Erindi flutt á haustfundi Heilsuhringsins 10. nóvember 2005 .
Áður fyrr byrjuðu börn um þriggja ára aldur að viðurkenna sig og segja ÉG. Þá er vitundin að kalla á barnið sem einstakling, þangað til er það hópsál. Þegar foreldrar setja börn sín í langan tíma í gæslu til annarra eins og nú tíðkast rofna nánustu tengslin. Þess vegna kemur ÉG fyrr hjá börnum samtímans. Barn sem elst upp með meðvituðum foreldrum um sjálfsábyrgð einstaklingsins vaknar sterkara inn til lífsins en barn sem verður að byggja sig upp sjálft og læra af lífinu. Ef barn elst upp í ábyrgðarleysi og öll ábyrgð er af því tekin, veldur það því sem ég kalla meðvitundarleysi, barnið er mun lengur að finna sjálft sig. Marga vantar sjálfstraust þótt komnir séu á fullorðinsaldur. Úr því má bæta á eftirfarinn hátt með daglegri sjálfstyrkingu.
Að styrkja sig í sjálfum sér
Þú þarft að viðurkenna sjálfan þig að morgni, um miðjan dag og að kvöldi. Það þarf að byggja sig upp frá innsta kjarna. Enginn getur búist við því að einhver annar taki til innra með honum/henni. Aðeins þú ert fær um að taka til í þínum ranni. Til að árangur náist þarft þú að heyra þig segja upphátt tvisvar til þrisvar á dag:
- Ég vil.
Ég get.
Ég er hér.
Ég ræð hér.
Ég vinn sigur.
Hingað og ekki lengra þarf að vera mjög sterk setning sem lögð er mikil áhersla á. Mörk þarf að byggja upp bæði gagnvart eigin viðbrögðum og því sem tekið er á móti frá öðrum. T.a.m. ef þér líkar ekki framkoma einhvers í þinn garð, þarftu að setja mörk ,,hingað og ekki lengra“. Sömu mörk gilda um framkomu þína við aðra. Það þarf að læra að segja allar áðurnefndar fullyrðingar með jafn styrkum raddblæ og áherslum, þannig skapast styrkur og jafnvægi hið innra. Það er ekki nóg að hugsa þetta heldur þarf að segja það upphátt. Þú þarft að heyra þig segja það og fá tilfinningu fyrir því að þú sért að viðurkenna þinn rétt í þér, ekki í öðrum. Þú getur ekki sagt ég um neinn nema sjálfan þig.
Þegar vitund þín vex, þá vex hún gagnvart öllu, bæði því sem til þín kemur, hvort þú tekur við því og hvað þú lætur frá þér. Flestir reka sig á eitthvað í eigin fari á hverjum degi sem mætti betur fara. Ef fólk byggir sig sjálft upp meðvitað verður það til heilla og sannara sjálfu sér og það hlýtur að ná lengra. Okkur er gefinn sá eiginleiki að reyna alltaf að ná upp í næstu tröppu fyrir ofan. Þó að einhver bregðist illa við þér þarftu ekki að taka það inn á þig, því að þú berð ekki ábyrgð á viðbrögðum annarra. Aðrir bera ekki ábyrgð á þér þó að þú sér ósátt/ur við þá. Ef þú verður fyrir óþægindum af völdum annarra þarftu að gera þér grein fyrir því hvort það særi þig eða hvar það hitti þig. Þá þarftu að leita innávið því að þar er bergmálið. Er kannski verið að færa þér reynslu sem þú getur nýtt þér og lært af?
Kastali sálarlífsins
Þú getur hugsa þér að þú búir í kastala og að honum liggi hengibrú. Við hengibrúna eru þrír útverðir sem láta þig vita ef áreiti er væntanlegt og þörf er að draga upp brúna. Allir verða að vinna saman, þú sem íbúi kastalans verður að vera í góðu sambandi við útverðina sem heita:
- Ég er,
- Ég get,
- Ég vil.
Ef þú getur ekki sagt nöfn allra útvarðanna jafn sterkt, með jafn mikilli festu, viðurkenningu og samræmdum styrk þá vinna þeir ekki saman og geta ekki látið þig vita, því að þeir heyra ekki í þér og þá getur þú ekki dregið upp hengibrúna. Þannig getur hvað sem er ruðst inn í kastalann þinn og jafnvel atað hann út. Ef þú getur ekki sagt sterkt, ég er þá viðurkennir þú ekki eigin hugsun og ef þú getur ekki sagt sterkt, ég get þá hefur þú ekki nógu sterka tilfinningu fyrir því hvernig þú hugsar og hvernig þú kemur fram vilja þínum.
En ef þú ert í góðu sambandi við útverðina: Ég er, Ég get, Ég vil þá getur þú brugðist við, dregið upp hengibrúna og skoðað hvað ætlar að ryðjast inn í kastalann þinn. Ef það er eitthvað sem þú vilt ekki hleypa inn þá dregur þú brúna upp og lokar það úti. Ef það er reynsla sem þú sérð að gerir þér gott getur þú valið að hleypta því inn. Reynslan er sá auður sem gefur betri skilning og ef litið er á reynsluna sem vinning þá hefur þú gagn af öllu sem þú hleypir inn.
Hvernig kemur þú fram við þjóninn þinn
Maðurinn hefur þá sérstöðu frá öðrum lífverum að geta gengið uppréttur og talað. Hugmyndir skapast í huganum og hugurinn getur látið hendurnar vinna úr hugmyndum sínum. Ein mannvera getur verið hugmyndasmiður verks sem margir vinna að. Sagan hefur sýnt okkur að margar hugmyndir hugmyndasmiða fyrri alda tók margar aldir að koma í framkvæmd. En nú er þróunin orðin svo hröð að margar hugmyndir komast strax í framkvæmd. Kraftur hugans er orðinn svo mikill síðan þörf fyrir líkamlegt erfiði minnkaði. T.a.m. eru nú komnar vélar til að vinna flest heimilisstörf og þá fer orkan í hugsunina ekki í líkamlegt erfiði. Hver líkami er einstakur, búinn til ,,prívat“ og persónulega fyrir þann sem í honum býr. Hann er ekki eign, hann er þjónn og okkur er skylt að umgangast hann af ábyrgð og sýna honum virðingu.
Líkaminn ,,þjónninn minn“ vaknar á morgnana þegar húsbóndinn (ég) er vaknaður. Vitundin vaknar á undan líkamanum, hjartað fer að slá örar, blóðrásin fer á fulla ferð og ,,þjónninn“ segir góðan dag, til þjónustu reiðubúinn. Þá ætti vel við að húsbóndinn (ég) segði: Góðan dag við fengum þá einn dag enn. Að kvöldi er ástæða til að segja: Takk fyrir þjónustuna í dag, þú er góður og sannur þjónn. Og ef umgegni við líkamann hefur verið ábótavant er ástæða er til að bæta við:
Fyrirgefðu umgengni og að ég skyldi kenna þér um allt. Þó að líkaminn sé veikur með verkjum er samt ástæða til að þakka honum fyrir allt að kvöldi. Það er nefnilega hann sem gerir okkur kleift að sjá, tala, heyra, snerta, ganga o.s.fv. Ef líkaminn veikist þá þarftu að athuga hvað þú gafst honum borða og hvað þú lagðir á hann? Var hann kannski pískaður áfram. Þarf að leggja minna á hann? Var einhverju rusli frá öðrum hleypt inn í kastalann og gleymdist að hreinsa það út? Sagt er að þú farir á truntu í gegnum lífið en ekki fáki ef þú þjösnast á líkama þínum.
Andlegar tengingar við líkamann.
Höfuðkúpan skýlir huganum. Brjóstkassinn ver tilfinningarnar. Bein og mjaðmir tengjast viljanum. Fæturnir tengja við jörðina. Höfuðkúpan skýlir hugarfarinu, við viljum ekki afhjúpa huga okkar fyrir öðrum. Sama gildir um tilfinningar okkar, við viljum vernda þær fyrir öðrum, brjóstkassinn er brynja tilfinninganna. En allir mega sjá viljann sem býr í beinunum og kviðarholinu. Ef stirðleiki er í mjöðmum hefur trúlega freklega verið gengið á viljann. Ef líðan er slæm verðum við hnípin og beitum líkamanum í samræmi við það. Ef við bítum á jaxlinn getur heyrn og sjón minnkað vegna pressu á höfuðbeinin.
Handa- og tónmeðferð ,,Kírófonetik“
Barn getur komið með ofurspennu úr fæðingu, slíkt þarf að leiðrétta og þá er hægt að grípa til handa- og tónmeðferðar. Slík meðferð hefur einnig hjálpað mállausum til máls, breytt hegðan hjá ofvirkum börnum og auðveldað jafnt börnum sem unglingum að sigrast á námserfiðleikum, sem stafa af eirðarleysi og einbeitingarskorti. Margrét heyrði fyrst talað um þessa meðferð árið 1975 og ákvað að læra hana. Aðferðin er kennd á námskeiðum hjá hreyfingu Anthroposofista, námið tekur 4 ár og fer fram víðsvegar á Norðurlöndunum, þátttakendur stunda þjálfun á milli námskeiða. Ekki er krafist undirbúningsmenntunar en það kemur sér vel að hafa einhverja undirstöðu í nuddi og inngrip í málmeðferð t.d. gæti þetta komið að góðum notum fyrir talkennara. Aðalatriðið er þó að sá sem meðferðina gefur hafi mikla þolinmæði og kærleiksþel. Aðferðin varð fyrst kunn fyrir um það bil tuttugu árum þegar maður að nafni Alfred Baur, sem er þroskaþjálfi að mennt, var að meðhöndla fjögurra ára mállausan dreng.
Hann strauk á honum bakið og endurtók sífellt a-a-a-a-a– þennan tón sem oft er notaður við börn. Eftir góða stund apaði barnið eftir honum og sagði a-a- . Það var fyrsta hljóðið sem drengurinn gaf frá sér og fyrstu viðbrögð sem hann hafði nokkurn tímann sýnt. Vitað var að þessi litli drengur hafði heyrn þannig að Alfred gerði sér grein fyrir því að hann var á réttri leið og hófst handa við að kanna allt stafrófið og skoða hvernig hver bókstafur var formaður. Til þess þurfti hann að vera inni í herbergi þar sem frost var svo að hann gæti séð hvernig andardrátturinn sveiflaðist við myndun hvers tákns.
Hann kynnti sér allt sem hann komst yfir varðandi þessa hluti. Að endingu eftir látlaust starf og rannsóknir tókst honum að finna út hvernig tónar og ákveðnar strokur höfðu áhrif á vilja, hugsun og tilfinningu t.d. tengdust varahljóð tilfinningunni, gómhljóð hugsuninni og öll kokhljóð viljanum. Þannig fann hann út að ef barn vantaði viljakraft var hægt að styrkja vilja þess með kokhljóðum og strokum. Ef barn var lítið tengt hugsun sinni mátti hafa áhrif á það með gómhljóðum og strokum. Litli drengurinn mállausi sem talað var um í upphafi er orðinn fullorðinn maður nú og altalandi. Það er þakkað þessari einstöku aðferð Alfreðs Baur. Rannsóknir leiddu í ljós að stöðvar í heila drengsins störfuðu ekki eins og venja er.
Ótti algeng orsök
Margrét segist hafa séð þessa meðferð hjálpa á margan hátt bæði börnum, unglingum og fullorðnum, sem ekki hafi getað tekist á við nám eða ráðið við aðrar kröfur samfélagsins. Hún segist hafa komist að því að ofvirkni og margir aðrir sjúkdómar hjá börnum stafi af djúpstæðum ótta, sem oft sé sprottinn af því sem þau þurfa að mæta í daglegu lífi. Þar getur verið um að ræða mynd hinna fullorðnu og jafnvel ótta við að verða eins og þeir. Það er svo ótalmargt sem getur orðið að ógnvaldi hjá börnum. Ótti er líka þrándur í götu margra fullorðinna og getur jafnvel stafað frá atvikum er koma fyrir á barnsaldri. Þessi aðferð hefur hjálpað einstaklingum jafnt börnum sem fullorðnum að vinna á ýmsum andlegum þröskuldum og takast á við lífið
Höfundur: Margrét Aðalsteinsdóttir
Flokkar:Fjölskylda og börn, Greinar