Hló frá sér sjúkdóma og þunglyndi

Rætt við Bjarna Þór Sigurðsson um heilsubætandi áhrif hláturs
Eins og fleiri ungir menn fór Bjarni Þór í nám í húsasmíði í sínum heimabæ Akranesi og vann síðan við sitt fag um hríð eða þar til hann varð óvinnufær vegna veikinda í baki. Í framhaldi af því fékk hann ber í eista. Sem betur fór reyndist það góðkynja, en veikindin og læknismeðferðir tóku svo stóran toll af sálarró hans að það tók að sækja á hann þunglyndi og fælni á ýmsum sviðum jókst. Til að kóróna ástandið hneigðist hann svo til of mikillar áfengisneyslu.

Hann hafði ekki flogið í 12 ár vegna flughræðslu og segist hafa stigið stórt skref þegar hann ákvað að sækja námskeið hjá Flugleiðum til að læra að takast á við flughræðslu. Svo fluttist hann búferlum til Noregs þar sem hann kynntist hlátursnámskeiðum Fransicku Munch sem hefur kennt hláturstækni í Noregi frá árinu 1996. Fyrirmynd að námskeiðum Fransicku eru mámskeið Indverjans dr. Madan Kataría sem hóf að kenna hlátur til heilsubótar á Indlandi árið 1995.

Bjarni Þór segir það hafa verið sitt stóra happ að kynnast þessari hláturstækni, því að hlátur veiti mikla vellíðan og slökun og honum hafi tekist að nýta sér þessa tækni til að sigrast á þunglyndinu og takast glaður á við það sem mæti honum í lífinu. Hann þakkar líka góðum leiðbeinendum á námskeiðinu hjá Flugleiðum, sem kenndu honum að takast á við fælni af ýmsu tagi auk flughræðslu. Bjarni Þór stundar kennslu í hláturstækni og hefur nú þegar haldið nokkur námskeið hérlendis Hér fer á eftir viðtal við Bjarna Þór.

Á námskeiðum mínum kenni ég ýmsar æfingar sem kitla hláturstaugarnar, einnig fjölbreyttar líkamsæfingar til að losa um og slaka á, þær gera okkur glaðari og opnari. Við þurfum að leyfa okkur að vera börn aftur. Að meðaltali hlær barn fjögurhundruð sinnum á dag, en fullorðinn fimmtán sinnum. Það geta allir hlegið, þar er enginn aldursmunur. Það er sama hvaða þjóðfélagshópi við tilheyrum eða hvernig við erum á litinn.

Jákvæð hugsun skiptir miklu máli, fólk þarf að venja sig á að hugsa jákvætt og tala jákvætt. Um það má lesa í bókinni Hjálpaðu sjálfum þér, eftir Louise Hay. Hún útskýrir þar hvernig neikvæðar hugsanir valda sjúkdómum og hvernig hægt er að lækna sjúkdóma með því að breyta hugsun sinni. Fólk spyr mig, ertu skemmtilegur fyrst þú getur hlegið svona? En í rauninni er það ekki forsendan heldur er ég búinn að læra að nota hláturæfingar til að vekja hlátur minn og af því verð ég ósjálfrátt skemmtilegur. Það er miklu skemmtilegra að umgangast glatt fólk.

Rannsóknir hafa sýnt að hlátur víkur burtu þunglyndi, það sannar sig í mínu tilfelli. Hann vinnur líka vel gegn streitu, því hef ég einnig reynslu af. Ef ég finn fyrir álagi og óþægilegri spennu geri ég hlátursæfingar og undantekningarlaust líður mér betur á eftir, því að hláturinn veitir alveg ótrúlega mikla slökun.

Eitt stærsta verkefni sem við tökumst á við í lífinu er að lynda við og komast af við okkar nánustu. Hjónaskilnaðir og upplausnir heimila er mikið vandamál hérlendis eins og víðar í heiminum. Vandamál fólks eru mörg og trúlega er hægt að segja að það sé enginn maður í heiminum laus við vandamál. Það þarf að kenna börnum hvernig hægt er að sjá bjartar hliðar á dökkum hliðum lífsins og hvernig hláturinn getur dregið úr áhrifum streitunnar. Þegar það hefur lærst er miklu auðveldara að takast á við vandamálin. Sagt er að það sem við köllum „vandamál“ séu kringumstæður sem við höfum ekki lært að takast á við.

Á mínu heimili er iðulega slökkt á sjónvarpinu og teknar tuttugu mínútna hlátursæfingar í staðinn fyrir að horfa á lélegt sjónvarpsefni og við fáum öll ómælda vellíðan á eftir, gagnstætt þeirri vanlíðan, sem getur fylgt því þegar horft er á glæpamynd eða þann hrylling sem oft kemur fram í fréttunum. Ung kona sem ég þekki þjáðist af þunglyndi og hafði haft anorexíu sem unglingur. Hún hlustaði og horfði mikið á fréttir, svo tók hún eftir því að þessar neikvæðu fréttir sem sífellt dynja á okkur ollu henni miklum kvíða. Hún hætti að mestu að fylgjast með fréttum og losnaði þannig við þessa vanlíðan og þunglyndi án lyfja. Sjálfur takmarka ég mjög hlustun á fréttum, því að ég finn hve neikvæðar fréttir draga sálarlífið niður.

Ég er búinn að leita mikið að lesefni um hlátur á íslensku en hef lítið fundið, aftur á móti er ekki hörgull á slíku í Noregi, þar hef ég lesið allt sem ég hef náð í um heilsubætandi áhrif hláturs. Það er gaman til þess að vita að heilbrigðisþjónustan er sífellt að verða meðvitaðri um hve glaðlyndi og hlátur skipta miklu máli í meðferð sjúklinga. Ég fann það á Internetinu þegar ég fór inn á http://www.hlatur.is  að íslenskur læknir að nafni Bjarni Jónasson sem er nú varaforseti ,,Nordisk selskap for medisinsk humor“ hafði hitt úti í Viðey norskan lækni að nafni Sven Svebak og það kom í ljós að báðir höfðu mikinn áhuga á að fá gleði inn á sjúkrahúsin, sem leiddi svo til stofnunar þessa félags.

Eitt sjúkrahús í Svíþjóð er búið að fastráða tvo trúða til að vekja gleði hjá börnum því að fundið hefur verið út að börnum batnar fyrr sé gleði þeirra vakin. Mörg sjúkrahús í Bandaríkjunum hafa undanfarin ár gert slíkt hið sama. Bandaríkjamaðurinn Patric Adams ætlar að stofna ,,grínspítala“ í Virginíufylki. Hann leggur mikla áherslu á að fólk geri sér grein fyrir mikilvægi lífsgleðinnar fyrir andlegt og líkamlegt heilbrigði. Hann segir fólk geta talað tímum saman um verki og veikin i en sé það spurt um það gleðilega í lífinu sé minna um svör.

Í Bretlandi stofnaði Robert Holden ,,hláturshús“ árið1991. Hann stjórnar nú námskeiðum um ást, hlátur, hamingju og lífsgleði, sem kallast Hamingjuverkefni. Norman Cousin er þekktur fyrir að hafa árið 1978 skrifað bókina ,,Anatomy of an illness“ Þar sem hann fjallar um áhrifamátt hláturs á sjúkdóma af eigin reynslu. Indverjinn Madan Kataría, sem í upphafi er getið, skrifaði í heilsutímaritið ,,Your own doctor“ um margar vísindalegar rannsóknir sem sýna að hlátur er heilsubætandi. Hann gerði ýmsar tilraunir með vinum sínum og fann að endingu upp aðferðir til að þjálfa hláturtaugarnar.

Fyrir u.þ.b. hálfri öld heyrðist oft spiluð hlátursplata í Ríkisútvarpinu, hláturinn var svo smitandi að þeir sem hlustuðu fóru ósjálfrátt að skellihlæja. Nú eru áratugir síðan þessi skemmtilega plata heyrðist síðast í útvarpinu.

Hlátur er lífsgleði í verki.
Hlátur eykur fjölda hvítra blóðkorna sem síðan styrkja ónæmiskerfið. Hlátur eykur magn endorfíns í líkamanum, sem er verkjalyf móður náttúru. Hlátur eykur getu lungna til súrefnisupptöku. Hlátur eykur blóðstreymi til innri líffæra og bætir meltinguna. Hlátur vinnur gegn stressi, pirringi, þunglyndi, fælni og svefnleysi. Hægt er að finna upplýsingar á netinu um fyrirtæki Bjarna Þórs á slóðinni: http://www.mamut.com/lifleikur , netfangið er: lifleikur@hotmail.com

Ingibjörg Sigfúsdóttir skráði 2001.Flokkar:Reynslusögur

%d bloggers like this: