Nýjar leiðir í krabbameinslækningum vor 2001

Beta-aleþín
Áhugaverðar rannsóknir í lyfjafræði náttúruefna hefur afhjúpað mjög áhrifaríkt, nánast óeitrað efni, sem bæði er ónæmishvetjandi og hefur læknandi eiginleika gegn krabbameinum. Þetta efni nefnist Beta-aleþín (Beta-Alethine), en heitir fullu nafni Beta-alanyl-cysteamin disúlfíð og er einnig stundum nefnt Beta-þín eða Beta LT. Það er í ætt við N-acetyl-cystein, og pantóþen-sýru (B5-vítamín), kóensím A og glútaþíon. Ennþá hefur beta-aleþín mest verið prófað í dýrum en lítill vafi er á því að í mörgum tilfellum eru áhrif þess á fólk sambærileg við dýratilraunirnar. Svo virðist að bæði megi nota efnið eitt sér eða sem hjálparmeðferð með hefðbundnum krabbameinslyfjum. Í þeim tilfellum bætir efnið árangur af lyfjameðferðinni.

Beta-aleþín hindraði við tilraun algerlega vöxt á hægvaxandi mergfrumukrabbameini (NS-1) í músum, þannig að þær lifðu allar (100% árangur). Það var einnig prófað gegn annarri meira illkynja tegund mergfrumukrabbameins, MAPC-315, sem er mjög hraðvaxandi og leiðir til dauða á skömmum tíma. Þar var beta-aleþín, ásamt hefðbundnu krabbameinslyfi sem notað er gegn mergfrumukrabbameinum, Melphalan, gefið tilraunadýrum. Það fimmfaldaði fjölda þeirra dýra  sem lifðu og stytti tímann sem þau voru að læknast. Svo virtist að jafnvel þó að meinsemdin væri svo illkynja að ekkert gat læknað hana, þá breytti beta-aleþín samt framvindu sjúkdómsins. Rannsóknirnar sýndu að efnið bæði bætir árangurinn af lyfjameðferð hjá músum með mergfrumukrabbaein á háu stigi og jafnframt jók það batahorfur hjá öðrum dýrum með minna illkynja meinsemdir.

Þetta bendir til að fólk með illkynja mergfrumukrabbamein ætti að fá beta-aleþín meðan á lyfjameðferð stendur og einnig að fólk með minna illkynjað krabbamein ætti að fá tækifæri til að nota það. Mergfrumukrabbamein er sjúkdómur í B-eitilfrumum ónæmiskerfisins. Við tilraunir á köttum og hundum virtist beta-aleþín einnig verka gegn öðru B-frumukrabbameini, lymphosarcoma. Sortuæxli (melanoma) eru oft mjög illkynja og erfitt eða ómögulegt að lækna, ef meinsemdir hefur náð að breiðast út. Beta-aleþín er eitt af því fáa sem gefur dálitlar vonir, annaðhvort eitt sér eða með hefðbundnu krabbameinslyfi (cyclo-phosphamide), en tilraunir með sortuæxli hafa aðeins verið gerðar á dýrum.

Tilraunir með brjóstakrabbamein hafa verið gerðar í Þýskalandi við Max Dilberück lækningamiðstöðina í sameindalæknisfræði. Með viðmiðun við samanburðarhóp kom fram marktækur munur á einni viku, eftir aðeins eina meðhöndlun með beta-aleþín. Þessi tilraun og aðrar líkar voru gerðar á dýrum. Bornar saman við aðrar tilraunir sem gerðar voru til að prófa hefðbundin krabbameinslyf (adriablastin, vincristin, cisplatin og S-fluorouracil) kom í ljós að mörgum sinnum minna þurfti af beta-aleþín til að marktækur árangur næðist en af hefðbundnu lyfjunum.

Þá sýna þessar og aðrar prófanir að beta-aleþín er sérstaklega öruggt og án auka- eða eiturverkana og að gefa má efnið í mörg hundruð sinnum stærri skömmtum en notaðir eru við lækningar, án þess að eiturverkanir komi fram. Tilraunir á fólki sýna líka að efnið er óeitrað og verkar gegn krabbameinum og ýmsum fleiri sjúkdómum, t.d. bakteríu- og veirusýkingum og lélegri ónæmisvirkni og jafnvel kann það að vera gagnlegt við eyðni. Nú eru í gangi læknisfræðilegar prófanir á betaaleþín bæði í Bandaríkjunum og Kanada og e.t.v. eru niðurstöður þegar komnar. Heimild: Tvær greinar í Townsend Letter for Doctors and Patients, október 1999 og febrúar-mars 2000, eftir Michell A.
Fleisher.

Haelan, gerjuð soja-afurð

Inngangur
Ropas Pelton, höfundur bókarinnar Preventing Breast Cancer, sem er læknisfræðilegur næringarfræðingur, lyfjafræðingur og sálfræðingur, starfaði við Sjúkrahús heilagrar Moniku (Hospital Santa Monica) um tíma. Þar kynntist hann nýju efni sem komið er frá Kína og virtist hafa sérlega áhugaverðan lækningaeiginleika gegn krabbameini. Þetta efni er Haelan, gerjaður drykkur sem unninn er úr sojabaunum.  Hann byrjaði með að prófa drykkinn á sex mikið veikum krabbameinssjúklingum. Þeir höfðu allir verið dæmdir ólæknanlegir og búið var að reyna hefðbundnar lækningameðferðir án árangurs. Ekki var gert ráð fyrir að þeir lifðu lengi, jafnvel aðeins fáa daga. Þeir voru látnir drekka úr 8 únsu flösku (nálægt fjórðung úr lítra) á dag. Eftir tvo daga fóru fjórir þeirra að ganga um og innan viku voru þeir allir komnir á stjá og leið bærilega. Orka þeirra jókst heilmikið og matarlistin batnaði og hjá sumum dró úr verkjum.

Pelton telur að þessi óvænti bati við að nota haelan stafi af því að það inniheldur heilmikið af efnum sem vinna gegn krabbameini, ýmsum næringarefnum og jurtaefnum sem hafa lækningamátt og próteini. Eftir að sjúklingarnir fá aukinn styrk geta þeir frekar haft gagn af öðrum læknisdómum og geta haldið áfram annarskonar meðferð, hvort sem hún er „hefðbundin“ eða eitthvað annað. Í Sjúkrahúsi heilagrar Moniku er einkum unnið með óhefðbundnar lækningar (alternative and complimentary medicine). Pelton, sem áður getur, segir um haelan: „þetta efni er stórkostlegt“ og hann ráðleggur að nota það sem uppbót við aðra næringu fyrir krabbameinssjúklinga.

Hvað er haelan?
En hvað er svo haelan? Haelan er búið til úr lífrænt ræktuðum sojabaunum frá Mongólíu í Kína. Baunirnar eru hand-tíndar, þegar þær eru hæfilega þroskaðar og 25 pund (nálægt 11-12 kg) þarf af baunum til að búa til fjórðung úr lítra af haelan. Haelan-félagið heldur því fram að fjórum sinnum meira sé af virkum lækningaefnum í þessum baunum heldur en í sojabaunum ræktuðum í Bandaríkjunum. Gerjun er frábær aðferð til að líkaminn fái notið hollustunnar af efnum sem fást úr sojabaunum. Haelan var upphaflega gert til að nota sem samanþjöppuð auðmelt fæða fyrir veikt fólk á sjúkrahúsum á árunum eftir 1980.

Það er auðugt af efnum sem vinna gegn krabbameinum, þ.á.m. ísóflavonefnum t.d. genistein og daidzein. Þessi efni eru jurtaöstrógenefni, sem geta bundist östrógen-viðtökum í frumum og þannig hindrað að önnur östrógenefni bindist þeim, en sum östrogenefni örva krabbamein og örva t.d. krabbamein í brjóstum, móðurlífi eða blöðruhálskirtli. Einnig eru í haelan efni sem eru próteasa-hamlarar (hindra prótein kljúfandi ensím, sjá Hh vor 2000). Talið er að próteasahamlarar hindri krabbamein og að það breiðist út og þeir eru einnig notaðir sem lyf gegn eyðni.

Ísóflavonefni eru talin hindra nýmyndun æða og þannig valda því að æðakerfið, sem nærir æxlið, getur aldrei myndast og þær æðar sem áður hafa myndast smá hrörna og æxlið veslast upp af næringarskorti (sjá grein í Hh, haust 1998). Ísóflavonefnin eru einnig talin hvetja sérhæfingu fruma og geta jafnvel gert krabbameinsfrumur (sem skortir sérhæfingu) heilbrigðar aftur. Tofu og aðrar soja-afurðir innihalda töluvert af þessum efnum en þó er það ekki meira en svo, að til að fá nægilega mikið til að lækna með þyrfti að nota daglega meira en hálft pund (ca ¼ kg) af tofu.

Kenning er um að vegna þess að haelan inniheldur mikið köfnunarefni og að krabbameinsfrumur þarfnast mikils köfnunarefnis til efnaskipta, sæki þær í að taka köfnunarefni úr haelan og fá um leið í kaupbæti önnur efni úr haelan sem síðan valda dauða þeirra. Heilsubætandi áhrif sojabauna eru margsinnis staðfest af vísindamönnum, t.d. við kransæðasjúkdóma, sykursýki, nýrnasjúkdóma, beingisnun, háan blóðþrýsting og gallsteina auk krabbameins. Þar að auki eru ísoflavonefni frábær oxunarvarnar- eða andoxunarefni og vernda þannig frumur líkamans fyrir skaðlegum áhrifum eitraðra stakeinda sem geta m.a. valdið skaða á frumum sem leitt getur til illkynja frumubreytinga, sem orðið geta upphaf krabbameins, auk þess að flýta fyrir öldrun.

Haelan bætir árangur lyfja og geislameðferðar og styrkir ónæmiskerfið
Tilraunir til að nota haelan sem viðbótarmeðferð fyrir fólk sem þarf að fá geisla- eða lyfjameðferð við krabbameini sýna að því fólki vegnar betur en öðru fólki sem ekki notar haelan en fær samskonar geisla- eða lyfjameðferð. Það kemur fram með ýmsu móti, því að haelan dregur úr flestum óæskilegum hliðarverkunum af þessari læknismeðferð. T.d. minni ógleði, betri matarlyst, síður niðurgangur aða harðlífi eða blæðingar frá meltingarvegi. Auk þess minni fækkun hvítra blóðfruma og minni lækkun á blóðrauða. Þetta passar vel við aðrar athuganir sem sýna að haelan eykur virkni ónæmiskerfisins um allt að 700%, eftir annarri könnun, því að margt þeirra hliðarverkana sem geisla- og lyfjameðferð veldur, stafar sennilega af alvarlegri bælingu ónæmiskerfisins.

Tilraun var gerð á músum til að sjá hvort haelan dragi úr óæskilegum aukaverkunum af krabbameinslyfinu cyclophosphamide. Tilraunadýrunum var fyrst gefið haelan í viku og síðan í átta daga eftir að hafa fengið krabbameinslyfið. Tilraunamýs sem ekki fengu haelan lifðu aðeins í tæplega tvo og hálfan dag að meðaltali eftir að þær fengu frumueitrið en aðrar tilraunamýs sem fengu haelan og cyclophosamide lifðu að meðaltali í 94 daga en allar mýsnar höfðu áður verið sýktar með lifrarkrabbameini. Gaman hefði verið að sjá hvernig þeim músum hefði vegnað, sem aðeins hefðu fengið haelan en ekki neitt frumueitur.

Í annarri prófun á músum, sem sýktar voru með lifrarkrabbameini og fengu síðan cyclophosphamide, fækkaði í hvítum blóðfrumum að meðaltali úr 10.495 hvítfrumum í mm3 blóðs í 2.580. Hjá öðrum músum, sem einnig fengu haelan, fækkaði hvítfrumunum aðeins í 4.820, sem er nálægt þeim mörkum sem talið er að séu eðlileg.

Tilraun í Kína á 303 heilbrigðum sjálfboðaliðum var gerð til að sjá hvort haelan gæti bætt heilsufar þeirra. Þeim var gefin 1 únsa (nálægt 29ml) á dag af haelan og fengu staðlað sjúkrahúsfæði. Þeir sem fengu haelan sýndu ýmsar breytingar til batnaðar, t.d. betri hjartastarfsemi og heilastarfsemi, ónæmiskerfið starfaði betur og kynhormónarnir voru í meira jafnvægi. Sumir þátttakendurnir sem farnir voru að grána á hár byrjuðu að fá dökkt hár aftur. Ekki var nefnt hversu lengi þessi tilraun stóð. Skýrt hefur verið frá að haelan bæti starfsemi lungnanna og að það hjálpi lifrinni við að „afeitra“ viss skaðleg efnasambönd. Þá hefur verið bent á að haelan sé frábært til að gefa fólki sem líður af næringarskorti af hvaða orsök sem hann stafar.

Þær upplýsingar sem hér hafa verið birtar eru það sem mér finnst það áhugaverðasta í langri grein um haelan í Townsend Letter for Doctors and Patients, október 1999. Haelan fæst frá : Haelen Products, Inc. 18568-142 nd. Avenue, NE, Building F Woodinville, Washington 98072 USA Sími 1(800) 542-3526. Pöntunarfax 1(800) 258-2173

Höfundur: Ævar Jóhannesson vor 2001



Flokkar:Krabbamein

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , ,

%d bloggers like this: