Úr einu í annað – Vor 2006

Hér fara á eftir 5 stuttar greinar fyrirsagnir þeirra eru eftirfarndi:

  • Stundum lagast nýrnabilun við að nota Q-10, 
  • Stundum veldur járnskortur ofvirkni og athyglisbresti, 
  • Magnesíum og B-6 vítamín hindra nýrnasteina, 
  • Fæðuofnæmi getur m.a. valdið nýrnabólgu í börnum, 
  • B-3 vítamín minnkar líkur á Alzheimersjúkdómi. 

Stundum lagast nýrnabilun við að nota Q-10
Alan Gaby, læknir segir í Townsend Letter of Doctors and Patients, okt. 2005, frá 97 sjúklingum með langvarandi nýrnabilun, þar sem allir voru með meira en 5mg/dl af kreatíni í blóðvökva og ástand þeirra hafði farið versnandi síðastliðnar 12 vikur. Sjúklingunum var skipt í tvo hópa og var annar hópurinn látinn taka 30 mg af Q-10, þrisvar sinnum á dag. Þeir sem ekki fengu Q-10 voru látnir taka óvirkt gervilyf (placebo). Tilraunin var tvíblind, þ.e. hvorki sjúklingarnir né læknarnir vissu hvor hópurinn fékk gervilyfið. Þeim sjúklingum sem þurftu að nota blóðskilju (gervinýra) í byrjun var ráðlagt að láta líða lengri tíma á milli þess að farið var í skiljuna og hætta því alveg ef þvagmyndunin ykist og kreatín í blóðvökva minnkaði um meira en 2 mg í dl. Hjá þeim sjúklingum, sem fóru í blóðskilju og fengu einnig Q-10 minnkaði kreatín í blóðvökva úr 9,5 mg/dl i 6,7 mg/dl.

Meðaltals BUN lækkaði úr 88,2 í 79,8 mg/dl og sólarhrings þvagmyndun jókst úr 1300 í 1920 ml. Hjá þeim sjúklingum sem fengu gervilyfið versnuðu allir þessir þættir í nýrnastarfseminni svo mikið að það taldist marktækt (p<0,01 – p<0,001). Fjöldi sjúklinga sem gátu hætt að nota blóðskilju fækkaði úr 21 í 12, en breyttist ekki hjá þeim 24 sem voru í samanburðarhópnum og notuðu blóðskilju (p<0,02). Þessi niðurstaða sýnir að kóensím Q-10 getur bætt nýrnastarfsemina hjá fólki með nýrnabilun og minnkað heilmikið þörf þessa fólks á að þurfa að nota blóðhreinsun (gervinýra).

Fjárhagslegur sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið er gríðarlegur, ef allir nýrnasjúklingar, sem þurfa að nota blóðskilju ættu kost á að fá Q-10. Jafnvel gæti verið að nokkrir sjúklinganna læknuðust algerlega við þetta. Dr. R.B. Singh, læknirinn sem stóð fyrir þessari tvíblindu rannsókn segir að helst þurfi þvagmyndunin að vera um einn lítri á sólarhring, eigi Q-10 að koma að gagni. Þó vill hann reyna þessa aðgerð við alla sem framleiða meira en hálfan lítra af þvagi á dag. Hann mælir með að nota 180 mg á dag af vatnsleysanlegu Q-10. Aukist þvagmyndunin í meira en lítra á dag á fjórum mánuðum, telur hann að meðferðin beri árangur. Þegar þvagmyndunin hefur náð því að verða meira en hálfur annar lítri (1,5 lítri) á sólarhring í nokkra mánuði má hætta að nota blóðhreinsunina, en ef þvagmyndunin vex ekkert, þó að Q-10 hafi verið notað í 12 vikur er ólíklegt að meðferðin beri árangur. Æ.J.

Stundum veldur járnskortur ofvirkni og athyglisbresti

Eftirfarandi smágrein kom í Nutrition and Mental Health, haust 2005. Þar er bent á að járnskortur getur valdið óeðlilegri virkni taugaboðefnisins dópamíns sem aftur gæti orsakað einkenni sem fylgja ofvirkni og athyglisbresti. Til að meta hvort járnskortur í börnum með athyglisbrest og ofvirkni væri hugsanlega höfuð orsakavaldurinn var sett upp samanburðar tilraun við Evrópska barnasjúkrahúsið í Parísarborg. Fimmtíu og þrjú börn á aldrinum 4-14 ára sem öll þjáðust af ofvirkni og athyglisbresti voru borin saman við annan hóp barna sem ekki höfðu þennan sjúkdóm. Borið var saman ferritin magn í blóði allra barnanna, bæði þeirra sem höfðu ofvirkni og athyglisbrest og þeirra sem voru heilbrigð. Niðurstaðan var sú að minna ferritin var í blóðvökva þeirra barna sem höfðu ofvirkni og athyglisbrest en hinna barnanna (23mg/ml á móti 44 mg/ml). Þar fyrir utan voru 84% ofvirku barnanna með óeðlilega lítið ferritin í blóðvökva, en aðeins 18% þeirra sem ekki voru ofvirk. Svo virtist að eftir því sem sjúkdómseinkennin voru alvarlegri, því minna ferritin var í blóðvökva þeirra barna. Samkvæmt þessu virðist líklegt að bæta mætti ástand barna með ofvirkni og athyglisbrest með því að gefa þeim bætiefni með járni eða járnauðuga fæðu. Heimild: Arch. Pediatr. Adolesc. Med. 2004; 158;1113-5   Æ.J.

Magnesíum og B-6 vítamín hindra nýrnasteina
Eitt það fyrsta sem ég lærði af Marteini heitnum Skaftfells var að magnesíum og B-6 vítamín til samans, kæmu næstum því fullkomlega í veg fyrir að nýrnasteinar mynduðust. Þetta mun hann hafa lært af greinum í tímaritinu Prevention Magazine. Marteinn lánaði mér stundum gömul blöð af Prevention og í einu þeirra var grein um þetta, sem ég þýddi og kom hún síðan í Hollefni og heilsurækt. Nokkrum sinnum eftir þetta hef ég skrifað um nýrnasteina og hvernig hægt er að hindra að þeir myndist. Í októberblaði Townsend Letter for Doctors and Patients 2005, er stutt grein um þetta, eftir Alan R. Gaby lækni. Þar segir hann frá könnun þar sem 149 einstaklingar sem höfðu endurtekið fengið calcium oxalat nýrnasteina eða blöndu úr calcium oxati og calcium fosfati. Þetta fólk var látið nota 100 mg af magnesíumoxíði þrisvar sinnum á dag og 10 mg af B-6 vítamíni daglega.

Þessi tilraun stóð frá 4 árum og sex mánuðum upp í 6 ár. Niðurstaðan varð sú að nýrnasteinarnir hættu næstum því alveg að myndast, eða um 92,3%, eða fækkaði í nálægt tíunda part úr steini á ári, væri miðað við allan hópinn, eða með öðrum orðum, að einn af hverjum 10 sjúklingum fékk einn stein á ári. Önnur könnun, þar sem ekkert B-6 var notað en 500 mg af magnesíum á dag, sýndi að steinunum fækkaði um 90%, eða urðu aðeins tíundi hluti þess sem áður var. Gaby læknir segir frá því, að fyrir 20 árum var hann beðinn að halda fyrirlestur um náttúrlegar lækningar á árlegum fundi hjá Læknafélagi Baltimore-svæðisins. Vegna þess að vera hans þar kynni að vera umdeild, var einnig boðið „næringarsérfræðingi“ frá virtri lækningastofnun til að segja álit sitt á ræðu Gabys.

,,Sérfræðingurinn afþakkaði boðið með þeim orðum, að vera sín þar og umræður um ræðu mína, gæfi mér trúverðugleika sem ég ekki verðskuldaði“ segir Gaby. „Hann benti sérstaklega á grein sem ég nýlega hafði fengið birta í tímaritinu Prevention (E.t.v. greinin sem ég nefndi) um B-6 vítamín og magnesíum til að hindra myndun nýrnasteina. Eftir að ég sendi þeim, sem ráðstefnuna héldu, afrit af rannsóknunum sem ég ræddi um og höfðu verið gefnar út, um B-6 vítamín, magnesíum og nýrnasteina, bað sérfræðingurinn þá sem að rannsókninni stóðu afsökunar á hvatvísi sinni. Samt færðist hann undan að eiga orðastað við mig,“ segir Alan R. Gaby svo að lokum.

Fæðuofnæmi getur m.a. valdið nýrnabólgu í börnum
Sex 10-13 ára gömul börn voru haldin nýrnabólgu (idiopathic nephrotic syndrome), sem lagaðist við að nota steralyf. Í tilraunaskyni var hætt að gefa þeim steralyfið og í þess stað voru þau látin fá fæðu sem sérstaklega var samsett þannig að hún ylli ekki ofnæmisviðbrögðum. Þegar prótein hætti að mælast í þvagi eða hafði minnkað umtalsvert var börnunum gefin kúamjólk. Við það fór aftur að mælast eggjahvíta í þvaginu, bjúgur fór að koma og minna þvag myndaðist. Samtímis minnkaði Ig G hjá fjórum barnanna og skyndileg breyting varð á C-3 complement þætti í blóðvatni allra sex barnanna. Húðprófun úr extrakti úr kúamjólk var einnig jákvæð hjá öllum börnunum.

Alan R. Gaby, læknir, sem segir frá þessu í Townsend Letter for Doctors and Patients, okt. 2005, telur að ofnæmi af líkri gerð og þetta geti vafalaust oft verið orsök einkenna sem lagast við að nota steralyf. Þar geti algeng fæða, sem börn m.a. fá oft og almennt er talin holl og góð verið sökudólgurinn, eins og var í dæminu hér á undan. Hér gildir að leita að ofnæmisvaldinum eða völdunum og gefast ekki upp, þó að sökudólgurinn finnist ekki í fyrstu tilraun. Þó að lækninum finnist vafalaust stundum einfaldast að gefa sjúklingnum steralyf og láta þar við sitja, er það þó raunar engin framtíðarlausn. Ævilöng steranotkun leiðir af sér heilbrigðisvandamál, sem sennilega verða er tímar líða verri en upphaflega ofnæmið. Spennandi væri að prófa að nota cromoglicon sem er efni sem læknar nota stundum við fæðuofnæmi, þegar ofnæmisvaldurinn finnst ekki.

B-3 vítamín minnkar líkur á Alzheimersjúkdómi
Eldra fólk sem neytir lítils af B-3 vítamíni er í meiri hættu á að fá Alzheimersjúkdóm en
annað fólk, sem fær meira af þessu vítamíni. Þetta kom fram á ársfundi Öldrunarfélags Bandaríkjanna á þessu ári. Rannsóknarmenn frá Rush Institute for Healthy Aging í Chicago gerðu könnun á 815 heilbrigðum einstaklingum eldri en 65 ára, sem bjó í sama bæjarhverfi. Þátttakendur fylltu út spurningalista um hversu oft á dag matar var neytt og hvers konar, áður en könnunin hófst. Í ljós kom að B-3 vítamín hafði æskileg áhrif til að hindra að Alzhimersjúkdómur kæmi fram hjá þessu fólki.

Fólk sem fékk mest af B-3 vítamíni í fæðunni sem var 22.4 mg á dag að meðaltali, var í 79 % minni hættu að fá Alzheimersjúkdóm, en það fólk sem minnst fékk af þessu vítamíni, sem var 12.6 mg á dag að meðaltali. Einnig dró það úr líkum á að fá Alzheimersjúkdóm að nota B-3 í bætiefnatöflum. Heimild: 2005 Annual Scientific meeting of the Gerontological Society of America

Höfundur: Ævar .Jóhannesson vor 2006Flokkar:Úr einu í annað

Flokkar/Tögg, , ,

%d bloggers like this: