Lífsstíll og blómadropar

Ég hef um árabil kennt fólki að temja sér heilbrigða lífshætti, jóga og hugleiðslu. Ég framleiði einnig blómadropa sem hjálpar fólki að takast á við áföll og ótta, kvíða og streitu nútímans. Jóga er sú tegund heilsuræktar sem hvað mestra vinsælda nýtur á seinustu árum. Flestar heilsuræktarstöðvar bjóða upp á jóga og þá fleiri en eina tegund.

Ég kenni jóga í Kramhúsinu tvisvar í viku í hádeginu, auk þess að kenna tveimur til þremur hópum tvisvar í viku í Gerðubergi. Ég kenni einnig verðandi jógakennurum og nú nýverið útskrifaði ég þrettán nýja kennara eftir fjögurra mánaða nám og verklega þjálfun sem ég byrjaði með í Bláfjöllum í sumar. Þar vorum við lokuð inni í hálfan mánuð og byrjuðum í jóga klukkan sex á morgnana og vorum að fram á kvöld.

Hugmyndin á bak við þessa aðferð er sú að fólk lifi í jóganu; verði að jóga (sem þýðir í raun  eining), læri að hafi jóga sem lífsstíl, sem heilsurækt, sem andlega leið, jafnvel sem lækningaleið. Á námskeiðinu er mikið fjallað um það hvað jóga gerir fyrir líkama, tilfinningar og huga. Þau læra m.a. um jógastöður, öndunaræfingar, einbeitingaræfingar, hugleiðslu, jóga heimspeki, karma-jóga, asthanga-jóga, bhaktijóga, heilbrigðisfræði, anatominu, mataræði og síðan föstum við í tvo daga.

Til að verða jógakennari þarf fólk að vera tilbúið til að fara í gegnum umbreytinguna sem fylgir því að ástunda jóga sem lífsstíl, tilbúið til að elska nemendur sína sama hvernig þeir eru og vera alltaf nemandi sjálfur. Að sjálfsögðu þurfa verðandi jógakennarar að vera án vímuefna og það eru vinsamleg tilmæli að fólk hætti að reykja. Síðast, en ekki síst, þarf fólk aðhafa stundað jóga sjálft í hálft ár hjá viðurkenndum kennara og vera tilbúið til þess að ganga í gegnum þær breytingar sem jóga gerir á lífi þess – og það eru engar smá breytingar.

Gamlar minningar, gömul tilfinningasár
Hvað breytist? Lífsvenjur breytast, mataræði breytist og lífsviðhorfin svo eitthvað sé nefnt. Þann hálfa mánuð sem við dveljum í Bláfjöllum lifum við á grænmetisfæði auk þess að stunda föstu, við gerum mikið jóga og hugleiðum. Á þessum tíma kemur upp mikið af huldum tilfinningum vegna  þess að jóga losar um spennu og þegar spenna losnar í líkamanum koma upp gamlar minningar,  gömul tilfinningasár sem maður fer síðan að vinna með. J

óga kennir leiðir til þess að vinna með slík sár og losna undan þeim fjötrum sem fortíðin leggur á mann. Jóga hefur áhrif á hugann, líkamann og  á tilfinningarnar. Við verðum meira meðvituð um líðan okkar, hugsanir og líkama við að ástunda jóga. Svo þegar við byrjum að sækja inn á við í gegnum jógað þá finnum við það sem við höfum geymt með okkur en ekki endilega unnið úr. Það getur verið spenna daglega lífsins og áhyggjur sem kemur upp fyrst, svo förum við dýpra og þá koma upp tilfinningasárin úr bernskunni.

Við þurfum að fara í gegnum þetta t.d. með öndun, jógastöðum og tilfinningavinnu til að komast að varanlegum friði og þeirri hamingju sem við leitum að. Jógaástundun hefur í för með sér meiri gleði og frið og maður verður mun sáttari við sjálfan sig og líf sitt. Varanleg hamingja kemur inn í lífið okkar.

Við förum að skoða hvaða hugmyndir við höfum um lífið; hugmyndir sem eru ekkert endilega okkar eigin hugmyndir, heldur samfélagsins, foreldranna eða umhverfisins. Við verðum tilbúin til þess að endurmeta þær og skapa okkar eigin gildi, vera ábyrg fyrir tilveru okkar. Fyrir utan þetta allt styrkist líkaminn og hreinsar sig, athyglisgáfan eykst, minnið skerpist og maður þjálfar hugann í að vera undir stjórn eigandans. Ég kenni einnig hugleiðslu og er öðru hverju með Kundalini-hugleiðslunámskeið. Ég fer af stað með þau námskeið þegar nógu stór hópur hefur skráð sig. En hvað er Kundalini-hugleiðsla? Í Kundalini-hugleiðslu lærum við að virkja sköpunarorkuna til þess að endurskapa okkur sjálf, öðlast innri frið, varanlega hamingju og axla ábyrgð á okkur sjálfum.

Við skiljum betur hvernig dansinn milli jin og yang virkar í lífi okkar og hvernig við náum að lyfta okkur upp yfir andstæðurnar og dvelja í einingarvitundinni. Mér finnst merkilegast hvað Kundalini hugleiðslan hefur gefið mér mikla gleði og lífið hefur einhvern veginn fært mér svo mörg frábær tækifæri eftir að ég fór að ástunda Kundalini hugleiðsluna. Í henni byrjum við á að þjálfa athyglisgáfuna og beina sköpunarorkunni á ákveðna staði og þaðan rennum við saman við uppsprettuna sem sköpunarorkan kemur úr.

Íslenskar jurtir sterkari og kraftmeiri
Eitt af mínum sérsviðum er að framleiða blómadropa. Ég bý þá til sjálf úr villtum íslenskum jurtum. Ég er með um hundrað og tíu jurtir sem ég er búin að skilgreina og þróa og er að vinna með. En íslensku jurtirnar eru mun sterkari og kraftmeiri en gerist annars staðar og þess vegna eru íslensku blómadroparnir mun áhrifaríkari en þeir útlendu; virknin er meiri. Ég geri annars vegar „persónu“ blöndur sem er ætluð einstaklingum og hins vegar staðlaðar blöndur sem eru fyrir markaðinn. Þar hef ég búið til blöndur sem vinna inn á níu grunnþætti; Sjálfsöryggi sem hefur með öryggi í daglegu lífi að gera, allt sem snertir afkomu, húsnæði, fæði og klæði.

Ef við erum með áhyggjur af einhverju af þessu veikir það sjálfsöryggi okkar. Jurtirnar veita okkur orku til þess að finna leiðir út úr ógöngunum, því það eru alltaf leiðir. Stundum sjáum við þær hins vegar ekki vegna þess að það er of mikill ótti í okkur. Ég geri einnig slökunardropa sem hjálpa okkur til þess að slaka á keyrslunni, neyslunni, spennunni og stressinu. Síðan er ég með dropa sem heita Lífsorka. Í þeirri blöndu eru jurtir sem keyra upp orkuna okkar, veita henni inn í öll okkar kerfi og styrkja sköpunargáfu okkar. Hún örvar okkur til þess að skapa, að mála, eða skrifa, eða hvað sem er.

Hún kveikir upp sköpunarneistann og um leið kynorkuna. Hjartað veit oft betur Ég geri dropa sem ég kalla Vilja og tilgang. Þeir eru góðir fyrir þá sem vita ekki hvað þeir vilja og geta ekki tekið ákvarðanir. Þessir dropar eru líka góðir fyrir þá sem eru mjög stjórnsamir, til dæmis mömmur sem eru enn að reima skóna á tíu ára börn sín – og almennt fyrir fólk sem vill vel en er oft frekt og stjórnsamt.

Þegar maður er alltaf að reima skóna fyrir aðra, getur maður nefnilega ekki reimað sína eigin skó. Vilji og tilgangur hjálpa manni að átta sig á því sem er ,,gott fyrir mig“ í stað þess að vita alltaf hreint hvað er gott fyrir aðra og stjórna öllum öðrum en sjálfum sér.

Það merkilega er að þeir eru einnig góðir fyrir þá sem ekki vita hvað þeir vilja og hvert þeir eiga að fara með lífið sitt. Þeir hjálpa þeim sem eiga erfitt með að taka ákvarðanir. Næst koma Gleði og hlátur. Með þeim dropum er mikið komið inn gleði hjá fólki sem er sorgmætt, jafnvel örvæntingarfullt. Þeir hjálpa okkur að hlusta betur á hjartað – sem er ekki lítið atriði vegna þess að við á vesturlöndum erum svo föst í hausnum; hugurinn er svo fastur í skynseminni en hjartað veit oft betur.

Þegar við erum föst í huganum, hlustum við ekki á hjartað. Síðan eru það dropar sem ég nefni Alheimskærleiki. Þar erum við að vinna með eininguna, þjálfa okkur í að elska allan heiminn, eða sættast við það að geta ekki breytt honum en elska hann samt – og virða annarra manna sjónarmið – samt. Þetta er gott fyrir þá sem eiga erfitt með að viðurkenna ólík sjónarmið og eru vanastir því að sjá hlutina dálítið í svarthvítu.

Sköpunarkrafturinn virkjaður
Dropar sem ég nefni Helg tjáning eru góðir fyrir alla sem eiga erfitt með að tjá hverjir þeir eru. Það er ekki nóg að vita það, heldur þarf maður að geta tjáð það á þann hátt sem hentar hverjum og einum. Hvort sem við þurfum að segja „okkar“ sannleika, eða andmæla lygi, þá hjálpa droparnir okkur þar. Þetta eru góðir dropar fyrir listamenn, því hvað sem þeir eru að skapa, þá hjálpa droparnir þeim til þess að virkja sköpunarkraftinn og tjá hann út í listina sína.

Í dropum sem bera heitið Innsæi, erum við að læra að sjá hlutina í víðara samhengi. Þessir dropar virka vel fyrir fólk sem er kvíðið og hefur áhyggjur, þá sem haldnir eru ótta, og fælni, til dæmis ótta við drauga, þá sem þjást af svefnleysi vegna ótta og kvíða. Þeir veita traust á framvindu lífsins, traust á það að málin leysist – og lausnirnar komi til okkar. Jurtirnar í Skilningi hjálpa okkur til að sjá heildarmyndina, allt púsluspilið. Þá skilur  maður hvað þarf að gera og hvað þarf ekki að gera.

Þetta eru dropar fyrir þá sem eru ofurnæmir á umhverfi sitt og taka allt inn á sig. Þeir hjálpa þér að finna landamærin á milli þín og annarra, sjá á hverju þú berð ábyrgð og á hverju hinir bera ábyrgð. Það er til svo mikið af fólki sem fær sektarkennd yfir því sem aðrir gera. Þá vantar þessi landamæri.

Innri læknirinn í okkur öllum
Lífsbjörgin eru dropar sem maður er alltaf með í veskinu. Þeir losa um áfallaástand, hvort sem er líkamlegt, tilfinningalegt eða hugrænt. Sjokkástandi fylgir lokun. Þá hættir orkan að flæða en þegar þú tekur dropana fer heilunin aftur af stað. Ef þú snýrð, til dæmis, á þér ökklann, geturðu borið þessa dropa á hann og orkan byrjar strax að flæða. Þeir flýta fyrir heiluninni vegna þess að þeir vekja innri lækninn sem býr í okkur öllum og hvetur hann til dáða.

Ef það er einhver spenna í mér nota  ég þessa dropa. Og þegar maður er að ganga í gegnum mikla álagstíma, er mjög gott að setja dropa í vatnið sitt eða bera þá á sig á húðina nærri innkirtlum. Ég nudda blómadropunum á húðina, setja þrjá dropa undir tungu, setja þá í vatn og drekka og hægt sé að þynna þá enn meira með því  að setja 21 dropa í 30 ml flösku og taka af því sjö dropa þrisvar sinnum á dag. En hvers vegna að þynna þá? Því þynnri sem þeir eru, því dýpra virka þeir og þeim mun rótgrónari vandamál vinna þeir með. Þetta er ævagömul hómópataaðferð; því þynnri sem blandan er, því fíngerðari er orka jurtarinnar og þess vegna nær hún inn á enn fíngerðari eðlisþætti okkar.

Við berum ábyrgð á okkar eigin heilsu og líðan okkar. Þegar við höfum áttað okkur á að þetta með ábyrgðina er undir okkur sjálfum komið hvernig okkur líður og það hefur ekkert með annað fólk að gera, þá fara frábærir hlutir að gerast í lífi okkar. Þá er eins og sálin fari að ryðja af sér gömlu hindrununum og blekkingunum og við byrjum að öðlast frelsi frá skoðunum, væntingum og viðhorfum okkar sjálfra sem eru svo oft skilyrt og samandragandi. Við það kemur inn gleðin yfir þessu kraftaverki sem lífið er, við sjáum fegurð og góðleika allstaðar og tengingin við æðri mátt eða Guð okkar verður sterk og gefandi.

Höfundur: Kristbjörg Kristmundsdóttir grein skrifuð árið 2004Flokkar:Greinar og viðtöl

%d