Rætt við Pál Erlendsson um vísindi lífsins og Ayurveda

Sama dag og Páll hóf nám í læknadeild Háskóla Íslands árið 1996 bauðst honum tími í heilun. Hann hafði ekki áður kynnst óhefðbundnum lækningaleiðum, en gerði sér strax grein fyrir því eftir heilunina að inn á þessar brautir lægi leið hans. Sama haust tók hann námskeið í kínverskri lífsorkuleikfimi Qi gong. Iðkun þess jók honum vellíðan og kraft bæði til líkama og sálar. Í desember sama ár fór hann á námskeið í Reiki. Þá var teningunum kastað, hann hætti í læknadeildinni og sneri sér alfarið inn á brautir kjörlækninga. Nú gef ég Páli orðið.

Í fyrstu hugðist ég læra nudd, en langaði til að kynna mér fleira en það sem var í boði hér á landi. Ég las bækur um indversku Ayurveda- fræðin, í þeim fræðum er að finna kjarna allra kjörlækninga, enda þýðir orðið Ayurveda vísindi lífsins. Þar eru kenndar margar aðferðir til að hreinsa líkamann, s.s. mataræði, jurtir, öndunaræfingar, jóga, Pancha Karma, litameðferð, ilmolíumeðferð ofl. Auk þess er sérstök tækni í Ayurveda- nuddinu sem losar um eiturefni hafi þau safnast fyrir í líkamanum. Það eru einnig nuddaðir ákveðnir punktar í líkamanum, Marmapunktar, sem hafa allir sérstökum eiginleikum að gegna og tengja m.a. orkubrautir líkamans, nadis.

Eftir að ég komst að því að í skólanum „American Institute of Vedic Studies“, sem staðsettur er í Santa Fe, í Nýju Mexikó, var hægt að stunda bréfanám, var valið auðvelt og ég lauk 250 stunda bréfanámi þar í Ayurveda fræðum. Þegar náminu var lokið var ég orðinn heillaður af indverskri heimspeki og dreif mig til Indlands í ýtarlegra nám í þessum fræðum. Skólinn sem ég fór í fyrst heitir „Healthy living Ayurvedic Center“ og er staðsettur á Light House Beach í bænum Kovalam á Indlandi. Ég var þar um 2 mánuði að læra, með þrjá einkakennara og útskrifaðist með ,,Certification in Pancha Karma therapy and Ayurvedic massage“.

Ayurveda og líkamsgerðirnar
Ayurveda snýst um hvernig við getum öðlast jafnvægi í lífinu í gegn um val á heilsutengdum þáttum, s.s. mataræði, lífsmunstri, hreyfingu, hugleiðslu o.fl. Samkvæmt Ayurveda fræðunum er maðurinn þrískipt vera, sál, líkami og hugur. Þessa þrjá þætti þarf alla að rækta ef viðhalda á góðri heilsu og jafnvægi. Ayurveda heilsufræðin getur hjálpað fólki að öðlast skilning á því hversvegna hinir ýmsu sjúkdómar myndast. Sá skilningur getur hjálpað fólki til að sættast við afleiðingar sjúkdóma og getur þá heilunarferlið hafist, en það sem er mest um vert, er að Ayurveda kennir aðferðir til að koma í veg fyrir að ójafnvægi, sem orsakar sjúkdóma, myndist.

Ayurveda fræðin snúast m.a. um að koma jafnvægi á það sem fræðin nefna ,,dósjur“ eða líkamsgerðir. Líkamsgerðirnar eru skilgreindar sem Vata, Pitta og Kaffa. Ef þær fara úr jafnvægi upphefst sjúkdómsástand og með því að koma jafnvægi á þær má hafa áhrif á heilsufar til hins betra. Enn fremur leggur Ayurveda áherslu á að allt í alheiminum er byggt upp af frumefnunum fimm. Þessi frumefni eru jörð, vatn, eldur, loft og eter (eða rými). ,,Vata, Pitta og Kaffa“ hugtökin eru byggð á þessum 5 frumefnum, ásamt eiginleikum mannslíkamanns og öllu í náttúrunni.

Vata: Hefur eiginleika lofts, en einnig rýmis eða eters, (eter er nokkurskonar ástand milli orku og efnis). Vata hefur því gott af eiginleikum vatns og jarðar til að ná stöðugleika og jarðtengingu, auk eiginleikum Pitta eða elds þar sem Vata er köld.
Pitta: Hefur eiginleika elds og hefur því gott af kælingu vatns og jarðar og þarf einnig að hafa loft í hæfilegu magni til að örva eldinn þegar við á.
Kaffa: Hefur eiginleika vatns og einnig jarðar. Kaffa hefur því gott af eiginleikum Vata sem er rými (eters) og lofts en einnig hitann sem Pitta býr yfir þar sem Kaffa er köld og þarf örvun. Þannig vinna andstæðurnar saman og hægt er að ná bæði andlegu og líkamlegu jafnvægi í gegnum þá þekkingu sem þessi vísindi gefa okkur.

Fæðan
Fæðan skiptir meginmáli í Ayurveda, sérstaklega þegar litið er til langframa. Segjum sem svo að lækning fáist á ákveðnum sjúkdómi en hvorki sé breytt um lífsmáta né neyslu óhollrar fæðu, eða fæðu sem ekki hentar líkamsflokki viðkomandi manneskju. Þá eru miklar líkur á að sami sjúkdómur komi aftur. Hann kann þó að brjótast öðruvísi fram en áður, því að ef ekki er komið í veg fyrir raunverulega orsök sjúkdómsins þá heldur ójafnvægi áfram í ,,dósjunum”.

Uppruni ójafnvægis getur átt sér stað í röngum matarvenjum, rangri líkamsrækt, rangri vinnu, þú hugleiðir ekki rétt eða ert ekki að hugleiða, gefur þér ekki tíma fyrir Guð þinn eða þína innri verund. Lifnaðarhættir þínir eru ekki í samræmi við þína ,,dósju“ o.s.frv. Eitt af því sem Ayurveda fræðin benda á er að sama fæðan hentar ekki öllum líkamsgerðum. Tökum dæmi: Vata sem er þurr, létt og með mikið af loft-frumefnunum og fer úr jafnvægi ef hún innbyrðir fæðu sem hefur sömu eiginleika, eins og t.d. þurrt kex, mikið af ávöxtum og baunir sem eru mjög loftmyndandi.

Pitta hefur eiginleika elds og er heit og ætti því ekki að borða fæðu sem er mjög heit eða krydduð (sérstaklega ekki á heitum árstíma) og Kaffa ætti ekki að innbyrða fæðu sem er mjög olíukennd og þung því Kaffa einstaklingar þurfa oft heldur léttari fæðu sem gefur þeirra líkamsgerðum léttleika og örvun. Föstur í 1-7 daga geta líka verið gagnlegar til að hreinsa líkamann og koma meltingunni í lag. Hafa ber í huga að tala við Ayurveda heilsufræðing til að finna út hversu lengi þú hefðir gagn af því að fasta. Hve lengi og hvort fasta er æskileg fer eftir því hvort um Vata, Pitta eða Kaffa persónu er að ræða. Vata og Pitta líkamsgerðir þola ekki langar föstur en hinsvegar má Kaffa fasta lengur. Hafa ber í huga að drekka nóg vatn og jafnvel að drekka hreina ávaxtasafa á meðan á föstu stendur.

Ayurveda nudd
Stuðla má að jafnvægi með því að hreinsa líkamann af eiturefnum (nefnd ama) og má gera það m.a. með sérstöku Ayurveda nuddi. Hreinsandi ayurveda nudd er yfirleitt með löngum og frekar hröðum strokum sem ná oft yfir allan líkamann til að örva blóðflæðið og losa um óæskileg efni (ama) sem hafa sest að í vöðvum, fituvefjum og húð líkamans. Blóðrásin flytur eiturefnin síðan í meltingarfærin þaðan sem þau eru síðan hreinsuð með hreinsi aðferð sem nefnd er Pancha-karma.

Hreinsunin (Pancha-karma) getur tekið nokkrar vikur með matarræði, ásamt hreinsandi og uppbyggjandi jurtum, allt eftir hverjum og einum. Einnig er til Ayurveda nudd fyrir líkamsgerðirnar þrjár þ.e. Vata, Pitta og Kaffa. Allar manngerðirnar þurfa á mismunandi nuddi og olíum að halda. Vata líkamsgerðin þarf sefandi olíur t.d. sesamolíu og nudd sem er ekki með of hröðum strokum, heldur róandi og slakandi og alls ekki djúpt. Pitta líkamsgerð þarf meðalhratt og meðal djúpt nudd með kælandi olíum eins og t.d. kókoshnetuolíu. Kaffa líkamsgerð þarf örvandi, djúpt nudd og örvandi nuddolíur og alls ekki þungar nuddolíur heldur olíur sem eru léttar t.d. vínberjafræolíu, (grapeseed) til að vega á móti öllum jarðareiginleikunum sem Kaffa býr yfir.

Þegar fólk kemur til mín í nudd og ráðgjöf þá fer ég yfir grundvallarþætti í Ayurveda heilsufræðinni, ef þess er óskað og met þarfir hvers og eins. Ég skoða heildarlífstíl fólks og reyni að finna út hverjar geta verið orsakir sjúkdóma eða ójafnvægis. Ég kenni einnig hugleiðslu og hvernig fólk getur örvað sína andlegu þætti. Það fylgir einnig með ráðgjöfinni um 36 síðna bæklingur um grunnþætti Ayurveda og hvernig þú getur nýtt þér fræðin í lífinu almennt.

Ein tegund af heilunartækni sem ég nota líka nokkuð er kölluð Sanjeevini og er tækni sem byggir á þeirri grunnhugmynd að í líkamanum og öllum líffærum sé ákveðin tíðni af orku. Þegar stíflur myndast eða tíðnin í líffærum breytist þá myndast ójafnvægi og það myndast/verða til sjúkdómar. Það sem þessi aðferð gerir er að hún stillir tíðnina og kemur lagi á líkamann og orkukerfið sem heild. Ákveðin tíðni af orku er sett í sykurpillur sem fólk síðan tekur inn og er þetta svipuð aðferð og hómópatar nota.

Kynntist Sai Baba
Ég hef farið þrisvar til Indlands og í öll þrjú skiptin dvaldi ég einnig í búðum kraftaverkamannsins Sai Baba og naut hans frábæru tilsagnar og nærveru. Indverjar segja að það hafi einu sinni áður gerst í skrifaðri sögu mannkyns að svo þroskuð vera hafi komið á jörðina og líkja honum við Guðinn Krishna.

Indverjar kalla þetta ,,poorna avatar” sem þýðir guðleg holdtekja. Ég legg ekki dóm á það en eitt er víst að margar gerðir Sai Baba líkjast kraftaverkum Krists, Búdda, Rama og Krishna. Hann hefur afar sterka nærveru og ég fann hvernig ég fylltist kærleika og þrá eftir að gera gott. Allur innri sársauki hvarf mér og líf mitt gjörbreyttist. Umsvif Sai Baba í hjálparstarfi eru afar fjölbreytt. Hann hefur byggt marga spítala sem eru með þeim stærstu í Asíu, rekur skólakerfi, sem er stærra en íslenska skólakerfið og allir fá menntun og læknisþjónustu á hans kostnað. Einnig hefur hann byggt ótal vatnsból því að þarna er víða mikill vatnsskortur á þurrkatímum. Með því að leiða vatn í pípunum í vatnstanka hefur hann hjálpað milljónum manna á Suður -Indlandi um drykkjarvatn.

Þetta risavaxna hjálparstarf Sai Baba er byggt á mannlegum gildum, andlegri kennslu, siðfræði, læknisfræði, viðskipta- og hagfræði. Hann segir að það skipti öllu máli að kenna siðfræði og andleg lögmál í samræmi við veraldlega þekkingu okkar. Þannig breiðir hann út boðskap sinn um heiminn og nú hafa sumar þjóðir tekið upp kennsluhætti hans. Í Bretlandi eru yfir hundrað skólar sem hafa tileinkað sér þá. Í dvöl minni á Indlandi kynntist ég konu sem var kennari og skólastjóri á Hawai. Hún sagði mér að þar hefði Sai Baba kerfið verið tekið upp og áhrifin af kennslunni um kærleikann og friðinn væru kraftaverki líkust. Ég hef sjálfur starfað dálítið í íslenska skólakerfinu og vorkenni börnunum hér á landi hve mikil áhersla er lögð á samkeppni og veraldleg gæði án áherslu á andleg mál.

Moksha
Það sem mér þykir reyndar mikilvægast í þessu öllu er að við sem einstaklingar og einstaklingsvitund verðum eitt með hinni alheimslegu vitund. Það er nákvæmlega það sama og Kristur, Búdda, Sai Baba og allir hinir meistararnir og Avatararnir eru að kenna okkur og færa okkur. Að við verðum eitt með Guði og öllu sem er. Kristur sagði að við værum öll Guðir (Jóh:10:34) og er það í raun hinn æðsti tilgangur þessa lífs, að við upplifum og verðum það sem við í raun og veru erum eða hið Guðdómlega sjálf.

Við sem fæðumst á þessa plánetu ákveðum að gleyma uppruna okkar til að við getum aftur skapað okkur og mótað okkur í þeirri æðstu ímynd sem við mögulega getum skapað um okkur sjálf. Æðsta ímynd sem er til er sjálfur Guð og það að upplifa einingu við Hana er í raun okkar rétta og eina markmið, þegar öllu er á botninn hvolft. Þess vegna koma meistarar og kenna okkur hina réttu leið. Við hinsvegar afbökum orð þeirra og reynum að búa til okkar eigin ímynd af veruleikanum. Við jafnvel trúum því illa sem sagt er um þá en eigum svo sannarlega erfitt með að meðtaka þennan sannleika sem ég var að tala um, að við erum öll Guðir og Gyðjur strax við fæðingu.

Minn sannleikur er sá að við eigum eftir, sem hópur, að vinna að því að upplyfta vitund okkar í þetta ástand þannig að heimurinn megi verða betri staður til að búa á, jörðin megi upplifa sannan frið og allt fólk verði hamingjusamt. Páll rekur miðstöð á Klapparstíg 12 í Reykjavík fyrir Sathya Sai Baba, vinnur sem Ayurveda nuddari, kennir fólki Ayurveda heilsufræði, Chi-Gong (kínversku lífsleiknina) og er Sanjeevini heilari. Hann er starfandi meðlimur í líknarfélaginu Bergmáli en Bergmál býður langveiku fólki til ókeypis orlofsdvalar á Sólheimum í Grímsnesi á vorin og á haustin ár hvert. Netfang páls er:pallerlendsson@hotmail.com

Vefföng:
American Institute of Vedic Studies:www.vedanet.com
Healthy living Ayurvedic Center:www.ayurvedan.co.uk
Sanathana Sai Sanjeevini:  www.saisanjeevini .org
Sathya Sai Baba:www.srisathyasai.org.in
www.sathyasai.org
www.sssbpt.org

Ingibjörg Sigfúsdóttir skráði árið 2004.



Flokkar:Annað

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , , ,