Baráttan um vítamínin

Þeir sem fylgjast með fréttum af heilsufari fólks og viðskiptum í kringum þann nauðsynlega þátt mannlífsins, hafa án efa tekið eftir átökunum milli þeirra fagmanna sem telja vítamín harla lítils virði fyrir heilsu fólks og jafnvel hættuleg efni – og svo hinna, sem telja vítamín allra meina bót ef ekki heilsufræðileg undraefni. Og við í okkar litla landi þekkjum vel til þeirra einstaklinga, sem hafa lagt sig í líma við að boða almenningi hvorutveggja ,,sannindin“.

Auðvitað sveigist opinbera línan hérlendis enn sterkar í þá átt að líta niður á vítamínin og telja þau nánast óþarfa bruðl. Eða eigum við e.t.v. að segja að það séu meiri peningar á bak við þá markaðsetningu? Og opinbera viðbáran er ávallt sú að einhverjir græði ósköp á því að selja vítamín til trúgjarns almennings, sem auðvitað er ekki fær um að mynda sér sjálfstæða skoðun! Þess konar gróðastarfsemi sé glæpsamlegt athæfi. – Minna er talað um það hvernig risastóru lyfjafyrirtækin græða ótrúlegar upphæðir á oft algerlega gagnslausum eða jafnvel skaðlegum lyfjum, sem sífellt kemur betur í ljós Það er alveg óhætt að nefna dæmi um þetta:

Tökum svissneska fyrirtækið Hoffmann La Roche, sem er landanum nú vel kunnugt. Það framleiðir t.d kvíðavarnar/ deyfilyfið Valíum fyrir 250,- krónur kílóið. Það selur síðan hvert kíló áfram til dreifingar fyrir 1,5 milljón króna og þegar viðskiptavinirnir eru búnir að taka við kílóinu er greiðslan fyrir það orðin 3,75 milljónir króna! Svipað gerir þetta sama fyrirtæki með C vítamín. Framleiðslan á því kostar aðeins sáralítið á hvert kíló en það er selt til almennings með tæplega tíu þúsund prósent álagningu! M.a. með því gera ólöglegt verðmyndunar samkomulag við fyrirtæki eins og BASF – en bæði þessi fyrirtæki hafa nú verið dæmd til að greiða tæpa 60 milljarða króna í sekt fyrir það lögbrot í Bandaríkjunum.

Og BASF seldi lyfjaframleiðsludeild sína síðan til annarra. Á hinn bóginn er enginn vafi á því að sú aukning í sölu vítamína, sem skapar nú öðrum framleiðendum en bara lyfjarisunum líka stórgróða, á hvorutveggja rætur sínar í vísindarannsókn fáeinna vísindamanna á fyrirbyggjandi lækningamætti vítamína. En um leið á áhuga almennings að gera eitthvað sjálfur fyrir heilsu sína. Því ekki hafa læknar ráðlagt honum notkun á vítamínum – þvert í mót! Og árangur þessara sjálfsfrumkvæðisviðskipta reynist svo jákvæður að nú er svo komið að lyfjarisarnir vinna ötullega að því að fá ríkistjórnir í mörgum löndum og stofnanir þeirra til þess að hækka framleiðslukröfur á vítamínum það mikið að þeir einir sitji að framleiðslunni. Og geti þá um leið hækkað verðið á þeim enn meira! –

Þetta er gert undir yfirskyni neytendaverndar eins og ávallt. Allt segir þetta okkur sína sögu um viðskiptaheiminn á bak við heilsufar fólks. Þar eru enn ýmsar skuggamyndir á ferli og alger nauðsyn að lesa fleira en dagblöðin hér á landi til þess að mynda sér heilbrigða skoðun á því sem þar er framkvæmt í trássi við hagsmuni eða heill almennings. En hvað varðar það magn sem má/þarf að taka inn af vítamínum daglega þá er best að vitna hér í föður læknisfræðinnar Paracelus, en sá vísi maður sagði: „Öll efni geta verið hættuleg manninum en það er einfaldlega magnið sem tekið er inn sem ræður úrslitum“. Sem dæmi um það sem tekist er á um má nefna dagskammt af C vítamíni sem er þá á milli 80 og 2000 mg. Eða magn í hlutfallinu einn á móti tuttugu og fimm. Fyrri talan er frá árinu 1930 og var ákveðin upphaflega af landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna! Flestir ofstækislausir fagmenn eru nú sammála um það að sú tala sé alltof lág.

Enda mjög misjafnt hve mikil þörfin er fyrir hvern einstakling m.a. vegna þeirrar fæðu sem hann neytir. Reykingafólk þarf t.d. að taka inn 100 mg á dag bara til að vinna á móti því tapi á C vítamíni sem reykingarnar valda líkamanum. Margir telja nú að um 500 mg af C vítamíni á dag sé mun öruggari dagskammtur. Aðrir halda sér við 1000 mg – en í vissum tilfellum er 2000 mg eða 1000 mg tvisvar á dag gagnlegur skammtur. Það er hins vegar erfiðara að ákveða hve mikið hver og einn einstaklingur þarf, t.d. mismikið á hverjum árstíma. En eigin könnun á því stig af stigi er besta fyrirkomulagið. Og ekkert af þessu inntökumagni C vítamíns hefur neinar aukaverkanir – hvað þá eitureinkenni í för með sér, eins og nær hvert einasta lyf hefur og þykir læknisfræðilega eðlilegt á okkar dögum!

Einn þeirra einstaklinga sem varði áratugum í miklar vísindalegar tilraunir með fyrirbyggjandi lækningamátt C vítamíns var dr. Linus Pauling. Hann var tvöfaldur Nóbelsverðlaunahafi en á öðrum sviðum en í læknisfræði. Á árunum 1988 til 1991 vann hann m.a. með þýska lækninum dr. Matthias Rath við umfangsmiklar tilraunir með C vítamín í sambandi við hjarta og æðasjúkdóma að frumkvæði þess síðarnefnda. Lesendur Heilsuhringsins hafa áður lesið um þetta merkilega samstarf en það fólst í stuttu máli í þessu: Árið 1991 birtust niðurstöður rannsóknar þeirra og voru þeim gerð mjög góð skil í fjölmiðlum Þýskalands á þessum tíma. Í mjög stuttu máli fólust þær í því að flestir hjarta og æðasjúkdómar séu í grunninn orsakaðir af langtímaskorti á vítamínum þ.á.m. C vítamíni. Þar er átt við áratuga skort. Fyrirbyggjandi lækning er því fólgin í því að taka reglulega inn meira C vítamín en áður. Þetta er ekki minni uppgötvun en sú þegar skyrbjúgur var læknaður fyrir um 150 árum með því að taka inn um 80 mg af C vítamíni á dag. Ekki síst vegna þess að í dag orsaka hjartasjúkdómar hæstu dánartíðnina á Vesturlöndum.

En aðeins fáum vikum eftir að þessi frábæra uppgötvun var kynnt í þýska sjónvarpinu var gerð fyrsta lagabreytingin á þýsku lyfja-lögunum frá upphafi Sambandsríkisins Þýskaland. Það var Helmut Kohl sjálfur, þá forsætisráðherra eða kanslari sem kom þessum lagabreytingum í gegnum þingið. Þar með sögðu lögin að nú væri bannað að dreifa upplýsingum um heilsuvirkni vítamína! Helmut Kohl tryggði þar með að áframhald yrði á hjarta- og æðasjúkdómunum almennings í Þýskalandi og raunar víðar. En hann tryggði þó einkum áframhaldandi sölu á rándýrum gervilyfjum við hjartasjúkdómum! – Síðan þetta gerðist hefur svo komið betur í ljós hvaða karakter sá maður hefur að geyma. En pólitískur ferill hans hófst einmitt með einbeittum stuðningi BASF í Ludwigshafen. Og hann var þá einmitt starfsmaður þess fyrirtækis! Er það tilviljun að BASF hefur grætt milljarða árlega á sölu á lyfjum við hjartasjúkdómum? Síðan þetta gerðist fyrir ellefu árum hefur dr. Matthias Rath haldið áfram baráttunni fyrir því að almenningur fái – þrátt fyrir allt – vitneskju um vísindakenningar hans og Paulings. Að almenningur geti notfært sér þær til að bæta eigin heilsu.

Hann hefur nú skrifað nýja bók sem heitir: „Hvers vegna fá dýr ekki hjartaáföll – en við menn? Árangursríkasta hjarta-og æðakerfis heilsumeðferð í heimi. -Undirtitill: Náttúrleg vörn og styrkjandi meðferð við blóðstreymis truflunum, hjartaáfalli, heilaáfalli, æðaskaða vegna sykursýki, háum blóðþrýstingi, hjartaveiklun, hjartsláttartruflunum og öðrum hjarta- og æðasjúkdómum“. Meginmarkmið hans er ekki aðeins að koma vísindalegum niðurstöðum til skila á lýðræðislegan hátt til almennings – í trássi við peningaöfl sem notfæra sér sjúkdóma almennings í gróðaskyni í skjóli við keypta fjölmiðla. Hann hefur sett sér það markmið að útrýma endanlega dauðavaldinum hjartasjúkdómum á tuttugustu og fyrstu öldinni. Vitaskuld er erfitt að trúa því að slík mannvonska sé til – en peningagróðinn lokar hér sem víða annars staðar öllum skynfærum – og réttlætir nánast hvað sem er.

Sumarið 2000 var haldin í Berlín sjöunda alþjóðaráðstefna svokallaðrar sérfræðinganefndar -Codex Alimentarius – sem er nefnd á vegum heilbrigðis-og næringarstofnana Sameinuðu þjóðanna. Af 18 fulltrúum nefndarinnar eru 16 á vegum lyfjarisanna. Og samt er þessi nefnd að taka ákvarðanir á leynilegan hátt um heilsu alls mannfólksins á jörðinni um alla framtíð. Þau lönd sem eru meðlimir í Sameinuðu þjóðunum eru neydd til þess að vera með í þessum hrunadansi, en kveðið er á um há sektarákvæði ella. Markmiðið er að gera vítamín og önnur fæðubótarefni að lyfjum undir yfirskyni neytendaverndar.

Um leið verða þau dýrari og jafnvel ekki fáanleg nema með lyfseðli. Heilbrigðisráðuneytið okkar undir stjórn Framsóknarflokksins hefur einmitt illu heilli undirbúið jarðveginn á Íslandi fyrir þessa breytingu með nýjum reglugerðum um markaðsleyfi fyrir fæðubótarefni. Skoðum næst hve margir hafa látist af völdum inntöku vítamína og fæðubótaefna? Án slíkrar raunverulegrar neikvæðrar niðurstöðu er allt tal um neytendavernd aðeins hlægilegur fyrirsláttur. Ekki er vitað um eitt tilfelli þar sem vísindalega er sannað að vítamín hafi valdið dauða manneskju. Á móti kemur að aðeins á einu ári – frá apríl 1998 til maí 1999 – tilkynnti FDA – fæðu- og lyfjaeftirlitsstofnun Bandaríkjanna um 439 þúsund dauðsföll beinlínis af völdum lyfja – þar af 522 af völdum Viagra pillunnar frægu.

Tilgangur Codex Alimentarius nefndar Sameinuðu þjóðanna er auðvitað eingöngu sá að auka gróða lyfjarisanna – ekki að bæta heilsu fólks. Þetta er því glæpsamlegt athæfi og ætti að vera nægileg ástæða til að kalla samstundis á rannsókn saksóknara. En þar sem ekkert yfirvald nær yfir þessar gerðir Sameinuðu þjóðanna þá gerist harla lítið. Heilsusamtök um allan heim berjast þó á móti þessum áformum og hér kemur dr. Matthias Rath vissulega við sögu. Sumarið 2000 fjallaði nefndin um þrjá þætti:

1) Að banna dreifingu á upplýsingum um heilsuvirkni vítamína hvar sem er á jörðinni, auk amínósýra, steinefna og annarra náttúrulegra efna.

2) Að banna sölu á vítamínum og öðrum náttúruefnum í inntökustærðum sem nefndin ákveður. Dagskammtar hennar eru auðvitað alltof lágir. – 3) Þau lönd sem fara ekki eftir þessari reglugerð taka þetta ekki upp sem landslög – skal beita efnahagsþvingunum. Í júnímánuði 2000 mátti sjá risastór veggspjöld um alla Berlín á vegum dr. Rath þar, sem mótmælt var fyrirhuguðum áformum Sameinuðu þjóðanna: ,,EKKERT BANN Á VÍTAMÍN“ stóð þar og síðan: ,,STÖÐVUM LYFJASAMSTEYPUNA“.

Ekki eitt einasta dagblað eða aðrir fjölmiðlar í borginni könnuðu hvað hér var á ferðinni. Annað hvort af þekkingarleysi eða vegna fyrirmæla ritstjórnanna. En auglýsingin virkaði samt sem áður því um milljón manns snéru sér til dr. Rath og hans fólks og kynntu sér málið í hörgul. – Í júlí og ágúst kom svo næsta auglýsing sem er einnig á veggspjöldum um allt Þýskaland þar sem dr. Rath þakkar fyrir sig. Bók dr. Rath getur komið mörgum manninum til  góða. Þar eru birtar ráðleggingar hans til fólk varðandi alla hugsanlega hjarta og æðasjúkdóma, auk ýtarlegra klínískra lýsinga á orsökum þessara sjúkdóma samkvæmt nýjum rannsóknum hans.

Í örstuttu máli sagt meðhöndlar hann sjúklinga sína með frábærum árangri á þann hátt að styrkja æðveggina, en ekki með því að berjast á móti kólesteróli. En aukingu á þeim margnefnda „bölvaldi“í blóðinu telur hann vera hliðaráhrif – m.a. frá lifrinni sem reynir að gera gott úr ástandi orsökuðu af veikluðum æðaveggjum – en ekki vera raunveruleg orsök hjartasjúkdóma. Full ástæða væri til þess að þýða þessa bók dr. Matthiasar Raths á íslensku, svo að hún komi landsmönnum líka að gagni. Í Þýskalandi hefur hún vakið mikla athygli meðal almennings meðan fjölmiðlar þegja þunnu hljóði.

Ánægjulegt er þó til þess að vita að skoðun almennings er enn við líði í Þýskalandi án stuðnings fjölmiðla. En saga þýsku þjóðarinnar er á köflum það döpur og lifir það vel í minninu að almenningur er mikið til hættur að láta ljúga að sér hér. Hvort sem það er reynt með hreinni lygi eða með því að þegja um staðreyndir -eins og því miður er vaninn í okkar smáa ríki. Og hér eru hæg heimatökin því erlend tungumál lesa því miður alltof fáir landsmenn. Baráttan um vítamínin heldur áfram. Það sem gerir hana einkar athyglisverða er það að hún varpar ljósi á það ,,sem koma skal“ í venjulegum lýðræðisríkjum á tuttugustu og fyrstu öldinni. Stjórnmálamenn kosnir af almenningi – fulltrúar lýðveldisins í fáein ár – skulu ekki lengur ákveða þá lagasetningu þar sem neysla almennings kemur við sögu. Sú lagasetning kemur á silfurfati frá nýjum valdhafa sem hefur náð sínu valdi án kosninga – og án lýðræðis : Þeim fulltrúum alþjóðavæðingarinnar sem beita ofurgróða sínum til að kaupa sér þær reglur sem þeir telja eigin hag fyrir bestu. Um leið kaupa þeir fjölmiðlana sem láta allt óbirt sem hindrað gæti gróða þeirra. –

Hið ótrúlega hefur gerst: Sjálfum Sameinuðu þjóðunum er misbeitt á móti almenningi! Eða er það bákn orðið svo flókið að hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri gerir? Ekki síst vegna þessa ástands vil ég að síðustu ráðleggja fólki að lesa sér vel til um hagsmuni sína m.a. á heilsufarssviðinu áður en það tekur allt trúanlegt sem að því er rétt í nafni upplýsingar fjölmiðla, stofnana og yfirvalda. Það kostar vissulega meiri vinnu – en nú er sem betur fer kominn nýr fjölmiðill – Netið – þar sem upplýsingar um hvaðeina er að finna. – Þetta er auðvitað erfitt ef maður er hamlaður af aðeins einu tungumáli – þ.e. íslenskunni. En eins og heimurinn er að verða í dag er það nánast eins og að vera ólæs að kunna ekki a.m.k. ensku sér til upplýsingaöflunar. – Ég vil svo óska Heilsuhringnum alls hins besta og þakka blaðinu fyrir innlegg þess í að upplýsa fólk um það sem aðrir fjölmiðlar birta ekki.

Einar Þorsteinn  Ásgeirsson  Berlín árið 2001  Einar Þorsteinn lést árið 2015



Flokkar:Fæðubótarefni

1 Svar

Trackbacks

  1. Samantekt greina eftir Einar Þorsteinn Ásgeirsson hönnuð. – Heilsuhringurinn
%d