er pirringur og kvíði. Áfengi, eiturlyf og mörg önnur lyf leiða til kvíðakasta og pirrings og má nefna fráhvarfseinkenni tóbaks í því sambandi. Flestir vita að erfitt er að hjálpa fólki með þessi vandamál og árangur hefðbundinna meðferða mismunandi.

Grunnur hefðbundinnar meðferðar er að halda fólki frá efnunum og hjálpa til við sálfræðihliðina en eftir situr í raun stór lífefnafræðilegur þáttur, sem ekkert er tekist á við. Amínósýrurnar og árangur þeirra veltur að stórum hluta á hvaða lyf hafa verið misnotuð en einnig hver persónan er þ.e. erfðafræðilegi þátturinn. Tilfinningar og andlegi þátturinn hafa einnig áhrif á árangurinn, þ.e. hve mikið vill viðkomandi fá hjálp. Sú manneskja sem kemur með því hugarfari að ætla að sjá til hvort meðferðin virki er ekki líkleg til að ná árangri með þessari meðferð, né nokkurri annarri.

En segi viðkomandi, ég verð að hætta þessu sama hvað til þarf, þá er hann tilbúinn. NTR meðferðin tekur að jafnaði 10 daga þegar áfengi, heróín, kókaín, amfetamín og skyld efni eiga í hlut. Sérhver einstaklingur fær sér sniðna meðferð að eigin þörfum og í samræmi við þau eiturefni sem hann hefur neytt um ævina. Fyrstu fimm dagana tekur meðferðin um 10 klst. en síðari fimm dagana tekur hún 5 klst. Fráhvarfseinkenni með NTR meðferðinni eru mild og hverfa að jafnaði á fyrstu 3 til 4 dögunum eftir að meðferðin hefst. Að yfirvinna áhrif tóbaks og margra algengra róandi lyfja úr flokki ,,benzodiazepines“ er erfiðara og hjá þeim er meðferðin lengri þar sem þessi efni hafa dýpri áhrif á taugakerfið.

Í sumum tilvikum nær reykingamanneskja sama árangri í NTR meðferð eins og ef um áfengi væri að ræða, en það er einstaklingsbundið og mjög mismunandi. Upp úr 1980 hafði forvinna átt sér stað að þessari meðferð en þá að vísu eingöngu verið unnið með amínósýrur í pilluformi og var það reynt lengi en án árangurs. Vandinn fólst í því að ekki tókst að koma nauðsynlegum amínósýrum óbreyttum gegn um magann upp í heila, en það var forsenda þess að meðferðin gengi upp.

Því var það að Alþjóða heilbrigðisstofnunin WHO lagði það í hendur dr. William Hitt að vinna að samsetningu amínósýrumeðferðar sem notuð yrði beint í æð og þannig yrði komist hjá vandamálum pillu inntökunnar. Mexíkóstjórn kom einnig að þessum rannsóknum og studdi þær gegn um Mexíkó háskóla. Rúmlega eittþúsund áfengissjúklingar voru fengnir til að taka þátt í tilraununum. Árangur þessarar vinnu og tilraunar var, að um 80% þátttakenda, var laus við áfengi á viðmiðunartímanum. Samanburðarhópurinn náði um 20% árangri á sama tíma. Með stuðningi frá WHO var eingöngu unnið að áfengismeðferð en dr. Hitt vann síðan áfram með útkomuna og þróaði hana og aðlagaði á viðgerðum á skemmdum vegna annarra löglegra og ólöglegra lyfja. Upp úr 1990 var þeirri vinnu að mestu leyti lokið og í dag telur hann að í sumum tilvikum sé gróflega búið að kortleggja og mæta yfir 85% af ójafnvægi heilans, vegna áðurnefndrar misnotkunar.

Þrátt fyrir stórkostlegan árangur NTR
er samt sem áður nauðsynlegt að takast á við félagslegan þátt neyslunnar; brotin fjölskyldutengsl, fjárhagsvandamál og slíkt. Einnig er það munstur sem skapast hefur í fjölskyldu neytandans óuppgert rétt eins og við hefðbundna meðferð. Sé t.d. maki virkur neytandi og ekki tekið á því á sama tíma, hefur reynslan sýnt að neytandinn sem nú er laus, fellur í langflestum tilvikum aftur í sama farið. Nauðsynlegt er að taka á heildinni.

Eftirmeðferð felst í því að fá einsdags skammt af amínósýrum einu sinni í mánuði í allt að 6 mánuði. Reynslan hefur sýnt að það margfaldar varanleika meðferðarinnar. Mikilvægt er að vita að sé einstaklingur fús að vera edrú eða hreinn þá er það hægt. Hjálp í gegn um meðferðina, sálfræðihjálp, trú á æðri mátt, og félagsleg leiðsögn út úr neyslunni eru allt nauðsynlegir þættir til að gera meðferðina varanlega. Í þessari meðferð er gert ráð fyrir að viðkomandi komist yfir fíknina og virðist það vera raunin, svo lengi sem þessi einstaklingur gengur ekki inn á næsta bar í þeirri fölsku trú að nú hafi hann stjórn á neyslunni. Staðhæfingin ,,einu sinni brotinn, ávallt viðkvæmur“ á við hér.

Vegna persónulegrar reynslu dr. Hitt við alkóhólisma þar sem honum nákomnir fóru hallloka í baráttunni við Bakkus, hefur hann lagt sig allan í þetta verk og hefur náð ótrúlegum árangri. Enn þann dag í dag er hann að vinna í að kortleggja það ójafnvægi í heilanum sem skapast við neyslu. Eins og hann sjálfur segir þá er vinnan nánast búin gagnvart algengustu vandamálunum svo sem: áfengi, kókaíni, heróíni, amfetamíni og öðrum algengum fíkniefnum, og eins og áður hefur komið fram eru aðeins nokkur prósent sem eftir á að kortleggja og byggja upp með amínósýrum.

Discovery Channel í Evrópu hefur fjallað um NTR meðferð dr. Hitt í nokkrum þáttum og nú síðast var umfjöllun í vetur 2006/07 um hann og þann merka árangur sem hann er að ná í baráttunni við áfengi og eiturlyf. Hér lýkur dr. Humiston máli sínu. Á forsíðu Fréttablaðsins 30. Nóvember 2006 segir ,,fjöldi kókaínfíkla hefur tuttugufaldast“. Þar er vitnað í hraðvaxandi vandamál hér á landi í viðtali við Þórarin Tyrfingsson yfirlækni á Vogi. Það er gott að vita að til er, til þess að gera einföld, meðferð gegn þessari vá. Við erum ekki úrræðalaus.

Samantekt á starfsferli dr. William Hitt:

Dr. William Hitt, verðlaunahafi og vísindalegur frumkvöðull, dregur saman fágæta þekkingu sína og hæfni sem hlotið hefur nafnið NTR eða ,,Neurotransmitter restoration“. Eftir að hafa aflað sér M.D. gráðu frá Colorado háskóla og Ph.Ds. í smásjár rannsóknum og erfðum tók dr. Hitt ,,Post-doctoral fellowship“ í lifandi frumulíffræði við læknadeild Washington háskóla og smásjárrannsóknum undir leiðsögn dr. Papanicolaou, höfundar ,,Pap strokunar“ en hún er notuð til að greina krabbamein í leghálsi. Hann hefur setið í nokkrum af virtustu læknaráðum Norður-Ameríku og hefur m.a. veitt tveimur rannsóknarstofum forstöðu.

Dr. Hitt hefur margoft verið heiðraður fyrir störf sín í þágu vísinda og læknisfræði, þar með talið hina frönsku ,,Van Leeuwenhoek Award“ fyrir fullkomnun í smásjárrannsóknum, einnig ,,Eli Lily Award“ fyrir uppgötvun sína á nýjum ,,microplösmum“. Dr. Hitt er einnig handhafi: ,,Bioethics International Award of Merit“.

Dr. Hitt hóf rannsóknir sínar á amínósýrum á fjórða áratug síðustu aldar. Hann einbeitti sér að því að tengja skort á amínósýrum líkamans við meðferð alkóhólisma, og setti að lokum saman fyrstu, og enn í dag, einu áfengismeðferðina sem notast við náttúrulegar amínósýrur beint í æð. Fyrir vinnu sína var dr. Hitt heiðraður ,,Cientifico Destacado“ eða ,,Outstanding Scientist Award“ af Mexíkó stjórn.

Eftir 1980 hefur dr. Hitt bætt við meðferðina þannig að í dag ræður hún við mest allt svið ánetjunar. Þessi meðferð: ,,Neurotransmitter restoration“ eða NTR á sér enga líka hvar í heiminum sem leitað er.

Þess má í lokin geta að dr. William Hitt hefur einnig sett saman víruseyðandi meðferð með hjálp Ósons og bólusetninga sem byggjast á notkun þvags sjúklingsins til að vinna bug á mörgum af þeim ólæknandi sjúkdómum sem hrjá okkur mennina. Má þar helst nefna: gigt, lúpus, herpes, lifrabólgu C, MS, sykursýki, síþreytu, ofnæmi, astma, krabbamein og fjölmarga aðra ónefnda sjúkdóma.

Höfundur: Ólafur Einarsson rafeindafræðingur árið 2007

Nánari upplýsingar finnast á heimasíðu dr. Hitt, http://www.williamhittcenter.com og á íslenskri heimasíðu www.o3.isFlokkar:Eitrun og afeitrun

Flokkar/Tögg, ,

%d bloggers like this: