Það eru liðin mörg ár síðan ég sá í norsku heilsutímariti umfjöllun um jarðsegulsvið (jarðárur öðru nafni) og rúmdýnur. Greinarhöfundurinn benti á það að í rúmdýnum með járngormum (fjöðrum) hlæðust upp geislunarsvið ef hús stæðu þar sem jarðsegulbylgjur væru í jörðu. Sagt var að þessar bylgjur hefðu skaðleg áhrif á heilsu fólks, sem gæti komið út í svefntruflunum, verkjum í líkamanum og gigt. Talið var að fáir vissu um þennan orsakavald, því leitaði fólk almennt annarra orsaka fyrir veikindum sínum. Í greininni var hallast að því að besta lausnin væri að sofa á svampdýnu, því að jarðsegulsvið hlæðist ekki upp í svampi á sama hátt og í járni. Eftir þetta fór ég að safna saman þeim fróðleik sem á fjörur mínar rak um áhrif jarðsegulbylgja á svefn og heilsu fólks. Fljótt komst ég að því að umfleiri vágesti var að ræða, má þar nefna bylgjur og geisla frá rafmagni, gervihnattadiskum, örbylgjuloftnetum, GSM móðurstöðvum, ljósleiðurum ofl.
Ég kynntist Þorsteini heitnum Guðlaugssyni, sem mikið var búinn að kanna áhrif ósýnilegra geisla á svefn og heilsu fólks. Hann sagði að eftir því sem þjóðin yrði tæknivæddari kæmu fleiri áreiti úr umhverfinu, sem trufluðu okkur. Hann sýndi mér fram á það að fótkuldi hjá heimilisfólki mínu hvarf eftir að hann herti upp rafmagnstöfluna í húsinu. Svefntruflanir, sem angraði suma á heimilinu, sagði hann stafa af sendingum frá gervihnattardiski er snéri að heimili mínu. Hann vafði upp koparvír (rafmagnsvír) sem hann kom fyrir í tré úti í garði, eftir að hafa fundið út með prjónunum hvar geislarnir komu inn í húsið. Og viti menn á eftir það svaf fólk vært. Ótal margt fleira fann hann út með prjónunum sínum og bætti með aðgerðum sínum líðan heimilisfólksins.
Mér kom mest á óvart hverju hann svaraði þegar ég spurði hvort hann gæti ímyndað sér hvað orsakaði óþægindi og pirring í öðrum handlegg mínum. Hann kom með prjónana og hélt þeim yfir höfðinu á mér. Eftir skamma stund sagði hann: ,,Það er trúlega vegna geislunar sem bolurinn sem þú ert í gefur frá sér“. Ég varð alveg undrandi því skömmu áður hafði ég keypt bolinn og hélt að í honum væri 100% bómullarefni. Þegar að var gáð var glansandi líning í hálsmálinu úr öðru efni, sem gaf frá sér geislun sem prjónarnir námu og sýnist hafa valdið mér þessum vanda því þegar ég hætti að nota bolinn hurfu óþægindin alveg eftir tvo eða þrjá daga. Mörgum árum seinna varð ég fyrir svipuðum óþægindum í öðrum handleggnum. Þegar það var búið plaga mig í nokkra daga áttaði ég mig loks á að orsökin var af sama toga og forðum. Semsé gerviefni í um hálsinn.
Leitað að góðri rúmdýnu
Með þessa vitneskju var mér vandi á höndum þegar kom að því að ég þurfti að kaupa nýjar dýnur í hjónarúmið. Ég ákvað að biðja Ingibjörgu Ágústsdóttur (ekkju Þorsteins Guðlaugssonar) að koma með mér í dýnuleit með „prjónana sína“ og kanna hvaða dýnur væru lausar við óæskilega geislun. Ég hafði ekki áttað mig á því fyrr hve margar verslanir selja rúm og dýnur í Reykjavík. Við fórum í sjö búðir og vorum hissa hve okkur var alls staðar vel tekið því að fáir höfðu heyrt um það að ósýnilegt rafmagn og geislar frá umhverfinu gætu hlaðist upp í fjaðradýnum og valdið notandanum óþægindum, jafnvel heilsutjóni.
Það var ánægjulegt að komast að því að mikið úrval er af gormalausum (fjaðralausum) dýnum, sem umrætt geislasvið hleðst ekki upp í. Þar má nefna: latexy, svamp, visco-alastic, visco-medicott og tempur pedic. Reyndar vorum við ekki síður ánægðar þegar við komumst að því að það eru einnig til gormadýnur/fjaðradýnur sem ekki senda frá sér neikvæða geislun, slíkar dýnur voru með innpakkaða gorma, hver gormur var í poka úr bómullarefni, síðan var áklæði dýnunnar einnig úr bómull. Í einni versluninni skoðuðum við tvær dýnur með samföstum fjöðrum, önnur sendi frá sér sú var með gult áklæði, samofið við gerviefni. Hin gaf ekkert frá sér sú var með gráu bómullar áklæði. Sölumaðurinn sagði okkur að í dýnunni væri latex og í áklæðinu 69% bómull og 31% polyester. Ingibjörg sagði þá að gulur litur í efnum hefði komið illa út í sínum könnunum og mælti eindregið með hvítri bómull. Enda var það áberandi í þessari athugun okkar hvað bómullarefnin komu betur út en gerviefnin.
Ekki sama hvernig rafknúin rúm eru tengd
Síðast en ekki síst skoðuðum við rafknúin rúm með stillanlegum botni og komumst að því að í sumum tilfellum er geislunarsvið frá slíkum rúmum mikið, sérstaklega ef rúmin eru úr járni. Hins vegar þar sem rúmgrindin var að mestu úr tré og þess var gætt að rafmagnsklóin snéri rétt í innstungunni, semsé að póllinn í klónni hitti á pólinn í innstungunni þá myndast ekki þessi óæskilega geislun. Til nánari útskýringar, á hér um bil að vera hægt að treysta því að í nýlegum húsum sé rauði þráðurinn sem flytur kraftinn (póllinn) vinstramegin í innstungunni, en blái þráðurinn hægramegin sé núllið. Rafmagnsklóin þarf síðan að snúa þannig að rauði þráðurinn, póllinn, fari vinstramegin í innstunguna, þannig að pólarnir mætist. En vegna ónákvæmni við raflagnir hérlendis er því miður ekki hægt að stóla á þetta.
Sama gildir um önnur raftæki
Vegna þess hve Ingibjörg Ágústsdóttir hefur mikið óþol fyrir fyrrnefndum geislunarsviðum hefur hún leitað með logandi ljósi undandarin ár að leiðum til að útiloka þau úr sínu nánasta umhverfi. Þegar hún var búin að átta sig á því hvernig venjuleg rafmagnskló þyrfti að snúa í innstungunni komst hún að því að rafmagnstæki með heilsteyptri kló gaf frá sér rafsvið hvernig sem hún snéri klónni í innstungunni (steyptar klær fylgja flestum nýjum raftækjum). Jafnvel þó að innstungurnar væru jarðtengdar kom geislun frá raftækjunum. Hún gerði tilraun og skipti um klær á nokkrum raftækjum og setti venjulegar samsettar klær og gætti þess að klærnar snéru rétt í innstungunum, þá hvarf geislunin.
Ekki er allt sagt enn því að hún komst líka að því að þau tæki sem voru með klóm sem höfðu plasthúðaða pinna gáfu frá sér geislun eins og þau sem voru með steyptar klær. Í húsi Ingibjargar eru nokkrar innstungur með ítalska kerfinu „Tícino“ og segir hún að ekki komi fram leiðni frá þeim tækjum sem hún setji þar í samband. Hún ráðleggur þeim sem taka ákvörðun um að skipta um klær á rafmagnstækjum að nota einvörðungu klær með óhúðuðum pinnum. Um þessar mundir mun ekki vera auðvelt að finna einfaldar rafmagnsklær í verslunum án þessara plasthúðuðu pinna og verður því að notast við jarðtengdar klær í staðinn þó þær fari í ójarðtengdar innstungur.
Sumir heilsukoddar eru varasamir
Töluvert hefur verið auglýst af heilsukoddum, sem margir komu illa út í okkar athugun. Aðeins ein gerð heilsukodda sem við skoðuðum var algjörlega laus við geislun. Oftast virtist geislunin vera vegna þess að verin utan um koddana voru úr efnum sem ekki pössuðu við innvolsið. Koddarnir voru margir í lagi þegar búið var að taka verin sem fylgdu þeim utan af. Ekki var það þó einhlítt því í nokkrum tilfellum virtist það ekki duga að taka verið utan af því koddinn sjálfur sendi bylgjur frá sér.
Geislun frá efnum
Í vorblaði Heilsuhringsins 1999 birtist viðtal við Þorstein Guðlaugsson, er nefnist „Eru ýmis ósýnileg svið ógn heilsunni?“ Er þar sagt frá því hvernig neikvæð geislun myndast stundum þegar ólík efni snertast og sagt hve sum teygjulök geta verið varasöm er þetta varðar. Óþægindi frá teygjulökum koma oft út í pirringi í fótum og annarri ertingu eins og kláða. Ingibjörg hefur kynnst þessari efnisgeislun á ýmsan hátt og tekur sem dæmi að nýlega hafi hún eignast ullarnærföt af fínustu gerð. Eftir að hún byrjaði að ganga í þeim fór hún að finna fyrir verk í höfðinu, en grunaði ekki fötin fyrst í stað. Þegar hún svo leitaði að orsök fyrir höfuðverknum fann hún með prjónunum geislun frá fötunum og komst að því að gerviþráður var í þeim til styrktar ullinni.
Svipað dæmi tók hún um föt úr angóru ull sem við notkun framkölluðu líka höfuðverk hjá henni.Það er vitað að við viss skilyrði hleðst upp rafsvið í ull, ég hef reynslu af því sjálf. Það er sama hve ullarpeysa er þykk ef mikið rafsegulsvið er í umhverfinu þá verður manni kalt. Til að koma í veg fyrir að það trufli mig fer ég í flík úr hreinni bómull innanundir ullarflík, sama má segja um gerviefni ef verið er í bómull næst sér er oft hægt að koma í veg fyrir skaðlega geislun.
Ég get sagt litla reynslusögu um slíka geislun. Fyrir nokkrum árum eignaðist ég forláta fínar kakíbuxur (kakí er gallabuxnaefni), ég sat mikið í sama stólnum sem var með sessu úr gerviefni. Fljótlega fór að bera á pirringi í lærum og rassi. Ég áttaði mig ekki á orsökinni fyrr en óþægindin voru orðin óbærileg, þá loksins kviknaði á perunni hjá mér og ég hætti að nota buxurnar. Svo gekk um hríð að buxurnar voru dæmdar ónothæfar þar til að mér datt í hug að setja bómullarstykki í stólinn svo buxurnar snertu ekki stólsetuna og viti menn þá hættu óþægindin. Ef myndast geislun í samsettum efnum eins og í fyrrnefndum ullarnærfötum virðist erfitt að koma í veg fyrir óæskilegar afleiðingar.
Lokaorð
Eftir þessa lesningu vilja lesendur trúlega fá að vita að ég valdi að lokum 15 cm þykkar „Viscomedicott“ dýnur. Þessar sem NASA þróaði sem mótvægi á þrýstingi sem geimfarar verða fyrir við geimskot. Þær eru án gorma með bómullar áklæði og fóru í trérúm með sléttum trébotni. Mér líkar þær ágætlega.
Viðbót skrifuð 18.4.2020
Það eru liðin 20 ár síðan ég skrifaði þessa gein og margt er ég búin að reyna og læra síðan. Fyrir u.þ.b. 4 árum las ég um hve tempurdýnur gætu verið heilsuspillandi vegna eiturefna útgufunar sem þær gæfu frá sér. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en á síðasa ári er ég skipti um dýnu og fór að sofa á ,,Woolroom“ ullardýnu að nætursvitinn og nefstíflan á morgnana var útgufuninni frá tempurdýnunni að kenna. Það líka gjörbreyttist loftið í herberginu. Eftir reynslu mína ráðlegg ég öllum að varast það að sofa á tempur-, latex- og svampdýnum.
Höfundur: Ingibjörg Sigfúsdóttir.
Flokkar:Umhverfið