Getur fúi og saggi í húsnæði sem og tilvist lífrænna eiturefna úr umhverfinu verið mun stærra mál en hingað til hefur verið talið og hugsanlega ástæða alvarlegra heilsufarslegra vandamála? s.s. síþreytu, MS. vefjagigtar, húsasóttar ofl.? Hvernig geta eiturefni sveppa (mycotoxin) innan og utanfrá haft áhrif á þróun krónískra sjúkdóma eins og ýmissa sjálfsónæmissjúkdóma, hormónaójafnvægis, háls-og eyrnabólgu, augnvandamála, þyngdarstjórnun ofl.?
Dr.David Holland sem er annar höfundur bókanna „The Fungus Link“ og „The Fungus Link, Volume 2“ sem og dr. Ritchie Shoemaker, bandarískur læknir sem hefur sérhæft sig í rannsóknum og meðferð á fólki með einkenni eitrunar frá lífrænum efnum („biotoxinrelated illness“) telja engan vafa á að svo sé. Eftirfarandi grein byggir á niðurstöðum þeirra og annarra vísindamanna sem skoðað hafa þessi mál ofan í kjölinn undanfarin ár.
Myglusveppir:
Myglusveppir og gró þeirra eru alls staðar í umhverfi okkar sem hluti af eðlilegri hringrás náttúrunnar og hafa meðal annars það hlutverk að hjálpa til við niðurbrot og rotnun. Utandyra hafa þeir sjaldnast skaðleg áhrif en innandyra í híbýlum manna eru þeir ekki æskilegir íbúar. Algengast er að aðstæður skapist fyrir myglusveppavöxt í kjöllurum, þvottahúsum, inni í þvottavélum og niðurföllum, á baðherbergjum og annars staðar þar sem nægjanlegur raki er til staðar. Þeir geta verið svartir, brúnir, hvítir, grænir eða bleikleitir og geta þrifist á svo til hvaða undirlagi sem er. Sveppir hafa í gegnum tíðina verið þekktir af að hafa áhrif á vellíðan manna á mismunandi hátt t.d. með því að skemma nauðsynlegar nytjaplöntur, með eyðileggingu á mat sem er í geymslu og sýkingum á húð og innvortis í fólki.
Myglusveppagró eru mjög smá og geta komist niður í lungnavef við innöndun. Þau innihalda marktækt magn eiturefna og innöndun á þeim er þekktur orsakavaldur í alvarlegum lungnasjúkdómum, svo eitthvað sé nefnt. Heilsuspillandi áhrif af völdum myglusveppa eru staðreynd fyrir vaxandi fjölda fólks um allan heim. Myglusveppamótefnavakar geta orsakað ýmsa sjúkdóma s.s. starfstengdan astma, augnslímhimnubólgu og safn einkenna þar sem viðkomandi þjáist af eitrun frá lífrænu ryki s.s. heyryki og ryki sem fylgir skepnuhaldi og landbúnaði. Einnig hefur á síðustu árum aukist fjöldi þess fólks sem líður fyrir sjúkdóma sem til eru komnir eftir íveru í húsum sem skemmd eru af raka – hvort sem um er að ræða vinnustaði eða heimili.
Lífræn eiturefni og myglusveppaeitur
Biotoxin eru lífræn eiturefni framleidd af hryggleysingjum, þar á meðal myglusveppum, tvísvipungum, gormgerlum, blágrænuþörungum og bakteríum. Mycotoxin eru eiturefni framleidd af myglusveppum og eru afleidd efnasambönd sem sveppurinn framleiðir m.a. til að verjast næsta nágranna. Sum myglueitur (mycotoxin) eru notuð í læknisfræðilegum tilgangi, sýklalyf t.d. penicillin og cephalosporinlyf eru afurðir efnaskipta myglusveppa og þ.a.l. myglueitur. Alfatoxin, mest krabbameinsvaldandi efni á jörðinni er myglueitur. Sum myglueitur eru framleidd inni í líkama okkar af sveppum sem þar hafast við í innyflum og leggöngum. Gliotoxin er eitur sem fyrst og fremst verður til á þann hátt og er búið til af Aspergillus, Candida og öðrum tegundum sveppa sem þar lifa. Það örvar taugafrumudauða á meðan Fumonisins, myglueitur sem framleitt er af Aspergillus sveppnum, er bæði krabbameinsvaldandi og taugaeitur. Sveppagró geta geymt mikið magn eiturefna þrátt fyrir að liggja í dvala og þau sleppa eiturefnum út í loftið í langan tíma, hvort sem þau eru óvirk eða ekki.
Hvernig verður fólk fyrir slíkri eitrun?
Fólk getur orðið fyrir áhrifum af myglueitri úr umhverfi með því að anda því að sér, með því að borða það og með því að fá það á húðina. Myglueitur orsakar ýmis ólík heilsufarsleg vandamál í mönnum sem verða fyrir áhrifum þess í litlum mæli yfir langt tímabil en getur jafnvel verið banvænt í miklum mæli á stuttum tíma.
Einkenni eitrunar:
Einkenni fólks með biotoxin/myglueitrun eru margskonar og því oft erfitt að henda reiður á hvað raunverulega er í gangi. Eftirtalin einkenni eru algeng:
* Þreyta eða sífelldur höfuðverkur
* Ennisholubólgur, sýkingar
* Endurteknar lungnasýkingar, bronkítis, astmi
* Eyrnaverkur eða hellur
* Hósti, þurrkur eða sviði í hálsi,lungum, hrotur
* Tíð þvaglát, tíður niðurgangur eða aðrar meltingartruflanir
* Ýmsar skyntruflanir s.s. sjóntruflanir, snertiskyn, doði og dofi í útlimum, rafmagnsviðkvæmni
* Jafnvægistruflanir
* Kvíði, þunglyndi, svefnvandamál, minnistruflanir
* Áreiti í slímhúð – öndunarfæri og melting
* Þroti, bjúgur
* Húðvandamál, þurrkur eða útbrot
* Liðverkir, stingir eða aðrir óútskýrðir verkir
* Gigtarverkir, vefjagigt
* Fæðuóþol
* Þyngdaraukning eða þyngdartap án skýringa
* Nýrnaverkur, nýrnasteinar Dr.David Holland (The Fungus Link) gengur svo langt að segja að niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið af mismunandi sérfræðingum á myglueitri sem orsakavaldi í þróun MS-sjúkdómsins, bendi til að það sé staðreynd. Miðað við þær upplýsingar sem nú þegar liggi fyrir, muni aðrir sérfræðingar í framtíðinni neyðast til að sanna að MS sé ekki af völdum krónískrar myglueitrunar og hans skoðun er, að það muni þeim ekki takast. Nokkrir sjúkdómar þar sem sveppir og eiturefni þeirra eru ýmist taldir aðal-orsakavaldar eða meðvirkandi þættir: AIDS, alzheimer´s sjúkdómur, þvagsýrugigt, ofvirkni, offita, beinþynning, psoriasis, chrohn´s sjúkdómur, sykursýki, háþrýstingur, nýrnasteinar, ristilbólgur, heila- og mænusigg (MS), nýrnabólga ófrjósemi, vefjagigt, raynaud´s heilkenni, gigt, síþreyta, heymæði, húsasótt, systemic lupus, æðakölkun, sjögren´s heilkenni, skorpulifur, cushing´s sjúkdómur, anorexia ofl.
Hvað gerist við biotoxin & myglueitrun?
Mikilla rannsókna á þessu sviði er ennþá þörf, en miðað við það sem þegar er komið fram er líklegt að niðurstöðurnar muni verða ögrun við núverandi þekkingu okkar á starfssemi ónæmiskerfisins og um leið neyða okkur til að endurmeta mikið af viðteknum hugmyndum um heilbrigðismál. Hugtakið „sjálfsónæmissjúkdómur“ gæti í framtíðinni þarfnast endurskoðunar þar sem ólíklegt verður að telja að lífvera sem getur þróað kerfi sem virkar henni til varnar ráðist á sjálfa sig. Mótefni sem mæld eru í blóði og eru notuð til að staðfesta að um sjálfsónæmissjúkdóm sé að ræða eru í reynd mótefni gegn ubiquitin, efni sem er til staðar í mörgum tegundum, þ.m.t. sveppum.
Niðurstöður rannsókna benda til að örverur sem mynda eiturefni hafi náð að færa okkur nýja tegund sjúkdóma – þar sem bakteríur, sveppir, þörungar og aðrar örverur hafa „lært“ að framleiða eiturefni sem dvelja áfram í mannslíkamanum löngu eftir að örveran sjálf er dauð. Eiturefni allra þessara örvera valda skaða með því að setja af stað ýkt „bólguviðbrögð“ í líkamanum. Á meðan raunverulegir skaðvaldarnir fela sig í fituvef líkamans þar sem árásarfrumur í blóði ná ekki til þeirra plata þeir ónæmiskerfið til að hefja „bólgu“ árásir á mörg líffærakerfi, þ.m.t. liðamót, vöðva, taugar og heila. Auknar líkur benda til að þessar árásir séu framkvæmdar af hópi sameinda sem nýlega voru uppgötvuð, svokölluð „proinflammatory cytokines“ (efni sem koma á undan bólgu). Eyðileggingin sem þau valda er einnig tengd við hjartasjúkdóma, offitu og sykursýki.
Allir sjúkdómar sem byrja með bólgumyndandi frumuskiptingu valda lækkun á MSH-stýrihormóni og biotoxin & mycotoxin sjúklingar eiga það sammerkt að hafa lágt gildi af þessu hormóni í blóði.
MSH-hormón (Melanocyte-stimulating hormon) eru framleidd í heiladingli. Þau virka eins og stjórnstöð nokkurra mikilvægra ferla – stjórna framleiðslu melatonins og endorphins frá undirstúku og heilaköngli. Skortur veldur síþreytu og stanslausum verkjum. Þau stýra einnig varnaráhrifum í húð, meltingarvegi og í slímhimnu í nefi og lungum (ónæmiskerfi) sem og starfssemi heiladinguls. Þau hafa áhrif á myndun hormóna og taugastarfssemi. Leptin er annað hormón sem skoða þarf sérstaklega þegar áhrif lífrænna eiturefna og myglueiturs á líkamann eru könnuð. Leptin stýrir geymslu fitusýra í fitu og hefur því áhrif á líkamsþyngd. Það hefur einnig áhrif á starfssemi undirstúku heilans og því hvernig við bregðumst við næringu (blóðsykur). Ákv. samspil er í gangi milli framleiðslu Leptins og MSH en þegar biotoxin & myglueitrun er í gangi riðlast það jafnvægi og of mikið Leptin er framleitt á meðan of lítið MSH verður til. Við þetta ójafnvægi koma hin ýmsu einkenni fram
Hvernig fæst eitrun staðfest?
Hjá fólki með sjúkdóma sem tengjast taugaeitri frá sveppum og bakteríum koma hefðbundin blóðpróf yfirleitt út án þess að sýna neitt afbrigðilegt. Með því að mæla gildi MSH og Leptin í blóði fæst hins vegar úr því skorið hvort svo sé í raun. Dr. Ritchie Shoemaker notar einnig sérstakt sjónpróf (VSH=Visual contrast sensitivity) sem gert er á viðkomandi og mælir taugaviðbrögð og þar með skynjun augans á ákv. mynd úr misbreiðum línum. Áhrif taugaeiturs á sjónina valda mistúlkun á myndinni.
Meðhöndlun:
Það fyrsta sem gera þarf eftir að grunur er kominn upp um hugsanlega eitrun er að koma þeim sem fyrir henni hefur orðið burt til að forðast frekara heilsutjón. Hreinsa þarf myglu og myglugró með viðeigandi efnum og henda út menguðum jarðvegi, byggingarefnum og innanstokksmunum s.s.teppum oþh. sem skemmt er. Fólk sem orðið er krónískt veikt meðhöndlar dr. Ritchie Schoemaker með lyfinu Questrian (Cholestyramine) sem er kólesteróllækkandi lyf sem verið hefur á markaði síðan á 6.áratugnum. Í innyflunum er það ekki frásogað út í blóðið heldur binst það við kólesteról, gallsýru og sölt og kemur í veg fyrir frásog þeirra. Cholestyramine er einnig þekkt fyrir að bindast og útskilja mörg mismunandi eiturefni og sú er einmitt raunin skv. reynslu Dr. Ritchie Schoemaker.
Sá sem fyrir eitrun hefur orðið getur þurft að taka Cholestyramine nokkuð stíft í töluverðan tíma áður en einkenni taka að lagast. Við endurtekna mælingu á Leptin og MSH kemur fram að magn þeirra færist í eðlilegt horf eftir því sem á meðferðina líður og magn eiturefna í líkamanum minnkar, mishratt þó eftir hverju einstöku tilfelli og hversu alvarleg eitrun hefur átt sér stað. Til að minnka það magn myglueiturs sem berst í líkamann úr fæðu er gott að lágmarka inntöku á mat sem inniheldur mikið magn slíkra efna. Einnig er gott að sniðganga matvöru sem örvar vöxt sveppa og baktería í innyflum þannig að „sjálfseitrun“ verði sem minnst. Hér á eftir kemur upptalning á þeim 10 fæðutegundum sem mest innihalda af myglueitri:
1. Drykkir sem innihald alkóhól. Etyl-alkóhól er myglueitur framleitt af gersveppnum Saccharomyces, auk þess sem ýmsir áfengir drykkir eru gerjaðir úr korni sem inniheldur einnig önnur myglueitur og sveppi.
2. Kornvörur: Kornvörur almennt eru mengaðar með fumonisin og öðru eitri frá sveppum s.s. alfatoxin, zearaleone og ochratoxin. Fumonisin og alfatoxin eru þekkt fyrir krabbameinsvaldandi áhrif meðan zearaleone og ochratoxin orsaka vandamál tengd nýrum og östrogenihormónum.
3. Hveiti: Hveiti og afurðir úr því eru mengaðar með myglueitri. Sennilega skiptir ekki máli hvort hveitið er lífrænt, ólífrænt, spírað, blessað eða ekki – ef hveitið kemur úr korni sem geymt hefur verið svo mánuðum skiptir í stórum geymum (silo), þá er hætta á að það hafi orðið fyrir mengun af myglueitri.
4. Bygg: Líkt og aðrar kornvörur sem geta skaðast við ofþornun, flóð, vinnslu- og geymslumeðferðir er bygg viðkvæmt fyrir mengun af völdum sveppa sem framleiða myglueitur. Bygg er notað í framleiðslu á ýmsu morgunkorni og áfengum drykkjum.
5. Sykur: ( sykurreyr og sykurrófur): Fyrir utan þá sveppi sem oft menga sykurreyr og sykurrófur þá er sykur næring fyrir sveppi og eykur vöxt þeirra.
6. Sorghum: Sorghum er notað í ýmsar vörur upprunnar úr korni sem ætlaðar eru bæði mönnum og dýrum. Það er einnig notað til framleiðslu alkóhól-drykkja.
7. Jarðhnetur: Í jarðhnetum er fjöldi mismunandi tegunda sveppa og eiturs sem þeir gefa frá sér.
8. Rúgur: Það sama má segja um rúg og hveiti og aðra kornvöru.
9. Baðmullarfræ: Baðmullarfræ finnst oft í formi baðmolíu (cottonseedoil) en er einnig notað í til skepnufóðurs.
10. Harðir ostar: Yfirgnæfandi líkur eru á, að þeir ostar sem mygla sést á, innihaldi myglueitur. Álitið er að hver sveppur framleiði allt að þrjár mismunandi tegundir myglueiturs og heildarfjöldi myglueitra sem þekkt eru í dag skipta þúsundum. Gouda ostur er heilsusamlegri með tilliti til sveppamengunar en aðrir harðir ostar.
Fleiri ráð:
Fá efni hafa eins sveppadrepandi áhrif og ozon. Til að flýta enn frekar fyrir úthreinsun eiturefna úr líkamanum og niðurbroti og eyðingu sveppa og baktería hefur meðferð í ozonklefa reynst afar vel. MS-sjúklingar og fólk með (vefja-)gigt hefur lofað þessa meðferð og ef marka má tengsl myglueiturs og þessara sjúkdóma, má eflaust rekja góðan árangur í þeirra tilfellum til þessara þekktu áhrifa ozonsins. Notkun á ozoni til að hreinsa loft og eyða myglu- og myglugróum innanhúss er einnig þekkt og hægt að panta slík ozontæki fyrir heimili og fyrirtæki erlendis frá. Tea-tree olía blönduð í vatn og úðuð á svæði þar sem mygla hefur tilhneigingu til að myndast virkar hemjandi á mygluvöxt.
Gott er fyrir þá sem orðið hafa fyrir biotoxin eða myglueitrun að taka inn góða probiotic gerla til að auka magn „góðra“ gerla í þarmaflórunni og minnka það magn eiturefna sem þaðan kemur. Slíka gerla er hægt að kaupa í heilsubúðum og lyfjaverslunum og þarf að hafa í huga við kaup á þeim að því fleiri tegundir af gerlum sem eru í blöndunni því betra og því hærra magn per.gramm því betra. Ráðlegt er að taka þessa gerla daglega að staðaldri til að viðhalda góðri þarmaflóru. Þá er og ráðlegt að lágmarka notkun á sýklalyfjum og einungis nota þau þegar nauðsyn krefur. Hægt er að leita frekari upplýsinga um þessi mál á íslenskri vefsíðu á slóðinni: http://www.husogheilsa.is Ozontæki til lofthreinsunar og myglusveppaeyðingar eru t.d. fáanleg á netverslun Mold Kill: http:// http://www.mold-kill.com/
Höfundur: Sigríður Ævarsdóttir árið 2006
Flokkar:Eitrun og afeitrun