Verkjahvetjandi matvæli (um MSG eða þriðja kryddið)

Síðastliðinn vetur (2003) lá leið mín á þriggja daga námskeið um verki og verkjameðferð í Endurmenntun Háskóla Íslands.

Námskeiðið var ætlað fagfólki í heilbrigðisgeiranum, en þó opið öðrum. Margir góðir fyrirlesarar komu fram og fluttu gagnlega fyrirlestra um þetta erfiða vandamál og hugsanlegar úrlausnir með eða án lyfja. Einn merkilegasti fyrirlesarinn að mínu mati var prófessor í lífeðlisfræði. Fyrirlesturinn fjallaði um boðbera þjáninga, þ.e. þau taugaefni og hormón í líkamanum sem stuðla að verkjum, því það er jú líkaminn (eða hugurinn) sjálfur sem framkvæmir verkina. Þeir koma ekki utan frá.

Ég rak augun strax í eitt taugaefnið, glútamat (amínósýru) sem er eitt þeirra efna sem orsaka bólgur og verki. Ég vissi áður að glútamat væri til staðar í líkamanum, en nú fékk ég skýringu á virkni þess. Það er hreinlega einn af boðberum þjáninga í líkama okkar. Hvað gerir þá monosodium glutamate (MSG) í matvælum, öðru nafni þriðja kryddið eða E-621? Það sama? Er MSG að ýta undir krankleika og verki? Áreita það sem við erum að reyna að lækna?

Ef við erum með verki þá framleiðir líkaminn of mikið af eigin glútamati og við bætist síðan annar skammtur af því í matvælunum. Erum við sem sagt að magna upp verkina í okkur með því að neyta MSG í matvælum? Kaffi hressir ekki bara upp á geðið heldur líka verki, sagði sjúkraþjálfari mér um árið og taldi að fólk með verki ætti að takmarka kaffidrykkju sína.

Þetta á einnig við um MSG. Það þarf að takmarka það í fæði okkar. Í framhaldi af þessari „hugljómun“ minni á námskeiðinu ritaði ég bréf til prófessorsins og vakti athygli á MSG í matvælum. Velti því fyrir mér hvort ekki væri kjörið að koma á samstarfi milli matvælaeftirlitsdeildar Umhverfisstofnunar og lærðra manna eins og hans til að kanna þetta nánar. Sendi svo ljósrit af þessu bréfi mínu til Umhverfisstofnunar, sjúkrahúsa og meðferðarstofnana í heilbrigðisgeiranum um land allt til að vekja athygli á málinu.

Ég fékk vinsamlegt svar frá prófessornum um að ekki væri útilokað að monosodium glutamate, eða MSG, sem bætt er í mat gæti valdið eitrunaráhrifum.

Hann minntist á svonefnd ,,kínamatar-einkenni“, sem eru stífur hnakki og brjóstverkir. Rannsóknir sýna einnig að nýgotnir rottuungar verða fyrir varanlegum heilaskemmdum af völdum MSG. Allt þetta þyrfti að rannsaka mun betur áður en fullyrðingum væri slegið fram. Þegar öllu er á botninn hvolft er í raun best að útbúa matinn sinn sjálfur úr fersku kjöti, fiski, grænmeti og öðru fersku hráefni en ekki borða ,,mat í myrkri“ eins og einhver komst að orði. Þá ættu mötuneyti sjúkrahúsa og annarra stofnana sem hlúa að sjúkum einstaklingum að einsetja sér að bera ekki fram mat sem getur aukið á þjáningu þeirra.

Til glöggvunar fyrir neytendur þá gengur MSG undir ýmsum nöfnum og heitum í innihaldslýsingum: E-621, glutamate, texture protein, mono potassium glutamate, glutamate acid, natural pork flavouring, natural beef flavouring, natural chicken flavouring, flavour enhancer og margt fleira. Ég bendi fólki á að fara á Netið og slá inn MSG og skoða þar upplýsingar um þetta efni og áhrif þess á líkamann og sjúkdóma.

Höfundur: Sigfríð ÞórisdóttirFlokkar:Reynslusögur

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , , ,

%d