Í haustblaði Heilsuhringsins árið 2000 var sagt frá nýrri kenningu um hvernig e.t.v. mætti lækna geðklofa, sem engin önnur ráð höfðu dugað við, með fitusýru úr lýsi. Nýlega rakst ég svo á grein í kanadíska blaðinu Nutrition and Mental Health, haust 1999, þar sem sagt var frá jákvæðum tilraunum með að nota lýsi til að lækna geðbrigðasýki (manic depressive disorder). Ein tilraunin sem sagt var frá var gerð af dr. Andrew Stoll við Harvard læknaskólann. Hann, og reyndar margir aðrir, var með þá tilgátu að í nútíma mataræði væri hlutfallið á milli omega-3 og omega-6 fitusýra í fæðunni kolrangt. Allt of lítið væri af omega-3 fitusýrum í hlutfalli við omega-6.
Áður fyrr, fyrir 150-200 árum, var þetta hlutfall sennilega 1:2 — 1:3 í Bandaríkjunum, en nú er það trúlega nær því að vera 1:10. Stoll taldi að þetta væri manninum ekki hollt og hjá vissum einstaklingum komi þetta fram sem geðrænir sjúkdómar, t.d. þunglyndi og geðbrigðasýki, sem á síðari árum hefur fjölgað ískyggilega í löndum með líkt mataræði og Bandaríkjamenn. Hann langaði til að sannreyna þessa tilgátu sína með tilraun á 30 sjúklingum sem allir þjáðust af geðbrigðasýki. Helmingur þeirra var látinn fá 9,6g af lýsi daglega í belgjum en hinn helmingurinn fékk olífuolíu í samskonar belgjum. Könnunin var tvíblind, þ.e. að hvorki sjúklingarnir né læknirinn vissu hver fékk hvað meðan á könnuninni stóð. Í ljós kom að 80% þeirra sem olífuolíuna fengu versnaði aftur meðan á könnuninni stóð, þrátt fyrir að þeir fengju margs háttar geðlyf, en aðeins 14% þeirra sem fengu lýsið.
Á eftir fengu þeir sem áður notuðu olífuolíuna einnig lýsisbelgina og batnaði þá flestum og raunar voru sumir þeirra svo illa haldnir á meðan þeir notuðu olífuolíuna að þeir voru látnir hætta að nota hana og byrja að nota lýsið, áður en allur tíminn sem könnunin stóð yfir var liðinn. Sérlega var það áhugavert í könnun Stolls, að sama var hvort sjúklingarnir þjáðust af oflæti eða þunglyndi. Í báðum tilfellunum verkaði lýsið jafn vel og einnig í nokkrum tilfellum, þar sem sjúklingarnir gátu ekki notað nein þunglyndislyf vegna aukaverkana.
Þessi tilraun og aðrar líkar gætu bent til að allir þunglyndis- og geðbrigðasjúklingar ættu að nota lýsi daglega, ekki minna en matskeið á dag. Sennilega væri gott að nota samhliða því 1-2 matskeiðar af lesitíngrjónum og blanda þeim saman við lýsið í munninum áður en því er rennt niður. Aðrar kannanir benda til að efni í lesitíni hjálpi þunglyndissjúklingum og einnig hjálpar það til við að melta lýsið. Kalt vatn ætti aldrei að nota með lýsi og best er að drekka sem minnst með því og helst ekkert. Lítilsháttar af mjólk þó frekar en vatn. Einnig er gott að borða rúgbrauðssneið á eftir.
Höfundur Ævar Jóhannesson árið 2001.
Flokkar:Úr einu í annað